Austri


Austri - 29.03.1990, Side 4

Austri - 29.03.1990, Side 4
4 AUSTRI Egilsstöðum, 29. mars 1990. Austiaspuming Gerir þú samanburð á vöru verði í verslunum? össur Torfason, Fellabæ. — Jú, ég geri það nú alltaf eitthvað, en ég er nú heldur latur við það. Það er erfitt að fylgjast með því. Gunnar ÓIi Hákonarson, Egilsstöðum. — Nei aldrei. Ég fylgist lítið með verðinu og fer sjaldan út að versla. Anna Fía Emilsdóttir, Vallahreppi. — Já, ég geri það nú stundum, en samt ekki-nóg. Þorbjörg Jóna Kristjánsdóttir, Fellahreppi. — Já, ég geri það nú. Yfirleitt er þó ekki mikill munur á verði milli verslana, en það er þó betra að fylgjast með. Gunnar Stefánsson, Reyðarfirði. — Já, yfirleitt geri ég það. Það er verðmunur að vissu marki milli verslana. Þórarinn Lárusson, Skriðuklaustri. — Jú, ég er farinn að gera það svona á seinni árum. Ég gerði það ekki þegar ég var yngri. MINNING Jón Sigurðsson Fæddur 28. júlí 1920 Dáinn 14. mars 1990 Mágur minn, Jón Sigurðsson, andaðist á Borgarsjúkrahúsinu þann 14. mars sl. eftir stutta sjúkrahúslegu. Hann var fæddur á Finnsstöðum í Eiðaþinghá 28. júlí 1920. Sonur hjónanna Sigurðar Steindórssonar og Guðnýjar Jónsdóttur, sem þá bjuggu þar. Flutfu síðan í Miðhús í sömu sveit 1926 og bjuggu þar til ársins 1951 að þau hættu búskap. Við ólumst upp í Eiðaþinghánni og vorum því kunningjar frá ungl- ingsárum og vorum mikið saman í starfi og leik. Þá voru aðrir tímar en nú, engin véltækni komin í landbúnaðinn. Þá unnu menn allt með handverkfærum og var það erfiðara en nú gerist. Nú er nærri allt unnið með vélum. Yfirleitt var þá ekki unnið á sunnudögum og við strákarnir í Eiðaþinghánni vorum ólatir að koma saman í knattspyrnu á hverjum sunnudegi. Og náðum það góðum árangri að við unnum oftast nágrannalið sem keppt var við. Jón var mjög dug- legur og góður knattspyrnumaður og seinna ágætur í leikfimi eftir að hann var í Eiðaskóla. Hann ólst upp við venjuleg landbúnaðarstörf og var mjög duglegur og laginn við allt sem hann gerði. Hann fór í Eiðaskóla 1939 og lauk námi þaðan. Pá var Eiðaskóli alþýðuskóli með tveggja vetra námi. Eftir skólaveruna fór hann að vinna mikið að heiman en var oft heima við búskapinn ef á þurfti að halda. Árið 1947 keypti hann vörubíl og stundaði mikið vegavinnu og aðra keyrslu sem til féll. En átti alltaf heima á Miðhúsum á þeim árum. Þau voru sex Miðhúsasystkinin, fjórar systur og tveir bræður. Elst var Anna Björg, húsfreyja Stein- holti, fædd 11.01.1915, dáin 10.09.1979. Hún var gift undirrit- uðum. Næstur var Magnús, bóndi í Stakkahlíð í Loðmundarfirði, fluttist á Seyðisfjörð, fæddur 14.11.1917, dáinn 17.04.1983. Eftirlifandi kona hans er Ásta Stefánsdóttir frá Stakkahlíð. Þriðji í röðinni var Jón. Þá Ingunn, húsfreyja, Fjallsseli Fellum, fædd 13.05.1923, dáin 25.04.1985. Eftirlifandi maður hennar er Eiríkur Einarsson frá Fjallsseli. Svo er Sveinbjörg, hús- freyja, Kirkjustíg 8, Eskifirði. Maður hennar Hallgrímur Einars- son, skrifstofumaður frá Fjallsseli. Hún er fædd 12.02.1930 og yngst er Steindóra, húsfreyja, Fagra- hjalla 4, Vopnafirði, fædd 13.03.1932. Hennar maður er Sveinn Sigurðsson, útgerðarmað- ur. Jón kvæntist eftirlifandi eigin- konu sinni Lilju