Morgunblaðið - 22.09.2020, Síða 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. SEPTEMBER 2020
Óseyrarbraut 12, 220 Hafnarfirði | Klettagörðum 5, 104 Reykjavík | stolpigamar@stolpigamar.is
Gámaleiga
Er gámur lausnin fyrir þig?
Við getum líka geymt gáminn fyrir þig
568 0100
stolpigamar.is
HAFÐU
SAMBAND
Búslóðageymsla z Árstíðabundinn lager z Lager z Sumar-/vetrarvörur
Frystigeymsla z Kæligeymsla z Leiga til skemmri eða lengri tíma
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Gert er ráð fyrir að auknar veiðar verði leyfðar á
bleikju í Mývatni á næsta ári. Guðni Guðbergs-
son, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir
að nýliðun hafi verið góð síðustu ár og nú séu fjór-
ir „býsna góðir“ árgangar á leiðinni. Bleikjustofn-
inn sé að ná sér á strik og veiðistjórnun og vernd-
unaraðgerðir hafi greinilega skilað sér. Síðustu ár
hafi fæðuframboð yfirleitt verið gott, til að mynda
hafi mýið verið nokkuð sterkt síðustu sjö ár.
Farið var í miklar aðgerðir árið 2011 til að
byggja bleikjustofninn upp í kjölfar alvaregrar
niðursveiflu. Aðeins hafa verið leyfðar takmark-
aðar netaveiðar undir ís að vetri til og fá net verið
leyfð samkvæmt arðskrá, veiðiálag yfir sumarið
hefur verið mjög takmarkað og ekkert leyft að
veiða í september. „Þannig hefur verið komið í
veg fyrir að menn væru að veiða silung upp undir
landi á sama tíma og hann var að undirbúa
hrygningu,“ segir Guðni.
Hann segir að síðasta áratuginn hafi veiðin
yfirleitt verið 2-2.500 silungar. Rannsóknaleið-
angur um síðustu mánaðamót hafi lofað góðu og
ráðgjöf um afla næsta árs gæti miðast við 5-10
þúsund fiska. Guðni segist reikna með að notast
verði við sóknarmark, sem hafi gefist betur en
kvóti, og þannig sé hægt að fylgjast með hvort
afli á sóknareiningu gefi eftir. Þá miði hann einn-
ig við aukna möskvastærð til að vernda smáfisk-
inn. Til samanburðar var meðalveiðin á árunum í
kringum 1970 um 30 þúsund silungar.
Hornsílið hefur náð sér á strik
„Ef ástandið helst gott á bleikjustofninum á
hann að geta staðið undir einhverri útgerð,“ segir
Guðni. „Menn mega þó ekki rífa sig af stað með
stórútgerð og hreinsa silunginn upp á skömmum
tíma. Menn þurfa að nýta þennan stofn af skyn-
semi, virða veiðitakmarkanir og hafa sjálfbærni
að leiðarljósi.“
Guðni segir að gott ástand hafi verið á sil-
ungnum í haust og fæða verið fjölbreytt. Hann
nefnir að mýið hafi verið stöðugt síðustu ár og
hornsílið hafi náð sér á strik en lítið sást af því
2015. Miklar áhyggjur komu fram um ástand líf-
ríkisins í Mývatni um það leyti og áhrif þess á
Laxá.
Sveiflur í lífríkinu hafa stundum farið illa með
bleikjuna, þannig drápust fiskar úr hungri í Mý-
vatni sumrin 1988 og 1997. „Nokkuð sem menn
óraði ekki fyrir að gæti gerst í eins frjósömu vatni
og Mývatni. Eftir síðara áfallið var stofninn svo
lítill að hann hafði ekki tímgunargetu til að ná sér
á strik,“ segir Guðni.
Veiðar á bleikju í Mývatni hafa ekki aðeins ver-
ið þáttur í afkomu bænda heldur einnig hluti af
menningu og lífsmynstri þeirra sem búa við vatn-
ið, að sögn Guðna. Veiðifélag var stofnað við Mý-
vatn 1905.
Guðni segir að stofn urriða í vatninu hafi held-
ur gefið eftir síðustu ár, en segist hafa trú á að
hann nái sér á strik.
Bleikjuveiðar auknar í Mývatni
Verndaraðgerðir skila árangri Fjórir góðir árgangar á leiðinni Sjálfbærni að leiðarljósi
Ljósmynd/Árni Einarsson
Í sparifötunum Bleikjupar á hrygningartíma, en aðeins sporðurinn sést á hrygnunni. Hængur-
inn er í rauðum og grábláum búningi með hvítar bryddingar á uggum og föla flekki í andliti.
