Morgunblaðið - 24.02.2021, Blaðsíða 12
12 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. FEBRÚAR 2021
Skeifan 3 • 108 Reykjavík • Sími 581 2333 • rafver.is • rafver@rafver.is
ÞRÁÐLAUS SKÚRINGARVÉL
Næsta kynslóð skúringarvéla • Rafhlöðutími u.þ.b. 45 mínútur
FC 7 PREMIUM
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
„Full ástæða er til að meta vandlega
umhverfisáhrif framkvæmdanna og
hver þolmörk lífríkis og náttúru á
svæðinu eru. Nú þegar er lokið við
gerð rúmlega helmings endanlegrar
landfyllingar í Laugarnesinu án
þess að fram hafi farið fullnaðarmat
á umhverfisáhrifum hennar. Þetta
eru ekki góð vinnubrögð.“
Þetta segir í bókun fulltrúa Sam-
fylkingar, Pírata og Vinstri grænna
í umhverfis- og heilbrigðisráði
Reykjavíkur hinn 17. febrúar sl.,
þegar veitt var umsögn um mats-
áætlun fyrir þróun Sundahafnar.
Hér eru fulltrúar meirihlutaflokk-
anna í borgarstjórn að gagnrýna
vinnubrögð Reykjavíkurborgar
sjálfrar, sem samþykkti aðalskipu-
lag og veitti framkvæmdaleyfi fyrir
landfyllingunni í apríl 2019. Fram-
kvæmdir við landfyllinguna við
Klettagarða í Laugarnesi hófust
strax í kjölfarið og þeim lauk síðla
sumars 2020.
Í bókuninni segir enn fremur að
betra hefði verið að hugsa til enda
allar breytingar á þessu svæði svo
þær mætti meta heildstætt og áhrif-
in sem breytingarnar og fram-
kvæmdirnar hafa til skamms tíma
og frambúðar. Umhverfis- og heil-
brigðisráð tók undir umsögn skrif-
stofu umhverfisgæða, sem kynnt
var á fundinum.
Eins og komið hefur fram í frétt-
um áforma Faxaflóahafnir mikla
uppbyggingu í Sundahöfn, m.a. með
landfyllingum og gerð nýrra hafnar-
bakka. Liggur fyrir matsáætlun
sem Efla vann og sendi Skipulags-
stofnun. Hefur verið leitað umsagna
um áætlunina víða, m.a. hjá um-
hverfis- og skipulagssviði Reykja-
víkur. Í umsögn skrifstofu umhverf-
isgæða segir að markmið og
tilgangur framkvæmdarinnar sem
um ræðir (dýpkun, landfyllingar á
meginhafnarsvæði og efnislosun) sé
að tryggja öruggar siglingar og
hafnaraðstöðu fyrir stærri skip.
Öryggissjónarmið mikilvæg
Meðan engin önnur hafnar-
aðstaða á höfuðborgarsvæðinu geti
þjónusta slík skip sé þessi aukna
þörf eðlileg, ekki síst vegna öryggis-
sjónarmiða. Ekki hafi þó verið lagt
heildarmat á þol svæðisins fyrir
auknum umsvifum af hafnarstarf-
semi og því sé mikilvægt að huga að
því í þessu mati á umhverfisáhrif-
um.
„Nokkuð aðrar forsendur eru að
baki landfyllingu við Klettagarða,“
segir í umsögninni. Landfyllingin
sem þegar hefur verið byggð þar sé
undir þeim viðmiðunarmörkum sem
lög um mat á umhverfisáhrifum nr.
106/2000 miða við til að fram-
kvæmdin sé tilkynningarskyld til
Skipulagsstofnunar. Með þeim við-
bótum sem nú er verið að leggja til
sé ljóst að endanleg landfylling sé af
þeirri stærð að hún væri tilkynn-
ingaskyld til Skipulagsstofnunar og
mögulega matsskyld.
„Viðbótin er auðvitað hluti af
þeirri matsáætlun sem nú er kynnt
en að mati skrifstofu umhverfis-
gæða er það óheppilegt að fyrri
landfyllingin hafi verið framkvæmd
án umhverfismats. Þar af leiðandi
gefst ekki tækifæri að meta um-
hverfisáhrif landfyllingarinnar í
heild sinni. Skynsamlegra hefði ver-
ið að mati skrifstofu umhverfisgæða
að bíða með að framkvæma fyrri
landfyllinguna fyrst það stefndi í að
síðari hluti hennar kæmi til skoð-
unar svo fljótt eins og raun ber
vitni,“ segir í umsögninni.
Heildarflatarmál þeirrar landfyll-
ingar sem lokið er við er 2,3 hekt-
arar. Þarna er áformað að byggja
nýjar höfuðstöðvar Faxaflóahafna
og aðstöðu fyrir dráttarbáta.
Fullgerð verður landfyllingin um
fimm hektarar. Ekki liggur fyrir
hvenær ráðist verður í gerð seinni
hluta landfyllingarinnar, að sögn
Magnúsar Þórs Ásmundssonar,
hafnarstjóra Faxaflóahafna. Verkið
sé t.a.m. ekki á fjárfestinga- eða
framkvæmdaáætlun ársins 2021.
Á viðbótarlandfyllingunni er gert
ráð fyrir stækkun skolphreinistöðv-
ar Veitna. Fyrirtækið áformar á
næstu árum að stækka hreinsi-
stöðvarnar við Klettagarða og Ána-
naust. Þessar framkvæmdir hafa
ekki verið tímasettar.
Ljósmynd/Efla
Landfylling Svona lítur hún út í endanlegri mynd. Brúni hlutinn er tilbúinn.
Morgunblaðið/Eggert
Laugarnes Sá hluti landfyllingar sem lokið er við. Þarna eiga höfuðstöðvar Faxaflóahafna að vera í framtíðinni.
„Þetta eru ekki góð vinnubrögð“
Gagnrýna að ekki hafi farið fram fullnaðarmat á landfyllingu í Sundahöfn Borgin veitti leyfin
Háskóladagurinn fer fram laugar-
daginn 27. febrúar næstkomandi á
milli kl. 12 og 16. Þá gefst öllum sem
hyggja á háskólanám tækifæri til að
kynna sér allt grunnnám allra há-
skóla á landinu. Í ár verður háskóla-
dagurinn alfarið á netinu vegna sam-
komutakmarkana er tengjast
Covid-19. Nýjar tilslakanir, sem taka
gildi í dag, duga ekki til að opna há-
skólana fyrir fólki, þannig að áfram
er miðað við að kynningin fari fram á
netinu, haskoladagurinn.is.
Á laugardaginn kemur munu um
300 fjarfundir tengjast vefnum þar
sem hægt verður að fá upplýsingar
um allar námsbrautir en á fjarfund-
unum geta áhugasamir spurt spurn-
inga um námið og spjallað við fulltrúa
háskólanna, nemendur og kennara.
Leitarvél birtir námsbrautir frá
öllum háskólum landsins en hverri
námsbraut fylgja tiltekin leitarorð
sem hjálpa notendum við að finna
nám þótt þeir slái ekki endilega inn
heiti námsbrautarinnar sjálfrar, segir
í tilkynningu.
Fyrst um sinn er áhersla vefsins,
sem og háskóladagsins, lögð á grunn-
nám.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kynning Háskóladagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2004 og fer nú
fram í sautjánda sinn. Nú verður námið alfarið kynnt á netinu.
Stafræn kynning
Skipulagi háskóladagsins á netinu
ekki breytt þrátt fyrir tilslakanir