Morgunblaðið - 08.04.2021, Qupperneq 41
MINNINGAR 41
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2021
Minningarkort á
hjartaheill.is
eða í síma 552 5744
Stapahrauni 5, Hafnarfirði
Sími: 565 9775
www.uth.is - uth@uth.is
Frímann
897 2468
Hálfdán
898 5765
Ólöf
898 3075
Kristín
699 0512
✝
Hallgrímur
Þór Hall-
grímsson fæddist á
Akranesi 8. apríl
1944. Hann lést á
Heilbrigðisstofnun
Vesturlands þann
26. mars 2021. For-
eldrar hans voru
Hallgrímur Guð-
mundsson, f. 19.
jan. 1905, d. 12.
mars 1988, og Sól-
veig Sigurðardóttir, f. 15. sept.
1909, d. 17. nóv. 1987. Systkini
Hallgríms eru í aldursröð
Gunnar Líndal, f. 6. ágúst 1930,
d. 2. feb. 1989, Guðrún, f. 8. okt.
1934, d. 4. jan. 1935, Inga Lóa,
f. 14. maí 1936, d. 14. okt. 2020,
Sigurður Hafsteinn, f. 13. júlí
1937, Guðmundur Jens, f. 25.
júní 1941, Jónas Bragi, f. 5. júlí
eru Óðinn Páll, f. 7. febrúar
1994, Una Rán, f. 30. mars 2002,
Urður Ása, f. 13. ágúst 2005, og
Hekla Gná, f. 2. október 2007.
Hallgrímur var bryti á sjó
nær alla sína starfsævi. Hann
hóf störf á sjó 26 ára á Reykja-
borginni sem stundaði veiðar í
Norðursjó. Eftir það var hann á
mörgum bátum og togurum.
Hann vann lengi hjá Hafskip,
Eimskip og Skipaútgerð rík-
isins á strandferðaskipinu
Heklu en var einnig á varð-
skipum um tíma. Hallgrímur lét
formlega af sjómennsku árið
2012 og hlaut heiðursmerki sjó-
mannadagsráðs á Akranesi árið
2015.
Útförin fer fram frá Víði-
staðakirkju í dag, 8. apríl 2021,
kl. 11. Vegna aðstæðna geta að-
eins nánustu aðstandendur ver-
ið viðstaddir útförina og verður
útförinni streymt á slóðinni
(stytt):
https://tinyurl.com/cwxftbt7.
Virkan hlekk á slóð má nálg-
ast á:
https://www.mbl.is/andlat.
1949, og Pétur
Sævar, f. 6. nóv.
1950, d. 13. mars
2006.
Hinn 16. október
1965 kvæntist Hall-
grímur Ingibjörgu
Sigurðardóttur, f. í
Reykjavík 21. maí
1944, d. 11. október
2004. Börn Hall-
gríms og Ingibjarg-
ar eru: 1) Emil
Birgir, f. 5. mars 1966, maki
Edda Svavarsdóttir, f. 25. ágúst
1967, dóttir þeirra er Inga
Bjartey, f. 27. mars 1996. 2)
Guðfinna Björk, f. 24. apríl
1972, maki Brynjólfur Hrafn
Úlfarsson, f. 10. september
1968, 3) Þóra Björg, f. 6. júlí
1978, maki Tjörvi Einarsson, f.
9. nóvember 1978, börn þeirra
Þegar ég var lítil voru ekki
margir pabbar sem elduðu en
pabbi minn var kokkur og eldaði
besta mat í heimi. Hann var sjó-
maður sem sigldi út um allan
heim og sagði sögur með innlifun
og tilþrifum svo allir hrifust af.
Það gat verið tímafrekt að fara
með honum að útrétta þar sem
hann þekkti svo marga og alltaf
gaf hann sér tíma til að stoppa
og spjalla aðeins sem gat reynt á
þolinmæðina hjá mér. Núna eftir
andlátið er fólk að hafa samband
við mig sem ég hef kynnst á
minni lífsleið sem þekkti pabba
einnig án þess að vita að hann
væri pabbi minn. Það minnist
hans með hlýhug þar sem hann
snerti líf þess með velvild og um-
hyggju. Mikið er gott í sorginni
að fá að heyra minningar þessa
fólks um pabba.
