Morgunblaðið - 11.02.2020, Page 19

Morgunblaðið - 11.02.2020, Page 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 11. FEBRÚAR 2020 um mikils virði. Hann átti hjart- að í öllum móðursystrum sínum og saknaði hann sárt þeirra sem látnar eru. Minnisstætt er þegar hann tók á móti okkur systrum heim til sín í London þar sem mikið var hlegið og brasað. Það var okkar vani að syngja saman lagið sem enginn kunni nema við, þegar við hittumst. Allt frá því að Kalli var lítill til hinnar síðustu stundar. Því er viðeigandi að kveðja elsku vin minn með ljóðinu við lagið okk- ar. Við hittumst svo aftur í blómabrekkunni. Ein lítil saga býr í huga mér, mig langar til að segja hana þér. Hvað getur huggað harm, mitt þrungna sár að horfa á vin sem aldrei fæ að sjá. Hann sigldi burt, ég sá hann aldrei meir, ég saknaði hans, það gera líka þeir, sem elska heitt að einlægð, von og þrá að horfa á vin sem aldrei fæ að sjá. (Höf. ók.) Þín móðursystir, Áslaug Hafsteinsdóttir. Elsku Kalli minn, ljúfi ynd- islegi drengur. Það eru svo margar minning- ar sem ég á um þig sem rifjast upp núna þegar þú ert farinn í sumarlandið og til fólksins okkar sem hefur beðið eftir þér, elsku vinur. Þar sem þú varst þar var gleði og mikið hlegið, ég sé þig fyrir mér með systrunum sem farnar eru og pabbi þinn hefur umvafið þig, það er víst. Minn- ingar um þig sem munu hlýja mér og okkur öllum um góðan og traustan vin sem alltaf var tilbúinn að gera allt fyrir mann. Nú ert þú laus við allra fjötra og líður vel í faðmi allra englanna okkar. Þar til við hittumst aftur, hafðu þökk fyrir allt, elsku Kalli minn. Elsku Fríða mín og fjöl- skylda, Guð gefi ykkur styrk í ykkar mikla missi. Líney frænka. Kalli minn. Hversvegna er leiknum lokið? Ég leita en finn ekki svar. Ég finn hjá mér þörf til að þakka þetta sem eitt sinn var. (Starri í Garði) Ég man einn fallegan sum- ardag, ég var á leið í vinnuna á símstöðinni og hitti þig, þá um sex ára gamlan, við hliðið heima hjá þér og við urðum samferða smá spöl. Ég: „Mikið ertu með fallegt veski, Kalli minn.“ Þú, brosandi: „Mamma lánaði mér það fyrir skólabækurnar!“ Ég. „Nú, ertu í sumarskóla?“ Þú: „Nei, nei, ég er að fara til Góu minnar, hún er að kenna mér að lesa og skrifa.“ Man eftir að hafa fylgst með þér, á kantinum, alla þína ævi. T.d. þér og Önnu Sjöfn sem krakkavinum að leika ykkur saman, sem unglingum að vinna í frystihúsinu og kæta allt „gamla fólkið“ með alls konar uppátækjum. Þið, bæði ljós- hærð, hávaxin, hávær, fyrirferð- armikil og skemmtilegustu mannverurnar á Skagaströnd. Man eftir þér í skólaleikritum uppi á sviði þar sem stamið þitt var víðs fjarri. Man eftir heimsóknum og góðum stundum í Rauðgerðið þar sem þið leigðuð saman æskuvinirnir, þú, Anna Sjöfn og Anna Bogga. Og ekki síst hvað þú gafst mikið af þér til alls samferðafólks þíns og varst fær fagmaður í öllu sem þú lagðir stund á. Man eftir þér að klippa og hve fær þú varðst strax. Eða þegar þú bjargaðir klippingu á mér eftir að ég lenti hjá hársnyrti sem þú fullyrtir að hefði notað illa brýndar sauðaklippur á hausinn á mér miðað við útgang- inn! Man einstaklega vel eftir þakklæti mínu til þín er þú komst í minn stað til að vera hjá Önnu Sjöfn dagana eftir að hún átti Benna sinn en ég varð að mæta í minn fyrsta tíma í Há- skólanum á Akureyri tveimur dögum eftir að Benni fæddist. Það var drengilegt af þér, elsku Kalli minn. Man hve sárt það hefur verið að sjá og vita af heilsu þinni hraka og hina miklu orku sem þú hafðir dvína. Bestu þakkir fyrir allar góðu stundirnar og minningin lifir um fallegan, glað- an, góðan og orkumikinn gull- koll. Sendi fjölskyldu þinni og vinum innilegar samúðarkveðj- ur. Þórunn Bernódusdóttir, Skagaströnd. Minn kæri æskuvinur, árin okkar í