Feykir


Feykir - 27.02.2019, Blaðsíða 4

Feykir - 27.02.2019, Blaðsíða 4
AÐSENT : Kristín Sigurrós Einarsdóttir skrifar Verndum Tungudal! Undanfarin ár hef ég nokkrum sinnum lagt leið mína á Tungudal í Fljótum. Með í för hafa ýmist verið ferðamenn, skólakrakkar eða góðir vinir. Lengi hafði ég vitað af þessari lítt þekktu perlu áður en ég lagði leið mína þangað fyrst og varð ekki fyrir vonbrigðum. Dalurinn er ægifagur og þar er ýmislegt sem hrífur þá sem hann heimsækja. Í þessum ferðum hef ég sagt samferðafólki mínu frá Guðrúnu frá Lundi og ýmsu öðru sem tengist svæðinu og sögu þess. Frásögnin er gjarnan á þessa leið: „Í þessu umhverfi var Guðrún Baldvina Árnadóttir fædd á Lundi í Stíflu í Fljótum 3. júní árið 1887. Um það leyti sem bækur hennar fóru að koma út var þeirri sveit að stórum hluta sökkt undir vatn, vegna virkjanaframkvæmda, sem seint yrðu leyfðar í dag.“ Eða hvað? Í einfeldni minn hef ég trúað því að menn hefðu lært af mistökunum og almennri umhverfisvitund hefði fleygt fram síðan á seinnistríðsárunum. En Fljótamönnum barst nýlega til eyrna að til stæði að reisa 1-2 mw virkjun í Tungudal í Stíflu. Áformað er að gera miðlunarstíflu við útfall úr Tungudalsvatni, leggja þrýstipípu að eyðibýlinu Tungu og jarðstreng þaðan að Skeiðsfossvirkjun. Þó að rúm 70 ár séu liðin síðan stórum hluta Stíflunnar var sökkt undir vatn með tilkomu Skeiðsfossvirkjunar. Að vísu var stór hluti Stíflunnar þegar farinn í eyði áður en áform um virkjun komu til tals en það breytir því ekki að áhrif á ásýnd sveitarinnar voru mikil. Nú hafa menn áhuga á að ganga enn lengra og virkja í Tungudal, sem ótvírætt má telja einn fegursta dal Fljótanna. Til að heimsækja Tungudal þarf að vaða ána framan við Stífluvatn eða fara yfir hana á vaði og keyra eða ganga fram að bænum Tungu. Þar hafa sumarbústaðaeigendur byggt upp sælureit af þvílíkri smekkvísi og virðingu fyrir umhverfinu að til fyrirmyndar er öðrum. Þess má geta að bærinn Tunga er af flestum talinn fyrirmyndin að Nautaflötum, sem er óðal sveitarinnar í sögunum Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, en hún ólst upp í næsta nágrenni. Þegar komið er að Tungu tekur við um 7 km langur dalur, að mestu ósnortinn. Rústir þriggja eyðibýla mynda þríhyrning í minni dalsins. Um leið og þangað er komið er maður sem í eigin heimi. Fuglalíf er talsvert í dalnum, m.a. er himbrimi á Tungudalsvatni, sem er fremst í dalnum. Í vatninu er einnig silungs- veiði. Í dalnum eru svo afréttarlönd bænda á nærliggjandi bæjum. Í Dýraverndaranum, 52. árgangi árið 1966, er sagt frá því þegar fé var rekið að sjó í Fljótum eftir að næstum almennt heyþrot varð í Fljótum og víðar vorið 1910. Þar segir: „Jón G. Jónsson hafði um veturinn fengið jörðina Tungu í Stíflu, og flutti hann þangað þetta vor. Hann rak sitt fé fram að Tungu, þegar hitt var rekið að sjó. Sem fyrr segir, gekk Flekkur á Tungudal, sem er einhver beitarsælasti dalur Fljóta” (bls. 7). Fjölmargar þjóðsögur tengjast þessum dal, svo sem sagan af Kóngshöllinni á Tungudal. Úr botni dalsins liggur forn gönguleið yfir í önnur byggðarlög í austanverðum Skagafirði. Gaman er að nefna að í Tungudal finnst barnamold, sem notuð var til að græða bleyjusvæði barna hér fyrrum. Sýnishorn af slíkri mold þáði frú Vigdís Finnbogadóttir að gjöf þegar hún kom í opinbera heimsókn í Fljótin árið 1991. DV sagði frá þessari gjöf: „Að lokinni kirkjuskoðun buðu hreppsbúar forsetanum í morgunverð í félagsheimilinu Ketilási. Þar ávarpaði Örn Þórarinsson, oddviti hreppsins, forsetann og bauð hana velkomna á þessar harðbýlu slóðir. Síðan færði hann forseta að gjöf myndabók með myndum úr hreppnum og leirker með barna- mold (kísilmold), en Fljótahreppur er einn af fáum stöðum á landinu, þar sem slíka mold er að finna.