Mér þótti alltaf skemmtilegast
að fara með pabba að versla. Ég
komst upp með að suða um hitt
og þetta sem mamma vildi aldrei
kaupa en pabbi lét alltaf til leið-
ast. Hann var líka alltaf svo upp-
tekinn við að spjalla, að hann
kannski sá ekki alveg allt sem ég
potaði ofan í körfuna. Þegar
heim var komið hristi mamma
bara hausinn en vissi auðvitað
vel þegar hún sendi okkur tvö í
búðina að þetta færi svona.
Pabbi var sjómaður og vildi því
fá að koma sterkur inn eftir
langa fjarveru og dekra okkur
með nammi og framandi mat-
vöru sem mamma vildi sjaldnast
kaupa.
Honum þótti ofurvænt um
okkur öll og þegar barnabörnin
fóru að mæta á svæðið þá stækk-
aði hjartað hans enn meira.
Hann var svo stoltur af þeim öll-
um og náði að fylgjast býsna vel
með þeim. Þar sem ekkert þeirra
erfði fótboltaáhuga hans mætti
hann á fimleikamót og hvatti
þær til dáða, þó með örlitlum
efasemdum um ágæti íþróttar-
innar þar sem honum þótti þetta
ívið hættulegt, stökkin og snún-
ingarnir.
Pabbi passaði einu sinni fyrir
mig og Tjörva þegar við skut-
umst í helgarferð. Þegar við
komum heim var pabbi búinn að
kaupa nýja pönnu handa okkur,
gamla var víst ónothæf, skipu-
leggja áhaldaskúffuna, enda var
hún of troðin, og taka daglegan
bryggjurúnt með stelpunum,
eitthvað sem við foreldrarnir
höfðum algjörlega vanrækt í
uppeldinu. Hann dekraði ekki
bara afastelpurnar sínar heldur
fékk hundurinn okkar líka allt að
fjórum göngutúrum á dag og
eins sögðu stelpurnar mér að afi
þeirra hefði nánast deilt matnum
sínum til helminga með honum.
Pabbi missti mikið þegar
mamma dó og fór þá að halla
undan fæti hjá honum. Hann
fann aldrei almennilega taktinn
eftir það þótt hann reyndi. Flutti
aftur á heimaslóðirnar á Skag-
ann þar sem hann hafði fé-
lagsskap á rakarastofunni lengi
vel og heimsótti vini sína á bíla-
sölunni sem hann talaði alltaf svo
vel um og reyndust honum svo
vel.
Það er ágæt huggun að hugsa
sér mömmu og pabba núna sam-
einuð á ný þótt við sem eftir lif-
um söknum þeirra. Minningarn-
ar, arfleifðin og umhyggjan sem
pabbi bar fyrir okkur öllum lifir
áfram með okkur.
Þóra Björg Hallgrímsdóttir.
„Þú ert alltaf svo fín Finna
mín.“ Síðan pabbi minn kvaddi
þann 26. mars sl. í faðmi fjöl-
skyldunnar þá hljóma þessi orð í
mínum huga. Hann kallaði mig
alltaf Finnu.
Minningarnar streyma fram
ásamt hafsjó af tárum. Elsku
pabbi minn, þú varst alltaf svo
góður og áttir endalausa ást
handa okkur systkinum og
mömmu. Umhyggjusamur,
skemmtilegur og sagðir alltaf
svo skemmtilega frá. Mín fyrsta
minning um þig var þegar þú
gafst mér dúkkukörfuna, ég á
hana enn þá. Því þú kenndir mér
ávallt að fara vel með hluti.
Ég var að skoða gamlar
myndir. Á öllum myndum heldur
þú svo fallega utan um mig og
umhyggjan skín í gegn. Ég man
þegar ég sigldi með þér þegar þú
varst að vinna hjá Hafskip. Sú
ferð var ákveðin með mjög stutt-
um fyrirvara og þú stækkaðir
bara kojuna og það var svo gott
að vera í pabbaholu. Við röltum
svo saman í þeim borgum þar
sem skipið lagðist að landi og þú
sagðir: „Ég ætla að leiða þig
Finna mín því við erum í útlönd-
um.“ Ég sigldi svo aftur með þér
þegar þú varst að vinna hjá Eim-
skip. Ég var svo sjóveik en þá
lánaðir þú mér þína káetu til að
hvíla mig í þrátt fyrir að þú gæt-
ir ekki fengið þína hvíld á þeirri
vakt.