Rauðagerði, Bólstaðar- hlíð og Einarsnesi voru góð. Við vorum ung með frjótt ímyndun- arafl og stóra drauma. Rauðagerðið, ég, þú og Anna Sjöfn. Eftirminnilegur tími, skrítið hús, fyndið heimilishald og alltaf gaman hjá okkur. Bólstaðarhlíðin, árin okkar þar kalla fram óteljandi bros og ljúfar minningar. Stundum er eins og þetta sé allt fyrirfram ákveðið. Ég var ekki á góðum stað í lífinu þegar við hittumst fyrir tilviljun á Laugaveginum. Við vorum bæði á tímamótum og þú komst með þessa frábæru hugmynd hvort við ættum ekki að fara að leigja saman og við fluttum í Bólstaðarhlíðina. Vá, hvað ég var heppin. Styrkurinn frá þér var ótrúlegur. Ég hugsa oft til þess þegar þér í orðsins fyllstu merkingu tókst að draga mig í ræktina, dag eftir dag, þangað til ég fékk áhuga á lík- amsrækt. Einarsnesið, raðhús í Skerja- firðinum. Við stækkuðum við okkur og draumarnir fóru að rætast. Það var gaman að fylgj- ast með þér stofna fyrirtækið þitt Kompaníið. Krafturinn í þér og dugnaðurinn. Það var ekki annað hægt en að heillast af þér minn kæri. Hugrekkið, sköpun- arkrafturinn, viskan og húmor- inn. Ég hugsa oft til þín þegar ég heyri í Tracey Chapman, sé blá- an kavíar í búðinni eða keyri fram hjá Bólstaðarhlíðinni. Góða ferð minn kæri, ég veit það verð- ur tekið vel á móti þér, við döns- um saman síðar. Við áttum saman yndislega stund við áttum sól og blóm og hvítan sand og skjól á köldum vetri er vindur napurt söng og von um gullin ský og fagurt lag Góða ferð, góða ferð, góða ferð góða ferð já það er allt og síðan bros því ég geymi alltaf vinur það allt er gafstu mér góða ferð, vertu sæll já góða ferð. (Jónas Friðrik) Elsku Fríða, Laufey, Ernst og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina. Anna Elínborg (Anna Bogga). Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem) Dásamlegur vinur, mikill gleðigjafi og vandaður öðlingur hefur kvatt langt fyrir aldur fram, húmorískur heimsmaður, sem fæddur var norður á Skaga- strönd og hafði sterkar taugar þangað. Skilgreiningin á „heims- maður“ í íslenskri orðabók hæfði Kalla vel, þ.e. „fágaður og sjálfs- öruggur karlmaður sem hefur ferðast víða“. Við Kalli kynntumst árið 2011, þegar hann og tæknimenn- irnir hans, sem hann þakkaði oft velgengni sína við gerð þáttanna „Nýtt útlit“, komu i heimsókn til mín og Kalli tók við mig viðtal um Davis-dyslexíuaðferðina, en þættirnir voru tvískiptir með fræðsluinnleggi í miðjum þætti. Í framhaldi af þessum fyrstu kynnum okkar kom Kalli á nám- skeið til mín og þar gerðust eft- irminnileg og áhrifamikil undur og stórmerki. Auk þess að tak- ast á við dyslexíuna vildi Kalli takast á við stam sem hafði fylgt honum frá því í barnæsku. Mikið var í húfi. Hann hafði verið beð- inn að afhenda tvenn verðlaun á Eddunni þetta árið, önnur fyrir „gervi“, orð sem getur verið erf- itt fyrir þá sem stama. Við brett- um upp ermarnar. Okkur tókst að komast að rótum vandans og miklar breytingar fylgdu í kjöl- farið. Þegar kom að Eddunni stóð Kalli sig eins og hetja, ekk- ert heyrðist á mæli hans og bestu vinir hans höfðu orð á því hvort hann væri hættur að stama. Kalli var mjög ánægður með sig og viðbrögðin. Það var mjög lærdómsríkt að heyra hvernig Kalli talaði um upplifun sína af að horfa á kvik- myndina The King’s Speech sem kom út 2010. Hann sagði: „Mér fannst mjög erfitt að horfa á myndina, ég upplifði þetta alveg, ég var uppgefinn eftir að hafa horft, var meðvirkur í tvo klukkutíma, en ég fékk miklu já- kvæðari viðhorf eftir myndina. Og ég uppgötvaði að það eru til leiðir til að takast á við þetta.