Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.04.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.04.2020, Blaðsíða 15
19.4. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 en ég var á hinn bóginn tilbúin að hella upp á kaffi og hjálpa til við fjáraflanir.“ Áhuginn óx þó hratt og áður en hún vissi var Anna komin á námskeið. „Ég hélt alltaf að björgunarsveitarfólk þyrfti að vera í svakalegu formi, klifrandi upp um allt og þess háttar, en áttaði mig fljótt á því að þetta er í raun fyrir alla. Ég hef verið virk í þessu starfi síðan.“ Hún segir algengara nú en þá að fólk byrji á öllum aldri í björgunarsveitum sem sé af hinu góða enda sé fjölbreyttur bakgrunnur sveitar- manna augljós styrkur. – Verður þetta lífsstíll? „Já, það verður það. Sérstaklega hjá okkur sem erum mjög virkir þátttakendur í starfinu. Björgunarsveitin verður manns önnur fjöl- skylda, bæði sveitin sem maður er í sjálfur og á landsvísu. Manni er alls staðar vel tekið. Maður fær líka heilmargt út úr þessu, fyrir ut- an að aðstoða fólk í neyð, svo sem spennu og ferðalög um þetta fallega land.“ Úr steinsteypu í storminn Kjölur er lítil sveit á landsmælikvarða, með ell- efu meðlimi og þar af aðeins sex til sjö mjög virka. Anna segir fjöldann hafa verið nokkuð stöðugan frá 2002 en lítið megi út af bera. Ung- lingadeildin Stormur starfaði innan Kjalar um tíma en liggur nú niðri, þar sem eldri félagar hafa einfaldlega ekki tíma til að sinna ungliða- starfinu. „Við eigum fullt í fangi með að sinna útköllum og öðrum grunnþáttum starfseminnar og megum ekki við miklu. Gengju einn til tveir af virkustu félögunum úr skaftinu er óvíst að við gætum haldið áfram. Það er áhyggjuefni.“ Sjálf hyggst hún halda ótrauð áfram, alltént meðan „maður getur gert gagn og fær eitthvað til baka“. Eins og fyrr sagði flutti Anna upp á Kjal- arnes ásamt eiginmanni sínum, Theodóri Theodórssyni landfræðingi, og börnum þeirra sem þá voru þrjú talsins árið 1993. Síðar bætt- ust tvö börn til viðbótar í hópinn. „Við komum úr steinsteyptri blokk í Selja- hverfinu, þar sem aldrei heyrðist í vindi. Það voru því mikil viðbrigði að flytja í timburhús í Grundarhverfi í desember. Hjónaherbergið er áveðursmegin og það brakaði og brast í húsinu þegar gerði vind, einkum í mestu hviðunum, og við sváfum eiginlega ekkert fyrr en um sum- arið. Við efuðumst því eðlilega í fyrstu um að við hefðum tekið rétta ákvörðun. Það tók okk- ur mörg ár að venjast þessu og við eigum ennþá okkar slæmu nætur.“ Meðal ráðstafana sem Anna og Theodór gripu til var að setja þykkara gler í gluggana áveðursmegin og flytja út úr hjónaherberginu. „Við höfum ekki flutt aftur þangað inn,“ segir hún brosandi og bætir við að þau finni minna fyrir vindi en áður, meðal annars vegna þess hversu vel gróður hefur dafnað og hækkað í hverfinu og veitir fyrir vikið betra skjól. Fyrsta kastið segir Anna það hafa veitt þeim öryggiskennd að límmiði með nöfnum og símanúmerum félagsmanna í Björgunarsveit- inni Kili var innan á skáphurð í húsinu en starf sveitarinnar var þá í blóma. „Það reyndi sem betur fer aldrei á það en þetta átti eigi að síður þátt í því að mig langaði síðar að styðja við sveit- ina.