Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 29.11.2017, Blaðsíða 9

Fréttir - Eyjafréttir - 29.11.2017, Blaðsíða 9
Eyjafréttir - 9Miðvikudagur 29. nóvember 2017 Fólk leiti sér aðstoðar Aðspurð sagðist Vera Björk hafa leitað sér aðstoðar tveimur árum eftir að Árni Garðar lést. „Ég var búin að vera í sjálfshjálparsam- tökum sem Jóna Hrönn og Bjarni voru með en var of fljót á mér. Var orðin meira sem ráðgjafi, hjálpaði hinum en svo þarna tveimur árum seinna leið mér mjög illa og þá benti vinkona mín mér á sálfræðing í Reykjavík. Ég hitti hann tvisvar og sagði honum sögu mína og þegar ég kom út var eins og hundrað kíló hefðu farið af mér. Þarna gat ég talað við einhvern sem vissi ekkert um málið sem var mjög gott.“ Ég fór á nokkra fundi hjá Nýrri dögun sem eru sorgarsamtök og talaði við sáfræðing á þeirra vegum sem var mjög gott.“ „Prestarnir í Landakirkju voru með sjálfshjálparhóp í kirkjunni, það hjálpaði mér mikið að vera með öðrum sem höfðu misst, finna skilning og styrk hvers annars. Það er svo gott að tala við þá sem þekkja tilfinningarnar því að tilfinningasveiflurnar eru svo miklar,“ segir Oddný. „Við fórum ekki formlega til sálfræðings eftir að Sigurjón dó. Það var ekki fyrr en 11 árum seinna. Eftir að Steingrímur veiktist. Þá fórum við í Hveragerði í mánuð og fengum tíma hjá sálfræðingi. Ég hélt að hann ætlaði að tala um veikindin en þá kom þetta með Sigurjón upp á yfir- borðið. Þegar Rikki dó leitaði ég til vina minna en Steingrímur talaði við sálfræðinginn sem við kynnt- umst í Hveragerði. Í bókinni hvetjum við fólk til að leita sér aðstoðar eins og hægt er, til sálfræðinga og annarra sérfræðinga. Tala við einhvern sem vill hlusta,“ segir Þóranna. Vera Björk bendir á að í dag sé þetta ekki svo mikið leyndarmál, það viðhorf hafi breyst svo mikið. „Þú varst talin klikkuð ef þú fórst til sálfræðings. Núna er þetta allt öðru vísi. Ég held líka að ef fólk gerir ekki upp andlega streitu geti það leitt af sér alvarlega sjúkdóma,“ segir Vera Björk. Að læra að lifa með En jafnar maður sig einhvern tímann á þessu? „Það nýjasta í sorgarfræðum er að læra að lifa með þessu. Læra, að svona er þetta en á meðan vaxa börnin inni í manni. Það er rosalega erfitt og að hugsa til þess að Sigurjón hefði orðið 39 ára í gær. Það er gott að geta sagt upphátt; þetta er afmælis- dagur, gleðidagur og maður hugsar, hvað hefði hann verið að gera í dag? Hjá okkur kom þetta í þrepum. Rúmum tveimur árum eftir að Sigurjón dó skipulögðum við gönguferð. Fórum Laugaveginn í góðum hóp og morguninn eftir föttuðum við Steingrímur að við höfðum sofnað og vaknað án þess að hugsa um það sem gerðist.“ Oddný fór að starfa sem með- hjálpari í Landakirkju, byrjaði 1. apríl 2006. „Verkefnin þar voru bæði erfið og auðveld. Það var gefandi að starfa í kirkjunni, starfsfólkið þar hvert öðru yndis- legra. Það var mitt lán að starfa með þeim sr. Kristjáni Björnssyni, sr. Þorvaldi Víðissyni og lengst með sr. Guðmundi Erni Jónssyni. Það var gott að geta talað um hlutina við þá. Mér finnst starf prestanna mikil- vægt fyrir fólk sem hefur misst ástvin og hvet fólk að leita til þeirra og annarra fagaðila. Það er nauðsynlegt að leita sér hjálpar. Það er vont að vinna ekki úr erfiðum tilfinningum.