Morgunblaðið - 06.05.2020, Síða 24
24 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 6. MAÍ 2020
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það er spennandi áskorun að fá að
leika þetta hlutverk og í raun algjör
forréttindi því þetta er hlutverk sem
margar leikkonur dreymir um að fá
að takast á við,“ segir Ebba Katrín
Finnsdóttir sem ráðin hefur verið til
að leika hlutverk Júlíu í uppfærslu
Þjóðleikhússins á Rómeó og Júlíu eft-
ir William Shakespeare í leikstjórn
Þorleifs Arnar Arnarssonar sem
frumsýnd verður í mars 2021. Eins og
fram kemur í frétt á baksíðunni í dag
leitar Þjóðleikhúsið að þeim eina
rétta í hlutverk Rómeós og er skrán-
ingarfrestur á vef leikhússins til mið-
nættis 7. maí.
Rómeó og Júlía er fyrsta sýningin
sem Þorleifur leikstýrir í Þjóðleik-
húsinu eftir að hann gekk til liðs við
leikhúsið með samningi þess efnis að
hann leikstýri þar einni sýningu
árlega næstu árin. Listrænir stjórn-
endur sýningarinnar auk Þorleifs eru
Ilmur Stefánsdóttir sem hannar leik-
mynd, Björn Bergsteinn Guðmunds-
son lýsingu og Kristján Ingimarsson
sem sér um kóreógrafíuna.
Líkamlega krefjandi
Aðspurð segist Ebba Katrín hafa
unnið með texta Shakespeare í leik-
listarnámi sínu. „Á öðru ári tókst ég á
við lafði Makbeð og fann þá hversu
líkamlega krefjandi það er að fara
með texta Shakespeare. Maður
stekkur ekki fyrirvaralaust á þennan
texta, heldur þarf góðan undirbúning
bæði líkamlega og andlega,“ segir
Ebba Katrín sem bíður spennt eftir
að fá textann í hendurnar. „En teymi
ungra efnilegra ljóðaslammara eru að
vinna nýja þýðingu á verkinu.“
Ebba Katrín útskrifaðist af leik-
arabraut Listaháskóla Íslands fyrir
tveimur árum og vakti um svipað
leyti athygli fyrir hlutverk sitt í sjón-
varpsþáttaröðinni Mannasiðum á
RÚV. Fyrsta árið eftir útskrift lék
hún m.a. í Dúkkuheimili, 2. hluta,
Núna 2019 og Matthildi í Borgarleik-
húsinu. Á yfirstandandi leikári hefur
hún í Þjóðleikhúsinu leikið í Meist-
aranum og Margarítu, Þínu eigin
leikriti II – Tímaferðalagi og Atóm-
stöðinni – endurliti. Ebba Katrín hef-
ur enn ekki unnið með Þorleifi sem
leikstjóra, en þekkir vel til hans þar
sem hún tók þátt í Njálu 2015 og Álfa-
höllinni 2017. „Ég var dresser í báð-
um sýningum auk þess sem við sviðs-
fólkið vorum fengin til að klæða
okkur í búninga og taka þátt í völdum
atriðum á sviðinu,“ segir Ebba Katrín
og útskýrir að „dresser“ hafi umsjón
með búningum á sýningum.
