Fréttir - Eyjafréttir - 10.06.2015, Page 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 10. júní 2015
Það var árið 1982 sem Jónína
Björk Hjörleifsdóttir, eða Jóný
eins og hún er oftast kölluð, og
Bergur Guðnason fóru að stinga
saman nefjum. Það var svo 24
maí 1986 sem þau giftu sig, á
afmælisdegi Jónýar. „Sá dagur
var nú eiginlega valinn til að
auðvelda Bergi lífið“ segir Jóný.
„Núna þegar ég óska honum til
hamingju með brúðkaupsaf-
mælið man hann eftir því að
óska mér til hamingju með
afmælið“ bætir hún við og hlær.
Saman eiga þau Esther sem er
fædd 1985, lítinn dreng sem þau
misstu 1997 þegar Jóný var
gengin 6 mánuði, Ingvar 1989,
Þóri 1992 og Ingu Hönnu 1999.
Þegar Jóný og Bergur byrjuðu
að vera saman reyndi Jóný að fá
hann af sjómennskunni, hann
fékk sér vinnu í landi fyrsta árið
en gafst upp og hélt aftur út á
sjó. Hann hefur frá þeim tíma
verið á Gullbergi VE-292.
Ekki vön sjómennskunni
„Ég var bara ekki vön sjómennsk-
unni“ segir Jóný. „Það hafði aldrei
verið nein sjómennska í kringum
mig og ég vissi bara ekkert hvað ég
var að fara út í. Ég fann það þó
fljótt að hann átti bara miklu meira
heima úti á sjó heldur en í landi og
varð bara að sætta mig við það.“
Jóný var lengi að venjast því að
hann væri sjaldan heima, en hún
gerði það að lokum enda aðlögunar-
góð. Bergur fór þó í Stýrimanna-
skólann árið 1987 og útskrifaðist
þaðan 1989 og var þá í landi allan
þann tíma. „Það var pabbi sem kom
með umsókn í Stýrimannaskólann
og ýtti Bergi í að sækja um. Okkur
fannst við ekki hafa efni á því en
pabbi taldi okkur á að gera það,
annað myndi bara reddast og það
reddaðist. Það var voðalega gott að
hafa hann heima þessi tvö ár og tók
auðvitað tíma að venjast því þegar
hann fór aftur út á sjó,“ segir Jóný.
Jóný var ófrísk báðar annirnar sem
Bergur var í skólanum. Á fyrri
önninni misstu þau son sinn en á
seinni önninni fæddist Ingvar sem
var svo skírður í útskriftarveislu
pabba síns.
Heima með börnin
Myndaðist einhvern tíma togstreita
á milli þeirra hjóna þegar Bergur
kom í land? „Jú, auðvitað gerðist
það alveg,“ segir Jóný. „Aðal
togstreitan var þó kannski þegar
hann ætlaði eitthvað að skipta sér af
uppeldi barnanna sem ég var að ala
upp,“ bætir hún við brosandi. „En
hann var, og er enn, voðalega
hjálpsamur þegar hann kemur heim,
gengur til dæmis bara beint inn í
eldhúsið og sér bara um það,
eldamennskuna og öllu sem
eldhúsinu fylgir og á mikið hrós
skilið fyrir það.“
„Jóný var nú heldur ekkert að
breyta neinu á heimilinu þegar ég
var á sjó,“ bætir Bergur við. „Ég
geng að öllu vísu þegar ég kem
heim og beint í mín verk, sem er
mjög gott og þægilegt.“
Jóný ákvað það strax að reyna að
vera heima með börnin, hún lét aðra
hluti bíða til að geta séð alfarið um
uppeldið. „Þær voru nokkrar í
hverfinu sem voru líka heima, það
var mikill samgangur á milli okkar,
við skiptumst á að baka og bjóða í
kaffi og pössuðum fyrir hver aðra.“
Langar útiverur
Jóný segir að Bergur hafi kannski
minnst verið heima þegar Esther var
lítil en þá voru útiverurnar langar og
hann í burtu í nokkrar vikur í einu.