“ – Kjalarnes er þjóð- þekkt „rokrassgat“. Er sú umræða þá sanngjörn? „Já, hún er alveg sann- gjörn. Það getur orðið mjög hvasst hérna. Það gleymist á hinn bóginn stundum að við erum líka með algjöra logndaga; þar sem víkin er eins og speg- ill. Síðan er yfirleitt mjög snjólétt hérna, snjórinn fýkur einfaldlega í burtu. Það er líka alltaf aðeins hlýrra hérna en í bænum, að jafnaði einni til tveimur gráðum. Ég man mest eftir að mælirinn í bílnum mín- um hafi sýnt þremur gráðum hærri hita á Kjal- arnesi en í Mosfellsbæ. Bæjarstæðið hlýtur því að teljast vera gott, burtséð frá vindi. Þess ut- an býr vindurinn auðvitað til verkefni fyrir björgunarsveitina.“ Dönsk og ekki dönsk Önnunafnið kemur auðvitað ekki upp um hana en Lyck Filbert bendir til þess að hún sé af er- lendu bergi brotin. Stemmir það? „Já, það er rétt,“ svarar Anna. „En ég fædd- ist samt á Íslandi. Foreldrar mínir voru á hinn bóginn báðir danskir og kynntust hér á landi. Pabbi var málarameistari og kom hingað til að vinna strax eftir stríð. Mamma kom seinna; hafði ráðið sig í vist á Grænlandi en þegar það brást kom hún hingað. Við erum þrjár syst- urnar, allar fæddar á Íslandi. Ég á svo einn bróður sem fæddist í Danmörku eftir að við fluttum þangað þegar ég var tólf ára.“ Anna segir móður sína hafa fengið heimþrá og þess vegna hafi fjölskyldan söðlað um. Það voru mikil viðbrigði fyrir Önnu. „Mér fannst gaman að fá tækifæri til þess að kynnast öllu tómstundastarfinu sem var í boði í Danmörku, eignaðist hjól og synda í sjónum. Á sama tíma fannst mér erfitt að hafa frítímann svona skipulagðan og umhverfið „tamið“. Ég saknaði frelsisins sem fylgdi því að dunda sér í móum og víðar, hafa ofan fyrir sjálfri mér. Ég sakn- aði einnig síbreytileikans í veðrinu, víðátt- unnar og útsýnisins á Íslandi. Í Danmörku þurfti að horfa upp í loft til þess að sjá him- ininn og þá fékkst samt aðeins brot af honum.“ Anna segir systurnar alltaf hafa talað ís- lensku sín á milli meðan fjölskyldan bjó hér en foreldrar þeirra svarað á dönsku enda þótt þau töluðu bæði prýðilega íslensku. „Pabbi bjó hérna í 25 ár og mamma í sautján og þau höfðu alla tíð sterkar taugar til landsins,“ segir Anna. Faðir hennar er fallinn frá en móðir hennar á lífi, að nálgast nírætt. „Það besta sem mamma fær að borða er til dæmis svið. Hún er vitlaus í þau. Ætli megi ekki segja að við höf- um fengið það besta frá báðum löndum.“ Anna hugsaði alltaf með söknuði til Íslands og þegar hún var tvítug ákvað hún að snúa aft- ur; sótti um og fékk sumarstarf við landmæl- ingar. Og örlögin létu ekki bíða eftir sér. Hún lenti 17. júní og daginn eftir hóf hún störf. Í vinnuhópnum hennar var ungur maður, téður Theodór Theodórsson. Þar með varð ekki aftur snúið. „Með réttu má segja að við höfum kynnst á fjöllum,“ segir Anna hlæjandi, „og eft- ir það langaði mig aldrei aftur til Danmerkur.“ Alltaf kunnað að meta frelsið Hún sér ekki eftir því að hafa sest hér að. „Ég hef alltaf kunnað að meta frelsið á Íslandi. Hér er ekki eins mikið um boð og bönn og í Dan- mörku. Svo er náttúran miklu meira heillandi hérna, ekki síst hálendið, þar sem ég kann sér- staklega vel við mig. Ég er með íslenskt vega- bréf og líður meira eins og heima hér en ætli það sé ekki bara mín gæfa í lífinu, að vera bæði Íslendingur og Dani?