Morgunblaðið - 29.01.2021, Side 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. JANÚAR 2021
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Georg Guðni hefur verið gríðarlega
afkastamikill á þessum síðustu fimm
árum. Verkin hér eru í einkaeign og
það var úr um fimmtíu olíu-
málverkum að velja frá þessum
tíma,“ segir Einar
Garibaldi Eiríks-
son myndlistar-
maður sem er
sýningarstjóri
sýningarinnar
Berangur sem
verður opnuð í
Listasafni Íslands
á morgun. Á
henni eru mál-
verk sem Georg
Guðni Hauksson (1961-2011) málaði á
síðustu fimm árunum sem hann lifði.
Einar Garibaldi var vinur Georgs
Guðna sem var mörgum harmdauði
er hann féll frá svo langt fyrir aldur
fram fyrir nær tíu árum. Þrátt fyrir
ekki langan starfsaldur hafði hann
öðlast gríðarlegar vinsældir fyrir
heillandi myndverk sín og hafði gert
landslagið gjaldgengt að nýju í
kjarna frumlegrar og skapandi list-
sköpunar hér.
Einar Garibaldi hefur valið verkin,
í samstarfi við fjölskyldu Georgs
Guðna og Listasafnið. Hann segir að
fljótlega hafi komið upp sú hugmynd
að kalla sýninguna Berangur eftir
landspildunni sem Georg Guðni og
fjölskylda keyptu sér í nágrenni
Heklu árið 2004. Þar byggði hann sér
hús og vinnustofu þar sem hann
dvaldi löngum og hafði umhverfið
mikil áhrif á þau verk sem hann
skapaði á þeim tíma, allt til dauða-
dags.
Ógnvekjandi draumsýn
Í kynningartexta sýningarinnar
segir Einar að nafngiftin Berangur
sé vel til fundin, því þar svipar öllu
náttúrufari til þeirra staðhátta sem
fólki séu svo kunn af verkum hans.
„Eftir á að hyggja vaknar sú áleitna
spurning hvort það hafi verið Georg
Guðni sem valdi sér þessa landspildu
sem sitt annað heimili eða hvort
hugsanlega hafi það verið landspild-
an sem valdi innri heim listamanns-
ins sem umbúnað tilveru sinnar […]
Vera Georgs Guðna á Berangri átti
eftir að hafa afgerandi áhrif á þróun
hinstu verka hans. Öll bera þau með
sér sterkt svipmót þess hrjóstruga
eyðilands er einkennir náttúru land-
svæðisins í kringum Berangur. Sem
fyrr byggjast þau á næmu skyn-
bragði og upplifunum Georgs Guðna
gagnvart umhverfi sínu,“ skrifar
Einar Garibaldi.
Þá segir hann að undir lág-
stemmdu yfirbragði síðustu verka
Georgs Guðna hafi tekið „að bera á
óþreyjufullum kenndum. Fram
komu fyrirboðar óvæntra breytinga
er gáruðu yfirborðið. Það var sem
eitthvað lægi í loftinu og hæglát
veðrabrigðin urðu nú smám saman
ágengari. Á Berangri var líkt og
stöðugt drægi saman með listamann-
inum og landspildunni sem hafði út-
nefnt hann. Vinnudagarnir urðu sí-
fellt lengri og vart mátti á milli sjá
hvort kæmi á undan landið eða
myndin af því. Á lofti voru feiknstafir
er boðuðu breytingar á lífi hans og
list sem ekki varð séð fyrir endann á.
En það var einmitt hér á berangr-
inum sem hin ógnvekjandi draumsýn
Georgs Guðna um samruna sinn og
náttúrunnar fullkomnaðist.“
Mörg hafa ekki verið sýnd
„Stór hluti verkanna á sýningunni
er unninn á Berangri og mörg hafa
ekki komið fyrir almenningssjónir
áður,“ segir Einar Garibaldi þegar
rætt er við hann í sýningarsalnum.
Hann bætir við að þótt þetta sé ekki
fyrsta sýningin sem sett er upp á
verkum Georgs Guðna síðan hann
lést, þá sé athyglisvert að horfa nú
með þessum hætti á lokatímabil fer-
ilsins. Nokkur verkanna á sýning-
unni komi líka frá útlöndum og hafi
aðeins verið sýnd þar. Þrátt fyrir að
Georg Guðni hafi einnig unnið að
vatnslitamyndum og teikningum á
þessum tíma hafi verið ákveðið að
beina sjónum eingöngu að olíu-
verkum.
