Morgunblaðið - 13.12.2019, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 13.12.2019, Blaðsíða 26
26 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. DESEMBER 2019 Enn þá reiður út í Votta Jehóva Í síðustu þremur bókum hefur Mikael skrifað um fjölskyldu sína. Þegar hann er spurður að því hvort dagskráin sé tæmd segist hann halda það. Hann er þó ekki alveg viss. „Ég læt auðvitað allt flakka en það er eflaust margt ósagt enn þá. Þegar ég lauk við þessa bók sagði ég við Elmu að nú væri ég hættur að skrifa um okkur fjölskylduna. Þetta væri orðið gott og ég uppurinn. Hún hugsaði sig um í smá- stund og minnti mig svo á að hálfur dagur með mömmu eða systur minni væri efni í heila bók. Þannig að hver veit?“ Foreldrar Mikaels voru í Vottum Jehóva sem er sértrúarsöfnuður sem heldur hvorki jól né páska og harðbannar að haldið sé upp á afmæli. Tilvist þessa sértrúarsafnaðar hafði mikil áhrif á uppeldi Mikaels og hefði hann líklega ekki lif- að veikindi af sem barn ef hann hefði ekki feng- ið blóðgjöf en samkvæmt sértrúarsöfnuðinum má ekki þiggja slíkar gjafir. Það er svo ekki fyrr en móðir hans yfirgaf Votta Jehóva að fjöl- skyldan fór að ná saman á nýjan leik. Þegar Mikael er spurður út í það hvort hann sé reiður út í þetta samfélag er hann ekki alveg viss. „Já og nei. Mig langar að segja nei því ég finn ekki fyrir reiði í garð þeirra einstaklinga sem eru Vottar Jehóva. En það væri óheiðarlegt af mér að segja alveg hreint og klárt nei við þess- ari spurningu því ég er ósáttur við Votta Je- hóva og hef á þeim sterkar skoðanir. Þá hef ég líka sterkar skoðanir á því hvernig við komum fram við Votta Jehóva sem samfélag. Þá við Íslendingar. Við látum þá hafa peninga þrátt fyrir að þetta sé samfélag sem mismunar kon- um og körlum og útskúfar sam- kynhneigðu fólki. Ég efast um að knattspyrnufélagið Valur kæmist upp með að banna hommum og lesbíum að æfa hjá félaginu. Reyndar kæmist Valur upp með að mismuna konum og körlum sem þeir gera eins og nær öll íslensk íþróttafélög. Já, nei, ég er ekki reiður en ég hef sterkar skoðanir eins og þú heyrir, á bæði Vottum Jehóva og Val.“ Það er auðvelt að fá öran hjartslátt við lestur bókarinnar því sumar lýsingarnar eru sjokkerandi. Þegar ég spyr Mika- el hvort hann hafi aldrei verið hræddur við að opna líf sitt upp á gátt játar hann því. „Jú, biddu fyrir þér. Mér finnst bara svo mikilvægt að við reynum að skilja hvert annað og okkur sjálf að ég læt allt flakka. Kannski gerði ég það stundum í gamla daga til að sjokkera og hrista upp í hlutunum en nú er ég miklu yfirveg- aðri og er að reyna að skilja samfélagið sem við búum í þannig að tilgangurinn helgar meðalið í mínum huga.“ Hann segir að hann hafi öðlast meiri skilning á tilvist sinni þegar hann skrifaði fyrstu bókina í þessum þríleik, Týnd í Paradís. „Ég fékk botn í fyrstu ár ævi minnar og skildi foreldra mína þótt ég hafi verið ósammála þeim. Þetta var erfið bók að skrifa og mikil rannsóknarvinna lá að baki henni. Ég lá yfir eigin sjúkraskýrslum og tímaritum Votta Jehóva og tók viðtöl við foreldra mína, systkini, aðra ættingja og vini til að reyna að setja mig í spor þessa unga fólks sem lét skírast inn í söfnuð Votta Jehóva og varð svo heittrúað að það var tilbúið að fórna lífi sonar síns svo hann myndi öðlast eilíft líf í Paradís,“ segir hann. Harður heimur DV Mikael var ritstjóri DV á árunum 2003-2006. Í bókinni Bréf til mömmu talar hann um þennan tíma og hvað hafi vakað fyrir honum þegar hann sat í ritstjórastóli DV. Árið 2006 sagði hann upp störfum eftir að barnaníðingur á Ísa- firði fyrirfór sér vegna væntanlegra umfjöllunar DV um málið. Þegar Mikael er spurður að því hvort hægt hefði ver- ið að tækla þessi mál öðruvísi segist hann ekki halda það. „DV féll vegna umfjöllunar um barnaníðing sem nauðgaði drengjum. Við eigum enn erfitt með slíkar fréttir og ekki er langt síðan ríkisstjórn féll á Íslandi vegna barnaníðings. Auðvitað erum við komin lengra en lengi höfum við á Íslandi tekið afstöðu með barnaníðingum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað í fjölskylduboðum. Sjáðu bara þennan prins þarna á Englandi og vin hans sem drap sig í fangaklefa í New York. Meira að segja Ríkisútvarpið á erfitt með að fjalla