Djarfar ákvarðanir
„Ég er sannfærð um að það verði
bæði krefjandi og þroskandi að vinna
með Þorleifi. Ég er ótrúlega spennt
að vinna með honum. Mér hefur alltaf
fundist svo gaman að horfa á sýn-
ingar hans því þær eru svo mikið fyr-
ir augað. Sýningar hans koma manni
líka alltaf á óvart því hann er ófyrir-
sjáanlegur. Hann þorir að taka djarf-
ar ákvarðanir, sem gefur manni sem
leikara hugmynd um að maður geti
komið með djörf tilboð á móti og svo
treystir maður því að hann velji og
skapi einhverja snilld,“ segir Ebba
Katrín. Aðspurð segir hún spennandi
að skoða hvort hægt sé að taka Júlíu í
nýjar áttir í túlkun. „Mér finnst
áhugavert hvernig við viðhöldum
hugmyndum, staðalímyndum og
ákveðinni birtingarmynd með því að
segja eldri sögur aftur og aftur. Sam-
félagið er komið á nýjan stað og því
vakna eðlilega nýjar spurningar. Það
er mér til dæmis algjörlega framandi
hugmynd að selja einhvern í hjóna-
band gegn sínum vilja og ég skil ekki
hvernig það á að líðast í nútímanum.“
Sterkar taugar til leikhússins
Sem fyrr segir hefur Ebba Katrín
ekki þurft að kvarta undan verkefna-
skorti frá útskrift. „Ég hef verið ótrú-
lega heppin og fengið að takast á við
ólík hlutverk. Það besta sem hent
getur ungan leikara er að fá að vera
sem mest á sviði því þannig öðlast
maður reynslu og aukið öryggi. Það
er því frábært að fá að vera í stöðugri
þjálfun og mæta nýjum mótleikurum
á sviði,“ segir Ebba Katrín og tekur
fram að það hafi líka verið afar gef-
andi að fá tækifæri til að vinna með
ólíkum leikstjórum.
Ebba Katrín hefur notið þess að
starfa í stóru atvinnuleikhúsunum í
borginni og hrósar báðum húsum.
„Mér finnst magnaðir hlutir vera að
gerast í báðum húsum. Ég ber óneit-
anlega sterkar taugar til Þjóðleik-
hússins því hér kynntust amma mín
og afi auk þess sem langafi minn vann
í hljómsveitargryfjunni,“ segir Ebba
Katrín, en langafi hennar var tónlist-
armaðurinn og hljómsveitarstjórinn
Viktor J. Urbancic. Sonur hans, Pét-
ur Marteinn Páll Urbancic, spilaði í
hljómsveitargryfjunni og kynntist þá
Ebbu Ingibjörgu Egilsdóttur sem
vann sem sætavísa í leikhúsinu.
Morgunblaðið/Eggert
Tilhlökkun Ebba Katrín Finnsdóttir hlakkar til að vinna með Þorleifi Erni.
„Algjör forréttindi“
Ebba Katrín Finnsdóttir mun leika Júlíu í Þjóðleikhúsinu
„Víkingur Ólafsson er hin nýja
ofurstjarna klassíska píanósins.“
Þannig hefst lofsamleg umfjöllun
rýnis breska dagblaðsins The Tele-
graph um nýja plötu píanóleik-
arans, Debussy Rameau, sem
Deutsche Grammophon gefur út.
Platan hefur fengið afar góða dóma
víðar og situr efst eða ofarlega á
vinsældalistum klassískrar tónlist-
ar beggja vegna Atlantshafs.
Rýnir The Telegraph segir ljós-
myndina á plötuumslaginu gefa
vissar vísbendingar um innihaldið;
Víkingur Heiðar sjáist þar smyrja
litum á gler og þannig sé leikur
hans, „undursamlega hárfínn og lit-
ríkur“. Og það greini Viking frá
öðrum ungum píanóleikara sem búi
líka yfir nánast dulrænum hæfi-
leikum, Igor Levit; sá takist nánast
alltaf á við þung-
ar byrðar
myrkra meist-
araverka, en
túlkun Víkings
sé öll létt og fant-
asísk.
Val verkanna
og stefnumót
tónskálda
tveggja tíma er
lofað. Helst er
fundið að því að ákafi Víkings við
að skapa draumaheima úr verkum
Rameaus ræni þau hrynrænni orku
en þannig sé það hjá alvöru frum-
legum listamönnum; það verði að
taka „það hrjúfa með hinu mjúka“
og á plötunni sé fjölmargt sem
heilli rýninn, sem gefur henni fjór-
ar stjörnur.
