Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.01.2021, Page 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.01.2021, Page 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10.1. 2021 R áðherrann heilsar brosandi, þó ekki með handabandi því slíkt er auðvitað bannað. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auð- lindaráðherra er léttur á fæti þeg- ar hann skokkar upp á þriðju hæð með blaða- mann á hælum sér. Hann er smart í tauinu, í skyrtu og jakka en bindislaus. Skórnir stinga aðeins í stúf; ljósgrænir og örlítið moldugir úti- vistarskór. Hann hefur sennilega tekið eftir að blaðamaður gjóaði augum á skóna og segir hlæjandi: „Kannski ekki mjög ráðherralegir skór!“ Mögulega ekki, en kannski passa þeir einmitt vel við náttúruunnandann og umhverfissinnann Guðmund Inga. Það er líkt og allt sem hann hefur gert í lífinu hafi búið hann undir ráðherrastarfið en Guð- mundur Ingi er sveitastrákur og náttúrubarn sem fetaði síðar menntaveginn og lærði um- hverfisfræðin. Ástríðan fyrir starfinu skín í gegn. Borgfirskar æviskrár og kindur Guðmundur Ingi er rúmlega fertugur, fæddur í lok mars árið 1977. Hann er alinn upp á sveita- bænum Brúarlandi á Mýrum hjá foreldrum sín- um Guðbrandi Brynjúlfssyni og Snjólaugu Guð- mundsdóttur og á einn bróður. Brúarland er tvíbýli og segist Guðmundur Ingi hafa verið svo gæfusamur að hafa ömmu sína og föðurbróður í næsta húsi. Viska og fróðleikur kynslóðanna var ungum dreng gott veganesti út í lífið. „Amma er fædd inn í allt annan heim og sagði mér sögur úr sinni æsku og því sem hún upplifði sem ung kona. Það er ofboðslega dýrmætt og tengdi mig við gömlu sveitamenninguna,“ segir Guðmundur Ingi og segist hafa lært margt af foreldrum sínum og ömmu sem hann býr að alla tíð. „Amma var með græna fingur og átti stóran garð. Hún kenndi mér að spila og var mjög ætt- rækin. Við vorum bæði mjög áhugasöm um ætt- fræði og borgfirskar æviskrár voru biblía þeirra fræða í minni sveit. Þegar ég var níu og tíu ára lá ég yfir þeim,“ segir hann og brosir út í annað. „Já, þú mátt alveg segja að ég hafi verið skrítið barn,“ segir hann og hlær. „Mamma er vefnaðarkennari og handverks- kona og notar gjarnan efnivið úr náttúrunni. Hún notar mikið ull sem hún litar sjálf og þæfir og bjó lengi til skartgripi úr skeljum og steinum. Þessar tvær góðu konur höfðu mjög jákvæð áhrif á mig. Og sama má segja um pabba og föður- bróður minn. Pabbi er mikill skógræktarmaður og einlægur umhverfis- og náttúruverndarsinni. Frændi minn var fjárbóndinn á bænum og ég fór með honum í fjallið með kindurnar. Það var þarna ákveðinn hugsunarháttur sem ég kannski gerði mér fyrst grein fyrir seinna. Við lifðum af náttúrunni en virtum hana um leið og reyndum að þekkja takmörk hennar. Mér finnst ég alltaf búa að því,“ segir hann. „Uppáhaldsskepnurnar mínar voru kindur. Ég byrjaði mjög ungur að vinna og hef alltaf verið vinnusamur. Ég ætlaði alltaf að verða bóndi, það kom ekkert annað til greina.“ En hvað breyttist? „Svo opnast heimurinn fyrir fleiri tækifærum og áhugasviðið var vítt.“ Ákvað að hætta að gráta Guðmundur Ingi gekk í grunnskóla á Varma- landi og á þeim árum voru börn þar í heimavist frá unga aldri. „Ég átti mjög erfitt með þetta og leið mjög illa í skólanum. Ég var með heimþrá og vildi vera hjá mömmu og pabba. Það gilti um fleiri en mig, þótt það væri vel haldið utan um okkur í skólanum. En ég var bara lítill. Svo þegar ég var tíu ára tók ég þá ákvörðun að láta mér líða vel. Ég ákvað að hætta að gráta í skólanum. Það var virkilega erfitt. Mér tókst það og ég er stolt- ur af því enn þann dag í dag því þetta breytti lífi mínu til hins betra,“ segir Guðmundur Ingi. „Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið í líf- inu og ég reyni oft að minna mig á þessa ákvörðun mína þegar ég er að takast á við stór- ar áskoranir í lífinu; hvort sem það er í vinnu eða einkalífi. Maður hefur heilmikið um það að segja hvernig manni líður og hvaða viðhorf maður hefur.