Maríu Petersen, lækni, 19. nóvember 1949 en þá starfaði hún sem aðstoðarlæknir við Sjúkraskýlið á Egilsstöðum, sem þá var nýlega tekið í notkun. Dvöldu þau á Miðhúsum sumarið 1950 en flytja til Reykjavíkur um haustið. Hófu þau búskap í Skóla- stræti 3 og bjuggu þar í 10 ár en keyptu þá íbúð í Mávahlíð 2 og hafa búið þar síðan. Eignuðust þau fimm mannvæn- leg börn, sem öll eru á lífi og hafa stofnað sín eigin heimili. Elst er Birna, læknir, næstur er Sigurður, sölustjóri, Guðný, barnfóstra, þá Hans Pétur, framkvæmdastjóri og yngst Guðrún, kennari. Barna- börnin eru orðin 14. Jón Sigurðsson. Jón átti sendiferðabíl fyrstu árin en 1953 gerist hann leigubílstjóri á Bifreiðastöðinni Hreyfli og starfar þar til æviloka. Auk þess starfaði hann mörg ár sem ökukennari og um tíma rak hann söluturn á Hlemmtorgi. Jón var heilsteyptur maður. Hann var ákveðinn í skoðunum og lét þær í ljós tæpitungulaust í umræðum. Hann var félagslyndur og tók virkan þátt í félagsstörfum í þeim félögum, sem hann var í. Ég hef áður minnst á knattspyrnuna og íþróttir. Og hann var einnig mjög virkur félagi í Samvirkjafél- agi Eiðaþinghár, en svo heitir ung- mennafélagið sem enn er starf- andi. Þá er mér kunnugt um að hann var mikið í félagsskap þeirra Hreyfilsmanna t.d. í Bridgefélag- inu og vann oft til verðlauna í keppnum þar. Hann var gæddur miklum keppnisanda, vildi ekki láta hlut sinn fyrir öðrum, en ávallt drengilegur í keppni. Jón var alltaf Austfirðingur í anda þó árunum fjölgaði sem hann bjó í Reykjavik. Kom austur af og til, stundum bæði hjónin, Lilja og Jón. Ég held að honum hafi alltaf fundist hann vera kominn heim þegar hann kom á sínar æskuslóð- ir. “Römm er sú taug, sem rekka dregur föðurtúna til.“ Ég og mín börn eigum þeim hjónum, Lilju og Jóni, mikla skuld að gjalda, sem aldrei verður full- goldin, fyrir alla þá vináttu og fyrirhöfn sem þau hafa látið okkur í té á umliðnum árum. Við höfum ævinlega verið velkomin til þeirra í Mávahlíðina eins og við segjum okkar á milli. Þar hefur verið okkar heimili í borginni hvort sem um lengri eða skemmri dvöl hefur verið að ræða. Jón var alltaf boðinn og búinn að aka okkur um borgina í ýmsum erindum og sýna manni sitt af hverju, sækja á flugvöllinn og koma okkur þangað aftur þegar heim var snúið. Og það var séð fyrir því að engum leiddist á meðan dvalið var í Mávahlíðinni. Sama er að segja um börn þeirra hjóna. Þau hafa ævinlega sýnt mér vináttu og hlýju og gert mér greiða ef um það hefur verið að ræða. Fyrir þetta allt vil ég, með þessum fátæklegu línum, þakka þér Lilja og þínum börnum. Nú er orðið of seint að þakka honum persónu- lega, en ég geri það í anda og til- beiðslu. Ég votta ykkur innilega samúð mína og bið Guð að styrkja ykkur og styðja í sorg og söknuði. Öll getum við þakkað fyrir minning- una um góðan og kæran vin. Blessuð sé minning hans. Ingvar Friðriksson, Steinholti. Umsjón: Sigurður Óskar Pálsson. / I hendingum Sigurður Karlsson í Laufási í Hjaltastaðaþinghá hafði sam- band við mig fljótlega eftir að síðasti þáttur birtist. Hann kann vísuna “Dropinn holar “ sem þar er prentuð og þekkir á henni tvennskonar orðalag þótt ekki muni miklu. í fyrsta lagi það sama og Svava á