Austri - 17.12.1998, Page 14
14
AUSTRI
Jólin 1998
„Þegar hallar undan öðrum fætinum
má spyrna við með hinum“
- Heimsókn í Svartaskóg
í byrjun desember lagði ég leið
mína í Hlíðina til þess að hitta hjón-
in Helgu Jónsdóttur og Benedikt
Hrafnkelsson sem reka þar Hótel
Svartaskóg. Það var jólalegt að líta
heim að Svartaskógi - það vantaði
bara snjóinn og svolítið jólalegra
veður. Húsið var búið að skreyta
innan sem utan og fyrsta jólahlað-
borðið hafði verið kvöldið áður.
Þau hjónin eru búin að prófa
ýmis konar rekstur í sinni búskap-
artíð til þess að geta lifað og búið á
sinni jörð og nú í haust fengu þau
viðurkenningu á bændahátíð fyrir
áræðni og kjark í sinni viðleitni til
þess að skapa sér atvinnu í sveit-
inni. Það eru eflaust ófáir í sveitum
landsins í þeirra sporum - að vilja
búa í sinni sveit, en þurfa að finna
sjálfir út úr því að búa sér til af-
komumöguleika.
Þú ert fæddur og uppalinn í
Hlíðinni Benedikt og þekkir
hana væntanlega vel. Er þetta
sama sveit og þú ólst upp í?
Það hefur mikið breyst. Þegar
flest fólk var hér í sveitinni voru
hér um 166 manns, en núna eru hér
liðlega 80 íbúar. Þá var hér líka
mikið af ungu fólki. Það má segja
að við séum nýkomin inn á
tækniöld því rafmagn kom hér ekki
fyrr en 1971, en á sumum bæjum
var búið að raflýsa fyrr og notuðust
menn þá við ljósamótor. Heima var
raflýst 1966. Þá voru samgöngur lé-
legar, vegir niðurgrafnir og ófærir
strax á haustin. Ég man eftir því
þegar ég var krakki svona í kring-
um 1960 að það var farið í kaupstað
á haustin á vörubíl og keypt til
heimilisins. Þetta var stórt heimili
og það þurfti að kaupa mikið magn.
Síðan var jafnvel ekkert farið aftur
fyrr en á vorin. Þá var alltaf farið á
Reyðarfjörð í innkaupaferðir.
Svona ferð tók heilan dag. Það voru
póstferðir einu sinni í viku og hægt
að fá einhvern smávarning með
þeim.
Bara það að fara í Egilsstaði var
meiriháttar mál og reiknað með að
dagurinn færi í það. Það voru víða
hlið á veginum sem tímafrekt var
að opna, sérstaklega ef menn voru
einir á ferð, en þannig hagaði víða
til að girt var ofan í Jökulsá. Nú
skjótast menn í Egilsstaði helst á
hverjum degi og jafnvel oft á dag
og þykir ekkert mál. Það var mjög
mikið félagslíf - alltaf eitthvað um
að vera. Menn fóru á milli bæja á
skíðum yfir veturinn og hópuðust
saman á bæjunum. Það var spilað
og sungið og menn bjuggu til sín
skemmtiatriði sjálfir. Það kom ekki
sjálfvirkur sími fyrr en 1984.
Sveitasíminn gat haft sína kosti.
Þetta var aðal fréttamiðillinn, það
var hægt að halda fundi í símanum
og það var mjög algengt að menn
tefldu í gegnum síma. Nú eru sam-
göngurnar svo miklu betri, en fé-
lagslífið að sama skapi minna og
allt öðru vísi en það var.
Þú ert úr óvenju stórum systk-
inahópi. Var ekki sérstakt að al-
ast upp á svona stóru heimili?
Við erum 16 systkinin og fædd á
tímabilinu 1936 til 1959. Ekki
minnist ég þess að manni hafi fund-
ist þetta neitt sérstakt að vera úr
svona stórum systkinahópi. Stund-
um var enn fjölmennara því hér var
farskóli og var hann hluta úr vetrin-
um heima og þá bættust við 10-15
börn. Húsið var stórt og ekki held
ég að manni hafi fundist þröngt, en
það gekk oft mikið á og var ógur-
legur hávaði stundum aðallega í
stelpunum. Það var farskóli hér í
sveitinni langt fram á sjöunda ára-
tuginn og ég gekk í farskóla megn-
ið af minni skólagöngu. Farskólinn
var búinn að vera á flestum bæjum í
sveitinni. Tvö síðustu árin sem ég
var í skóla var kennt í gamla bæn-
um á Hrafnabjörgum.
En þú Helga, hvaðan kemur
þú?
Ég er úr Mjóafirðinum. Þar er ég
fædd og uppalin og á ættir að rekja
úr Mjóafirði og af Héraði. Mjói-
fjörður var ekki síður afskekkt
sveit en Hlíðin. Þaðan voru ferðir
einu sinni í viku með póstbátnum á
Norðfjörð. Vegur upp á Hérað kom
en um 1968 og það var varla vegur
heldur vísir að vegi, enda um erf-
iðan fjallgarð að fara. Það var mik-
ið um að vera á síldarárunum 1962
- 1967. Þá var byggt síldarplan og
stóðu menn frá Akranesi að því.