“ Hún brosir. Anna kom bara með dönskuna í farteskinu þegar hún var tvítug og kveðst hafa þurft að læra íslenskuna upp á nýtt. Merkilegt sé hvað hægt sé að tapa tungumáli hratt niður, sé því ekki sinnt, en hún hafi verið fljót að ná valdi á íslenskunni aftur. Í dag er engin leið að heyra á mæli hennar að hún hafi um tíma átt annað móðurmál. Seinna unnu systur hennar báðar í eitt ár á Íslandi en sneru aftur til Danmerkur eftir það. Anna segir þær skilja ís- lenskuna ágætlega en eiga erfiðara með að tala hana. Anna vann í nokkur sumur með Theodóri og fleirum við landmælingar en sem tækniteiknari á stofu á veturna. „Ég lærði tækniteiknun á sínum tíma en það er allt úrelt núna. Ég vann fleiri störf á yngri árum en eftir að börnin fæddust hef ég að mestu verið heima- vinnandi. Það á ágætlega við mig og fer, eins og við höfum komið inn á, vel með björgunarsveitarstörfunum.“ Saknar sundsins mest Talið berst í lokin óhjákvæmilega að ástandinu í landinu og heiminum öllum vegna kórónu- veirunnar. Anna er á því að vel hafi gengið að eiga við faraldurinn hér á landi en mikilvægt sé að halda uppteknum hætti enn um sinn svo skaðvaldurinn kom ekki aftan að okkur. „Alla jafna er ég óþolinmóð týpa sem á erfitt með að hlýða boðum og bönnum en við að- stæður sem þessar þurfum við öll að standa saman. Þetta hefur vanist ágætlega og maður leggur að sjálfsögðu sitt af mörkum. Ósjálf- rátt. Ég er bjartsýn að eðlisfari og hallast að því að best sé að taka einn dag fyrir í einu. Sjálf er ég í áhættuhóp, orðin rúmlega sextug og hef haldið mig mest heima. Ég sakna sundsins mest en ég fer yfirleitt á hverjum degi; vatnið á ofboðslega vel við mig. En það verður bara að bíða. Eins að hitta sína nánustu sem ekki búa á heimilinu.“ Af augljósum ástæðum heldur móðir Önnu sig heima og fær sendan til sín mat. „Mamma er mikil félagsvera og á erfitt með að fá engar heimsóknir. En sem betur fer kann hún á tölvu, þannig að við heyrumst reglulega.“ Erfiðast þykir Önnu að sjá ekki framtíðina almennilega fyrir sér en treystir yfirvöldum og þríeykinu góða til að leiða okkur með farsæl- um hætti út úr þessu flókna ástandi. „Verandi heimavinnandi á ég ekki svo mikið undir sjálf, margir munu fara verr út úr þessu fjárhags- lega en ég, en vonandi verður hægt að tak- marka skaðann til lengri tíma litið. Samt hefur maður áhyggjur af því að þetta sé ekki búið í einni umferð.“ Þetta eru að sönnu ótrúlegir tímar. „Það að einn hnerri í Asíu geti lagt fólk í rúmið hérna uppi á Íslandi sýnir okkur að heimurinn er þrátt fyrir allt mjög lítill. Það mun taka langan tíma að gera þennan faraldur upp en þó ekki eins langan tíma og það tók að gera upp hrun- ið. Reiðin var svo mikil þá. Það er seigt í Ís- lendingum; það sáum við einmitt í hruninu. Hér fórnar ekki nokkur maður höndum þegar kreppir að, segir að allt sé ómögulegt og bíður eftir að næsti maður taki af skarið. Ætli það sé ekki nábýlið við náttúruöflin; við erum vön að eiga við ofurefli að etja. Og náttúruöflunum er alltaf fyrirgefið. Ætli það verði ekki eins með þessa veiru. Á endanum.“ „Eins og landsmenn þekkja þá erum við ýmsu vön hérna á Kjal- arnesi þegar kemur að hvassviðri og kippum okkur ekki upp við gular og jafnvel appelsínugular veðurviðvaranir enda þótt við sofnum auðvitað aldrei á verð- inum,“ segir Anna Lyck Filbert. Morgunblaðið/Eggert Á ýmsu gekk í ofsaveðrinu á Kjalarnesi 14. febrúar síðastliðinn. Þak fauk til að mynda að hluta af þessu fjölbýlishúsi. Morgunblaðið/Eggert ’Björgunarsveitin verðurmanns önnur fjölskylda,bæði sveitin sem maður er ísjálfur og á landsvísu. Manni er alls staðar vel tekið. Maður fær líka heil- margt út úr þessu, fyrir ut- an að aðstoða fólk í neyð, svo sem spennu og ferðalög um þetta fallega land.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.