Bæjarins besta - 10.01.1990, Side 11
BÆJARINS BESTA 11
þessu. Ég held að núverandi
flokkar í bæjarstjórn ættu að
taka saman höndum og
marka einhverja stefnu út úr
þessum erfiðleikum fremur
en að fara af stað með kosn-
ingaloforð um einhverjar
nýjar framkvæmdir."
Haraldi hefur verið nokk-
uð niðri fyrir í þessarrri ræðu
og hann tekur sér stutta mál-
hvíld. Segirsíðan: „Ogefþú
telur að þetta sé pólitík þá
eru þetta mínar skoðanir."
Þetta er reyndar ekki í
fyrsta sinn sem Haraldur
gerir skuldastöðuna að um-
ræðuefni en það er ljóst að
honum finnst ástandið alvar-
legt. Sem dæmi um það má
nefna að hann sendi bæði
forseta bæjarstjórnar og for-
manni bæjarráðs bréf í nóv-
ember þar sem hann rakti
þessar skoðanir og lagði til
að ekki verði farið út í neinar
nýjar framkvæmdir á næstu
árum og hægt verði verulega
á byggingum sem komnar
eru af stað og að útsvarspró-
senta verði hækkuð úr 6,7%
í 7,5% sem hefur verið sam-
þykkt. Ég spyr hann hvort
hann óttist að komandi
kosningar verði til þess að
bæjarfulltrúar forðist að taka
á vandanum. Hann hugsar
sig um í stutta stund og segir
síðan: ,,Já, maður óttast það
auðvitað að menn fari að
lofa einhverju sem erfitt
verður að standa við.“
Öldrunarmálin
stefna í óefni
Öldrunarmálin hafa orðið
œ viðameiri síðustu árin og
stundum valdið deilum hver
œtti að stýra þeim, öldrunar-
ráð, félagsmálaráð, félags-
málastjóri eða forstöðumað-
ur öldrunarmála. Nú hefur
verið skipuð nefnd til að end-
urskipuleggja þau?
,,Já. Þar hefur verið tekið
nokkuð hraustlega á málum
og menn hafa farið í stórar
framkvæmdir. Það er ekki
lengra en síðan árið 1982 að
Hlíf I var tekin í gagnið. Fyr-
ir þann tíma þá var félags-
málastjóri í einu stöðugildi
og einn maður til í hálfu
stöðugildi sem sáu um að
þjóna öllum öldrunarmálum
í kaupstaðnum að frátöldu
elliheimilinu. Síðan hefur
þetta vaxið meira og meira
þannig að þetta er orðið stór
stofnun og við höfum ekki
verið nógu vakandi fyrir því
að byggja öldrunarmálin upp
í kringum hana. Eins og mál-
um er háttað hjá okkur í dag
og ekki er gripið í taumana
þá stefnir þetta bara í óefni.
Skipulagið hefur ekki verið í
takt við vöxt þessa apparats
og þess vegna flutti ég tillögu
í bæjarstjórn um að skipuð
yrði sérstök nefnd sem færi
ofan í öll öldrunarmálin al-
veg frá grunni og legði fram
tillögur frá a til z um alla
þætti þessa málaflokks. í
nefndinni sitja Guðjón
Brjánsson félagsmálastjóri
og Guðmunda Birgisdóttir
forstöðumaður öldrunar-
mála og þau hafa fengið sér
til aðstoðar Helga Þórðarson
verkfræðing. Þess má geta
að í tillögu að nýrri bæjar-
málasamþykkt er lagt til að
öldrunarráð verði lagt niður
í þeirri mynd sem það er nú
og öldrunarmálin fari undir
félagsmálaráð.
Þjónusta við fólk sem er
orðið háaldrað og sjúkt og
þarf stöðugrar umönnunar
við er vandamál hjá okkur
sem þarf að leysa og ég vona
að nefndin taki á því. Þar
verður að grípa til einhverra
ráðstafana á næstu árum.
íbúðirnar á Hlíf miðast við að
fólk geti hjálpað sér sjálft.
Þegar það er orðið háaldrað
verður að vera til einhver
stofnun sem getur tekið við
því. Ég hef ekki trú á því að
sjúkrahúsið geti sinnt þessu
alfarið og það verður fólk
bara að horfast í augu við.
Ég er kannski kominn í enn
einn þrýstihópinn þegar ég
segi þetta en hér erum við að
tala um framkvæmd sem er
ekki áhugamál nokkurra
heldur framkvæmd sem
sprettur af nauðsyn; við
komumst ekki hjá því að
koma á laggirnar stofnunar-
aðstöðu fyrir þetta fólk.