Þú gafst mér fyrsta bílinn
minn. „Farðu varlega Finna
mín,“ sagðir þú „það er betra að
fara hægt yfir og komast á leið-
arenda en ekki.“
Ég hringdi í þig þegar það var
brjálað veður og þú sagðir
„Finna mín. Þú ert í landi,“ og
svo fylgdi jafnvel saga um þegar
þú lenti í vonskuveðri úti á sjó.
ÍA. Skagamaður, sjómaður,
frímúrari. Víkingur AK-100. Við
héldum alltaf sjómannadaginn
hátíðlegan og í minningunni er
steik, kryddsmjör og barmmerki
svo sterkt. Þú gafst mér upp-
skriftina að kryddsmjörinu.
Pabbi minn, ég mun geyma það
leyndarmál ævina á enda. Þú
varst á sjónum alla tíð og heiðr-
aður fyrir störf þín á sjó árið
2015. Pabbi minn var kokkur af
lífi og sál. Skipsfélagar sem
pabbi sigldi með töluðu allir um
hvað hann var mikill listakokkur.
Minningarbrot:
Fótboltinn. Þegar þú varst að
horfa á fótboltann með súkku-
laðirúsínur og hlaup og nammið
sem þú komst með frá útlöndum.
1x2.
Þú skildir eftir ljós fyrir mig á
ganginum þegar ég var myrkfæl-
in. Bryggjurúntarnir. „Finna
mín. Góða ferð og enn betri
heimkomu,“ sagðir þú þegar ég
var að fara í flugvél.
Elsku pabbi minn lét allt eftir
mér. Ég fékk nýjan disk ef sósan
var sett á vitlausan stað að mínu
mati. Ég vildi Gunnars-remúlaði
í dollu ekki í túbu. Kavíar í mat-
skeið ekki teskeið. „Já, Finna
mín.“
Þegar við Þóra fórum saman
til þín um daginn og héldum hvor
í sína höndina þína og þú sagðir
bless, bless, þá hélt ég að þú
værir að kveðja okkur þann dag-
inn. Auðvitað varst þú að kveðja
okkur fyrir fullt og allt og þú
vissir það. Takk fyrir allt, elsku
besti pabbi minn, ég veit að núna
ertu í sumarlandinu fagra með
mömmu.
„Segjum það Finna mín,“ voru
alltaf lokaorðin þín þegar við töl-
uðum saman.
„Er ekki splæs í kvöld?“ Jú,
elsku pabbi. Í kvöld er splæs og
við munum minnast þín og allra
þinna góðu eiginleika. Hvíl í friði,
elsku pabbi.
Þín dóttir
Guðfinna Björk
Hallgrímsdóttir (Finna).
Hallgrímur Þór
Hallgrímsson
✝
María Jóna
Hreinsdóttir
fæddist 11. febrúar
1953 á Akranesi.
Hún lést á hjúkr-
unarheimilinu
Mörkin 1. apríl
2021. Faðir:
Hreinn Árnason, f.
30.8. 1931, d. 12.9.
2007, málarameist-
ari. Móðir: Ólafía
Guðrún Ágústs-
dóttir, f. 5.9. 1929, d. 13.8.
2018, húsmóðir. Systur Maríu
eru Þóra Hreinsdóttir, f. 24.3.
1954, Bryndís Hreinsdóttir
starfi í þágu fósturgreiningar
og ljósmóðurfræði. Hún lauk
sjúkraliðaprófi 1974 og ljós-
mæðraprófi 1979. Hún starfaði
á fæðingardeild Landspítala frá
1979 og síðar við sónarskoðanir
á fósturgreingardeild frá 1982
til 2016. Árið 2011 var hún
sæmd Riddarakrossi hinnar ís-
lensku fálkaorðu fyrir störf sín
í gegnum árin.
Í maí 2018 var María heiðruð
fyrir frumkvöðlastarf sitt á
sviði fósturgreiningar á fjöl-
þjóðlegum fundi fæðingarlækna
og ljósmæðra í Reykjavík.
Útförin fer fram í dag, 8.
apríl, kl. 13 í Grafarvogskirkju.
Henni verður streymt á You-
tube-síðu Grafarvogskirkju.
Stytt slóð á streymi:
https://tinyurl.com/4fz8uuhy
Virkan hlekk má nálgast á:
https://www.mbl.is/andlat
Cawley, f. 30.3.