“ Leiklist og hannyrðir Eftir grunnskóla fór Guðmundur Ingi norður í land í Menntaskólann á Akureyri. Þar segist hann hafa kolfallið fyrir leiklist. „Ég var í leikfélagi MA og lék þar mörg skemmtileg hlutverk, meðal annars dýrið í Fríðu og dýrinu. Mig dreymdi þá um að verða leikari.“ Eftir menntaskólann fór Guðmundur Ingi í Hússtjórnarskólann í Reykjavík, en það þótti sumum heldur sérkennilegt á þeim árum að tví- tugur piltur veldi það nám. „Ég held það hafi verið ábyrgðartilfinningin sem ýtti mér þangað. Mér fannst að ég þyrfti að læra ákveðin undirstöðuatriði áður en ég færi út í lífið. Það hljómar ótrúlega dramatískt,“ seg- ir hann og skellihlær. „Ég lærði hannyrðir og matseld og að geyma mat og nota afganga. Í heimi þar sem matar- sóun er alltof mikil og fötum hent í stað þess að gera við þau nýtist þetta nám svo sannarlega og ég bý enn að þessu.“ Allan daginn að pússa litla krossa Úr húsmæðraskóla hélt Guðmundur Ingi á vit ævintýranna og fór í klaustur í Þýskalandi. „Þarna tók ég þátt í störfum hjá munkunum en þetta var risastórt klaustur. Ég byrjaði á að vinna í gullsmiðjunni. Ég fékk það starf að pússa litla krossa. Þetta var svo leiðinlegt!“ seg- ir hann og hlær. „Ég var allan daginn að pússa krossa. Eftir hálfan mánuð í þessu starfi spurði ég hvort ég mætti prófa eitthvað nýtt. Þá var mér falið það verkefni að búa til hálskeðju úr silfri fyrir ein- hvern biskup. Þetta var aðeins metnaðarfyllra verkefni,“ segir hann og brosir. „Ég var þarna í þrjá mánuði og þetta var æðislegur tími. Ég ákvað strax í upphafi að ég myndi taka þátt í bænalífi munkanna. Dagurinn byrjaði klukkan fimm með morgunbæn og voru það ljúfustu stundir dagsins. Þar voru munkar að kyrja og það var svo mikil kyrrð. Þetta er besta hugleiðsla sem ég hef nokkurn tímann kynnst.“ Frá Rússlandi til Bandaríkjanna Eftir heimkomuna fór Guðmundur Ingi í líf- fræðinám í Háskóla Íslands, með viðkomu í Rússlandi, en þar bjó hann í eitt ár ásamt þá- verandi kærustu. „Þetta var mikið ævintýri og ég lærði rúss- nesku, þótt ég sé því miður búinn að tapa henni niður,“ segir hann. „Ég kom svo heim og kláraði líffræðina og fór þaðan til Yale í Bandaríkjunum í meistaranám í umhverfisfræðum. Þar kynntist ég líka hag- fræði og félagsfræði og nálgunin verður mjög praktísk. Maður lærir að leysa vandamál og hvernig eigi að koma í veg fyrir þau. Það er óskaplega heillandi og gefandi. Loftslagsbreyt- ingar eru stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna og þar verðum við að ná árangri því það skiptir gríðarlegu máli fyrir bæði menn og aðrar lífverur. Það verkefni er mín ástríða.“ Hræddur við viðbrögðin Þegar Guðmundur Ingi var í Bandaríkjunum kom hann út úr skápnum, 27 ára gamall. Var það erfitt? „Já, það var svolítið erfitt. Ég hafði áhyggjur af öllum í kringum um mig; hvernig samfélagið myndi taka þessu. Ég átti konu á þessum tíma sem ég hafði verið með í sjö ár. Það var erfiðast gagnvart henni. Mér þótti og þykir ofboðslega vænt um hana og fannst þetta mjög ósann- gjarnt gagnvart henni,“ segir hann. Guðmundur Ingi segir fjölskylduna ekki hafa grunað að hann væri samkynhneigður en segir það ekki hafa komið öllum vinum á óvart. Hann segist í byrjun hafa verið feiminn við að hitta fólk, meðal annars úr heimahögunum, eftir að hann kom út. „Mér fannst óþægilegt að ganga inn í kaup- félagið heima. Þetta er svo mikið í manni sjálf- um; hræðsla við ímynduð viðbrögð annarra. Ég fór svo að hugsa þetta lógískt og vissi að mögu- lega hefði þetta komið til tals á sveitabæjunum en að fólk hefði um margt annað að hugsa. Ég væri ekki svo stór hluti af lífi fólks að það skipti máli hvort ég væri samkynhneigður eða ekki,“ segir hann og segir lífið hafa orðið auðveldara eftir að hann lagði þetta svona upp. „Auðvitað heldur lífið áfram að gefa manni áskoranir þegar maður er hinsegin því maður þarf að halda áfram að koma út úr skápnum fyr- ir fólki og það hef ég þurft að gera á hverjum einasta vinnustað. Nema hér, því það kom strax fram í fjölmiðlum að ég væri fyrsti karlkyns samkynhneigði ráðherrann. Það er mjög þægi- legt að fólk viti þetta og sé ekkert að pæla í því.