“ Og það gerði hann, ákveðinn í að vaxa innan frá og láta ekkert stöðva sig. Það var því gífurlegt áfall þegar hann veiktist, nýbú- inn að upplifa einn af stóru draumunum sínum sem var að stofna snyrtistofuna Beauty bar- inn. Það tók á að syrgja stóra drauminn eftir endurtekin veik- indi. Kalli hafði stundum orð á því að hann ætti erfitt með að skilja af hverju þetta þyrfti allt að koma fyrir hann. Kalli var fæddur baráttumað- ur fyrir öllum þeim minnihluta- hópum sem hann upplifði sig hluta af. Eftir að hann varð sjón- skertur komst hann að því að slökkt var á hljóðinu í mörgum gangbrautarljósum hjá borginni. Það varð hans síðasta heita bar- áttumál að fá kveikt á hljóðinu í gangbrautarljósum borgarinnar í þágu blindra og sjónskertra. Einstakur og elskulegur vinur er horfinn á braut. Því fylgir mikill söknuður samhliða ein- lægu þakklæti. Minningarnar eru fjársjóður sem lifir. Ég sendi fjölskyldu Kalla og vinum mínar innilegustu samúð- arkveðjur. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem) Valgerður Snæland Jónsdóttir. Það var að sumarlagi árið 2010 sem fundum okkar Kalla bar fyrst saman þegar hann leit- aði til mín vegna fyrirhugaðra bókarskrifa. Þá hafði hann verið með þætti á Skjá einum um út- litsráðgjöf og langaði til að fara lengra á þeirri braut. Þarna hófst samstarf okkar og vinátta og í kjölfar bókarinnar hélt sam- vinnan áfram við gerð tveggja sjónvarpsþáttaraða fyrir Stöð 2. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Kalla. Hann vildi hafa hlutina grand, elegant og flotta, enda helgaði hann starfsferil sinn því að finna hvað færi fólki best og laða fram það fegursta í útliti þeirra sem til hans leituðu. Hann hafði mikla persónutöfra, var stórskemmtilegur, fyndinn og fljótur til svars og við hlógum mikið þennan tíma sem við unn- um saman. Hann gat líka verið snöggur upp á lagið og stundum óvæginn, en slíkt risti ekki djúpt. Húmorinn var hins vegar beittur, enda vill skopskynið skerpast í hvers kyns átökum og mótstreymi sem Kalli fór sann- arlega ekki varhluta af. Þegar sjónvarpsþættirnir Í nýju ljósi voru teknir ferðuð- umst við talsvert út á land og vorum þá oftast tvö saman í bíl. Þetta voru gæðastundir sem lifa vel í minningunni. Við náðum góðu spjalli og þarna náði ég að kynnast Kalla. Mér er sérstak- lega minnisstæð ein ferð okkar þar sem við vorum á leið í tökur út á Snæfellsnes. Samræðurnar voru einlægar og afslappaðar og spönnuðu ýmis lit- og blæbrigði mannlífsins. Margbrotið og fal- legt umhverfið gaf umræðuefn- inu aukna dýpt og rímaði ein- staklega vel við stemninguna í bílnum. Stuttu seinna, um það leyti sem lokahönd var lögð á seinni þáttaröðina okkar, var Kalli orðinn mikið veikur. Núna tvinnast þessi fallega mynd minningunni um hann og það þykir mér vænt um. Ég kveð kæran vin og sam- starfsmann og votta ættingjum og aðstandendum öllum innilega samúð. Steinunn Þorvaldsdóttir. Karl Berndsen, eða Kalli eins og hann var alltaf kallaður, var hluti af samfélagi íslenskra lista- manna sem bjuggu og störfuðu í London rétt fyrir síðustu alda- mót. Kalli var á þeim tíma að feta sig áfram í frumskógi er- lendra glæsitímarita og var iðu- lega á ferð og flugi á milli töku- staða. Þegar hlé var á milli verkefna vorum við vinkonurnar fljótar að mæta í eldhúsið á Ful- ham Road í kaffi, lit og klipp- ingu. Þar var alltaf mikið hlegið enda var Kalli með eindæmum skemmtilegur maður sem gerði óspart grín að sjálfum sér og sá alltaf spaugilegu hliðina á lífinu og tilverunni. Flest tíndumst við svo aftur heim og tókum þá upp þráðinn að nýju. Það var hér heima sem stjarna hans skein hvað skærast enda aldrei nein lognmolla í kringum Kalla. Kalli var góður í því að lesa fólk og óhræddur við að segja skoðun sína. Hann hitti oft naglann á höfuðið og hafði einstakt lag á því að laða fram það besta í hverjum og einum. Nú er hann farinn, allt of snemma. Eftir situr minning um einstaklega góðan dreng sem lit- aði