Morgunblaðið - 05.02.2020, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. FEBRÚAR 2020
Við Reykjavíkurtjörn Löngum hefur tíðkast að gefa fuglunum við Tjörnina brauð. Þessar þrjár álftir tóku matargjöfinni feginshendi, enda búið að vera kalt í veðri upp á síðkastið.
Kristinn Magnússon
Í amstri dagsins þar sem við
sitjum þar að auki undir stöð-
ugum fréttum af því sem miður
fer í heiminum, vill að gleymast
hve gott það er að búa á Íslandi –
hversu mikil gæfa það er að fæð-
ast hér eða eiga hér heima.
Þrátt fyrir ýmislegt megi færa
til betri vegar og mörg óunninn
verk séu fram undan, er Ísland
eitt mesta velmegunarland
heims. Í raun skiptir litlu hvort
horft er á efnisleg gæði eða hug-
læg.
Mér er til efs að nokkur smáþjóð hafi nokk-
urn tíma alið af sér jafnmarga hæfileikaríka
listamenn og Íslendingar, að ekki sé talað um
afreksfólk í íþróttum. Mezzoforte, Björk, Of
Monsters and Men og Kaleo. Sinfóníuhljóm-
sveit Íslands þykir með þeim bestu. Jóhann Jó-
hannsson, sem féll frá langt fyrir aldur fram,
var í hópi bestu kvikmyndatónskálda heims.
Hildur Guðnadóttir tónskáld er að leggja
heiminn að fótum sér. Íslenskt kvikmynda-
gerðarfólk hefur haslað sér völl í hörðum
heimi. Baltasar Kormákur leikstjóri, Elísabet
Ronaldsdóttir klippari og Egill Egilsson leik-
stjóri og kvikmyndatökumaður. Arnaldur
Indriðason hefur staðið fremstur meðal jafn-
ingja í útrás íslenska rithöfunda á síðustu ár-
um. Listinn er langur – miklu lengri.
Við erum að gera eitthvað rétt
Sá kraftur og fjölbreytileiki sem einkennir
íslenskt listalíf er ótrúlegur. Það kraumar allt
og bendir til að við séum að gera eitthvað rétt.
Okkur hefur tekist að búa til frjórri jarðveg
fyrir listir og menningu en flestum öðrum þjóð-
um. Hið sama á við um íþróttir. Aðeins Íslend-
ingar skilja hvernig 360 þúsund manna þjóð
tekst að tefla fram hverjum íþróttamanninum
á fætur öðrum á keppnisvöllum heimsins.
Karla- og kvennalandsliðin í knattspyrnu hafa
glæsilegri árangri en nokkurn Ís-
lending dreymdi um. Svipað er að
segja um landsliðið í körfubolta,
að ekki sé talað um handboltann
þar sem framtíðin virðist björt
með ungum og efnilegum leik-
mönnum. Íslenskir fatlaðir
íþróttamenn standa margir
fremstir í heiminum á sínu sviði.
Gunnar Nelson, Anníe Mist Þór-
isdóttir, Fanney Hauksdóttir, Ás-
dís Hjálmsdóttir og Arnar Davíð
Jónsson eru afreksfólk og meðal
þeirra fremstu í heiminum í sín-
um íþróttagreinum.
Í gamni hafa útlendingar haldið því fram að
það sé eitthvað í vatninu sem skýri glæsilegan
árangur margra íþróttamanna. Hreina loftið –
súrefnið – gefi Íslendingum aukakraftinn.
Stórbrotin náttúra – landið sjálft, blítt og gjöf-
ult en einnig harðneskjulegt og óvægið, hafi
hert fámenna þjóða, gefið henni kraft en einn-
ig innblástur sem brjótist fram ekki aðeins á
íþróttavellinum heldur ekki síður í bók-
menntun, tónlist, dansi, kvikmyndum, mynd-
list og leiklist.
Hlutur launafólks vex
Það er langt í frá sjálfgefið að fámennri þjóð
takist að byggja upp eitt besta heilbrigðiskerfi
heims, að mati Lancet, sem er eitt virtasta vís-
indarit heims á sviði læknisfræði. Íslenskir vís-
indamenn á sviði læknisfærði standa frama-
lega. Með sama hætti gerðist það ekki af sjálfu
sér að til hefur orðið jarðvegur fyrir öflug há-
tæknifyrirtæki sem eru leiðandi á sínu sviði í
heiminum eða framsækin hugbúnaðarfyr-
irtæki sem sækja út á erlenda markaði.
Og þrátt fyrir að íslenskt þjóðarbú hafi orðið
fyrir áföllum hefur okkur tekist að byggja upp
velferðarsamfélag sem stenst samanburð við
þau bestu í heiminum. Í ýmsu stöndum við
framar öðrum þjóðum í lífsgæðum.