Ný „ofurstjarna klassíska píanósins“
Víkingur Heiðar
Ólafsson
Um helgina var opnuð á vef Gall-
erís Foldar við Rauðarárstíg sam-
sýningin „Út úr kófinu“. Verkin
verður einnig hægt að skoða í söl-
um Foldar, nú þegar slakað hefur
verið á samkomubanninu. Í tilkynn-
ingu segir: „Það ástand sem nú rík-
ir í samfélaginu snertir alla og
kemur hart niður á listafólki sem
hefur ekki fastar tekjur. Því höfum
við efnt til samsýningar listamanna
Gallerís Foldar og verða öll verkin
til sölu á vefuppboði þar sem
endanlegt verð ræðst ekki fyrr en í
lok uppboðsins. Í því felast tækifæri
til að styrkja
myndlistarfólkið
í störfum sínum,
gera kjarakaup
og eignast eigu-
leg verk.“ Um 30
listamenn taka
þátt í verkefninu
og alls verða
sýnd og boðin
upp um 60 ný
verk. Bæði sýn-
ingin og upp-
boðið standa til 13. maí næstkom-
andi.
Sýnd í Gallerí Fold og boðin upp
Hluti verks eftir
Hrafnhildi Ingu
Sigurðardóttur.
MOKKAKÖNNUR
SMÁRALIND – KRINGLAN
DÚKA.IS
Frí heimsending á duka.is
Sendum um allt land
Eyja Margrét Brynjarsdóttir, pró-
fessor í heimspeki og hagnýtri sið-
fræði við Háskóla Íslands, mælir
með listaverkum sem hægt er að
njóta innan veggja heimilisins með-
an kófið vegna
kórónuveirunnar
stendur yfir.
„Ég er svolítið
svekkt yfir að
hafa ekki náð að
lesa eins mikið
og ég hafði hugs-
að mér, mest af
því sem ég les er
vinnutengt. En
ég mæli með A
Paradise Built in Hell: The Extra-
ordinary Communities that Arise in
Disaster eftir Rebeccu Solnit. Hún
fer yfir ýmsar hamfarir sem hafa
átt sér stað í sögunni og fjallar um
þá samstöðu og stuðning sem fólk
sýnir við slíkar aðstæður. Þetta gef-
ur gott mótvægi við þá útbreiddu
hugmynd að allir séu á móti öllum
og hver hugsi bara um sjálfan sig
þegar hamfarir eiga sér stað.
Hvað sjónvarpsefni varðar hefur
Unorthodox-serían staðið upp úr af
nýju efni, um sjálfstæðisbaráttu
ungrar konu úr samfélagi strang-
trúaðra gyðinga í New York.
Sænsku þættirnir Kalifat eru líka
mjög vel gerðir en meira niður-
drepandi. Svo mæli ég alltaf með
Orphan Black-þáttunum fyrir þau
sem ekki hafa séð þá, femínískur
vísindaskáldskapur þar sem kan-
adíska leikkonan Tatiana Maslany
á stórleik sem fleiri persónur en ég
hef tölu á. Og svo eru áströlsku
spæjaraþættirnir Miss Fisher’s
Murder Mysteries mjög skemmti-
legir. Þetta efni er allt á Netflix en
næst á dagskrá hjá mér er að horfa
á Undirrót haturs á RÚV-vefnum
og að sjá Benedict Cumberbatch og
Jonny Lee Miller í uppsetningu á
Frankenstein sem hægt verður að
sjá frítt til 7. maí gegnum National
Theatre at Home.
Ég er mikill hlaðvarpshlustandi
og er eiginlega alltaf með hlaðvarp
í eyrunum meðan ég stend í eldhús-
inu. Sem fyrrverandi íbúi Banda-
ríkjanna hef ég haldið tengslum við
það land með því að hlusta mikið á
bandarískt efni. This American
Life og Radiolab standa alltaf fyrir
sínu, svo má nefna Invisibilia, Hid-
den Brain, Planet Money og This Is
Uncomfortable. This Podcast Will
Kill You og This Week in Virology
hafa komið sterk inn upp á síðkast-
ið með umfjöllun um kórónuveir-
una en svo má fara á allt aðrar slóð-
ir og hlusta á spennandi fantasíur
eins og Limetown eða Tanis.“
Mælt með í kófinu
Sjálfstæðisbarátta Þáttaröðin Unorthodox á Netflix fjallar um sjálfstæðis-
baráttu ungrar konu úr samfélagi strangtrúaðra gyðinga í New York.
„Eiginlega alltaf með
hlaðvarp í eyrunum“
Eyja Margrét
Brynjarsdóttir
Spæja Tatiana Maslany í þáttunum
Miss Fisher’s Murder Mysteries.