Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.03.2021, Qupperneq 15
orðin slæm af slitgigt í hnjánum að standa allt-
af upp á endann langa daga í tökum. Það er
auk þess mikill burður í starfinu; maður þurfti
oft að bera þunga búninga og efnisstranga,
þannig að hnén voru orðin ansi léleg og ég
þurfti að fá spelkur frá Össuri sem virkuðu
mjög vel en mér fannst þær ansi ljótar og fyr-
irferðarmiklar og kvartaði mikið yfir útliti
þeirra. Eftir að hafa kvartað í töluverðan tíma
buðu þeir mér vinnu,“ segir Helga Rún sposk.
Þannig að það var eiginlega tilviljun að þú
fékkst þessa vinnu?
„Það var algjör tilviljun! Bara af því ég
kvartaði svo mikið undan útlitinu,“ segir hún
og hlær.
„Þetta voru mjög fyrirferðarmiklar hnjá-
spelkur, en héldu vel við hnén og minnkuðu
verki og bólgur. Þær voru hins vegar hræði-
lega ljótar og hæfðu alls ekki dömu sem vildi
vera í pilsum og kjólum,“ segir Helga Rún og
segist hafa tekið þátt í að hanna penni og fal-
legri spelkur eftir að hún fór að vinna hjá fyrir-
tækinu.
„Í dag vinn ég sem textíl- og vöruhönnuður í
rannsóknar- og þróunardeildinni og held utan
um frumgerðarsaumastofu Össurar. Þar setj-
um við saman nýjar hugmyndir, búum til snið-
in og finnum efni eða búum þau til. Svo þegar
varan er tilbúin til framleiðslu fylgi ég henni
oft eftir og fer út og hjálpa til við að setja upp
framleiðslulínu. Stundum þjálfa ég starfsfólkið
af því þá er ég búin að prófa og æfa alla fram-
leiðsluferla hér heima. Teymið sem ég er í
hannar spelkur fyrir flesta liði líkamans en
einnig aðstoða ég aðra hópa í rannsóknardeild-
inni,“ segir hún.
„Það er miklu meiri textíll í spelkunum en
var áður og minna plast og járn; notendurnir
eru orðnir kröfuharðari um þægindi og útlit á
stoðtækjum,“ segir Helga Rún.
„Það sem er svo frábært í mínu starfi er að
ég er ein af fáum í rannsóknar- og þróunar-
deildinni sem eru með í ferlinu frá upphafi til
enda á vörunni; allt frá því að hugmyndirnar
fæðast og þar til varan kemur tilbúin út úr
framleiðslunni. Þetta er eins og meðganga og
fæðing og maður fyllist stolti yfir að vera með í
svona skemmtilegri nýsköpun,“ segir Helga
Rún og segir að hluti af vörum Össurar sé
framleiddur í Tijuana í Mexíkó og fari hún því
oft þangað en einnig til Asíu.
„Það hefur orðið mikil framþróun hjá
spelkuhönnunarhópnum okkar og í dag eru
þessar spelkur orðnar fyrirferðarlitlar og
hægt að vera í þeim undir leggings og það sést
ekki að þú sért í þeim undir. Við höfum hannað
mjaðmaspelkur sem sjást ekki undir jakkaföt-
um. Þetta er allt annað líf,“ segir Helga Rún
sem segist enn nota sínar spelkur þegar álagið
er mikið.
Helga Rún er afar ánægð hjá Össuri.
„Ég bíð eftir því að komast út um dyrnar á
morgnana til að komast í vinnuna. Þetta er
mjög skapandi og gefandi vinna. Þetta er
tarnavinna sem hentar mjög vel fyrir konu
eins og mig sem er með bakgrunn í leikhúsi og
sjónvarpi. Maður lærir að nærast á törnum;
vinna undir álagi og finna adrenalínið flæða.“
Eina hattadaman á landinu
Þrátt fyrir að vera í fullri vinnu hjá Össuri læt-
ur Helga Rún það ekki duga og vinnur oft að
ýmsum aukaverkefnum, auk allra námskeið-
anna.
„Ég fann það fjótt að til að halda mér skap-
andi yrði ég líka að vera svolítið í mínum
gömlu verkefnum með. Einhvers staðar verð-
ur maður að fylla á tankinn því það er erfitt að
vera hugmyndaríkur átta tíma á dag eftir
pöntun. Því tek ég að mér að sérhanna fyrir
fólk og gera hatta en nú vel ég mín verkefni.
Ég geri oft hatta fyrir leikhúsin því í rauninni
er ég eina hattadaman á landinu og þess vegna
er stundum kvabbað í mér,“ segir Helga Rún
og segir að tímabilið fyrir hrun hafi verið
skemmtilegt.
