Morgunblaðið - 13.12.2019, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 13.12.2019, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. DESEMBER 2019 H ildur Birna er vinsæll uppistandari og hefur fengið fólk til að hlæja dátt að staðhæfingum sínum um hina brösóttu leið miðaldra konu í leit að ást. Hún brosir nánast allan hringinn þegar hún heyrir að viðtalinu við hana sé dreift á yfir 60.000 heimili borgarinnar og síðan megi hún búast við að það birtist á Smartlandi.is. Ég bið Hildi að lækka aðeins í tónlistinni í símanum en lagið „Find my love“ með Fairground Attraction er mikið í spilun hjá henni þessa dagana. „Áður en ég lækka þá verður þú að hlusta á textann í þessu lagi: Kettir gráta, það skellur í hurðum, vindurinn hvín í kringum húsið í kvöld, ég er einmana eins og bátur úti á sjó, á kvöldum sem þess- um, langar mig að falla á hnén og biðja Guð: Finndu ástina mína!“ Hvernig gengur að finna hinn eina rétta? ,,Ég er að vinna með helstu markaðstólin í dag að leita mér að karli. Ég er ekkert sérlega ánægð með Tinder, enda sér maður lítið hæð eða persónuleika þeirra karla sem þar eru inni á einni ljósmynd. En ég er með alla anga úti að finna mér karl svona rétt fyrir jólin.“ Hefur verið í ástarmegrun lengi Hildur segir það af og frá að hún sé með einhvern asa á þessu sviði í lífinu. Hún segir hugmyndina komna frá öðrum. ,,Málið er að ég hef verið í mikilli andlegri vinnu á undanförnum misserum þar sem ég hef komist að því með sálfræðingi að ég hef verið að neita mér um ást. Þessi meinta ástarmegrun hefur staðið yfir í tvo áratugi eða svo. Þessi sérfræðingur er ekki að tvínóna neitt við hlutina og ég lofaði henni að vera með einhverjar fréttir í þessari viku tengdar ástarmálunum. Svo ég er glöð að geta sagt henni frá þessu viðtali. Ég trúi því að maður þurfi ekki að gera svo mikið heldur vera meira klár í nálgunum. Dreifing á Morgun- blaðinu er frábær svo ég bind mikla trú við þessa aðferð.“ Hildur segist ekki trúa á Guð í þessum leiðangri heldur meira karma og nú sé hún búin að henda þessu út í andrúmsloftið og trúi að veröldin muni færa henni eitthvað áhugavert. Aðspurð hvernig manni hún sé að leita sér að segir hún stærð skipta máli. „Ég er að leita að stórum mjúkum karli. Einhverjum sem stend- ur í lappirnar, er heiðarlegur og góður. Ég er 180 cm og mig langar ekki í lítinn karl. Það hefur verið aðeins áskorun fyrir mig í fortíð- inni. Því með litlum körlum þá verður skeiðin (e. spoon) svo asnaleg. Hann má vera dökkhærður eða jafnvel sköllóttur og ég er ekki búin að ákveða hvað hann á að starfa við. En hann þarf að vera alvöru karlmaður en ekki kerling í karllíkama. Veistu hvað ég meina?“ Hvað áttu við með því? „Ég er alin upp af einstæðri móður þar sem maður gekk í allt sem þurfti að gera. 10 ára var ég farin að bera frystikistur og orgel sem við áttum á milli húsa þar sem við fluttum mjög mik- ið. Með þessu uppeldi hef ég þróað með mér hálfgerð bring- uhár. Ég veð í allt því að ég kann ekki að biðja um hjálp. Kær- astinn minn á að vera svona týpa sem stoppar mig þegar ég dett í að vera „Gyða Sól“ og hjálpar mér að vera smá dama.“ Reyndi að finna sér mann á Vogi Hvernig hefur þér gengið hingað til að finna þér mann? „Bara alls ekki nógu vel. Ég fór sem dæmi í meðferð á Vogi fyrir rúmu ári og þá hélt ég einmitt sitjandi á sloppnum að það væri flott að finna sér karl þar líka. En það gekk ekki.“ Fórstu í meðferð að finna þér mann eða á Vog til að fást við eitthvað annað? „Já, nei ég fór á Vog því ég hafði álpast til að detta í smávegis dagdrykkju. Í fyrstu var þetta saklaus drykkja með vinum og vandamönnum sem fór aðeins úr böndunum hjá mér og endaði í dagdrykkju. Ég er ekki svona dæmigerð fyllibytta eða eiturlyfja- neytandi. Ég er meira í áttina við gardínufyllibyttu, nema hvað ég drakk ekki á bak við gardínur heldur meira úti í garði úr belju.“ Með beljuna í eldhúsinu Varstu þá með belju úti í garði? „Nei, ég var með beljuna inni í eldhúsi, en átti voðalega smart kaffimál með loki og allt sem ég ráfaði með inni í húsinu og út í garðinn. Ég fór í meðferð á Vog fyrir síðustu jól. Í sumarleyfinu mínu fyrir Vog var ég sem dæmi full nánast allan tímann. Ég hef heyrt að ég hafi átt gott frí en man ekki svo mikið frá því sjálf. Þegar ég loksins reif mig upp á rassgatinu og skráði mig í meðferð og fór að hitta yfirmann minn og sagði honum frá vandanum, þá varð hann mjög hissa. Enda mæti ég yfirleitt alltaf í vinnu og sumir myndu segja mig mjög mikinn örygg- isfíkil og aðeins of sjúka í vinnu líka. Það var eina hindrunin í batanum mínum að yfirmaðurinn minn hefði ekki verið búinn að sjá í gegnum þetta með drykkjuna og ég spáði mikið í að framlengja drykkjuna aðeins en svo ákvað ég að skella mér á sloppinn og prófa Vog.