„Ég man eftir því einu sinni þegar
Esther var lítil og Bergur búinn að
vera í burtu í einhverjar sex eða átta
vikur. Hann var á leið í land og ég
var voða spennt að fara niður á
bryggju að ná í hann. Ég sagði
Esther að nú væri pabbi að koma
heim og við værum að fara að
sækja hann. Litla skottan skildi
ekkert í spenningi móður sinnar,
horfði á mig og sagði, „Æi mamma,
við eigum mynd af honum,“ segir
Jóný og hlær.
Hvernig finnst þér aðstæður
sjómanna hafa breyst á þessum 30
árum? „Það er ótrúlega margt sem
hefur breyst á þessum árum. Skipin
eru stærri og betri og allur aðbún-
aður um borð til fyrirmyndar. Mér
finnst allir líka miklu varkárari
heldur en áður“ segir Jóný.
„Samskiptin við land eru auðvitað
mikið betri líka,“ bætir Bergur við.
Oft hrædd í brælum
„Núna er hægt að hringja heim og
allir eru í netsambandi um borð,“
bætir hann við, en þau hjónin muna
þá tíma þegar aðeins var hægt að
hringja heim í gegnum talstöðina og
allir að hlusta, þá var ekki mikið
einkalíf. Jóný segist oft verða
hrædd um Berg þegar hann er á sjó.
„Það er óþægilegt að hugsa til hans
úti á sjó í skítabrælu, sérstaklega
þegar hann er á loðnu og er oft
lengi í burtu.“
Báðir synirnir hafa prófað
sjómennskuna. Yngri sonurinn,
Þórir, fann sig ekki á sjónum en
eldri sonurinn, Ingvar, hefur lagt
sjómennskuna fyrir sig,var um tíma
með pabba sínum á sjó en er nú
farinn að róa á litlum línubát í
Noregi. „Auðvitað finnst mér
stundum óþægilegt að hugsa til
hans þar, en það er ævintýraþráin
sem togar í hann og maður verður
bara að vona það besta“ segir Jóný
um sjómennsku sonar síns.
Á listnámsbraut og
sjúkraliðanám
Jóný hefur ekki setið auðum
höndum undanfarin ár. Árið 1998
veiktist Hjörleifur, faðir Jónýar.
„Við tók mjög erfiður tími og ég
varð eitthvað eirðarlaus og fann mig
ekki í neinu,“ segir Jóný. „Þá fór ég
að fikta við að teikna, aðallega rissa
og krassa. Ég fann mig alveg í
þessu og keypti mér svo leirofn í
kjölfarið,“ heldur hún áfram.
Árið 2000 fór hún svo á myndlist-
anámskeið hjá Steinunni Einars-
dóttur og eftir það, skráði hún sig í
fjarnám á listnámsbraut frá
Borgarholtsskóla.
Haustið 2012 var svo boðið upp á
sjúkraliðanám og skellti hún sér í
það og útskrifaðist sem sjúkraliði
vorið 2014 og svo sem stúdent
haustið sama ár. Hún nýtir sjúkra-
liðanámið í dag og vinnur í
íhlaupum á Hraunbúðum. Listin er
þó það sem heillar mest og langar
hana að læra meira, þó aðallega í
leir og kol. Jóný opnaði sína fyrstu
einkasýningu þann 5. júní síðast-
liðinn í Einarsstofu. „Þann dag
hefði pabbi orðið 90 ára og fannst
mér það því vel við hæfi“ segir
Jóný. Á sýningunni er hún aðallega
með olíumyndir, kolaverk og
mosaík og hafa undirtektirnar verið
góðar. „Það komu svakalega margir
á sýninguna um helgina“ segir Jóný
um undirtektirnar. „Í tilefni dagsins
vorum við svo líka búin að hóa
öllum systkinum saman og vorum
því með hálfgert ættarmót líka“.