Ég harma það að ekki hafi
verið gengið til samninga við
sjómannadagsráðin í
Reykjavík og Hafnarfirði
um að fá hlut í ágóða af sölu
happdrættismiðum DAS til
byggingar dvalarheimilis fyr-
ir aldraða sjómenn á ísa-
firði. Sjómannadagsráðin
voru búin að samþykkja
þetta en vilji var ekki hér
heima þrátt fyrir að samþykkt
hafi verið á sínum tíma að
leita eftir þessu.
Það svíður
stundum undan
Þú sagðir í upphafi þessa
viðtals að þú vœrir ekki lang-
rœkinn en nú er stundum sagt
um þig að þú sért of hör-
undsár gagnvart gagnrýni?
,,Það hefur verið borið
upp á mig að ég sé mjög við-
kvæmur. Sem dæmi má
nefna í því sambandi þegar
verið er að setja út á starfs-
menn bæjarins og það er al-
veg rétt. Bæjarsjóður hefur á
að skipa mjög góðu starfs-
fólki upp til hópa og það fer
alltaf mjög í taugarnar á mér
þegar ég heyri menn hnýta í
þetta fólk. Mér finnst það
vera algjört ábyrgðarleysi
hjá bæjarfulltrúum t.d. að
leyfa sér að gera slíkt en hafa
ekki kjark til að koma og
ræða við fólkið sjálft ef þeir
hafa eitthvað út á það að
setja. Og ég get ekki setið
hjá og hlustað á slíkt án þess
að gera við það athugasemd-
ir. Það er oft sagt að hér á
bæjarskrifstofunum sc alltof
margt fólk en á almennu
bæjarskrifstofunni hefur
orðið fækkun enda þótt
fjölgað hafi á tæknideildinni.
Það verður að taka í reikn-
inginn hvað er verið að vinna
og öll þau verkefni sem bæst
hafa við, t.d. verkamanna-
bústaðirnir og endurmat
allra fasteigna í bænum o.s.
frv.
Mér hefur oft fundist
gagnrýni bæjarbúa á starfs-
fólkið hér beinast að vitlaus-
um aðila og held að menn
telji sig með því vera að
gagnrýna meirihlutann.
Þetta kemur við og særir
fólk.
Ég get ekki neitað því að
ákveðnir menn innan Sjálf-
stæðisflokksins sem starfað
hafa að bæjarmálefnum,
hafa af einhverjum ástæðum
lagt sig fram um að gera það
sem ég hef sagt og gert í
mörgum málum ótrúverð-
ugt. Auðvitað finnst manni
„Maður óttast auðvitað
kosningaloforðin.“
slíkt mjög miður og mér hef-
ur verið sagt að þessir menn
hafi gengið það langt að
ræða þetta á opnum fundum
hjá flokknum. Mér finnst
það alltaf mjög lítilmannlegt
þegar menn leyfa sér að tala
um hluti sem að maður á að
hafa gert eða sagt og hafa
ekki kjark til að koma beint
til mín og ræða beint um þá.
Ég vísa því öllu því sem hef-
ur verið borið upp á mig í
einhverri tvöfeldni heim til
föðurhúsanna. Ég hef lagt
mig fram við það að segja
satt og rétt frá og talið mig
vinna eftir minni bestu sann-
færingu.
Auðvitað svíður manni
svona lagað og ég vil fá að
svara fyrir mig þegar ég tel
að ekki sé farið með rétt mál
og ég er hafður fyrir rangri
sök. En þegar ég er búinn að
svara fyrir mig er málinu
lokið og afgreitt. Þannig
vinn ég yfirleitt og vil ekki
láta nein mál liggja hjá mér
lengi áður en ég afgreiði þau
og sama gildir hvort sem það
eru mál sem koma upp í
vinnunni eða annars staðar.
Auðvitað hlýtur það að
koma fyrir mann að gera ein-
hver mistök á níu ára tíma-
bili en ég held að það sé
betra að koma málunum frá
sér og gera ef til vill einhver
mistök heldur en að láta allt
liggja hjá sér í lengri tíma og
afgreiða það seint og síðar.“
Einkageirinn
næstur?
Þú sagðir ekki neitt liggja
fyrir um hvað tekur við þegar
þið farið héðan, en hvert er
óskastarfið?
Ég hugsa mér ekki neitt
ákveðið óskastarf en ég held
að það geti orðið erfitt að
gíra sig niður úr þessu starfi.
Ég hef haft mjög mikið að
gera og mér líkar best að
vinna undir álagi. Það yrði
að minnsta kosti ekki óska-
starfið að setjast inn á ein-
hverja skrifstofu frá níu til
fimm. Nú er ég búinn að
vera opinber embættismaður
í 12-13 ár þannig að ef ég
ætla mér í einkageirann þá
verð ég að gera það núna.
