Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.04.2021, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.04.2021, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.4. 2021 Hann tekur á móti okkur krökkunum og er ég seinastur í röðinni inn. Þá ýtir hann í mig með fætinum og segir: „Ég á nú ekkert í þér!“ Ég mundi þetta. Systir mín hundskammaði hann fyrir að koma svona fram við barnið,“ segir Hörður. „Svo náði þetta ekkert lengra og við ólumst upp hjá mömmu. Pétur var bara farinn og gerði aldrei neitt fyrir okkur börnin,“ segir hann. „Svo leið tíminn og kom að því að ég ætti að fermast. Ég var alltaf óskírður en hafði verið gefið nafnið Hörður og var Pétursson. En þegar kom að fermingu þurfti ég fyrst að vera skírður og það var gert viku fyrir fermingu. Áður en við förum að heiman segir mamma: „Viltu ekki bæta Jónsnafni við?“ Mér fannst það ekki koma til greina en hún bað mig svo innilega að þar með var ég skírður Hörður Jón. Ég notaði aldrei Jónsnafnið, fyrr en núna upp á síðkastið. Mamma var í raun að merkja mig föður mínum,“ segir hann en raunverulegur afi hans hét Jón. Þegar þú varst unglingur, hugsaðir þú um það að mögulega væri Pétur ekki pabbi þinn? „Já, já. Það kom stundum til tals milli okkar systkina og aðallega á milli þeirra.“ Hörður segir að óvæntur glaðningur hafi borist í fermingarveisluna. „Það kom fullt af fólki eins og gengur og svo kom allt í einu stór marsípanterta og kort með. Þar stóð: Innilega til hamingju með ferm- inguna. J.,“ segir Hörður og vöknar um augu við að rifja upp þessa minningu. „Og hundrað og fimmtíu krónur í peningum sem voru töluverðir fjármunir 1945. Ég spurði mömmu frá hverjum þetta væri og hún sagði það vera frá gömlum vini. Ég fékk ekkert meira að vita,“ segir hann og nær í handskrif- aða fermingarkortið sem hann hefur geymt í öll þessi ár. Rithöndin er sennilega Fossbergs. Hann er ekkert Pétursson! „Svo líða árin og ég kynnist stúlku á unglingsár- unum og það var eitt sinn að vinkona mömmu hennar kemur í heimsókn. Mamman segir henni að dóttir sín sé komin með kærasta og hin spyr hver það sé. Þá segir hún; hann heitir Hörður Pétursson. „Hann er ekkert Pétursson!“ segir þá vinkonan. Bærinn var lítill. Kærastan mín sagði mér frá þessu og nefndi nafnið á föður mínum. Það var altalað. Það var þá Gunnlaugur Jónsson Fossberg. Ég hafði áður heyrt nafnið, en hafði þá ekki hugsað út í það sem krakki. Ég spurði mömmu út í þetta og hún svaraði: „Góði vertu ekki með þessa þvælu.“ Hörður segir að eldri systkini sín, sem voru sannarlega börn Péturs, hafi heimsótt Pétur af og til. Það var ekki fyrr en um 1950, þegar Hörður er um tvítugt, að hann fór að venja komur sínar til hans. „Þá fór ég að velta vöngum yfir hver þessi maður væri, þó mig grunaði svo sem að hann væri ekki faðir minn. Ég fór að heimsækja hann og aðstoða hann með eitt og annað. Hann bjó þá vestur í Selsvör, í skúr.“ Drengurinn verður að læra Þegar Hörður var um tvítugt vann hann á höfninni en þar í grennd var Vélaverslun G.J. Fossberg. „Vinnufélagi minn spurði mig eitt sinn hvort ég ætlaði ekki að fara að heimsækja pabba minn. Þá vissi hann þetta. Mér fannst ég ekki geta spurt hann frekar, því mér fannst það niðurlæging, en þarna var enn ein vísbend- ingin,“ segir Hörður og útskýrir að Gunn- laugur hafi verið giftur maður og hafi verið það einnig þegar hann fæddist. Hörður lærði svo húsgagnabólstrun en sú ákvörðun var tekin vegna þess að föður kær- ustunnar fannst ekki hæfa að dóttirin væri í tygjum við hafnarverkamann. „Ég heyrði á samtal foreldra hennar þar sem faðir hennar segir að drengurinn verði að læra eitthvað. Og ég tek það til mín og fer að reyna að komast að einhvers staðar í læri. Ég byrjaði svo hjá einyrkja, Kristjáni Tromberg, og fór að læra bólstrun og hafði ekki skímu um það hvað ég væri að fara út í,“ segir hann en Hörður klár- aði svo námið