“ Hvað varð til þess að þú gafst upp og viðurkenndir vanmátt þinn á þessu sviði lífsins? „Sonur minn er listamaður og frekar fámáll en dásamlegt mannsbarn. Þegar hann segir eitthvað, þá meinar hann það. Ég bað hann einhverntímann að fara með ruslið fyrir mig og þá sá hann allar beljurnar mínar, flokkaðar og raðaðar eins og fyr- irmyndakonur gera í Vesturbænum. Hann staflaði beljunum upp á eldhúsborðinu og lagði allar innheimtuskuldirnar frá Mó- tus ofan á þær og setti síðan gulan miða ofan á listaverkið þar sem á stóð: Hver er forgangsröðunin?“ Vogur fullur af skemmtilegu fólki Það er ekki svo meðvirkt eða hvað? „Nei, heldur betur ekki og ég er honum mjög þakklát. Þegar ég fór á Vog komst ég að því að spítalinn er fullur af brjál- æðislega skemmtilegu fólki. Það voru að sjálfsögðu allir á sloppum og það er alveg bannað að fara úr sloppnum á þessum stað.“ Já, þú meinar. Var fólk að reyna það? „Já, elskan mín. Einn reyndi að vera á hettupeysunni, en hann var bara rifinn úr henni og settur beint á sloppinn aftur. Það sem er verið að reyna að kenna fólki er að alkóhólismi er sjúkdómur en ekki val og því skyldi bera virðingu fyrir stjórn- leysi á þessu sviði. Maður tengir mikið við barnið í sér á þessum stað, enda allir að lita og púsla á Vogi.“ Var það einskonar listþerapía? „Nei, meira bara svona að drepa tímann held ég. En ég held ég hafi aldrei hlegið jafn mikið og á Vogi, eða grátið. Þar fer fram frábær úrvinnsla tilfinninga og starfsfólkið á Vogi er al- gjörlega fyrsta flokks.“ En af hverju vildirðu finna þér karl á Vogi? „Nú sem dægrastyttingu og síðan gæti hann ekki farið frá mér. Í það minnsta ekki í 10 daga.“ Ætlar að vera þurr um jólin Hverju kynntist þú á Vogi? „Ég lærði að ég er með sama sjúkdóminn og allt hitt fólkið sem er þarna inni og að fólk sem tekur á vandanum sínum er hetjur.“ Þegar kemur að jólunum á þessu ári segir Hildur að þau verði þurr en vonandi rauð. „Já, og svo mun ég gera eitthvað skemmtilegt með kærast- anum mínum sem ég er að fara að eignast. Ég er með plön um að vera með fjölskyldunni á aðfangadag, en mun halda hinum dögunum og áramótunum lausum til að eyða með tilvonandi tengdafjöskyldu.“ Hvað ætlarðu að gera fyrir kærastann um jólin? „Það verður mikið. Það þarf að opna allar gjafirnar sem ég ætla að kaupa handa honum og svo verður bara mikið um kúr og að skeiða hvort annað.“ Hvað vonarðu að gerist á nýju ári? „Á nýju ári þá mun ég skipta út möntrulaginu mínu „Find my love“ með Fairground Attraction og setja „Perfect“ með sömu flytjendum í staðinn. Svo ætla ég að njóta á nýju ári. Það er líka svakalega margt sem nýi kærastinn minn þarf að laga heima hjá mér sem er búið að „drabbast“ niður á undanförnum 20 árum!“ Börn eru engin fyrirstaða Hvað með uppistandshópinn BARA GÓÐAR? „Já, takk fyrir að spyrja. Við ætlum að slá í gegn á nýju ári. Við verðum með nýja sýningu í janúar sem verður svakaleg. Við erum fimm flottar konur á öllum aldri. Í raun frá 27 ára til 84 ára. Við erum allar svakalega fyndnar og okkur þykir vænt um að sýningin er örugg fyrir karlmenn líka. Þeir fara ekkert út með móral yfir því að vera karlar.“ Áttu þér fleiri drauma en að finna hinn eina rétta um þessar mundir? „Draumarnir mínir eru allir að vakna til lífsins eftir að ég hætti að drekka. Mig dreymir um að hafa gaman af því að fara í ræktina. Þetta er draumur og ég er hrædd um að hann rætist ekki. Eins dreymir mig um að vinna meira með uppistandið. Það er nóg að gera í uppistandinu, en þetta er svo gaman að mig langar sjaldnast til að stoppa.“ Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum við kærastann? „Ef þú ert með ofnæmi fyrir hundum þá gengur sambandið ekki. En börn eru engin fyrirstaða.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg „Ég fór sem dæmi í meðferð á Vogi fyrir rúmu ári og þá hélt ég einmitt sitjandi á sloppnum að það væri flott að finna sér karl þar líka. En það gekk ekki.“ Hildur Birna ætlar að finna sér karl fyrir jólin.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.