Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.08.2020, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.08.2020, Blaðsíða 4
FRÉTTIR VIKUNNAR 4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.8. 2020 Lögregla kynnti að sektum ogjafnvel lokunum yrði beitt áveitinga- og skemmtistaði, sem ekki fylgdu sóttvarnareglum í hvívetna. Í eftirlitsferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom á daginn að á 15 stöðum af 24 var reglunum ekki framfylgt sem skyldi, fyrst og fremst hvað varðaði tveggja metra regluna vinsælu. Sumir staðir raun- ar svo troðnir að lögregluþjónar treystu sér ekki til þess að fara inn á þá af smithræðslu. Alexander Lúkasjenko, sem er síðasti einræðisherra Evrópu af gamla skólanum, sigraði forseta- kosningar í Hvíta-Rússlandi með miklum mun ef marka má opinber kosningaúrslit. Mörg hundruð óeirðalögregluþjóna, gráir fyrir járnum, fóru um götur höfuðborg- arinnar til þess að róa niður fagn- aðarlæti þakklátra þegna, en þús- undir voru handteknar, einn lést og mörg hundruð manns þurftu að leita læknishjálpar eftir að hafa í ógáti rekist á kylfur lögreglunnar, á kosn- inganóttu og næstu daga á eftir. Frá stjórnarandstöðunni heyrðust síðbúnar gagnrýnisraddir á sótt- varnaaðgerðir stjórnvalda, sem voru eilítið holar í ljósi þess að ekki voru margar vikur liðnar frá því að sömu raddir kepptust við að lýsa ánægju sinni með að farið væri að ráðum sérfræðinga í því öllu. Katrín Jak- obsdóttir kvaðst af því tilefni furða sig á því ef stjórnmálamenn ætluðu að notfæra sér faraldurinn og sótt- varnaaðgerðir íslenskra stjórnvalda til pólitískrar tækifærismennsku og beindi þeim orðum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Katrín bætti við að það væru mörg dæmi í heiminum um stjórnmálamenn, sem þættust hafa öll svör um faraldurinn á reiðum höndum, en ríkisstjórnin væri ekki í þeim hópi. Já, Trump er víða.    Samkvæmt tölum Hagstofunnar hélt kaupmáttur áfram að aukast hvað sem öðru leið, en frá júní 2019 til júní 2020 hækkaði launavísitalan um 7% en neysluverðsvísitalan að- eins um 2,6% á sama tíma. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði af því tilefni að verkefni næstu mánaða og missera væri skýrt, að verja kaupmáttaraukningu liðinna ára í kjölfar kórónuveirunnar. Tæplega 20 manns eru á biðlista eft- ir endurhæfingu vegna eftirkasta vegna Covid-19, en algengar afleið- ingar eru magnleysi, mæði og skert starfsgeta. Ekki er enn ljóst hverjar langtímaafleiðingar sjúkdómsins eru, en óttast er að takist fólki ekki að yfirvinna þessi langvinnu ein- kenni kunni varanleg örorka að fylgja. Ríkisstjórnin hefur lagt fram frum- varpsdrög til umsagnar í samráðs- gátt hins opinbera, þar sem lagðar eru til lagabreytingar um kynrænt sjálfræði þess efnis að réttur ein- staklinga til að breyta opinberri skráningu á kyni og nafni miðist við 15 ára aldur á stað 18 ára. Þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi orðið fyrir miklum áföllum í plág- unni hafa Íslendingar sums staðar bætt úr skák með auknum ferðalög- um innanlands. Þannig hafa bjór- böðin varla fundið fyrir faraldrinum og öll kör stútfull af saupsáttum og góðglöðum mörlöndum. Ríkisstjórn Líbanons sagði af sér í kjölfar sprenginganna í liðinni viku, sem raktar hafa verið til vanrækslu og spillingar. Meira en 200 dóu og enn er 110 manns saknað, um 6.000 særðust og 300.000 manns eru heim- ilislaus eftir hörmungarnar.    Helstu silkihúfur Samherja og Ríkisútvarpsins brigsluðu hver ann- arri um einelti í garð hinna, en við- kvæmari og jaðarsettari þjóðfélags- hópar munu vandfundnir hér á landi. Samherji birti myndband á You- tube-rás sinni, þar sem fjallað var um upphaf rannsóknar gjaldeyris- eftirlits Seðlabankans á karfasölu fyrirtækisins ytra fyrir tæpum ára- tug, en hún var gerð að frumkvæði fréttamannsins Helga Seljan, sem síðan flutti dramatíska fréttaskýr- ingu í þættinum Kveiki, sama dag og húsleit var gerð hjá Samherja. Dóm- stólar sýknuðu hins vegar fyrirtækið í fyllingu tímans. Samherjamenn sökuðu Helga um léleg vinnubrögð eða verra í myndskeiðinu, þar sem hann hefði í fréttaskýringunni ítrek- að kynnt tiltekin gögn sem skýrslu opinberrar stofnunar, sem væri ekki raunin og þau hefðu ekki komið frekar við sögu í málarekstrinum. Í þokkabót mætti skilja orð Helga, sem tekin voru upp á laun, sem svo að hann hefði átt við gögnin með ein- hverjum hætti. Þrátt fyrir áskoranir þverskallaðist