Jóný er afar þakklát fyrir þessar
góðu viðtökur og einnig þakklát
öllum þeim sem komu á sýninguna.
Enn er þó tími fyrir þá sem misstu
af þessu um helgina því sýningin
verður uppi til fimmtudags.
Útbjó gjöf fyrir Thierre Henry
„Mesti heiðurinn sem ég hef
upplífað í listinni var fyrir nokkrum
árum þegar Jói Ragg, sem þá var
formaður Arsenal klúbbsins á
Íslandi, kom til mín og bað mig um
að búa til verk sem hann ætlaði að
afhenda Thierre Henry á fundi á
Englandi. Ég bjó til skál með mynd
af Heimakletti því Jói vildi hafa
þetta tengt Vestmannaeyjum og var
Henry afhent þetta með mikilli
viðhöfn. Henry var hæstánægður
með verkið og sagði að loksins
fengi hann eitthvað sem konan sín
gæti notið líka. Þetta var mjög
skemmtilegt“ segir Jóný hæst-
ánægð.
Gaman að ferðast
En hvað gera þau hjónin helst í
frístundum sínum? „Okkur finnst
mjög gaman að ferðast, bæði
innanlands og utan“ segir Jóný og
segist alveg vita hvaðan eldri
sonurinn hafi ævintýraþrána. Þau
fjárfestu í hjólhýsi fyrir nokkrum
árum en hafa þó ekki verið alveg
jafn dugleg að nota það eins og þau
hefðu viljað. Í fyrra skelltu þau sér
svo í tveggja vikna mótorhjólaferð.
„Við byrjuðum á því að fara til
Færeyja í þrjá daga, þaðan fórum
við svo til Danmerkur og héldum
svo til Svíþjóðar.“ Jóný sat aftaná
hjá Bergi sem naut sín í mótor-
hjólaástríðunni. „Í rauninni hefðum
við þurft miklu fleiri daga“ segir
Bergur um ferðina. Planið var að
enda í Svíþjóð til að fylgjast með
Ingu Hönnu, dóttur þeirra, sem var
þar að keppa.
„Hún sagði okkur að við ættum
endilega að koma og fylgjast með
henni keppa, en bað okkur
vinsamlegast um að mæta ekki í
mótorhjólagöllunum“ segir Jóný og
hlær. Nú eiga þau orðið þrjú
barnabörn sem eru dugleg að vera
hjá ömmu og afa. Jóný er með
yngsta barnabarnið, Þórhildi Helgu
sem er tveggja ára á daginn meðan
mamman er í vinnu þar sem sú
stutta er ekki komin með pláss hjá
dagmömmu eða leikskóla ennþá.
„Þetta er voðalega gaman“ segir
Jóný um ömmuhlutverkið. „Það
eru forréttindi að fá að einbeita sér
að barnauppeldinu og fá að koma
að uppeldi barnabarnanna. Svo
leyfum við bara ævintýraþránni að
njóta sín þegar Bergur er kominn á
eftirlaun“ segir hún að lokum og
hlær.
Jónína Björk Hjörleifsdóttir var ekki sátt við að hafa sinn mann á sjó en sætti sig við það:
Aðal togstreitan þegar hann
skipti sér af uppeldi barnanna
sem ég var að ala upp
:: Var og er voðalega hjálpsamur þegar hann kemur heim :: Gengur í allt í eldhúsinu
:: Á mikið hrós skilið fyrir það
Guðrún mary ÓLaFSdÓTTir
gudrunmary@eyjafrettir.is
Jóný ásamt fjölskyldunni. Fyrir aftan eru börnin hennar Þórir, Esther, inga Hanna og ingvar. Fyrir framan eru þau hjónin Jóný og Bergur.