1958, og Íris
Hreinsdóttir, f.
2.12. 1962.
Þann 21.12. 1995
giftist María eig-
inmanni sínum
Rosario Russo, f.
18.2. 1952. Börn
þeirra eru 1) María
Russo, f. 15.6.
1984, 2) Giuseppe
Russo, f. 28.11.
1986, maki Anna Lilja Elvars-
dóttir, f. 1.10. 1990, og sonur
þeirra, f. 22.1. 2021.
María sinnti brautryðjenda-
Elsku María.
Þar sem ég sit hér við tölvuna
og langar að minnast þín koma
fram ótal minningar og þakklæti.
Enda kannski ekki skrýtið þar
sem við unnum saman stóran
hluta vinnuævi minnar sem ljós-
móðir.
Fyrsta minningin er þegar ég
var að taka á móti mínu öðru
barni sem ljósmóðurnemi, falleg-
ur drengur fæddur 2. desember
1983. Þú kenndir mér hvernig ég
ætti að bera mig að, varst örugg í
fasi, enda gekk fæðingin eins og í
sögu, þrátt fyrir óöryggi ljós-
móðurnemans.
Ég lærði að ómskoða hjá Mar-
íu vorið 1988 og um sumarið
leysti ég hana af í hennar sum-
arfríi. Svoleiðis var þetta næstu
árin, ég var að hluta til „lánuð“
frá fæðingargangi af og til yfir
veturinn en leysti síðan Maríu af
svo hún kæmist í sumarfrí allt
fram til ársins 1995 en þá fékk ég
fasta stöðu á fósturgreiningar-
deildinni.
Áhugi þinn á starfinu var ein-
stakur, þú varst alltaf að reyna
að tileinka þér nýjungar sem gat
verið erfitt á þeim tíma. Þú
fannst fyrir mikilli ábyrgð að
bjóða þunguðum konum og
þeirra fjölskyldum upp á bestu
þjónustu á hverjum tíma. Við bú-
sett hér á hjara veraldar, án
netsins og rándýrt að fljúga út á
ráðstefnur, en þú fannst leið til
þess.
Við fórum þó nokkuð margar
ferðir, sem voru planaðar með
löngum fyrirvara, best var að
kaupa apex-miða með Flugleið-
um, þeir voru ódýrastir, rauðir
eða grænir. Þá var að kaupa hót-
elgistingu og að sjálfsögðu vor-
um við í sama herbergi því það
var ódýrara og ekki kostuðu mál-
tíðirnar mikið.
Með þessu móti komum við
heim með þekkingu sem nýttist í
starfinu og bættum þannig þjón-
ustu við skjólstæðinga deildar-
innar.
Einlæg ástríða þín að deildin
okkar, eins og þú sagðir svo oft,
ætti að vera á meðal þeirra bestu
skein í gegn í allri þinni vinnu.
Alveg sama þó manni fyndist al-
veg nóg að gera og skildi ekki
hvernig við gætum bætt á okkur
fleiri verkefnum, þá fannstu leið.
Ef þetta er til að bæta þjón-
ustuna þá gerum við það.
Lengst af varst þú að mestu
eina ljósmóðirin að vinna, alla
virka daga og álagið hlýtur
stundum að hafa verið ansi mik-
ið. Góð samvinna við læknana
var einstök og hefur alltaf fylgt
þessari deild ásamt okkar eðal-
riturum. Smám saman bættist í
hóp ljósmæðra og lækna eftir því
sem árin liðu.
Metnaður þinn, þor og kjark-
ur var óþrjótandi, það er ekki
alltaf auðvelt að vera frum-
kvöðull en það varstu svo sann-
arlega.
Þvílík gleði þegar þú fékkst
fálkaorðuna 2011, áttir það svo
sannarlega skilið og þar segir
einmitt í umsögninni: riddara-
kross fyrir brautryðjandastörf í
þágu fósturgreiningar og ljós-
móðurfræða.
Elsku María, þú kenndir mér
svo ótal margt, svo mikil fyrir-
mynd og ég vona að ég komi því
áfram í starfi mínu, bæði gagn-
vart skjólstæðingum og starfs-
fólki. Takk fyrir allt.
Elsku Rosario, María, Giu-
seppe, Anna Lilja og litli kútur,
missir ykkar er mikill og ég
sendi ykkur mínar innilegustu
samúðarkveðjur.
