Fjölrit RALA - 15.12.1988, Blaðsíða 28

Fjölrit RALA - 15.12.1988, Blaðsíða 28
-22- NIÐURSTÖÐUR Heildarþekja gróðurs í tilraunaliðum á tilraunasvæðunum fjórum, sem sáð var í 1987, er sýnd á myndum 2a-2e. Meðalþekja gróðurs í tilraunaliðum á öllum svæðum, má sjá á 3. mynd. Marktækur munur fannst á milli sáðblandna en ekki á milli staða. Þó má sjá að meðalþekjan er yfirleitt lægst við Grenivíkurveg eins og í fyrra. Meðalþekja gróðurs við Laxamýrarnámu, sem var tiltölulega léleg í fyrra, hefur hins vegar tekið betur við sér og er að jafnaði hæst. Víðast hefur heildarþekja aukist frá því í fyrra með þeim undantekningum að sáðblanda Vegagerðarinnar og Erte/Sturluvingulblandan koma nú mun verr út, en þær höfðu hæsta þekju 1987. Bæði hefur heildarþekjan minnkað og í samanburði við aðrar sáðblöndur er heildarþekjan nú minni. Er þetta dæmigert fyrir marga erlenda grasstofna, sem spíra vel á fyrsta ári, en endast stutt (sjá t.d. Áslaug Helgadóttir í l.tbl. Búvísinda 1988). Kemur blandan af snarrót og umfeðmingi nú út með hæsta meðalþekju, er hún þó lægri Norðanlands en í Borgarfirði. Eins og í fyrra standa snarrót og beringspuntur sig allvel, nú með næsthæsta meðalþekju. Þetta kemur ekki á óvart, þar sem þessir stofnar hafa gefist vel í uppgræðslutilraunum hérlendis, bæði hvað varðar frostþol og endingu. Þessar niðurstöður um heildarþekju segja þó ekki nema hálfa söguna þar sem hlutdeild grasstofnanna í heildarþekjunni er afar mismunandi. T.d. er hlutdeild belgjurtanna lítil, þó svo að sáðblöndur, sem þær hafa verið í, hafi í sumum tilfellum komið vel út. Heildarþekja og hlutdeild tegunda í heildarþekju tilraunareita er gefin í viðauka. Þar er einnig birtur listi yfir aðrar tegundir sem fundust í tilraunareitunum, bæði árin 1987 og 1988. Enn sem komið er er ekki ráðlegt að draga miklar ályktanir af þessum niðurstöðum. Þó virðist að eftir annað árið séu Sturluvingull, Snarrót og Tournament mest áberandi í gróðurþekjunni. Rýgresisstofninn Prima er alveg horfinn og vallarsveifgrasstofninn Primo er lélegur, nema í Norðurárdal. Sama má segja um hvítsmára og umfeðming. Hvítsmárinn finnst á stöku stað, en aðeins við Grenivíkurveg nær hann einhverri þekju. Fjöldi og útbreiðsla tegunda er, eins og í fyrra, langmest á Hafnarmelum. Það vekur athygli hve tegundirnar Cerastium fontanum og Rumex acetosella eru algengar á öllum tilraunasvæðunum. Vekur það grun um að fræ af þeim hafi verið saman við það fræ, sem ræktað var á Sámstöðum. 4. mynd sýnir heildarþekju gróðurs í nýsáningunni á Mosfellsheiði. Þar má sjá að heildarþekja gróðurs er lág í öllum tilraunareitum. Hún er þó skárri í blokk II (suðvestan vegar) en í blokk I (norðvestan vegar). Sáðblanda Vegagerðarinnar og Erte/Sturluvinguls- blandan koma jafnbest út í báðum blokkum en í blokk II bera Snarrót og blandan af Snarrót og beringspunti af öðrum sáðblöndum, auk blásveifgrass sem hefur þokkalega heildarþekju.

x

Fjölrit RALA

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fjölrit RALA
https://timarit.is/publication/1497

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.