Hins vegar stefni ég ekki á
neitt sérstakt í því og er op-
inn fyrir öllu jafnt þar sem
hjá hinu opinbera. Hjá bæj-
arsjóði vinna um hundrað
manns sem heyra beint eða
óbeint undir mig og ég hugsa
að það verði mjög erfitt fyrir
mig að fara að vinna sem
undirmaður annarra eftir
þennan tíma. Sviðsljósið er
þó ekkert kappsmál hjá mér.
Ég vil bera ábyrgð í því starfi
sem ég gegni og eins og ég
sagði áðan, vera undir álagj,
Samt sem áður ber ég
álagið ekki með mér heim.
Um leið og ég er kominn út
af þessarri skrifstofu þá er ég
búinn í vinnunni og hef eng-
ar áhyggjur heima hjá mér.
Það eru ekki nema örfá
skipti sem ég hef verið að
velta einhverjum málum fyr-
ir mér heima fyrir og þetta
tel ég mjög gott. Það kæmi
eflaust niður á starfinu ef
maður væri í því svo til allan
sólarhringinn. Og ég vil líka
þakka bæjarbúum fyrir það
að ég verð fyrir mjög litlu
ónæði heima fyrir. Kannski
eru ísfirðingar svona hugul-
samir og kannski er þessi
friður líka vegna þess að ég
hef frá upphafi tekið slíkum
hringingum frekar illa, nema
að málið sé þess brýnna.
Vinnutíminn er nógu lang-
ur samt. Ég er kominn í
vinnu klukkan átta og yfir-
leitt eru fundir eftir skrif-
stofutíma þannig að ég er yf-
irleitt aldrei kominn heim
fyrr en um átta og oft á tíð-
um eru fundir einnig á
kvöldin. Ég tók þá ákvörðun
mjög snemma að vera ekki í
vinnunni um helgar og nota
þær til þess að vera með fjöl-
skyldunni.“
Þú hefur gegnt ýmsum em-
bœttum jafnframt því að vera
bæjarstjóri?
Já, ég er hafnarstjóri og
var formaður stjórnar heilsu-
gæslunnar fram að síðustu
áramótum. Ég sit í ýmsum
nefndum, er formaður bygg-
ingarnefndar bæjarins, bygg-
ingarnefndar íþróttahússins
og Stjórnsýsluhússins. Ég sit
auðvitað alla bæjarstjórnar-
fundi og bæjarráðsfundi og
auk þess hef ég seturétt á öll-
um nefndarfundum bæjar-
ins. Hins vegar mæti ég ekki
á þá nema óskað sé eftir því
sérstaklega og þá út af
ákveðnum málum. Ég er líka
framfærslufulltrúi. Félags-
málastjóri vinnur öll fram-
færslumál en þarf síðan að
bera þau undir mig áður en
frá þeim er gengið. Ég þarf
því að sitja alla fundi fram-
færslunefndar sem er félags-
málaráð.
Af þessu má sjá að starfið
er margbreytilegt. Það var
mjög lærdómsríkt að sitja
bæði í undirbúningsnefnd og
byggingarnefnd Stjórnsýslu-
hússins og ánægjulegt að
hafa síðan starfað í húsinu. f
nefndinni voru með mér
mætir menn, þeir Högni, Jó-
hann og Brynjólfur. Ég tel
að ég hafi lært mikið af að
starfa með þeim.“
Fótbolti á
þriðjudögum
Hvað með áhugamál utan
vinnunnar?
„Áhugamálin og vinnan
fara mjög vel saman, ég á
við að ég hef mikinn áhuga á
vinnunni og hef fá önnur
áhugamál. Ég hef stundað
fótbolta meö nokkrum sam-
starfsmönnum mínum á
þriðjudagskvöldum í vetur
og það hefur verið mjög
gott. í svona vinnu þarf oft
að fórna ansi miklu af tíma
en ég líð ekki fyrir það per-
sónulega. Þetta bitnar liins
vegar verulega á fjölskyld-
unni og samviskan er ekki
góð gagnvart henni. Þegar
maður kemur heim á kvöldin
og sest niður til að horfa á
fréttir og sofnar kannski yfir
sjónvarpinu þá er yngsti
strákurinn farinn að sofa
þegar ég vakna eftir hálfan
eða einn klukkutíma. Það
væri mjög erfitt að vera í
svona vinnu ef konan og fjöl-
skyldan skildu þetta ekki.“
Viðtalið hefur farið fram
bæði á heimili þeirra hjóna
og á skrifstofunni í Stjórn-
sýsluhúsinu. Nú kemur
Álma á símanum með stóran
bunka af gulum skilaboða-
miðum og það er greinilegt
að bæjarstjórinn verður að
fara að sinna starfinu aftur.
Við þökkum fyrir okkur og
látum þessu lokið hér.
-V.D.