Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 12.08.2015, Blaðsíða 2

Fréttir - Eyjafréttir - 12.08.2015, Blaðsíða 2
2 Eyjafréttir / Miðvikudagur 12. ágúst 2015 Útgefandi: eyjasýn ehf. 480278-0549. ritstjóri: ómar garðarsson - omar@eyjafrettir.is. Blaðamenn: gígja óskarsdóttir - gigja@eyjafrettir.is Ásta Sigríður guðjónsdóttir - asta@eyjafrettir.is Sæþór Þorbjarnarson. - sathor@eyjafrettir.is og Íþróttir: guðmundur Tómas Sigfússon Ábyrgðarmaður: ómar garðarsson. Prentvinna: Landsprent ehf. ljósmyndir: óskar Pétur Friðriksson og blaðamenn. aðsetur ritstjórnar: Strandvegur 47, Vestmannaeyjum. símar: 481 1300 og 481 3310. netfang: frettir@eyjafrettir.is. veffang: www.eyjafrettir.is Eyjafréttir koma út alla miðvikudaga. Blaðið er selt í áskrift og einnig í lausasölu á Kletti, Tvistinum, Toppn­um,­Vöruval,­Herjólfi,­Flughafnar­versluninni,­ Krónunni, Kjarval og Skýlinu. Eyjafréttir eru prentaðar í 2000 eintökum. Eyjafréttir eru aðilar að Samtökum bæjar- og héraðsfréttablaða. Eftirprentun, hljóðritun, notkun ljósmynda og annað er óheimilt nema heimilda sé getið. Eyjafréttir Á fundi bæjarstjórnar þann 24. júlí var samþykkt að fara í endurbætur á Fiskiðjunni. Ekki var þó einhugur um málið því bæjarfulltrúar Eyjalistans telja peningunum betur varið í uppbyggingu á Hraun- búðum, dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum. Hiti var í umræðum á fundinum og bentu fulltrúar meirihluta Sjálfstæðis- manna á að nú mjög svo nýverið hefði Stefán Óskar Jónasson oddviti E-lista skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að afhenda Þekkingar- setrinu aðra hæð Fiskiðjunnar sem næst því að hún sé tilbúin undir tréverk. „Það vekur því vægast sagt undrun að nú vilji hann rífa húsið. Ljóst má vera að það verður erfitt fyrir Þekkingarsetrið að vera með starfsemi á annarri hæð í húsi sem búið verður að rífa,“ segir m.a. í bókun meirihlutans. Þessu er minnihlutinn ekki sammála og lét bóka: „Það sem kemur fram í bókun D-listans, að Stefán Óskar Jónasson hafi viljað rífa húsið, er ekki rétt. Þær framkvæmdir sem á að fara í við Fiskiðjuna eru að okkar mati ekki réttar. Ekki hefur verið staðfest nein starfsemi í húsinu þótt viljayfir- lýsing hafi verið undirrituð og óljóst þykir hvernig eigi að nýta restina af húsinu.“ Logið upp á mig „Mér finnst óþolandi þegar logið er upp á mig. Ég hef rætt við fólk sem ég hef unnið með að málum Fiskiðjunnar og það kannast enginn við að ég vilji rífa húsið. Það er frekar að ég vilji vernda það,“ sagði Stefán um bókun sjálfstæðismanna. „Sama hvort þeir eru í Eyjalistanum eða Sjálfstæðisflokki. Það er ömurlegt að vera í pólitík þegar það eru borin upp á mann ósannindi og lygi. Það er nógu erfitt samt. Um Fiskiðjuna vil ég segja, það þarf að finna henni hlutverk áður en ákveðið er að henda í hana hundruðum milljóna. Vona ég að fulltrúar sjálfstæðismanna dragi þann hluta bókunarinnar, þar sem segir að ég vilji rífa húsið, til baka. Það er hauga helvítis lygi.“ Aðeins tvennt í stöðunni Þegar rætt var við Elliða Vignisson, bæjarstjóra á mánudaginn sagði hann að öll gagnrýni væri ætíð góð og í stjórnmálum meira að segja sérstaklega mikilvæg svo fremi sem hún sé málefnaleg. „Það er hins vegar erfitt að átta sig á hvað E-listinn vill gera með Fiskiðjuna. Fyrir liggur að þarna eru 4400 m2 á stað sem er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur skipulagslega. Reyndar svo mjög að fagráðgjafar sveitar- félagsins hafa kallað húsið andlit bæjarins og ráðlagt eindregið að ráðist