Austri


Austri - 17.12.1998, Side 13

Austri - 17.12.1998, Side 13
Jólin 1998 AUSTRI 13 Fyrsta dagbókin mín Dagbókin mín hefst á því 8. maí 1939 að ég hef sleppt sauðfé af húsi. Það bendir margt til þess að það hafi verið góð tíð og jafnvel farið að slá í jörð. Þessir dagbókarpunktar eru byrj- un á að ég hef skrifað dagbók að mestu leyti óslitið síðan. Heldur nú dagbókin áfram. Kýmar lét ég út 21. maí og sama dag fór ég og smalaði saman ánum til sauðburðar. 22. maí var stórrign- ing, en 27. maí var verið að ljúka við að setja niður kartöflur í garð- inn. Það hefur verið fyrr á ferðinni en nú er gert. Mikið gerði ég af því að rista þökur ofan af þúfunum í túnunum, plægði þær síðan og herfaði með hestaverkfærum og 7. júní var ég að ljúka við að þekja stóra sléttu. 12. júní var svo mikið frost að kart- öflugrös féllu í görðum og það sá mikið á grasi, svo jörðin skipti um lit, en 14 júní var smalað og geldfé rúið. 22. júní var aftur smalað og allt fé rúið. Þá var farið að þvo ull- ina í stórum potti sem settur var á hlóðir út við bæjarlækinn. Þar var ullin soðin í pottinum og síðan skol- að vel úr henni í læknum og síðan breidd á jörðina til þerris. 24. júní er byrjað að slá. Þá var slegið með orfi og ljá og var dagslægjan misjöfn eftir manninum. Það fór eftir því hvað hann var laginn að dengja og brýna ljáinn. Þetta sumar keyptum við Friðrik Jónsson bóndi á Þor- valdsstöðum okkur hestasláttuvél í félagi og gat ég slegið smá bletti með henni og fékk ég 93 hesta af töðu af túninu. Allt hey var rakað með hrífum, það var snúið í flekkn- um með hrífum, flekknum síðan rakað saman, söxuð föng og sett á reipi. Þá fóru karlmaður og kven- maður að leggja böndin yfir sátuna, draga í hagldirnar og karlmaðurinn steig upp á baggann, tók í böndin, steig baggann til og reirði hann saman. Svo veltu þau honum við, reirðu böndin saman og karl- maðurinn hnýtti aðgjörðina. Þá var eftir að taka utan úr baggan- um og gerðu þau það bæði, tutl- uðu allt laust hey utan af honum. Síðan var bögg- unum velt út úr flekknum og lagðir á hliðina. Hestur eða hestar með klifbera voru teymdir inn á milli bagganna og þá voru þeir látn- ir upp á hestana og krakki látinn teyma þá heim að hlöðunni. Þar var þá maður sem gat tekið niður af hestunum, velt böggunum inn í hlöðuna, leyst af þeim böndin og jafnað úr sátunni yfir heystálið. Þessi hirðing var margbrotin og mikið verk, en svona var heyskapur unninn frá alda öðli. 9. júlí kom Nikulás Einarsson. Hann var sonur Sigríðar Guð- mundsdóttur í Flögu sem var tengdamóðir mín og Klara Helga- dóttir kona hans. Hún var að koma í fyrsta skipti í Flögu. Ég fór á móti þeim austur á Jókuaur með hesta. Nikulás hafði fengið lömunarveiki norður á Akureyri þegar hann var þar í menntaskóla og var alla tíð mikið fatlaður, þó einkum á öðrum fæti. Klara fékk berkla ung, var mikið lömuð og hafði legið mörg ár á sjúkrahúsi. Nikulás gat setið á hesti þegar búið var að koma honum á bak, en Klara gat gengið í hægðum sínum og leiddi ég hana. Ég bar hana í fanginu yfir báðar dalsárnar. Þegar heim var komið var þeim búin veisla. Nikulás fór að hafa orð á því hvort ekki væri þörf á að hugsa eitt- hvað um hann Stefán, blautan upp úr ánum, en Þórunn sagði að hann gæti nú hugsað um sig sjálfur. Þór- unn var kona mín og systir Nikulás- ar. Klara og Nikulás höfðu komið með bíl frá Egilsstöðum eða Reyð- arfirði upp á Jókuaurinn á móti Þingmúla og engar brýr komnar á þverárnar. Nokkrum árum síðar fékk Nikulás sérhannaðan bíl og gat keyrt hann. Kom hann einu sinni á honum austur og skildi hann eftir í Stóra- Sandfelli. Ég heyrði talað um að Eysteinn Jónsson þingmaður og ráðherra hefði komið Nikulási í vinnu á skattstofunni og eins mun hann hafa staðið að því að hann fékk bílinn. Að þessu sinni dvöldu þau hér í Flögu í tvær vikur. Með komu sinni fluttu þau með sér glað- an og hressandi blæ í bæinn. Þau voru glaðlynd og skemmtileg og þá ekki síður Klara. Mér fannst eins og heldur væri litið niður á mig hér í Flögu, en það gerði hún Klara ekki, hún vék ætíð vel að mér meðan við bæði lifðum. 