Megi Guð hjálpa ykkur gegn-
um þessa erfiðu tíma.
Kristín Rut Haraldsdóttir.
Sumir ná að skrifa sig inn í
söguna. María Jóna Hreinsdótt-
ir, ljósmóðir, gerði það með mik-
ilvægu starfi sínu í þrjá áratugi
þegar byggt var upp kerfi óm-
skoðana fyrir þungaðar konur á
Íslandi. Góð og gáfuð kona, með
eðlislæga fagmennsku, dugnað
og samviskusemi. Send utan með
annarri ungri samstarfskonu ár-
ið 1982 til að læra að „sónar-
skoða“, sem þá var gert með
frumstæðu tæki sem ekki var á
allra færi að höndla. Tilbúin að
tileinka sér nýja tækni og ný við-
horf í vinnu sem þá var óvana-
legt að ljósmæður legðu fyrir sig.
Þegar að því kom tveim árum
síðar að finna óskipulagðri starf-
semi nýjan farveg í skimun sem
náði til allra kvenna, var eins og
hún hefði beðið eftir tækifæri til
að koma í þá vegferð. Frábær
samstarfsmaður, full áhuga,
skilnings og óþreytandi atorku í
vinnu sem var mikilvæg fyrir ís-
lenskar konur. Lærði, kenndi og
miðlaði, næm á aðstæður og fólk.
Vildi kynna nýjar og vísindalega
grundvallaðar aðferðir í með-
gönguvernd og koma upp óm-
skoðunum fyrir allar konur við
19-20 vikna meðgöngu. María
skildi nauðsynina á íslenskri
rannsóknarvinnu til að grunnur
þess sem seinna var kallað fóst-
urgreining yrði góður og lagði
mikið til þess að gera ferlið
þannig úr garði að konur kæmu í
ómskoðun. María deildi með
þeim gleðinni þegar allt gekk
eins vel og vonast var til, en var
líka til staðar með samkennd og
góðvild þegar erfiðleikar komu
upp.
Við byggðum upp þjónustu
sem þá var aðeins til á fáum stöð-
um í heiminum. Fastur hluti
meðgönguverndar. Stig af stigi
var bætt við nýjungum eftir því
sem tækni og þekkingu fleygði
fram. Snemmskimun, betri að-
ferðir við að fylgjast með vexti
og heilbrigði fósturs, nýjar
greiningaraðferðir, innlend og
erlend samvinna. Námskeið og
kennsla. Fyrir sitt mikla frum-
kvöðlastarf var hún endurtekið
og verðskuldað heiðruð, svo sem
af Landspítalanum, á norrænum
vettvangi og með fálkaorðu lýð-
veldisins.
María Hreinsdóttir var hóg-
vær, fáguð og falleg kona. Far-
sæl í daglegu starfi og við stjórn-
un. Skynjaði kosti
samferðamanna sinna og vissi
hverjir hentuðu í starfi sem
byggðist svo mjög á samvinnu og
samráði fagfólks. Hafði metnað
fyrir því sem hún vann við að
byggja upp og vildi að staðlar í
þekkingu og getu væru háir.
Fyrir um áratug fór hún
kenna sjúkleika sem smám sam-
an lamaði starfsgetuna og gerði
seinustu árin svo erfið. Þegar
jafnvel getan til að tjá sig varð
undan að láta. En heiðríkjan í
fari hennar hvarf samt ekki.
Saro, eiginmaður hennar, og
María voru samhent hjón. Á
Kvennadeild Landspítalans er
hugur okkar sem vorum samtíða
þeim á svo mörgum góðum árum
hjá Saro, hjá börnum þeirra og
fjölskyldunni. Ég er þakklátur
fyrir langa vináttu og samstarf.
Meðal lækna og ljósmæðra í
mæðravernd verður Maríu
Hreinsdóttur minnst með virð-
ingu og þökk.
Reynir Tómas Geirsson.
María Jóna
Hreinsdóttir
Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla
útgáfudaga.
Óheimilt er að taka efni úr minningargreinum til birtingar í
öðrum miðlum nema að fengnu samþykki.
Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega
beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í
hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“
valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina
www.mbl.is/sendagrein
Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin
að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á
föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber-
ist áður en skilafrestur rennur út.
Minningargreinar