Fræðaþing landbúnaðarins - feb. 2010, Blaðsíða 279
MÁLSTOFA F – MAðUR – VATN – NÁTTúRA | 279
Elín Fjóla Þórarinsdóttir og Ólafur Arnalds
Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands
Hnignun lands, þar með talið jarðvegs, gróðurs og vatns er talin orsakast af
mannavöldum eða magnast vegna áhrifa mannsins og er vegna þessa aðgreind frá
annarri náttúruvá (Conacher, 2009). Rof (erosion) getur verið náttúrulegt ferli en
hnignun (degradation) jarðvegs getur valdið hraðaðri jarðvegseyðingu (accelerated
soil erosion). Það er almennt viðurkennt að hröðuð jarðvegseyðing er hnattrænt
vandamál og vindrof er einn meginþátta sem valda eyðimerkurmyndun (Lal, 1994).
Mikil landhnignum hefur orðið á Íslandi frá Landnámi og samkvæmt kortlagningu á
jarðvegsrofi á landinu öllu er mikil eða mjög mikil jarðvegseyðing á um 40% landsins
(Ólafur Arnalds o.fl., 1997). Stór hluti þessara svæða er á hálendinu þar sem vindrof
er algengt á víðfemum sandsvæðum eða auðnum. Íslenskur jarðvegur telst að
langmestum hluta til eldfjallajarðar og samkvæmt nýju íslensku jarðvegskorti (Ólafur
Arnalds og Hlynur Óskarsson, 2009) flokkast jarðvegur auðna sem glerjörð, sem
skiptist í fjóra undirflokka eftir umhverfisaðstæðum hverju sinni þ.e. melajörð,
malarjörð, sandjörð og vikurjörð. Þeir þrír þættir sem eru mestu áhrifavaldarnir í
jarðvegsumhverfi íslenskra auðna eru; kalt úthafsloftslag, þar sem frostferli eru
algeng, tíð eldsumbrot og mjög virk jarðvegseyðing (Arnalds og Kimble, 2001).
Sandfok á auðnum hefur töluvert verið rannsakað hérlendis á síðustu árum.
Rannsóknahópur Rala (nú LbhÍ) rannsakaði m.a. útbreiðslu sandsvæða á Íslandi í
samvinnu við Landgræðslu ríkisins vegna kortlagningar á rofi á Íslandi (Ólafur
Arnalds o.fl., 1997). Þá unnu Ólafur Arnalds og samstarfsmenn að mælingum á
vindrofi á sandfokssvæðum víða um landið (Hjalti Sigurjónsson o.fl., 1999) og í
tengslum við meistaraverkefni Fanneyjar Gísladóttur (2000) og Hjalta Sigurjónssonar
(2002). Þessi hópur birti yfirlitsgrein um íslenska sanda í Journal of Arid
Environments (Ólafur Arnalds o.fl., 2001). Áhrif landslags á sandfok hefur einnig
verið skoðað m.a. í rannsókn á sandsvæði sunnan Langjökuls (Fanney Ó. Gísladóttir
o.fl., 2005). Efnisflæði með vindi hefur verið mælt á Hólsfjöllum (Ólafur Arnalds og
Fanney Ó. Gísladóttir, 2009) og á Geitasandi á Rangárvöllum (Ólafur Arnalds og
Berglind Orradóttir, 2010). Þessar rannsóknir hafa þó ekki náð til svæða sem flokkast
sem vikurjörð.
Hér er greint frá fyrstu niðurstöðum úr mælingum á efnisflæði með vindum á
vikurjörð og sandjörð í nágrenni Heklu. Rannsóknin er hluti af mastersverkefni við
Landbúnaðarháskóla Ísland en meginmarkmiðið er að ákvarða magn og eðli sandfoks
á svæðinu og tengja það við aðra þætti í umhverfinu s.s. kornastærð og hrjúfleika
yfirborðs.
Rofferlum, þar með talið vindrofi, má skipta í þrjá grunnþætti; losun, flutning og
setmyndun. Vindhraði sé sá þáttur sem stjórnar mestu um vindrof en aðrir þættir eins
og kornastærðarsamsetning, hrjúfleiki yfirborðs, gróðurþekja og veðurfar hafa einnig
áhrif (Rose, 1998; Zobeck o.fl., 2003). Flutningsmáti efna með vindrofi er þrenns
konar; skrið, skopp og svif. Skrið (creep) er hreyfing stærstu kornanna með jörðu.