Síðustu ár hafa verið góð og íslenskt launa-
fólk stendur betur að vígi en nokkru sinni. Frá
2014 til 2019 jókst kaupmáttur launa um 26%
og kaupmáttur lágmarkslauna um 32%. Þetta
þýðir að kaupmáttur hafi aukist um 5-6% að
meðaltali á hverju ári. Fjárhagsstaða heim-
ilanna hefur gjörbreyst á síðustu árum. Skuld-
ir lækkað og eigið fé aukist.
Í engu ríki OECD rennur stærri hluti af
verðmætasköpun efnahagslífsins til launfólks
en á Íslandi, eða 64%. Sviss og Danmörk koma
þar á eftir með 60,5% og liðlega 59%. Launa-
hlutfallið hefur farið hækkandi á undanförnum
árum sem þýðir að hlutdeild launafólks hefur
aukist en hlutur fyrirtækja dregist saman. Ár-
ið 2009 var hlutur launafólks rétt tæp 51%.
Jöfnuður er meiri á Íslandi en á öðrum
Norðurlöndum (skv. Gini-stuðli). Ekkert land í
OECD er með meiri jöfnuð fyrir utan Slóvak-
íu, en þar eru lífskjörin töluvert lakari en hér á
landi. Hvergi er fátækt eldri borgara minni en
á Íslandi og samkvæmt alþjóðaeftirlauna-
vísitölunni er hvergi betra að fara á eftirlaun.
Samkvæmt OECD er fátækt (hlutfall fólks
með lægri tekjur en 50% af miðgildistekjum)
hvergi minni en í Danmörku og á Íslandi.
Á Íslandi eru greidd hæstu meðallaunin.
Næst á eftir koma Lúxemborg, Sviss og
Bandaríkin. Lágmarkslaun á Íslandi eru þau
þriðju hæstu í löndum OECD. Í Noregi og
Danmörk eru lágmarkslaunin hærri.
Hagkerfi til fyrirmyndar
Jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Ís-
landi. Í ellefu ár hefur Ísland verið leiðandi
meðal þjóða í jafnréttismálum samkvæmt
skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins (World
Economic Forum).
Á síðustu árum hafa Íslendingar notið verð-
stöðugleika. Verðbólga hefur aldrei farið yfir
3% að meðaltali síðustu sex ár, í fjögur ár var
verðbólga 2% eða lægri. Vextir eru í sögulegu
lágmarki.
Ísland er fyrirmyndarhagkerfi í úttekt Al-
þjóða efnahagsráðsins. Á mælikvarða „Inclu-
sive Development Index“, sem mælir ekki að-
eins hagvöxt heldur ýmsa félagslega þætti og
hvernig ríkjum tekst að láta sem flesta njóta
efnahagslegs ávinnings og framfara og tryggja
jöfnuð milli kynslóða raða Norðurlöndin sér í
efstu sætin; Danmörk, Noregur, Finnland Sví-
þjóð og Ísland.
Ísland er öruggasta og friðsamasta land
heims samkvæmt „Global Peace Index“. Dan-
mörk er í fimmta sæti, Finnland í fjórtánda
sæti, Svíþjóð í því átjánda og Noregur í tutt-
ugasta sæti.
Þegar allt þetta er haft í huga er það um-
hugsunarvert af hverju reynt er að draga að-
eins upp dökka mynd af landi og þjóð. Það er
engu líkara en ákveðin öfl nærist á að dvelja
við hið neikvæða. Fá tækifæri eru látin ónotuð
til að tala Ísland niður. Allt er gert til að
byggja undir þá tilfinningu að Ísland sé spillt
land þótt landið sé í hópi þeirra óspilltustu að
mati alþjóðsamtaka sem berjast gegn spill-
ingu. Ísland er í 11. sæti af 180 löndum á lista
Transparency International.
En þótt margt hafi tekist vel og staðan al-
mennt góð, er ekki þar með sagt að ekki sé
hægt að gera betur á ýmsum sviðum. Við eig-
um ýmis verk óunninn þegar kemur að al-
mannatryggingum, skipulagi heilbrigðiskerf-
isins og ekki síður menntakerfisins. Við
þurfum að gera meiri kröfur til þess að sam-
eiginlegir fjármunir okkar nýtist en sé ekki
sólundað. Og okkar bíða risaverkefni á sviði
innviðafjárfestinga og til þess erum við vel í
stakk búin. Tækifæri eru fyrir hendi.
Eftir Óla Björn Kárason »Umhugsunarvert er af
hverju reynt er að draga
aðeins upp dökka mynd af
landi og þjóð. Engu er líkara
en ákveðin öfl nærist á að
dvelja við hið neikvæða.
Óli Björn Kárason
Höfundur er alþingsmaður Sjálfstæðisflokksins.
Land tækifæra og velmegunar