9. ágúst lenti hann Björn Pálsson lítilli flugvél á Jókuaurnum fyrir neðan túnið á Arnhólsstöðum. Björn var frá Arnhólsstöðum og foreldrar hans bjuggu þar lengi og áttu mynd- arleg börn sem komust vel á legg, en eru nú öll dáin nema Sesselja sem nú dvelur á elliheimilinu Grund 86 ára. Björn tók nokkur ungmenni og flaug með þau um dalinn. Hann var landinu kunnugur og var braut- ryðjandi með sjúkraflug hér á landi og flaug til allra staða sem hann var kvaddur til og hlekktist aldrei á. Það var hörmulegt að hann skyldi farast í flugslysi, en þá var hann farþegi í lítilli flugvél sem var á leið frá Ak- ureyri til Reykjavíkur í slæmu skyggni. 16. september var lokið hér hey- skap og var hey alls 375 hestar. Grasspretta var sæmileg og hey- skapartíð hagstæð. 30 september snjóaði hér mikið til fjalla og ég smalaði og hýsti ærnar. Tíðin hefur skánað því kýr eru ekki teknar inn fyrr en 24. október. 9. nóvember kom bylrytja, þá snjóaði í fyrsta skipti niðri á láglendi í dalnum. 11. nóvember var blind bilur og ég gaf hey í fyrsta skipti á vetrinum. 26. nóvember fór ég með Þórunni á hestum yfir Þórdalsheiði til Reyðar- fjarðar. Hún var að fara með skipi til Reykjavíkur að sækja lítinn dreng sem fæddur var 7. nóvember og okkur var gefinn af einstæðri móð- ur, Höllu Soffíu Hjálmarsdóttur. Þórunn kom aftur með drenginn með skipi til Reyðarfjarðar 4. des- ember, en ég fór þá gangandi yfir Þórdalsheiði til að sækja þau. Dag- inn eftir fórum við með hann á bíl yfir Fagradal og í Ketilsstaði á Völl- um og gistum þar hjá Friðborgu Einarsdóttur systur Þórunnar og hennar manni Ósvald Nielsen. Ég hafði gert ráðstafanir til þess að fá hesta á móti okkur og ég reiddi hann á hesti inn að Flögu og varð honum ekki meint af ferðinni. Hann var skírður í Þingmúlakirkju af herra Sigurgeiri Sigurðssyni bisk- upi. Nafnið hlaut hann að ráði Þór- unnar Haukur Eyþór, en hann var alltaf kallaður Eyþór. Síðar þegar hann fór í Eiðaskóla voru nemend- ur skráðir réttum skímarnöfnum. Þá þoldi Eyþór ekki Hauks nafnið sem föðurnafn og fékk því breytt með hjálp góðra manna og var hann skráður Eyþór H. Stefánsson. Mér hefur ávallt síðan fundist að foreldr- ar þyrftu að gæta vel að föðumafni þegar þau em að velja nöfn á bömin sín. Stefán Bjarnsson í Flögu J ólasaga Það var í Keflavík á Þorláksmessu fyrir jól- in 1984. Ég vaknaði við að síminn hringdi, ég hafði verið frameftir kvöldið áður við jóla- undirbúning. Ég leit á klukkuna, hún var orð- in 11 að morgni, ég tók upp símann. Það var hún Guðrún á Fjórð- ungssjúkrahúsinu í Nes- kaupsstað. Hún tilkynnti mér að amma mín væri orðin mikið veik og gæti brugð- ist til beggja vona, hún var orðin 98 ára gömul. Þetta var mér mikill harmur, jólin að koma og ég svona langt í burtu. Eins og allir vita er alltaf erfitt um flugsamgöngur um þetta leyti árs og Oddskarð, sem liggur á milli Eskifjarðar og Neskaup- staðar, er oftast ófært vegna snjóa. Það sem fyrst hvarflaði að mér var að fara austur, því þegar ég var yngri, hafði ég lofað henni að ég skyldi vera hjá henni, svo hún þyrfti ekki að deyja alein, enginn af hennar fólki hjá henni. Því áður átti hún heima á Eskifirði, þangað til hún veiktist og var flutt á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað og þar var ekkert af hennar ættmennum. Hugur