Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.05.2019, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.05.2019, Blaðsíða 13
19.5. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 Ferill þinn nær yfir næstum því 40 ár.... „Já, það er rétt. Ég gekk til liðs við sveitina sumarið 1980, það eru næstum því 40 ár síðan. Og tíminn hefur liðið svoooooo hratt,“ segir Simon og hálfpartinn æpir síðustu orðin til áhersluauka. Já, er það? Hafa þessi ár liðið svona hratt? „Já, tíminn flýgur þegar maður skemmtir sér. Og vá, hvað ég hef skemmt mér.“ Hvað viðheldur áhuganum á því að vinna við tónlist? „Það eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi elska ég tónlist. Hún er svo stór hluti af lífi mínu og þannig hefur það alltaf verið. Þegar maður er farinn að vinna við þetta, þá er eiginlega ekkert annað starf sem kemur til greina. Svo nýt ég þess að vera sem mest með félögum mínum í hljómsveitinni, við erum mjög, mjög, alveg sér- staklega góðir vinir. Við gerum okkur grein fyr- ir því að við sköpum miklu betri tónlist saman en hver í sínu lagi. Og svo elska ég þennan lífs- stíl! Ég nýt þess í botn að vera rokkstjarna! Fjölskylda mín nýtur þess líka heldur betur að ég sé rokkstjarna,“ bætir Simon skellihlæjandi við og í bakgrunni heyrast hávær hlátrasköll. „Heyrirðu í þeim? Þau eru með mér hérna í bílnum. Og þeim finnst ég enn býsna fyndinn eftir öll þessi ár!“ Og hláturinn heldur áfram, bæði í bíl Le Bon fjölskyldunnar sem var á ferð í London og á ritstjórnarskrifstofu Morgun- blaðsins í Hádegismóum í Reykjavík. Blaða- maður spyr áhyggjufullur hvort Simon sé nokk- uð að keyra og tala í símann á sama tíma. „Nei, auðvitað ekki,“ er svarið. „Miklu ábyrgari ein- staklingur en ég situr á bak við stýrið.“ Heldurðu með Duran eða Wham? Tónlist Duran Duran er gjarnan skilgreind sem nýrómantík, tónlistarstefna sem naut mikillar hylli á fyrstu árum 9. áratugarins. Meðal ann- arra hljómsveita sem vinsælar voru á þessum tíma voru Spandau Ballet, Culture Club, Euryt- hmics, Ultravox og margar fleiri. Að sögn Simons stilltu fjölmiðlar, einkum tónlistartímarit, Duran Duran upp sem keppi- nauti, jafnvel óvini, annarra vinsælla hljóm- sveita á þessum tíma aðallega Spandau Ballet og Culture Club. „Það var fullyrt að það væri ekki hægt að hlusta á bæði Duran Duran og Culture Club, það yrði að velja á milli. Þetta var bara kjaftæði! Sögur, sem voru búnar til í þeim tilgangi einum að selja fleiri blöð. Reyndar vor- um við mjög góðir vinir flestra sem voru fram- arlega í tónlist á þessum tíma. Við vorum góðir vinir allra í Culture Club, í Spandau Ballet og Wham. Á meðan ekkert okkar tók þetta alvar- lega, þá skipti þetta engu máli, við vissum öll betur. Þegar ég lít til baka núna, þá myndi ég segja að við hefðum frekar verið í samkeppni við U2 og The Police. Já, og INXS.“ Þú minntist á Wham. Hérna á Íslandi skipt- ust unglingar á 9. áratugnum í tvær fylkingar; annaðhvort varstu í Duran Duran hópnum eða Wham hópnum. Þetta var tekið mjög alvar- lega.... „Já, því skal ég trúa,“ segir Simon hlæjandi. Sumir skilgreina sig jafnvel ennþá á þess- um forsendum, komnir á fimmtugsaldur.... „Vá!, þetta er svaka- legt,“ segir Simon. „Hvorum hópnum tilheyrðir þú?“ Nú Duran Duran, auðvitað! „Yes!,“ hrópar hann upp. „Ég vissi það.“ Er í besta starfi í heimi Simon Le Bon er eldri en tvævetur í brans- anum. Hann gekk til liðs við Duran Duran árið 1980 en sveitin hafði þá verið starfandi í tvö ár og í henni, voru auk Le Bon, þeir John Taylor, Roger Taylor, Nick Rhodes og Andy Taylor. Sá síðastnefndi yfirgaf sveitina síðan árið 2006. Er þetta ennþá jafn skemmtilegt? Að fara upp á svið, semja tónlist og taka hana upp? „Já. Eins og ég sagði áðan; mér líkar vel að vera stjarna, ég nýt þess að vera á sviði. Mér finnst ég vera í dásamlegu starfi, besta starfi í heimi. Við, sem erum skemmtikraftar og lista- menn, erum í forréttindastöðu; við fáum að standa frammi fyrir fólki og láta því líða betur, láta því líða betur með sjálft sig. Og þetta get ég – þrátt fyrir mína takmörkuðu hæfileika,“ segir Simon og fjölskyldan skellir upp úr. Hefur það einhverntímann gerst á þessum 40 árum að þú hafir tapað gleðinni? „Ég hef aldrei tapað lífsgleðinni. En ég hætti að finna fyrir þeirri gleði, sem ég fann áður fyrir þegar ég fór inn í stúdíó að taka upp. En þetta var fyrir nokkru síðan, í kringum árið 2000. Ég missti sannarlega þessa gleði þá,“ segir Simon dapur. En þú endurheimtir gleðina, er það ekki? spyr blaðamaður hughreystandi. „Já, og það gerðist þegar sveitin kom saman aftur. Þá kom gleðin aftur til mín.