Meiri hraði, meiri efniskennd
Þegar Einar Garibaldi er beðinn
að lýsa einkennum þessara verka
sem hann velur að sýna segir hann
að það megi augljóslega greina
hvernig Georg Guðni hafi verið að
hverfa frá „því loftkennda“ sem hafi
einkennt verk hans í nokkur ár þar á
undan. „Þá virðist hann ekki hafa
legið jafn lengi yfir gerð verkanna,
eins og stundum áður þegar hann gat
tekið sér óendanlegan tíma til að
eima og meitla verkin yfir langt
tímabil. Í þessum verkum hér finnst
mér eins og honum liggi meira á. Það
er meiri hraði í þeim og meiri efnis-
kennd. Upp á yfirborðið skýst sitt-
hvað úr umhverfinu, ekki endilega
þekkileg kennileiti, kannski einstaka
nibba, hraunkarl eða gjallbingur, allt
saman einkennandi þættir úr um-
hverfinu fyrir austan. Eitt af síðustu
orðspjótunum sem Guðni skrifaði í
skissubókina sína er einmitt: „Mála
alla hólana á Berangri.“ Mér finnst
þessi orð lýsa vel einstakri markvissu
hans og meðvitund um hvert væri
hans verkefni.“
Einar þagnar, lítur yfir verkin í
salnum og bætir við: „Auðvitað vissi
Guðni ekki fyrir hvað myndi gerast
en það er einhver óræð leit í mörgum
þessara verka, sem maður veit ekki
alveg hvert myndi leiða hann. Þess
vegna eru hér líka nokkur verk sem
eru eins og á mörkunum, það er að
maður veit ekki fyrir víst hvort þau
séu fullgerð eða ekki. En ég held að
það geti verið einstaklega áhugavert
fyrir áhorfendur að sjá þau. Sem fyrr
gerðust allar breytingar í verkunum
hans hægt, fram og til baka með
hraða dalalæðunnar. Það ber því ekki
á neinum stórkostlegum breytingum
í þessum síðustu verkum hans, en
maður finnur að dvöl hans á Berangri
hefur haft sterk áhrif á myndheim-
inn.“
Eins og við sem heimsóttum Georg
Guðna á vinnustofur hans gegnum
árin upplifðum, þá byggði hann mál-
verk sín iðulega upp með fjölmörgum
þunnum lögum af lit með ríkulegu
gegnumskini. En hér er eins og kveði
við annan tón.
„Já, eins og ég nefndi áðan finnast
mér síðustu verkin vera efnis-
kenndari og massívari og það er jafn-
vel eins og hann hafi málað sum
smæstu verkin í einni vinnutörn,“
segir Einar Garibaldi.
„Guðni hefur þá blandað litinn á
litaspjaldinu og sett hann í einni
stroku niður á strigann, í stað þess að
setja hann niður lag fyrir lag til að ná
fram því gegnsæi litanna, eins og
hann gerði áður á tímabili. Eins
finnst mér meira einkenna þessi verk
hvað iðjan að mála er orðin ennþá
sýnilegri og sterkari þáttur en áður.
Þannig að glíman við sjálfan miðilinn
er líkt og samtvinnuð við viðfangs-
efnin. Í þessum síðustu verkum hans
finn ég svo mikið fyrir þessu ríkulega
samtali sem hann átti alltaf í við sögu
málaralistarinnar, en hér kannski
enn frekar við sjálfa athöfnina og ár-
áttuna sem henni fylgir, við sjálfa
gjörðina að mála.“
Annað samband við náttúruna
Samhliða sýningunni í Listasafni
Íslands gefur safnið í marsmánuði út
samnefnda bók, Berangur, með verk-
unum eftir Georg Guðna á sýning-
unni. Skáldin Jón Kalman Stefánsson
og Harpa Rún Kristinsdóttir rita
texta í bókina.
Þegar Einar Garibaldi er í lokin
spurður hvort hann geti svarað
spurningunni hver sé arfleifð lista-
mannsins Georgs Guðna í dag, þá
hikar hann. Segist enn ekki vera bú-
inn að gera það upp við sig. „Það er í
sjálfu sér erfitt að festa hendur á ein-
hverju einu, þessari spurningu verð-
ur hver og einn að svara fyrir sig.
Sjálfur flögra ég á milli þess að vera
vinurinn, sýningarstjórinn og lista-
maðurinn, veit varla í hvaða fót ég á
að stíga,“ segir hann. „Arfleifð hans
er í sjálfu sér ekki í hámæli innan list-
heimsins í augnablikinu, en yngri
listamenn líta þó gjarnan til þeirrar
opnunar sem verk hans hafa valdið á
skynsviðinu, hvernig verk hans taka
á upplifunum okkar í veröldinni og
sambandi manns og umhverfis. Sýn
hans og þessi sterki myndheimur
sem hann mótaði hefur líka að mörgu
leyti breytt afstöðu okkar til náttúr-
unnar í heild sinni. Það er augljóst að
samband okkar við náttúruna er ann-
að eftir að hafa kynnst verkum hans.
Og það er ekki aðeins við sem höfum
breyst, heldur er líka eins og íslensk
náttúra sé ekki söm eftir þessi
kynni.“
Eins og íslensk náttúra sé ekki söm
Á sýningunni Berangur í Listasafni Íslands eru málverk sem Georg Guðni skapaði á síðustu fimm
árum ævi sinnar „Það er einhver óræð leit í mörgum þessara verka,“ segir sýningarstjórinn
Berangur Eitt málverkanna eftir Georg Guðna á sýningunni, Án titils (Búrfell), 2009. Olía á striga, 30 x 50 cm.
Morgunblaðið/Einar Falur
Áhrifamikill Georg Guðni við trönurnar í vinnustofu sinni árið 2005. „Sýn
hans og þessi sterki myndheimur sem hann mótaði hefur líka að mörgu leyti
breytt afstöðu okkar til náttúrunnar í heild sinni,“ segir Einar Garibaldi.
Einar Garibaldi
8
Ræktum og verndum geðheilsu okkar
Nýir skammtar daglega á gvitamin.is
Farðu yfir daginn
áður en farið
er af stað