minn fór á fleygiferð, jólin að koma, dóttir mín og tengdasonur höfðu komið frá Isafirði til að vera hjá okkur um jólin, sonur minn 22ja ára og dóttirin 13 ára og svo eiginmaðurinn voru öll heima. Nú var út vöndu að ráða. En fólkið mitt hvatti mig til að fara og þáði ég það feg- ins hendi. Ég hringdi inn á flugvöll og var tjáð að ekk- ert sæti væri laust í vél til Egilsstaða. Ég út- skýrði fyrir þeirri sem ég talaði við, hvernig málum væri komið og ég vildi ekki gefast upp. Hringdi aftur kl. 3 eh. inn á Flugfélag og þá var mér sagt að flýta mér inneftir því vélin færi kl. 4. Maðurinn minn keyrði mig og við rétt náðum og flugið tekið til Egilsstaða. Þeg- ar ég kom þangað var ég áfram heppin, því þaðan var rúta beint á Neskaup- stað. Leiðin liggur um Eski- fjörð, þar stoppaði rútan og tók farþega. Þá sá ég að þar voru komnir frændi minn og vinur sem færðu mér kaffi á brúsa, þeir vildu hressa upp á ferðalang- inn. Þótti mér gott að fá kaffisopann og kannski var meira um vert hlýjan og vináttan, því við áttum sameiginlega ömmu. Síðan var haldið á Neskaup- stað, yfir Oddskarð flughált, en bíl- stjórinn var öruggur, enda vanur þessum ferðum. Svo það var bara að loka augunum og treysta á hann. Ég komst til ömmu og fékk að vera hjá henni einni á stofu og var hún mikið veik. Seinna þegar hún fór að hressast, sagði hún við konu sem kom í heim- sókn: „Fyrst hélt ég að ég væri með óráði og sæi Birnu, en þegar ég áttaði mig á því að þetta raun- verulega var hún, þá fór mér strax að batna”, og sú varð raunin á. Við áttum yndisleg jól saman og ég var svo glöð yfir að amma skyldi hafa orðið veik, þannig að ég flýtti mér til hennar. Ég hafði svo oft hugsað um hvað hún væri ein svona um jól og oftar. Hún hafði dvalið á Fjórðungssjúkrahúsinu í um átta ár og oft er svo erfitt um samgöngur þangað. Ég held að Guð hafi hagað þessu svona til fyrir okkur báðar, því ef amma hefði verið hress, hefði ég haldið mig heima um jól- in. Þau áttu líka gleðileg jól heima hjá mér, söknuðu reyndar mömmu og eiginkonu. Á aðfangadagskvöld var ég að hjálpa ömmu gömlu að opna bréf og pakka. Oft reyndist mér það erfitt, allir voru að þakka henni og áttu svo mikið að þakka. Athvarfið sem alltaf var hjá afa og ömmu í litla eldhús- inu var alltaf skjól, fyrir næðingi lífsins. Einn sagði: „Ég sendi þér þetta kerti og vona ég þegar þú kveikir á því getir þú vermt þér við góðar minningar liðinna jóla.” Stundum brást mér rómur og ég sá ekkert fyrir tárum. Ég hugsaði að það ljós sem þau gömlu hjónin tendruðu í hjörtum okkar, mættum við tendra í brjóstum okkar barna. Já, ég sé fyrir mér afa gamla, þann góða mann, síbrosandi og syngj- andi fyrir okkur, fara út í snjóbylinn með ein- hvern krakkann í fanginu svo bagsaði hann móti stórhríð og byl heim til mömmu með bam í fangi. En hún átti heima inn í bæ en við úti í bæ og oft var verið hjá afa og ömmu. Ég sé ömmu, þar fór enginn bónleiður til búðar, hún átti svo mikið af orðum öðrum til hugg- unar og styrktar. Ó, hve þú Guð ert góður Guð ég kem til þín. Frá minni fósturmóður, fyrst ég heyrði um orðin þín. Þú mig þroskað hefur það vil ég þakka þér. Þú mér mikið gefur. Ó, má ég þjóna hér. Þú gafst mér góða ömmu og afa að gceta mín. Sem bentu mér á markið og muna orðin þín. Nú stend ég hér í stafni, og stefni beint á þig. I herrans Jesú nafni nú nota mátt þú mig. Birna Zoph. A Sendum starfsfólki og viðskiptavinum innilegar jóla- og nýárskveðjur, Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða. Fossgerðisbúið jT

x

Austri

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austri
https://timarit.is/publication/792

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.