Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.01.2021, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.01.2021, Blaðsíða 17
leikmennirnir voru fluttir í heimabæinn af eigendum liðsins (sem búa sjálfir í Sádi-Arabíu eða Dallas) og borguðu hverjum og einum fúlgur fjár og í milljörðum talið fyrir það að láta sig hafa það að flytja í þennan hundsrass. Og svo eru þeir dýrkaðir sem guðlegar verur af æst- um samherjum í heimabænum og ekki af minni þrótti norður á Íslandi, sem enginn þeirra hefur þó heyrt nefnt. En það er svo af þeim snillingum að segja að fái þeir betra boð, eftir nokkur misseri, er ekkert í vegi þess að þjóta burt og þeir mæta himinlifandi til baka og skora glaðbeittir gegn sínu gamla liði og aðdáendum sínum þar sem og er á 64. breiddargráðu eða svo. Það er auðvitað ekki heil brú í neinu af þessu, en það er ekki verra fyrir það. Bankaleg tryggðartröll Á þýðingarmiklu augnabliki á blaðamannafundi í Seðlabanka forðum skaut blaðamaður inn þeirri óvæntu spurningu með hvað liði bankinn héldi í ensku deildinni. Svarið kom að bragði: Huddersfield(!), og var þá hægt að halda fundinum áfram. Oftast nær er einhver snefill af ástæðu fyrir flestu, hversu léttvægt sem málið annars er. Það var tvennt sem skaust upp í hugann við skrítna spurningu eins og þessa. Eiríkur Guðnason, starfsbróðir og vinur, hafði farið á fund í Huddersfield allmörgum árum áður og fengið við það tækifæri borðfána með merki borg- arinnar og vissi ekki hvað ætti að gera við hann. Á meðan það álitaefni var til athugunar í bankanum var fáninn hafður einhvers staðar uppi við. Á þeim tíma var rifjað upp að stytta af Harold Wil- son forsætisráðherra stæði uppi fyrir framan járn- brautarstöðina í Huddersfield, en við Wilson höfðu ís- lenskir menn þjarkað um landhelgismál og fisk og einn þeirra, Geir Hallgrímsson, svo síðar þjónað bankanum. Þetta varð að duga. En það má viðurkenna að það er óneitanlega ekki mikið upp úr því að hafa, vinningslega séð, að styrkja Huddersfield af öllum kröftum. En varla væri stór- mannlegt að yfirgefa þetta undirmálslið í neyð. Þegar bréfritari lætur eftir sér að taka þátt í get- raunum um enskan bolta hefur hann talið sér skylt að spá Huddersfield sigri. Og það hefur nokkrum sinnum orðið til þess að hann hefur setið uppi með 11 rétta en hefði ella fengið 12, ef tilfinningasemin hefði ekki tek- ið völdin. En að efninu Þetta langa innskot var eiginlega hugsað til þess að ná utan um að tryggð og aðdáun, sem er sérdeilis algeng í boltadýrkun, eigi sér skyldleika í heimi stjórnmál- anna. Stjórnmálamennirnir hafa það þó fram yfir þá í ensku deildinni að þeir eru ekki með dómara og línu- verði andandi ofan í hálsmálið allar stundir. En eins og í pólitíkinni eru á báðum völlum ótrúlega margir menn, sem eru til í næstum hvað sem er, telji þeir sig komast upp með það. Frávikin eru þó nokkur á milli þessara greina. Stjórnmálastarfsemi eins og við þekkjum hana hér á landi er frekar ung. Lengst af var hún ekki stunduð af atvinnumönnum. Það hafði sína kosti. Fyrir tíma atvinnumennsku voru stjórnmálamenn betur tengdir en síðar varð og ekki aðallega hræddir við vond úrslit af framfærsluástæðum. Almenningur stóð beint undir stjórnmálastarfseminni, bæði félagslega og fjárhags- lega, en ekki óbeint og óspurður eins og nú er. Enginn vafi er á því að gengið hefur verið allt of langt við að ríkisvæða íslensku stjórnmálaflokkana. Að sumu leyti hafa bæði tilfinning og ábyrgð fólks á flokkunum laskast með breytingunni. Einhverjir trúðu því að félagslegi þáttur stjórn- málastarfsins myndi batna við það að stjórnmála- mennirnir þyrftu ekki að „vera í harki“ við að halda flokknum sínum gangandi frá degi til dags. Flokk- arnir hafa ekki sömu skírskotun og áður. Meginþáttur kosningabaráttunnar hverju sinni fer þannig fram að Ríkisútvarpið tilkynnir þeim hvernig, hvar og hvenær umræður fari fram, hver verði meg- inþema og hvenær formennirnir eiga að mæta í kosn- ingabarnatímann! Í barnapíuþjóðfélaginu þorir eng- inn að óhlýðnast. Enda er það meginkrafa slíks þjóðfélags. Fæstir marka nokkurt spor