Helgi við að birta um- rædd gögn, en hann og yfirmenn Ríkisútvarpsins kváðust standa við allt sem fram hefði komið í þætt- inum. Á opinberum vettvangi skip- uðu margir sér í lið í þessari þrætu, en Samherjamenn lofa að meira sé á leiðinni. Fréttir voru sagðar af því að dular- fullt hljóð hefði raskað ró Akureyr- inga og sumum jafnvel ekki orðið svefnsamt vegna þess, en um upp- runa þess voru uppi ótal mis- sennilegar kenningar. Fréttin var þó ekki minna merkileg fyrir það að hljóðið mun hafa ómað öðru hverju um árabil, en af einhverjum ástæð- um var þolinmæði fólks þar nyrðra nú fyrst á þrotum. Og það var eins og við manninn mælt, því eigandi skútu við Pollinn taldi að þetta kynni að gerast þegar vindur stæði á holt mastur og dró upp segldúk til þess að bæta loks úr því. Icelandair náði samkomulagi við alla kröfuhafa sína og samdi jafnframt við Boeing um bætur vegna langvar- andi kyrrsetningar 737-MAX-véla félagsins. Með því er helstu fyr- irstöðum hlutafjárútboðs ýtt úr vegi, en þar mun þurfa að afla allt að 30 milljarða króna. Enn standa þó yfir viðræður við stjórnvöld um veitingu ríkisábyrgðar fyrir 20 milljarða lá- nalínu, sem félaginu er nauðsynleg að auki.    Forystumenn ríkisstjórnarinnar lögðu mikla áherslu á að halda yrði samfélaginu gangandi þótt baráttan við heimsfaraldurinn kallaði á fyllstu árverkni. Þannig væri mikilvægt að skólastarf gengi eins vel og eðlilega fyrir sig og unnt væri, en hið sama ætti við um menningarstarfsemi og íþróttaiðkun. Til þess að skólastarf gæti hafist að mestu óraskað var tekin upp 1 metra regla þar í stað 2 metra félagsfirrðar á öðrum vett- vangi. Heildarskuldir ríkissjóðs jukust ört frá janúar og út júlí eða um 254 milljarða króna, en það má allt rekja til kórónuveirufaraldursins. Seðla- bankastjóri sagði þó að staðan væri ívið betri en hann hefði þorað að vona og gerir ráð fyrir að það taki um fjögur ár að vinda ofan þeim bagga.    Öllum flugferðum frá Íslandi til Spánar, frá 20. ágúst og fram í októ- ber, var aflýst vegna aukinna smita heimsfaraldursins. Stóru ferðaskrif- stofurnar þrjár aflýstu ferðum fyrir um 2 milljarða króna, en af þeim þurfti að endurgreiða um 1,5 millj- arða. Sjúkraliði í hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ kom kór- ónuveirusmitaður úr sumarleyfi, svo setja þurfti bæði vistmenn og starfs- menn á einni deild í sóttkví. Athygli vakti að Þórólfur Guðnason sagði það í viðtali að reglur hafi verið virt- ar, en þar sem sjúkraliðinn hefði verið einkennalaus hefði hann þar af leiðandi ósennilega verið smitandi, sem er ekki í góðu samræmi við það, sem sagt hefur verið um smithættu síðan í febrúar.    Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði það sína skoðun að tvöföld skimun á landamærum og sóttkví væri besta ráðið til þess að halda annarri bylgju plágunnar í skefjum. Fáum að óvörum gerði ríkisstjórnin þær tillögur að sínum á föstudag. Talið er að þær ströngu ráðstafanir muni að miklu leyti skrúfa fyrir ferðamannastraum til landsins, en eins má ljóst vera að Íslendingar munu síður leggjast í utanlands- ferðir að nauðsynjalausu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að það hefði verið mat ríkisstjórn- arinnar að það væri skynsamlegt „að grípa inn í tiltölulega fast og geta þá slakað á síðar“. Hins vegar vakti Facebook-færsla Þórdísar Kol- brúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferða- málaráðherra nokkra athygli, en hún sagði ákvörðunina vonbrigði, enda væri ríkisstjórnin sammála um hana. Mexíkóskir þjóðgarðsverðir höfðu upp á bjarndýri, sem öðlaðist heims- frægð á félagsmiðlum í sumar þar sem það þefaði rækilega af konu sem þar var í gönguferð og lét sér ekki bregða meira en svo að hún tók sjálfu af þeim bangsapabba. En laun heimsins eru vanþakklæti, því í vik- unni gáfu þjóðgarðsverðirnir birn- inum róandi og geltu svo. Laun heimsins Bjarndýr í Mexíkó öðlaðist heimsfrægð á félagsmiðlum í sumar þegar það gerði sér dælt við göngugarp í þjóðgarði þar. Það hafði óvæntar afleiðingar í vikunni. Andrés Magnússon andres@mbl.is 9.8-15.8 Löggiltur heyrnarfræðingur Hlíðasmára 19 • 201 Kópavogur • Sími 534 9600 • heyrn.is Heyrnarþjónusta í alfaraleið Heyrðu umskiptin með háþróuðum ReSound gæðaheyrnartækjum. Margir verðflokkar, SÍ niðurgreiðir heyrnartæki. Heyrnargreining, ráðgjöf og heyrnartæki til reynslu afgreidd samdægurs.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.