“ Þú segir að þú og félagar þínir í Duran Duran þeir Roger Taylor, John Taylor og Nick Rho- des, séuð afar nánir vinir. Einhverjum gæti þótt það teljast til tíðinda eftir allan þennan tíma saman, þegar ýmislegt hlýtur að hafa gengið á. „Ég held að það sé fyrst og fremst vegna gagn- kvæmrar virðingar. Í byrjun var heilmikil sam- keppni á milli okkar, það verður að segjast eins og er. Við vorum alltaf að keppa um hitt og þetta; hver gat gert mest af þessu eða hinu. En núna, þegar við erum allir orðnir eldri og höfum fengið að vera samferða svona lengi, höfum við áttað okkur á því að enginn skilur okkur jafn vel og við í bandinu. Við höfum gengið í gegnum svo margt saman og það hefur gert okkur nánari hver öðrum.“ Það verður stuð langt fram á nótt! Tónleikar Duran Duran hér á landi í sumar verða haldnir í Laugardalshöll þriðjudaginn 25. júní. Spurður hverju tónleikagestir megi búast við svarar Simon stutt og laggott: „Það verður stuð langt fram á nótt!“ Hann segir að á dagskrá verði sambland af eldri og nýrri lögum. Eitthvað verði um lög af nýjustu plötu Duran Duran, Paper Gods, sem kom út árið 2015 og fékk feikifína dóma. Platan fór m.a. á topp 5 listann í Bretlandi og þar með komst sveitin í þann fámenna hóp hljómsveita sem hafa náð plötum sínum í efstu fimm sæti breska vinsældalistans fjóra áratugi í röð. „Líklega verða um 30% laganna ný og restin verður sambland vinsælla og sígildra laga. Kannski komum við ykkur á óvart – hver veit!“ Er eitthvert lag sem þið munuð alls ekki spila? „Já – kannastu við lagið Wake me up before you go go? Við ætlum sko ekki að spila það,“ segir Simon og hlær dátt. „Og ekki nein lög með þessari hljómsveit.“ (Þess skal getið að umrætt lag er frá árinu 1984 og er með hljómsveitinni Wham.) Hvert er uppáhaldslagið þitt með Duran Duran? „Vá, þetta er erfið spurning. Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar við komum fram með nýtt lag sem smellpassar með þeim eldri. Eitt þannig lag er Pressure [af plötunni Paper Gods]. Það er eitthvað sérstakt við þetta lag. Eins Notorious [frá árinu 1986], þessi lög fara einhvernveginn beint inn í sálina á mér.“ Langar til að dvelja á Íslandi Sjáið þið félagarnir í Duran Duran fyrir ykkur að halda áfram fram á elliár? Er markmiðið að verða eins og The Rolling Stones sem hafa verið að í 60 ár eða svo? „Við höldum áfram þangað til við dettum niður; það er planið okkar. Hvað annað ætti ég svosem að gera? Hanga heima og vera konunni minni til ama?“ Í bakgrunni heyrist hrópað „Nei... ekki gera það,“ og síðan er hlegið. Simon útskýrir þetta neyðaróp og segir að það sé komið frá eiginkonu sinni, Yasmin Le Bon, sem grínist með að hún megi ekki til þess hugsa að hann verði meira heima við en þegar er. „En hún meinar þetta ekki,“ segir hann skellihlæjandi. Þess má geta að Yasmin Le Bon er fyrrver- andi fyrirsæta sem nú starfar m.a. við hönnun. Sagan segir að Simon hafi séð mynd af henni á forsíðu tímarits árið 1984 og orðið ástfanginn við fyrstu sýn. Þau giftu sig ári síðar og eiga þrjár dætur og eitt barnabarn. Ætlið þið að dvelja eitthvað á Íslandi, annað- hvort fyrir eða eftir tónleikana? „Kannski verðum við í nokkra daga. Ég hafði ekki tækifæri til þess síðast þegar við heimsótt- um landið, en ég held að ég gæti fundið mér margt skemmtilegt að gera á Íslandi. Svo er svo fallegt þarna – ég hef verið að horfa á Ófærð í sjónvarpinu – landslagið sem maður sér í þátt- unum er magnað, ég hef aldrei séð annað eins.“ Er eitthvað sem þú vilt segja við íslenska aðdáendur Duran Duran? „Come on Iceland! Get yourself ready! Duran Duran is coming to town and it’s gonna be an all night party!“ Við skulum leyfa þessum ummælum að halda sér á ensku. ’Við höldum áfram þangað tilvið dettum niður; það erplanið okkar. Hvað annað ætti égsvosem að gera? Hanga heima og vera konunni minni til ama?

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.