“ Birgir Gunnarsson, landeigandi á Gauta- stöðum í Stíflu, ritaði þann 20. desember sl. grein í Morgunblaðið, þar sem hann vekur athygli á áformum Orkusölunnar um virkjun á Tungudal. Gunnar segir m.a.: „Í umsókn Orkusölunnar kemur fram að núverandi mannafli Skeiðsfossvirkjunar muni hafa umsjón með virkjununum á rekstrartíma. Áformin munu því ekki leiða til neinnar atvinnusköpunar í Fljótum. Í rannsóknar- leyfinu kemur fram að haft hafi verið samband við Ríkiseignir sem eiganda viðkomandi lands. Ríkiseignir gera ekki athugasemdir við leyfisveitinguna en áskilja sér rétt til töku auðlindagjalds komi til virkjunar, nema hvað! Ekki verður séð af leyfisveitingunni að haft hafi verið samband við aðra landeigendur á svæðinu, sem þó sannanlega hafa mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli, þar sem ferðaþjónusta er að verða æ mikilvægari atvinnugrein.“ Ég tek heilshugar undir áhyggjur Birgis og furða mig á því að talsmaður Orkusölunnar virðist ekkert kannast við áhyggjur heima- manna af þessu máli, að því er haft var eftir honum í héraðsblaðinu Feyki á dögunum. Líklega er Birgir sá eini sem hefur skrifað greinar í blöðin vegna málsins, en mér þykir ólíklegt að skoðanaskipti um málið á samfélagsmiðlum hafi ekki borist Orku- sölumönnum til augna eða eyrna. Vissulega hafa menn þar á bæ boðað kynningarfund um málið. Er hann boðaður næstkomandi miðvikudag kl 14:00. Er hann auglýstur með dreifimiða sem barst á bæi í sveitinni í dag, mánudaginn 25. febrúar, og í verslun KS á Ketilási. Tímasetningin lýsir kannski best hversu mikill áhugi er fyrir að kynna málið, þegar íbúafundur er boðaður á almennum vinnutíma. Á flestum bæjum í sveitinni stundar a.m.k. einn aðili atvinnu utan búsins og nokkrir sækja vinnu í nærliggjandi byggðarlög. Fundurinn virðist því ekki til þess ætlaður að íbúar mæti á hann. Þeim sem vilja kynna sér Tungudal nánar bendi ég á bók Páls Sigurðssonar frá Lundi, Úr fórum Fljótamanns. Mig langar að enda þetta greinarkorn á ljóði sem Aðalbjörg Sigurðardóttir orti um Tungudalsvatn og er einmitt í þeirri bók, í þeirri von að þetta fallega landssvæði fái að verða ósnortið. Ó! fjallavatnið fríða, mín fagra bernskusýn, nú læt ég hugann líða, mig langar heim til þín. Þar sem ég áður undi í unaðssælli ró og hlustaði á svaninn syngja sem að þarna bjó. Og kær var mér Konungshöllin, í klettum var álfabyggð og fagursköpuð fjöllin í fleti þínum skyggð. Og Fláin sem fagur rammmi um flötinn þinn bláa var. Og allskonar öræfagróður átti sér rætur þar. Kristín Sigurrós Einarsdóttir, rekstraraðili ferðaþjónustu á Sólgörðum í Fljótum og svæðisleiðsögumaður Kristín Sigurrós í minni Tungudals. Stífluvatn í baksýn. AÐSEND MYND Styrkveitingar úr Menning- arsjóði Húnaþing vestra Nýlega var úthlutað úr Menningarsjóði Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu en auglýst var eftir umsóknum um menningarstyrki úr sjóðnum í janúar sl. Alls bárust 25 umsóknir upp á samanlagt 28 milljónir króna og ákvað stjórnin að veita styrki að upphæð 10.700.000 kr. til 16 aðila. Hæsti styrkurinn, sem nemur 3,3 milljónum króna, kom í hlut Félagsheimilisins á Hvammstanga vegna endurnýjunar og uppfærslu ljósabúnaðar og hljóðkerfis fyrir húsið. Lionsklúbburinn Bjarmi fékk næst hæsta styrkinn, 850.000 kr., sem nota á til að útbúa söguskilti um Bangsa og til varðveislu Bangsabáts. /FE Kristín Sig- urrós ráðin skjalavörður Héraðsskjalasafn Skagfirðinga Kristín Sigurrós Einarsdóttir hefur verið ráðin í starf sérfræðings við Héraðs- skjalasafn Skagfirðinga á Sauðárkróki. Kristín hefur lokið B.Ed. prófi í grunn- skólakennarafræðum en lokaritgerð hennar var sagnfræðilegs efnis og fjallaði um byggðasögu Hvalfjarðar. Kristín er í MA námi á menntavísindasviði og er að vinna að mastersritgerð sem er einnig sagnfræðilegs eðlis og fjallar um fyrstu skólana í Skagafirði. Auk þessa hefur Kristín sótt námskeið í skjalavörslu hjá Þjóðskjala- safni Íslands ásamt fjölda annarra hagnýtra nám- skeiða. Kristín hefur m.a. tekið þátt í miðlun menningar og sögu héraðsins gegnum verkefni tengd leiðsögn og sýningarhaldi. Má þar nefna ferðir um slóðir Guðrúnar frá Lundi og sýningu um Guðrúnu frá Lundi sem hún setti upp og hannaði ásamt Marín Guðrúnu Hrafns- dóttur. /PF 4 08/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.