umhverfi sitt með fágun og listfengi og fékk mann ávallt til að gleðjast og gantast með sinni frábærri kímnigáfu. Við kveðjum Kalla með söknuði, virðingu og þökk í hjarta fyrir allar skemmtilegu samverustundirn- ar. Hvíldu í friði, elsku vinur. Steindóra og Elín (Ella). Besta gjöfin sem meistari fær frá sínum nemanda er að hann verði skapandi, öflugur, hafi hugsjón fyrir fagið og hræðist ekki tækifærin sem koma. Einn af mínum nemendum var Karl Berndsen sem við kveðjum í dag, sá fyrsti sem kveður úr stórum hópi Salon VEH-nemenda. Hann byrjaði sitt nám á stof- unni í Glæsibæ, þá 16 ára gam- all, síðan í Húsi verslunarinnar og Salon VEH á Laugavegi. Það tók hann smá tíma að finna sinn stað en þegar honum var það ljóst þá beið hans upp- lifun sem allir fagmenn vilja og eiga að finna. Stefna á nýjar brautir, vinna erlendis og varð London fyrir valinu og þar hófst nám í snyrt- ingu og myndin hans small sam- an. Með þessi fög komst hann langt. Hann vann fyrir tísku- myndatökur um allan heim þar til hann kom aftur til landsins og fór að stílisera viðskiptavini. Hann var snillingur í umbreyt- ingu; bjó til, skapaði heildarútlit þar sem snyrting, hár og fatn- aður umbreytti konunni algjör- lega. Hugsjónin var komin og þætt- irnir í sjónvarpinu báru af. Oft sagði ég við hann: Ekki gera meira, þú ert bestur í þessu, en hann brann fyrir að hanna hár- greiðslustofu sem væri á heims- mælikvarða og hannaði falleg- ustu stofu landsins á Höfðatorgi. Tíminn flaug og allt í einu stoppaði allt! Kalli, þessi fallegi og hugmyndaríki drengur, varð óvinnufær. Jafnaðargeðið sem Kalli sýndi öll þessi ár í veikindunum var einstakt en hann gafst aldrei upp. Blessuð sé minning hans. Elsa Haraldsdóttir hárgreiðslumeistari. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför systur minnar og frænku okkar, HILDAR SOLVEIGAR PÁLSDÓTTUR. Einnig er starfsfólki Droplaugarstaða þökkuð hlý og góð umönnun á liðnum árum. Fyrir hönd aðstandenda, Jóninna Margrét Pálsdóttir Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SVAVA STEINUNN INGIMUNDARDÓTTIR frá Hrísbrú, búsett í Reykjavík, Melseli 7, lést fimmtudaginn 30. janúar á Landspítalanum við Hringbraut. Útförin fer fram frá Seljakirkju þriðjudaginn 18. febrúar klukkan 11. Elínborg Sigurðardóttir Jón Ingi Sigurðsson Linda Jóhannsdóttir Heiðdís Sigurðardóttir Sigvaldi Sveinbjörn Einarsson Heiðrún Sigurðardóttir barnabörn og barnabarnabörn Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ÓSK ÁSGEIRSDÓTTIR, sem lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri miðvikudaginn 5. febrúar, verður jarð- sungin frá Snartarstaðakirkju laugardaginn 15. febrúar klukkan 13.30. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vildu minnast hennar er bent á Kvenfélagið Stjörnuna, kt. 451291-2039. Reikningsnúmer 0179 15 555225. Marinó Eggertsson Sigríður Benediktsdóttir Eggert Marinósson Haukur Marinósson og fjölskyldur Ástkær eiginmaður minn, sonur, faðir okkar, tengdafaðir og afi, GUÐJÓN KRISTINN HARÐARSON, Seljalandsvegi 67, Ísafirði, lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða laugardaginn 1. febrúar. Útför hans fer fram frá Ísafjarðarkirkju föstudaginn 14. febrúar klukkan 14. Ólöf Bergmannsdóttir Margrét Kristín Jónasdóttir Katrín M. Guðjónsdóttir Marius Ciprian Mainescu Sigríður G. Guðjónsdóttir Úlfar Már Sófusson Heiða Björk Guðjónsdóttir Ingvar Karl Ingason Bergmann S. Guðjónsson og barnabörn Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma, ELÍSABET GUÐNÝ HERMANNSDÓTTIR, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni laugardaginn 8. febrúar. Sigríður Indriðadóttir Margeir Pétursson Einar Páll Indriðason Halla Halldórsdóttir og barnabörn

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.