um málið og leitar í álitsgjafa sem eiga að gefa prinsinum og hans fólki ráð um hvernig hann hefði getað komið betur út úr einhverju viðtali á BBC,“ segir hann. Í bókinni lýsir Mikael því hvernig það hafi verið að hafa verið hataður af stórum hópi fólks eftir uppsögnina á DV. Hann hafi varla getað pantað sér leigubíl og hafi lokað sig af. „Það var erfitt að segja upp á DV eftir að tugþúsundir Ís- lendinga skrifuðu undir lista sem kröfðust breytinga á ritstjórnarstefnu DV vegna þess að alræmdur barnaníðingur hengdi sig. Ég náttúrlega var vel undir þetta búinn af lífinu því ég hafði verið útskúfaður ásamt fjölskyldu minni úr samfélagi Votta Jehóva. Þannig að ég þekkti þetta að einhverju leyti og svo leystust þessi mál af sjálfu sér því þjóðin sá á endanum að við á DV á sínum tíma höfðum ekki rangt við í málefnum barna- níðingsins Gísla Hjartarsonar.“ Það hefur margt gerst í íslenskum fjölmiðlaheimi síðan ég sat á móti Mikael þar sem hann var að bjóða mér vinnu veifandi leikfangabyssu. Þegar ég spyr hann hvað honum finnist vera mesta breytingin nefnir hann samfélagsmiðla. „Facebook, Facebook, Facebook. Það eru allir á Fa- cebook og fá flestar fréttir sínar þaðan og ég veit að allir fjölmiðlar á Íslandi berjast í bökkum og blaðamönnum fækkar. Það er skelfilegt ástand á fjölmiðlamarkaði og í raun með ólíkindum hversu góðir miðlarnir eru ennþá. Og það sér ekki fyrir endann á þessum breytingum öll- um og við vitum enn ekki alveg hvernig við eigum að bregðast við breyttu landslagi. Ég er auðvitað róm- antíker þegar kemur að dagblöðum og keypti strax áskrift að blaði þegar ég kom hingað til Vínar. Ég kaupi líka áskrift að blöðum og tímaritum í gegnum app í sím- anum mínum og á Ipad en það jafnast ekkert á við að halda á dagblaði og lesa yfir kaffibolla.“ Það er náttúrlega bara fólk sem lifir heiðarlegu lífi sem getur slakað á með dagblað og kaffibolla. Þeir sem þekkja Mikael og hafa fylgst með honum vita að hann er að lifa drauminn sinn í Vín. Sjálfur segist hann ekki geta verið ánægðari með tilveruna eins og hún er í dag. „Þetta er draumalífið. Lífið sem ég veit ekki alveg hvort ég þorði að láta mig dreyma um að ég myndi nokk- urn tíma lifa. Ég er rithöfundur og get séð fyrir mér sem slíkur. Er að skrifa leikrit fyrir stærstu leikhús Evrópu með besta vini mínum, honum Þorleifi Erni Arnarssyni, og bækurnar mínar eru að koma út bæði heima og er- lendis. Þá tók ég þátt í því að skrifa Brot, eða Valhalla Murders, sem verður í Ríkissjónvarpinu og á Netflix á næstunni. Ég á æðisleg börn og bý í geggjaðri íbúð mið- svæðis í Vínarborg. Þetta er ótrúleg menningarborg og stutt fyrir okkur að fara í leikhús og á óperu. Ég þarf að klípa mig til að athuga hvort mig sé nokkuð að dreyma!“ Maður sem er kominn á þennan stað er ekkert reiður út í fortíðina, er það nokkuð? „Nei, en ég var alltof lengi þessi ungi reiði maður. Það fór mér kannski ágætlega þegar ég var enn á þrítugs- aldri en súrnaði svolítið á fertugsaldri og nú þegar ég er hálffimmtugur væri ég nú frekar hlægilegur ef ég væri reiður út í fortíð mína.“ Spurður um næstu verkefni segist hann vera byrjaður á næstu bók. „Ég sit hérna sveittur og skrifa leikrit með Þorleifi yfir netið. Við erum að hamast þetta fyrir Burgtheater hér í Vín en auðvit- að reyni ég að gefa mér tíma fyrir bók og önnur verkefni. Ég var að skrifa lítið verk fyrir listasafnið hér í Vínarborg. Mjög stoltur af því verki, sem ég kalla Pinot Noir. Og bókin, næsta bók, jú hún er í kollinum og ég er búinn að skrifa nokkra kafla í leit að rétta tóninum. Þetta er skáldsaga. Stóra skáldsagan. Vil ekki segja meira,“ segir hann. Mynd úr sýningunni Die Edda sem nú gengur fyrir fullu húsi í Burgtheater. Frá vinstri: Mikael, Jóhannes Geir Númason, Ingvi Reynir Berndsen, bróðir Mikaels, og Finnur Númason. Númasynir eru frændur hans. Hér er Mikael tvítugur að aldri og orðinn pabbi. Hann hafði alltaf dreymt um að eiga sína eigin fjölskyldu. ’96-’97 bjó Mikael á Hellu, nýorðinn tveggja barna faðir og vann í kjúklingasláturhús- inu og kláraði Falskan fugl eins og segir frá í bókinni. Mikael hefur lagt mikið á sig til að sættast við fortíðina. Matthias Horn/Burgtheater

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.