“ „Nú dóu Árni Garðar og Sigurjón báðir í bílslysum og sunnudaginn 19. nóvember var minningardagur þeirra sem farist hafa í bílslysum á Íslandi. Þú spyrð hvort maður jafni sig og ég hélt það en þegar ég heyrði þetta í fréttum og séra Guðmundur Örn minntist á þennan dag í messunni, kom þetta við mig. Maður jafnar sig kannski aldrei 100 prósent, lærir að lifa með því og líður vel. Get tekið þátt í lífinu og glaðst þegar tilefni er til en lífið breyttist. Þetta kom eins og högg og í bókinni er mynd af sorgar- ferlinu sem mér finnst lýsa því svo vel sem ég upplifði. Maður dettur niður á botn í einhverjum pytti. Byrjar smásaman að krafla sig upp, það tekur fólk mislangan tíma. Sumir ná sér svo aldrei,“ segir Vera Björk. „Ef að það er undirliggjandi þunglyndi hjá fólki getur það festst þar þegar eitthvað alvarlegt gerist,“ segir Þóranna. „Ef fólk fer að nota lyf og áfengi til að deyfa sársaukann er það komið í vond mál sem getur verið erfitt að komast út úr,“ bætir Vera Björk við. „Nánasta fjölskylda og vinir veittu okkur styrk, foreldrar og systkini okkar Yngva hjálpuðu okkur mikið. Margir komu til okkar með ýmsa hluti til að votta okkur samúð og við fundum að hugur bæjarbúa var hjá okkur, það var huggun í sorginni,“ segir Oddný. Svo kom höggið Allar hafa þær unnið í sínum málum í gegnum trúna á Guð og þar segist Vera Björk hafa búið að sinni barnatrú. „Hún var góður grunnur sem ég byggði á,“ segir Vera Björk og Þóranna segir frá reynslu sinni þegar Rikki dó í apríl 2016. „Við reyndum að hafa sem mest að gera um sumarið og haustið, okkur gekk þokkalega en um miðjan desember kom höggið. Það voru að koma jól og ég hafði engan tíma til að undirbúa þau. Svo komu upp nokkur atriði hvert á fætur öðru. Símtal sem var erfitt og þá hugsaði ég; ef ég gæti talað um þetta við einhvern, væri það Rikki. Hann hefði hlustað og gefið mér ráð. Á þessum tíma var verið að jarða nágranna okkar á Hilmisgötu 3, Ragnar Engilbertsson sem var á tíræðisaldri, sem hreyfði við manni. Þegar ég kom heim eftir útförina fæ ég Fylki inn um dyralúguna með myndum af látnum Eyjamönnum. Þar var Rikki og þegar ég sá myndina, hugsaði ég, þetta er í alvörunni. Seinna um daginn hitti ég konu í Krónunni sem búið hafði erlendis. Hún faðmaði mig og sagðist hafa verið svo mikið að hugsa til okkar. Um kvöldið reyndi ég að harka af mér en morguninn eftir gat ég ekki komist fram úr. Bara grét og grét. Fyrst eftir að maður upplifir áfall lamast líkaminn. Maður er utan við sig, rúllar áfram og maður er hissa á að allir séu grátandi í kringum mann. En þarna, sjö mánuðum seinna er ég algjörlega berskjölduð. Vika til jóla og ég gat ekki hugsað mér að fara að undirbúa jólin en ég náði að fara í vinnu daginn eftir og tókst að skrapa saman jólagjöfum.“ Niðurstaðan var að þau Stein- grímur eyddu jólunum uppi á landi hjá Daníel syni þeirra sem hjálpaði mikið, að komast í nýtt umhverfi. Nýr kafli sem enginn óskaði eftir „Hún er algjör hetja,“ segir Vera Björk. „Þegar við erum að klára bókina 2016 gerist þetta með Rikka og þá hugsuðum við Oddný, nú verður ekkert úr bókinni. Þóranna er bara ónýt, að lenda í þessu aftur en hún sagði, nú bætist nýr kafli í bókina. Og hún gerði það. Upp- leiðin getur tekið mörg ár og það koma dagar sem maður dettur niður. Þá kemur alltaf eitthvað sem hjálpar manni, einhver sem hringir eða maður hittir. Ég hef þá trú að það sé Guð sem er að hjálpa manni. En það koma dýfur og tónlist og sum lög hafa sterk áhrif á mig. Fyrst gat ég ekki grátið, kannski fyrir framan Hjalta og vinkonu mína en alls ekki fyrir framan ókunnuga. En þegar ég var ein í bílnum og það kom lag sem sló mig þá fengu tárin að streyma,“ segir Vera Björk. „Maður lærði að brynja sig gegn ákveðnum hlutum en svo er kannski eitthvað eitt atriði sem pikkar í mann. Eitthvað sem einhver segir eða gerir,“ segir Þóranna. „Já, eins og með daginn í dag þar sem kemur fram að 1549 manns hafi dáið í bílslysum á Íslandi,“ segir Vera Björk og Þóranna bætir við: „Svo fer maður að hugsa að allt þetta fólk átti foreldra, systkini, börn og maka þannig að þetta hefur haft áhrif á tugi þúsunda.