Stjórnmálasagan er hér stutt í núverandi mynd og samhengi hennar er örfáum ljóst og það þótt aðeins sé horft um mjög skamman veg. Í stærri þjóðfélögum er til úrval góðra bóka um stjórnmál viðkomandi lands og bestu bækurnar iðulega á meðal þess ágætasta sem skrifað er utan rita um skáldskap og má nefna nýlega ævisögu frú Thatcher sem dæmi, en mikil vinna færustu manna, undir öflugri ritstjórn, hefur verið lögð í það verk og fengið góða dóma og verð- skuldaða. Algengt er að sú mynd úr heimi stjórnmálanna, sem blasir við á líðandi stund, breytist á örskammri stund. Næsta fáir á þeim vettvangi „lifa“ það af. Það er að nokkru einnig hinn íslenski veruleiki. Það gefur auga leið að í löndum þar sem nærri 700 ein- staklingar sitja á þingi hverju sinni, eins og í Bret- landi (lávarðadeild ekki talin með), ná fæstir almennri athygli. Aðeins ráðherrar í stærstu ráðuneytum kom- ast á blað, ásamt örfáum stjórnarandstæðingum. Sama er að segja um Bandaríkin, þar sem forsetinn á hverjum tíma tekur drýgstan skerf sviðsljóssins. Varla nokkur fulltrúadeildarþingmaður er þjóðþekkt- ur og öldungadeildarmenn, tveir frá hverju ríki, eru lítt þekktir utan þess. Þegar horft er til Frakklands, þar sem við hér fylgj- umst næsta lítt með, þá er forsetinn þar sá eini sem nær máli á hverjum tíma. Og flestir þeirra gleymast furðu fljótt. Mishá stórmenni Það er einföldun, en þó ekki svo fjarri veruleika, að al- menningur utan Frakklands og stór hluti heima fyrir þekkir aðeins Napoleon og de Gaulle og búið. Á Spáni eru það helst Franco og Messi! Julian Jackson prófessor sendi frá sér mikið verk um de Gaulle fyrir rúmum tveimur árum, en hann er nú talinn einn fremsti sérfræðingur í sögu Frakklands á síðustu öld. Síðasti kafli bókar hans (hefst á bls. 770) hefur yfirskriftina: Síðasta franska stórmennið. Í upphafi hans segir: „Eftir því sem Frakkland skreppur saman stækkar de Gaulle. Sé það svo, eins og nú er almenn skoðun, að horft sé til hans sem síð- asta stórmennis Frakklands, er spurt í hverju felst mikilfengleiki hans? Fólst hann, eins og svo margir telja, í einstakri framsýni mannsins?“ Jackson tilnefnir þekkta fræðimenn, suma af vinstri kantinum, sem lengi drógu kenningar um framsýni forsetans í efa. Einn þeirra var svo ólánsamur að hafa árið 1989 bent á að de Gaulle hefði ekki metið styrk komm- únismans rétt (þegar hann hefði hamrað á að hann stæðist ekki til lengdar). Kommúnisminn hrundi árið eftir. En Jackson, sem sjálfur er iðulega mjög gagn- rýninn á de Gaulle í bók sinni, segir svo: „Það er raunar með miklum ólíkindum hversu fram- sýnn hann reyndist. Á fjórða áratug síðustu aldar hafði hann rétt fyrir sér um stríðið um Frakkland, en gjörvallt franska herráðið reyndist á villigötum. Allar gerðir hans síðar byggðust á þessu mati, sem stóðst algjörlega. Sama gildir um spár hans um hrun gjaldeyrisskipunar, sem kennd er við Bretton Woods, sem sérfræðingahjörðin blés á og stóð berrössuð eftir fáum árum síðar. Sama megi segja um spár hans um ógöngur Banda- ríkjanna í Víetnam, stríð sem þeir gætu ekki unnið og eins um óvænta óvináttu Kína og Víetnam. Árið 1964 sagði de Gaulle um Júgóslavíu: „Júgó- slavía fær ekki staðist. Til þess að það gæti orðið þyrfti júgóslavíska þjóð. Hún er ekki til. Júgóslavía er nokkur sprek sem hanga saman á einum þræði. Sá þræðisspotti er Tito. Þegar hann hverfur hrynja sprekin til jarðar.“ Í öðru samtali sagði de Gaulle um framtíð Íraks: „Sunnítar, Shitar og Kúrdar eru hafðir undir sömu sæng. Það eru örlög þessara þriggja að skilja. Þær samanstanda af ólíkum þjóðum, með skil í trúmálum og með ólíka fortíð.“ Og loks nefnir höfundurinn þessa ótrúlega réttu spásögn hans strax eftir morðið á Ken- nedy um að ekkja hins nýmyrta forseta myndi innan tíðar giftast grískum skipakóngi. Þegar André Mal- raux minnti forsetann á þessa spá í síðasta „samtali“ þeirra sagði hann, að sögn Malraux: „Sagði ég þetta virkilega? Ég myndi frekar hafa haldið að hún myndi giftast Sartre. Eða þér.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg 10.1. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.