Snælandi ritar og í öðru lagi: Dropinn holar bergið blátt, ber svo til, hann fellur þrátt. í síðari hluta vísunnar ber ekkert á milli. Óneitanlega er rökréttara að segja hann (dropinn) fellur, hvort sem um er að ræða upprunalegt orðalag eða endurbót. Mig fer að gruna, að erindið hafi verið allvel þekkt á Héraði. Ólína Sigurgeirsdóttir, sem kenndi dótturdóttur sinni það niðri á Borgarfirði fyrir margt löngu, var frá Galtastöðum út í Hróarstungu. Þegar ég var að taka saman þáttinn með gömlu vísunum frá Svövu á Snælandi datt skyndi- lega inn í kollinn á mér staka, sem ég heyrði oft hafða yfir í æsku, en hefur ekki komið mér í hug árum eða jafnvel ára- tugum saman: Hér er verið að hleypa ost. Hann mun eiga að geyma þar til koma þorrafrost. Það á að borða hann heima. Stökuna þá arna var mér sagt að kveðið hefði vinnumaður á bóndabæ einhvern tíma fyrir löngu. Aldrei heyrði ég bæinn nefndan ellegar vinnumanninn. Þetta er undur einföld vísa eins og allir geta séð. Vinnumaður- inn kemur inn í eldhúsið þar sem starfað er að ostagerð. Fögnuðurinn og tilhlökkunin leynir sér ekki í orðum hans, eða hvað? Vísunni fylgdi lítil saga: Hjúin á bænum þóttust ekkert ofmjúk í bakholdunum, enda matföng óspart út látin fyrir gjald í málminum rauða, sem hvarf ofan í kistuhandraðann. Stakan reynist því vera háðs- merki, haglega skorin sneið til húsbændanna. Hannes Sigurðsson (f. 1861, d. 1945), sem lengi var hrepp- stjóri Borgfirðinga, fór oft með þessa vísu, að mér er sagt: Nú er tíðin næsta bág, nógan hefur drifið snjá. Húfi liggur Hvalvík á hrófum tótta dauður hjá. Af orðum, er Hannes hafði látið fylgja vísunni, er ljóst að Húfi var nautgripur, en hvort hann var tarfur eða uxi vita menn nú ekki gerla. Vísan hlýtur að vera borgfirsk, hver sem höfundur hennar er. Hval- vík er lítil vík milli Brúnavíkur og Kjólsvíkur, og þar eru hróf tótta, þótt byggð muni hafa verið þar stopul um aldirnar. Síðast var þar byggt upp árið 1832, að því er heimildir greina og stóð sú byggð um áratugar skeið. Vísan um Húfa er býsna hag- lega gerð. Hún er kveðin undir samhendum hætti, eins og vísan um dropann, sem mér hefur orðið svo tíðrætt um. Dropavís- una vil ég í bragarháttafáfræði minni mega kalla óbreytta sam- hendu, hvað sem lærdómsmenn í rímkonstum kunna um það að segja, því hún hefur aðeins endarím. Þessi hefur hér að auki rím fremst í ljóðlínum og rímar saman upphaf fyrstu og þriðju svo og annarrar og fjórðu ljóðlínu. Grunar mig því, að erindið geti talist víxl- framrímuð samhenda. Hafi ég á hinn bóginn lesið fræðin rangt segi ég bara eins og Mörður Valgarðsson í Njálu: “Vil ek eiga rétting allra orða minna, unz ek kem máli mínu til réttra laga.“ - Og er ekki leiðum að líkjast. Með bestu kveðju. S.Ó.P. Ljósmyndasafnið á Egilsstöðum: Af hverjum er myndin? Ef lesendur vita af hverjum myndin er þá vinsamlegast komið upplýs- ingum til Sigurðar Pálssonar á Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum, sími 11417 eða Guðrúnar Kristinsdóttur Safnastofnun Austurlands, sími 11451.

x

Austri

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austri
https://timarit.is/publication/792

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.