“ „Trúin var algerlega mitt haldreipi í gegnum þetta allt. Ég efaðist stundum um nærveru Guðs þegar mér leið sem verst, en þegar ég lít til baka veit ég að Guð var alltaf með mér,“ segi Oddný. Að deila reynslunni Og þar kemur tilgangur þeirra með bókinni, að deila reynslu sinni og uppleggið er að fólk er ekki tilbúið að lesa mikið þegar sorgin bankar upp á. Hver saga er ekki nema 30 síður og skipt niður í kafla. Þær eru mjög ánægðar með samvinnuna við Skálholtsútgáfuna, þar hafi allir verið boðnir og búnir að leggja þeim lið og leiðbeina en bókin er þeirra og líka nafnið, Móðir Missir Máttur. Og þær nálgast þetta frá mörgum sjónarhornum, ekki bara þeirra þriggja heldur upplifun fjölskyldna, skólans og samfélags- ins. „Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði úr þessu,“ segir Vera Björk. „En þá hugsuðum við, þetta er alla vega búið að hjálpa okkur og okkar nánustu. Vonandi verður þetta til að hjálpa öðrum.“ Algengustu hlutir eins og að borða gat verið stórmál og að sinna fjölskyldunni kostaði stórátak en þær höfðu ekkert val. Lífið varð að hafa sinn gang og margir tilbúnir að hjálpa þegar mest lá við. „En þó að við séum að segja okkar sögu og frá okkar börnum erum við ósköp venjulegar fjölskyldur sem lendum í þessum aðstæðum. Ég held að engin okkar hefði ein farið að skrifa þessa bók. En af því að við erum þrjár sem erum að vinna úr þessu og getum stutt hver aðra gátum við gert þetta,“ segir Þóranna. Minningarnar lifa „Það segir í gömlum kennslubók- um í læknis- og hjúkrunarfræðum að sorg vegna andláts eigi að ganga yfir á nokkrum mánuðum og vera búið eftir tvö ár. Ef þetta er eitthvað að trufla þig þá, áttu að fara til geðlæknis. Þetta er bara ekki svona en fólk er misjafnlega lengi að ná sér og sumir gera það aldrei,“ segir Vera Björk og Þóranna tekur undir það og það koma dýfur eins og Vera Björk nefndi. „Ég fór út til Dublin með leikskólanum í vor þegar akkúrat var eitt ár frá því Rikki dó. Ég var með hnút í maganum en á starfs- mannafundi stuttu áður sagði ég að þetta yrðu mér erfiðir dagar en ég ætlaði að fara með. Bara það, að tala um þetta var svo mikill léttir og í ferðinni leið mér bara vel. Góð vinkona mín sem ég vinn með ákvað að vera við hliðina á mér sem hjálpaði mikið.“ „Í dag gleðst ég yfir yndislegum minningum um Ella minn, sem var svo kátur, fjörugur og uppátækja- samur. Ég tel mig vera búna að vinna eins mikið í áfallinu eins og hægt er og hef lært að lifa með sorginni,“ segir Oddný að endingu. Lokaorð sem þær geta allar tekið undir. V Árni Garðar Hjaltason Fæddur 4. apríl 1988. Lést 28. júlí 1992 í bílslysi í Vestmanna- eyjum. V Erlingur Geir Yngvason Fæddur 23. júlí 1994. Lést 26. febrúar 2000 úr bráðasýkingu af völdum heilahimnubólgu. V Sigurjón Steingrímsson Fæddur 18. nóvember 1978. Lést 30. maí 1996 í bílslysi á Reykjanesbraut. V Ríkharður Örn Steingrímsson Fæddur 23. apríl 1976. Bráðkvaddur 