Morgunblaðið - 24.06.2020, Qupperneq 9
„Hér eru svo mikil rólegheit og því er mjög notalegt að
búa hérna. Samskiptin við bæjarbúa eru svo þægileg og
þannig verður allt lífið svo einfalt. Ef mann til dæmis
vantar eitthvað, og það er á annað borð til í bænum, þá er
einfalt að nálgast það. Svo þekkist fólk og er greiðvikið í
sínu samfélagi sem getur komið sér vel þegar fólk er að
standa í framkvæmdum eða standa fyrir einhverju. Þá
gengur allt svo hratt og þægilega fyrir sig,“ segir hún.
Eins og margir vita gegnir Síldarminjasafnið á Siglu-
firði stóru hlutverki fyrir bæinn enda margrómað og hef-
ur hlotið viðurkenningar bæði innan og utan landstein-
anna. Nýja hótelið á Siglufirði er jafnframt alveg til
fyrirmyndar, jafnt að innan sem utan. Alveg fyrsta
flokks.
„Fólk kemur alls staðar að af landinu til að njóta hér
bæði matar og menningar. Það er orðið mjög algengt
að fólk skelli sér hingað í bíltúr frá Akureyri og nær-
liggjandi bæjum, og það færist sífellt í aukana að
vinnustaðir komi hingað með starfsmenn í hópeflis-
ferðir og á fundi. Þegar svona margir eru að gera skap-
andi og skemmtilega hluti þá magnast bæjarandinn
upp og verður jákvæður og hvetjandi sem aftur laðar
að fleiri og fleiri skapandi og skemmtilega einstaklinga.
Allt vinnur saman að vaxtaráhrifum. Þjóðlagasetrið,
galleríin, gestavinnustofan í Herhúsinu, Ljósmynda-
sögusafnið, Ljóðasetrið, Síldarminjasafnið, að ónefnd-
um öllum frábæru veitingastöðunum. Þar má nefna hið
einstaka veitingahús Siglunes sem býður upp á ómót-
stæðilegan marokkóskan mat, Súkkulaðihúsið Fríðu
þar sem boðið er upp á heimagert konfekt og ljúffengt
súkkulaði, veitingastaðina Torgið og Harbour House
og svo auðvitað hótelin og veitingahúsin á bryggjunni.
Súrdeigspizzurnar og tónleikarnir á Kaffi Rauðku hafa
slegið rækilega í gegn og þá er ónefnt bakaríið okkar
sem er orðið að samkomustað bæjarbúanna sjálfra.
Þegar allt er upptalið sést að hér er gríðarleg gerjun og
eitthvað fyrir alla.“
„Ætli sauðkindin hafi ekki alltaf heillað“
Þar sem hin norðlenska Aðalheiður hefur aldrei flutt
suður er eðlilegt að álykta að listin hennar hljóti að vera
norðlensk í húð og hár. Hún gengst alveg við því.
„Allt umhverfið, það fólk sem maður umgengst og auð-
vitað allt sem ég hef alist upp við hefur haft bein áhrif á
innblástur minn og sköpun. Þetta þjóðlega sem fólk hef-
ur séð í verkum mínum kemur að sjálfsögðu héðan að
norðan, úr æsku minni, uppvexti og því lífi sem ég lifi í
dag. Ég var til dæmis alin að hluta til upp á litlu búi hjá
afasystur minni við heyskap og sauðfjárrækt þar til allt
var skorið þar niður vegna riðu. Ætli sauðkindin hafi því
ekki alltaf heillað. Í fimm ár vann ég markvisst með
þessa ágætu skepnu og okkar rótgrónu íslensku bænda-
menningu og þau verk mín hafa verið mest áberandi síð-
asta áratuginn,“ segir Aðalheiður sem á húsið Freyju-
lund í Hörgárdal og þar dvaldi hún í þann tíma sem hún
vann að þessum verkum. Hún segir að í Hörgárdalnum
hafi hún átt mikil samskipti við bændurna sem þar búa
og upplifað þessa skemmtilegu og einstöku menningu
sem einkennir bændalífið. „Það sem ég upplifi á hverjum
tíma skín alltaf í gegn um verkin mín.“
Sjósund og sýningar á Hjalteyri, hoppubelgir á
Sigló og stórgóður golfvöllur
Spurð að því hvað sé algerlega ómissandi fyrir ferða-
langa að upplifa á Norðurlandi nefnir hún umhugs-
unarlaust Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Þar er að
finna allskonar skemmtilega list sem höfðar til allra
aldurshópa. Sem dæmi má nefna stórbrotið safn af
þjóðbúningadúkkum, ilmvatnsflöskum og allskonar list
sem virkar bæði glaðleg og aðgengileg. Húsið er jafn-
framt mjög fallegt sem og garðurinn í kring. Hún nefn-
ir einnig Verksmiðjuna á Hjalteyri sem er stór-
merkilegt og óvanalegt sýningarrými í gríðarstórri
verksmiðju en þar er maður að nafni Gústaf Geir Bolla-
son potturinn og pannan í starfinu. Á Hjalteyri er heit-
ur pottur sem hægt er að skella sér í og margir bregða
sér þar í smá sjósund. Aðalheiður bendir líka á frábær-
ar aðstæður fyrir fjölskyldufólk, bæði á Sigló og í
Ólafsfirði en þar eru prýðilegar sundlaugar og góð
tjaldstæði.
„Á Sigló erum við líka með nýuppgerð leiksvæði fyrir
krakka og flotta hoppubelgi sem eru mjög vinsælir.
Krakkarnir bíða í röð eftir því að þetta sé blásið upp á
morgnana og svo er hoppað allan liðlangan daginn,“ seg-
ir hún og hlær. Og enn er ekki allt upptalið því innan við
Siglufjörð er líka nýuppgerður golfvöllur og gott skíða-
svæði.
Innar í firðinum er annað tjaldsvæði sem er mikið
hljóðlátara og rólegra en það sem er í bænum, svona ef
fólk kýs meiri kyrrð og ró.
Að lokum spyr ég Aðalheiði hvaða lýsingarorð komi
fyrst upp í hugann þegar hann er látinn reika um
Norðurland, þá nefnir hún fyrst rólegheitin í samfélag-
inu og gott aðgengi að þjónustu og mannauði.
„Fyrir mér er þetta eins og móðurfaðmur sem heldur
fallega utan um fólk og mér líkar það vel.“
Uppgefinn skíðamaður
kominn heim heitir þetta
verk eftir Aðalheiði Ey-
steinsdóttur. Verkið er á Ice-
landair hótelinu á Akureyri.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Þetta verk hef-
ur vakið tölu-
verða athygli.
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Þetta verk er eftir
Aðalheiði.
Morgunblaðið/Kristján
MIÐVIKUDAGUR 24. JÚNÍ 2020 MORGUNBLAÐIÐ 9