Þetta voru 5 eða 6 sumur sem síldin
hleypti miklu lífi í tilveruna hjá
ungum og gömlum. Það var mikil
vinna í kringum síldina, en
skemmtileg og allir unnu á planinu
yfir sumartímann sem það gátu
ásamt aðkomufólki.
Þegar ég var í skóla voru 8-12
krakkar í skóla í Mjóafirði. Við vor-
um öll í sömu stofunni frá 7 ára og
upp úr og Vilhjálmur Hjálmarsson
var kennarinn okkar og kenndi okk-
ur meðal annar gömlu dansana. Vil-
hjálmur var orðinn alþingismaður á
þessum árum og þegar hann þurfti
að sinna þingstörfum setti hann
okkur fyrir heimavinnu. Síðan fór
ég í Eiða eins og unglingar svo víða
á Austurlandi gerðu í þá daga.
Ég hef grun um að þið séuð
búin að prófa ýmislegt í ykkar
búskapartíð og langar að biðja
ykkur að segja mér frá því í stór-
um dráttum.
Helga: Við bjuggum fyrst á Eg-
ilsstöðum í 2 ár og síðan í Fellabæ í
6 ár. Þá fluttum við í Hallgeirsstaði
og höfum búið hér í 18 ár.
Benedikt: Þegar við fluttum í
Hallgeirsstaði byrjuðum við með
sauðfjárbú þetta 150 - 160 fjár, það
var ekki meiri kvóti. Svo fór mað-
ur að leita að annarri hliðarvinnu og
til að byrja með voru það refir. Við
byrjuðum með þá 1982 þegar ref-
aræktin stóð sem best og keyptum
lífdýrin háu verði, en fengum svo
alla niðursveifluna. Þegar við byrj-
uðum var refaskinnið á við rúmlega
tvö lambsverð, en þegar við hætt-
um hafði dæmið snúist rækilega við
og þurfti þrjú skinn í eitt lambs-
verð. 1987 hættum við með refi og
ég keypti steypustöð sem ég rek
enn í dag og þjónar Héraði og
fjörðum. Hellusteypu rak ég einnig
á árunum 1988 til 1994 og nýtti
refahúsið fyrir hana og gekk hún
vel.
Árið 1994 byrjuðum við að
byggja Hótel Svartaskóg og seld-
um þá hellusteypuna. Það er mottó-
ið hjá mér að vera ekki meira en 10
ár í sömu atvinnugrein því nýir
vendir sópa best.
Hvernig datt ykkur í hug að
fara út í hótelrekstur?
Helga: Ég hef verið með Brúar-
ás á sumrin frá því 1992 og út frá
því þróaðist þessi hugmynd og þeg-
ar auglýstar voru til sölu vinnubúð-
ir sem voru á Egilsstaðaflugvelli
keyptum við þær og fluttum hingað
norður og hófumst handa.
Hvernig gekk byggingin fyrir
sig?
Benedikt: Björn Kristleifsson
hannaði útlínur hússins, byggður
var 100 fermetra salur sem tengir
saman svefnálmur bar og eldhús.
Þetta var heilmikil vinna því við
byrjuðum hér eins og frummenn
þar sem hvorki var vatn eða raf-
magn á staðnum. Rafmagnið lögð-
um við frá heimilisrafstöð sem er í
eins kílómetra fjarlægð. Einnig
þurfti að brúa Fossá sem er hér á
milli þjóðvegar og Hótels Svarta-
skógar.
Við opnuðum síðan staðinn 24.
ágúst 1996.
Og er fullbókað hjá ykkur allt
sumarið?
Helga: Það má segja það. Gisti-
aðstaðan er allt of lítil yfir vissa
tíma. Ferðamannatíminn er alltaf að
lengjast. Það má segja að hann hafi
náð frá miðjum maí og fram í miðj-
an september nú í ár. Júní var mjög
fínn mánuður, en það er ekki langt
síðan að ekkert var að gera fyrir 20.
júní.
Benedikt: Það hafa margir furð-
að sig á því að við skyldum byggja
þetta upp svona langt úti í sveit, en
það er tilfellið að maður nýtur fjar
Helga Jónsdóttir og Benedikt Hrafnkelsson á góðri stundu á œttarmóti Hallgeirsstaðasystkina sem haldið var í Svartaskógi ll.júlí
s.l. ítilefni af áttrœðisafmœli Láru Stefánsdóttur móður Benedikts.
Hótel Svartiskógur umvafið skóginum sem þarna hefur bceði vaxið villtur og verið
plantað.
Heyjað með gamla laginu á svipuðum slóðum og Hótel Svartiskógur stendur nú.
Myndin er tekin 1964. Mynd: Orri Hrafnkelsson.