„Það var rosalegur uppgangur og útrásar-
víkingarnir voru að fara á Ascot og Wimbledon
og þá gerði ég mikið af höttum á konurnar. Og
það var aldrei spurt um verð. Svo voru kjóla-
meistarar að sauma á þær kjólana. Eitt skipti
á Ascot átti ég marga hatta því það voru ansi
margar íslenskar konur þar það árið. Svo hef
ég saumað hatta á konur sem hafa verið á leið í
konungleg brúðkaup. Þá koma þær með lista,
en það er alveg sérstakt „dresscode“ fyrir
hvert boð. Og þú ert með höfuðfat í öll skiptin.
Svo eru börðin misstór eftir því hvar þú ert í
goggunarröðinni en höfuðföt í Bretlandi segja
til um þína stétt og stöðu, og hefur verið þann-
ig í gegnum aldirnar,“ útskýrir Helga Rún.
Er einhver eftirspurn eftir höttum í dag?
„Nei, ekki mikil. Kynslóðin sem notaði jarð-
arfarahatta er horfin,“ segir Helga Rún og
segist hafa haft mikið að gera í hattagerðinni á
árum áður.
„Það var hefð hér áður að konur væru með
höfuðfat við sorgarathafnir og þá oft í stíl við
kápuna. Þá þurftu þær heldur ekki að leggja á
sér hárið. Ég gerði líka herrahatta og ég segi í
dag að ég sauma fyrir öll kyn.“
Vaknar á nóttunni með hugmyndir
Helga Rún sýnir blaðamanni inn í vinnustof-
una þar sem má sjá saumavélar, efnisstranga,
plastbox full af dóti og stórt vinnuborð. Þarna
gerast galdrarnir.
„Ég hef oft verið spurð hvað mér hafi fund-
ist skemmtilegast á ferlinum. En það er bara
þannig að það sem ég er að vinna að hverju
sinni, það er skemmtilegast! Ég fer alltaf inn í
verkefnin og verð heltekin af þeim. Ég vakna
oft á nóttunni með hugmyndir og lausnir. Ég
er allan sólarhringinn með hugann við vinn-
una,“ segir Helga Rún.
Helga Rún neitar því að það sé brjálað að
gera hjá sér. Hún segist hafa nógan tíma til að
fara í sjósund, sund, pílates og halda matar-
boð. Í frítíma gerir hún einnig upp gömul hús-
gögn og í gegnum árin hefur hún saumað mik-
ið á fjölskylduna; allt frá brjóstahaldara með
spöngum og stuttbuxum á manninn til búninga
á litlu strákana. Helga Rún segist hafa kennt
drengjunum snemma að sauma, enda er annar
þeirra að feta í hennar fótspor. Nú á hún tvær
tengdadætur sem hún segist hlakka til að
sauma meira á. Önnur fékk meira að segja út-
skriftarkjól um daginn.
„Þetta er ekkert mál. Ég er vön því í gegn-
um tíðina að nota tímann vel og skipuleggja
mig. Ég er svo heppin að geta unnið við áhuga-
mál mitt.“
Gjarnan þurfti Helga Rún að dytta að búningum á setti, eins og hjá Helgu Brögu í Fóstbræðrum.
Helga Rún er hér að mála lukkudýrið Sprota.
Lögreglubangsinn sést hér á mynd ásamt sonum
Helgu Rúnar þegar þeir voru litlir.Spaugstofan var gjarnan í flottum og flóknum búningum sem Helga Rún saumaði.
Helga Rún vann lengi með Fóstbræðrum. Hér má sjá hópinn úr sápuóperunni Bílastæðavörðunum.
Lukkudýr landsins eru flest gerð af Helgu Rún,
sem stendur hér við hlið Georgs mörgæsar.
Helga Rún gerði oft búninga fyrir heimildamyndir en hér má sjá hana á setti myndar um trúar-
bragðasögu Íslands. Hún kafaði djúpt í heimildavinnu svo búningar yrðu sem trúverðugastir.
Þegar Helgu Rún fannst styttur bæjarins vanta
höfuðföt saumaði hún á þær hatta eftir máli.
’
Þannig að hnén voru orðin
ansi léleg og ég þurfti að fá
spelkur frá Össuri sem virkuðu
mjög vel en mér fannst þær ansi
ljótar og fyrirferðarmiklar og
kvartaði mikið yfir útliti þeirra.
Eftir að hafa kvartað í töluverð-
an tíma buðu þeir mér vinnu.
28.3. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15