“ Sem hinsegin ráðherra, finnst þér þú vera fyrirmynd? „Ég lít á þetta þannig að það skipti mjög miklu máli að fólk geti litið á ríkisstjórnina og fundist sjálfsagt að þar sitji hinsegin fólk. Það getur mögulega gefið einhverjum styrk og kraft þegar fólk þarf að horfast í augu við sjálft sig; að þetta er ekki mál á Íslandi í dag að í ríkis- stjórn sitji hommi. Hins vegar eru enn for- dómar hér, sérstaklega gagnvart ákveðnum hópum hinsegin fólks, og við megum ekki gleyma því. Það er mikilvægt að halda áfram að vinna að réttindum hinsegin fólks.“ Að hrökkva eða stökkva Áður en Guðmundur Ingi settist í ráðherrastól var hann framkvæmdastjóri Landverndar í sex ár. Hann var utan þings en flokksbundinn í Vinstri-grænum þegar forsætisráðherra, Katr- ín Jakobsdóttir, bað hann að taka við kefli um- hverfis- og auðlindaráðherra. Hann fékk mjög stuttan umhugsunarfrest. „Það var lítill tími til að ákveða sig og það var bara að hrökkva eða stökkva. Ég fylgdi mínum hugboðum; magatilfinningunni. Mér leist vel á þau verkefni sem biðu mín sem voru í takt við það sem ég hafði verið að berjast fyrir. Í sjálfu sér var þetta ekki erfið ákvörðun því mig lang- aði og langar enn að leggja mitt af mörkum. Með þennan stjórnarsáttmála voru gríðarleg tækifæri og ég gat þarna komið inn með fag- þekkinguna mína, bæði það sem ég hafði lært í náminu en líka með reynsluna af því að hafa starfað í geiranum. Ég brenn fyrir þeim verk- efnum sem við erum að vinna hér og finnst rosa- lega gaman í vinnunni.“ Fannst þér það há þér að þú varst utan flokka? „Nei, mér fannst það ekki há mér á nokkurn hátt. En það tók mig auðvitað smá tíma að kynnast þingstörfum og þinginu,“ segir Guð- mundur Ingi en hann hyggst bjóða sig fram til þings í haust. „Ákvörðunin að fara í framboð í haust snýst um að halda áfram í pólitík og hafa áhrif til góðs. Það er auðvitað háð því að ég verði kos- inn,“ segir hann og segir ráðherraembættið sannarlega hafa aukið áhuga hans á stjórn- málum. „Þegar ég fór í nám í umhverfismálum breikkaði sjóndeildarhringurinn í þeim mála- flokki en það að verða ráðherra og fá að kynnast mörgum öðrum málaflokkum er ekkert annað en forréttindi.“ Stærstu óbyggðu víðerni Evrópu Stofnun hálendisþjóðgarðs er það málefni sem er efst á baugi ráðherra um þessar mundir. Að- spurður um tilgang þess að stofna slíkan þjóð- garð svarar Guðmundur Ingi: „Allt er þetta hluti af stærri sýn. Með friðlýs- ingum, sérstaklega þjóðgörðum, tökum við ákvörðun um að vernda náttúruna og gera henni kleift að þróast sem mest á sínum eigin forsendum, á sama tíma og við erum að opna að- gang að henni svo fólk fái notið hennar með margvíslegri útivist. Þetta er gríðarlega gott form á landnýtingu. Hálendisþjóðgarður myndi vernda ein stærstu óbyggðu víðerni í Evrópu og mér finnst við bera ákveðnar skyldur gagnvart heiminum að vernda þetta svæði. Ég sé fyrir Allt er þetta hluti af stærri sýn Umhverfis- og auðlindaráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson er sveitadrengur með brennandi ástríðu fyrir vinnu sinni. Hann fór bæði í húsmæðraskóla og í klaustur áður en stefnan var tekin í átt að umhverfismálum. Guðmundur Ingi telur að hálendisþjóðgarður verði þjóðinni til góðs, muni vernda náttúru, laða að ferðamenn og skapa ný störf. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is „Ég lít á þetta þannig að það skipti mjög miklu máli að fólk geti litið á ríkisstjórnina og fundist sjálfsagt að þar sitji hinsegin fólk,“ segir Guð- mundur Ingi, en hann er fyrsti karl- kyns samkynhneigði ráðherrann.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.