verði í framkvæmdir við það og uppbyggingu því tengda. Á sama hátt liggur fyrir að húsið er og hefur lengi verið illa útlítandi og okkur til vansa. Það er því bara tvennt í stöðunni; að rífa húsið eða laga það. Þetta þekkir E-listinn enda oddviti þess nýlega skrifað undir viljayfirlýsingu um að þar verði byggð upp þekkingarstarf- semi. Síðan gerist það allt í einu að E-listinn vill ekki laga húsið en hann vill heldur ekki rífa húsið. Vart vill hann að það verði okkur áfram til skammar og auðvitað verður það ekki heldur flutt í burtu.“ Út úr kortinu Elliði segir að öll tenging við málefni aldraðra sé á sama máta algerlega út úr kortinu. „Yfir- lýsingar um að í staðinn eigi að „stækka Hraunbúðir“ einhliða eru út úr kortinu. Hraunbúðir eru heilbrigðisstofnun og það eina sem myndi gerast ef við stækkum Hraunbúðir einhliða er að þau herbergi myndu standa tóm þar til ríkið myndi setja fjármagn í rekstur þeirra. Ég vil samt að það sé alveg skýrt að E-listinn hefur hvergi dregið fæturna í sameiginlegri og faglegri vinnu hvað málefni aldraða varðar og þetta upphlaup er einsdæmi í þverfaglegri vinnu við stefnumótun í málefnum aldraðra. Það hefur þvert á móti verið góð samvinna og innan fagráðsins, alger eining. Þau vita enda sem er að stækkun Hraunbúða kallar á vilja ríkisins til að veita þar þjónustu. Þau vita líka sem er að verkefnið er stærra en svo að það snúist bara um Hraunbúðir. Við þurfum að fjölga þjónustuíbúðum, bæta dagþjónustu, efla leigumarkað með heppilegar íbúðir, halda áfram að efla starf Félags eldri borgara og svo margt fleira. Það tengist hins vegar hvorki Fiskiðjunni, fráveitunni eða Félagsheimilinu. Við erum einfaldlega stórt og öflugt bæjar- félag með margþættan rekstur og meðal mikilvægra verkefna eru bæði skipulagsmál, uppbygging þekkingarstarfs og málefni eldri borgara,“ sagði Elliði. Bæjarstjórn :: Enn tekist á um Fiskiðjuna :: Fulltrúi E-lista ósáttur: Mér finnst óþolandi þegar logið er upp á mig :: Segist aldrei hafa nefnt að rífa húsið :: Öll málefnaleg gagnrýni í stjórnmálum góð, segir bæjarstjóri ómar garðarSSon omar@eyjafrettir.is Vikan og helgin var með rólegra móti hjá lögreglu fyrir utan að nóg er búið að vera að gera við að svara fyrirspurnum fólks sem tapaði lausamunum á þjóðhátíðinni. Eitthvað er enn af óskilamunum á lögreglustöðinni og bendir lög- reglan þeim sem sakna einhverra muna síðan á þjóðhátíðinni að fara inn á facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum og skoða þar myndir af þeim óskilamunum sem bárust lögreglu. Undir kvöld á fimmtudaginn leitaði erlendur maður til lögreglu vegna þjófnaðar á útivistarmyndavél. Hafði hann sett myndavélina við lundaholu í Stórhöfða fyrr um daginn og skilið hana þar eftir. Þegar hann síðan vitjaði vélarinnar síðdegis sama dag var vélin horfin, ásamt fylgihlutum. Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hvar vélin er, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu. Alls liggja fyrir tólf kærur vegna brota á umferðarlögum, í tveimur tilvikum er um að ræða grun um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, þá liggja fyrir kærur vegna hraðaksturs, fyrir að leggja ólöglega, vanrækslu á að greiða lögboðnar tryggingar, akstur án ökuréttinda og vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennt í akstri. Lögreglan :: Enn eitthvað af óskilamunum: Hver tók myndavél við lundaholu í Stórhöfða? :: Alls liggja fyrir tólf kærur vegna brota á umferðarlögum

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.