21. apríl 2016. Aðgát skal höfð í nærveru sálar Þegar óvænt andlát ber að höndum fer af stað atburðarás sem fólk hefur ekki valið sér og er mismunandi í stakk búið að sinna. Þetta höfum við stöllur upplifað á eigin skinni. Í þessum aðstæðum þurftum við að takast á við stórar ákvarðanir, til dæmis varðandi jarðarför, erfidrykkju og fleira. Við vorum ekki í standi til þess og því var ómetanlegt að fá aðstoð frá vinum og kunningjum. Við missi ástvinar eru tilfinningar mjög viðkvæmar og sveiflukenndar. Hjá okkur hurfu mörkin og það var stutt á milli hláturs og gráturs. Við vorum viðkvæmar og sem syrgjendur gerðum við oft óraunhæfar væntingar til annarra. Ef einhver talaði ekki gátum við auðveldlega móðgast, og ef einhver sagði of mikið gat okkur þótt það óþægilegt. Samskipti okkar við aðra voru brothætt og við áttum auðvelt með að misskilja fólkið í kringum okkur. Þá fannst okkur gott að geta sótt vísdóm og hjálp til utanaðkomandi aðila. Það þurfti ekki endilega að segja mikið, en vera til staðar, óttast ekki og bjóða aðstoð. Árin eftir missinn vorum við þreyttar bæði líkamlega og andlega. Við höfðum mikla þörf fyrir að sofa og ýmis líkamleg einkenni eins og vöðvabólga og aðrir verkir létu á sér kræla. Í dag teljum við okkur vera í nokkuð góðum málum. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi hrjáð okkur, svo sem bakveiki, gigt og krabbamein, erum við heilbrigðar miðað við aldur og fyrri störf. Við erum oft spurðar að því hvað við eigum mörg börn, sérstaklega þegar við hittum nýtt fólk. Fyrstu árin eftir andlát barnanna höfðum við tilhneigingu til að telja þau ekki með. Okkur þótti best að vera ekki að ýfa upp tilfinningar með því að geta þeirra. Í dag erum við þó allar á þeim stað að telja drengina okkar með þegar við segjum frá því hve mörg börn við eigum. Sorginni fylgdi í upphafi algjört vonleysi og mikill grátur en í dag höfum við komið auga á vonina og gleðjumst yfir því að synir okkar eiga stað hjá Guði á himnum. Jesús sigraði dauðann og því bíður okkar líf eftir dauðann. Í því felst vonin. Þetta olli honum miklu hugarangri og hann tók það ráð að spyrja Drottin hverju þetta sætti. „Drottinn, þú sagðir að þegar ég hefði ákveðið að fylgja þér, myndir þú ganga alla leiðina í fylgd með mér. En ég hef tekið eftir að meðan á erfiðustu stundum lífs míns hefur staðið, eru bara ein fótspor í sandinum. Ég get ekki skilið hvernig þú gast fengið af þér að skilja mig eftir einan þegar ég þarfnaðist þín mest.“ Drottinn svaraði: „Þú dýrmæta barn mitt. Ég elska þig og myndi aldrei skilja þig eftir einan. Á meðan þessir erfiðu tímar lífs þíns liðu – þar sem þú sérð aðeins ein fótspor – var það ég sem bar þig.“ ” Þegar við erum að klára bókina 2016 gerist þetta með Rikka og þá hugs-uðum við Oddný, nú verður ekkert úr bókinni. Þóranna er bara ónýt, að lenda í þessu aftur en hún sagði, nú bætist nýr kafli í bókina. Og hún gerði það. Uppleiðin getur tekið mörg ár og það koma dagar þegar maður dettur niður. Þá kemur alltaf eitthvað sem hjálpar manni, einhver sem hringir eða maður hittir. Ég hef þá trú að það sé Guð sem er að hjálpa manni. En það koma dýfur og tónlist og sum lög hafa sterk áhrif á mig. Fyrst gat ég ekki grátið, kannski fyrir framan Hjalta og vinkonu mína en alls ekki fyrir framan ókunnuga. En þegar ég var ein í bílnum og það kom lag sem sló mig þá fengu tárin að streyma.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.