Lítið er að frétta af kúluskítnum í Mý-
vatni. Vatnið hefur verið gruggugt í allt
sumar og segir Árni Einarsson,
forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðv-
arinnar við Mývatn, að blábakteríu-
blómar sem komi í vatnið hindri trúlega
vöxt kúluskítsins.
Mikill blómi hafi verið í vatninu í sum-
ar eins og var 2015. Vatnið hafi verið
gruggugt í allt sumar og engin birta
komist á botninn, sem takmarki vöxt
þörunga. Árni segir að verði vatnið tært
nokkur sumur í röð ætti kúluskítur að
geta náð sér á strik.
Stór kúluskítur sem var áður í stórum
breiðum í Mývatni hefur ekki fundist í
vatninu frá 2014. Litlir hnoðrar kúlu-
skíts, álíka að stærð og þokkaleg mynt,
eins og gamli fimmeyringurinn, hafa
hins vegar fundist í vatninu síðustu ár.
Kúluskítur er eitt vaxtarform græn-
þörungs sem heitir vatnaskúfur. Kúlu-
skítur var alfriðaður í Mývatni árið 2006
og komst þá í flokk með nokkrum öðr-
um sjaldgæfum og sérstökum plöntum.
Talið er að kúluskítur lifi einungis á ör-
fáum stöðum í heiminum og stórvaxinn
kúluskítur aðallega í þremur stöðuvötn-
um, þ.e. í Mývatni, í Akanvatni í Japan
og einu vatni í Úkraínu. Hann finnst
m.a. einnig í Kringluvatni í Suður-
Þingeyjarsýslu, en verður ekki stór.
Litlar fréttir af
kúluskítnum
GRUGGUGT Í ALLT SUMAR
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Byggðasafn Árnesinga á Eyrar-
bakka fékk á dögunum að gjöf eitt
elsta píanó landsins; sem er af
gerðinni Cadby, smíðað árið 1855.
Það sem meira er: hljóðfærið teng-
ist sögu Hússins, hinni sögulegu
byggingu þar sem aðsetur safnsins
er. Lýður Pálsson safnstjóri segir
þessa gjöf afar dýrmæta og í safn-
húsinu verði píanóið sýningar-
gripur og á góðum stundum megi
nota það til tónlistarflutnings.
Í byggðasafninu er fyrir píanó,
smíðað árið 1871. Lýður segist
lengi hafa staðið í þeirri trú að það
væri elsta píanóið frá tímum fak-
toranna; dönsku kaupmannanna
sem stunduðu forðum verslunar-
rekstur á Eyrarbakka og bjuggu í
Húsinu. Seinna fann Lýður með
bókagrúski að eldra hljóðfæri hefði
verið í kaupmannshúsinu og mynd-
in skýrðist enn betur nú í vor þegar
Glúmur Gylfason, lengi kennari og
organisti við Selfosskirkju, hafði
samband og sagði honum frá um-
ræddu píanói, sem langamma hans
og langafi höfðu átt. Þau voru
Helga Friðrikka Vigfúsdóttir og
Siggeir Torfason, sem kynntust í
Húsinu árið 1887. Píanóið fylgdi
þeim og afkomendum þeirra – og
síðast áttu það systkinin Halla,
Birna, Tryggvi og Kristbjörn
Helgabörn í Reykjavík.
„Í vor höfðum við Glúmur sam-
band við systurnar Birnu og Höllu
og könnuðum hjá þeim hvort píanó-
ið gætið farið á sinn upprunalega
stað. Því var tekið vel og safninu
var gefið hljóðfærið sem við erum
afar þakklát fyrir,“ segir Lýður.
„Húsið var miðstöð tónlistarmenn-
ingar á 19. öld eftir að hingað komu
hjónin Sylvía og Guðmundur Thor-
grímsen árið 1847 og unnu hér í
þágu Lefolii kaupmanns í fjóra ára-
tugi. Hér var tónlist og söngur í há-
vegum hafður á þeirra tíma og tón-
listarmenningin breiddist út um
allt héraðið. Hér í stofu Hússins
hefur verið spilað á píanó og efni-
legu fólki kennt.“
Lýður hefur jafnframt orð dr.
Bjarka Sveinbjörnssonar, tónlistar-
fræðings frá Stokkseyri, fyrir því
að píanóið sé hið fyrsta sem farið
hafi á heimili utan Reykjavíkur –
það er á Eyrarbakka þangað sem
hljóðfærið er aftur komið nú.
Fyrsta píanóið fær aftur sess í Húsinu
Góð gjöf til Byggðasafns Árnesinga Hljóðfæri frá
árinu 1855 af gerðinni Cadby aftur komið á Eyrarbakka
Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson
Píanó Lýður Pálsson hér við hljóðfærið góða í Byggðasafni Árnesinga.