og stofnaði eigið fyrirtæki. „Ég var að bólstra, var með nema og sveina og það var mjög mikið að gera. Á þessum tíma, í kringum 1950, voru varla til húsgögn í land- inu. Þannig að það var yfrið nóg að gera og það seldist allt,“ segir Hörður sem síðar stofnaði húsgagnaverslunina HP-húsgögn. „Ég kynnist svo ágætri stúlku árið 1952 og á með henni son, Hörð, árið 1953. Það samband entist ekki og ég kynntist annarri konu og á með henni þrjú börn; Sigurð Pétur, Bjarka og Dögg,“ segir Hörður og segir þau hafa síðar skilið. Núverandi eiginkonu, Helgu Sigurð- ardóttur, giftist hann árið 1977. DNA-próf sannaði faðernið Á fullorðinsárunum hugsaði Hörður lítið um þessi faðernismál. „Bjarki sonur minn rekur bílaverkstæði og inn kemur Ragna Fossberg með bílinn sinn í viðgerð. Þegar hún kemur að sækja bílinn kall- ar hann hana inn á skrifstofu til sín og segir henni söguna af grunsemdum fjölskyldunnar og þau verða sammála um að láta gera DNA- rannsókn,“ segir Hörður. „Ég sagði þeim að það væri engin spurning að Gunnlaugur Fossberg væri faðir minn. Þannig að við Ragna Fossberg fórum í Ís- lenska erfðagreiningu í nóvember 2019. Þá kom í ljós að líkurnar væru yfirgnæfandi á að mamma hennar og ég værum hálfsystkini sem deila föður. Mér fannst ágætt að fá að vita það,“ segir hann en rannsókn ÍE dugði ekki til þess að fá það lagalega staðfest að Gunnlaugur væri faðir hans. Einnig var tekið sýni hjá Jó- hönnu Thorlacius, barnabarni Gunnlaugs, sem gaf sömu niðurstöðu. „Þá var leitað til meinafræðideildar Land- spítalans en þar fundust lífsýni úr dóttur Gunnlaugs, sem er þá nær mér í skyldleika en Ragna. Sýnið var orðið fjörutíu ára gamalt, en það dugði og líkurnar voru enn meiri. Það fannst líka sýni frá Pétri Hoffmann sem sýndi að hann gæti ekki verið faðir minn. Síðan fór þetta fyrir héraðsdóm og þá fékk ég þetta staðfest, fyrir um mánuði eða svo. Fossberg- fjölskyldan hefur tekið þessu vel,“ segir hann og eignaðist hann þar með nýja ættingja, ní- ræður að aldri. „Barnabörn Péturs Hoffmanns, systkina- börnin mín, voru mjög hjálpleg en þetta ferli var flókið. Það þurfti að stefna dánarbúum tveggja manna sem eru löngu farnir.“ Hörður lét í kjölfarið breyta nafni sínu í þjóðskrá og heitir nú Hörður Jón Fossberg Pétursson. „Ég vildi ekki strika Pétursson út því ég hef borið það í níutíu ár.“ Hvernig tilfinning var það að fá þetta loks staðfest? Var þetta einhvers konar lokapunkt- ur í sögunni? „Já, það var það. Þetta var ekki svo erfitt því þessu var svo vel tekið af frænkunum og þeim armi. Við höfum hitt Rögnu Fossberg, Önnu Rögnu og Jóhönnu Margréti barnabörn Gunn- laugs og fleiri afkomendur hans.“ Bjargað af dönskum prinsi Sögunni víkur nú aftur að litlu systur Harðar, Margot. „Mamma fór með mig til Kaupmannahafnar þegar ég var fimm ára og við vorum þar í þrjá mánuði. Ég vissi að Margot væri systir mín en mamma bað mig um að þegja yfir því, sem ég gerði. Við fórum svo aftur árið 1938 og ég man við sigldum heim með Brúarfossi. Friðrik sem þá var krónprins af Danmörku var um borð. Ég var að leika mér uppi á lestarlúgunni en datt út af henni og í átt að rekkverkinu. Frið- rik hljóp til og greip mig,“ segir hann og hlær. „Og gaf mér svo tvo danska tíeyringa með gati. Ég átti þá mjög lengi.“ Þegar stríðinu lauk árið 1945 fóru mæðginin aftur til Danmerkur og dvöldu í nokkra mánuði. „Á þessum ferðum í æsku lærði maður dönsku. En systir mín vissi þá ekki annað en að hún væri dóttir móðursystur minnar og mannsins danska.“ Hvenær fékk hún að vita sannleikann? „Það var þegar hún var flutt hingað heim. Þegar hún var sextán ára fór hún á ball í Vetrargarðinum. Þar var Gunnar bróðir minn og fór hann að dansa við vinkonu Margotar og sagði henni að Margot væri systir sín. Vinkon- an kom að borði til Margotar og segir: „Gunn- ar segir að þið séuð systkini!“ Það var í fyrsta sinn sem hún heyrði þetta,“ segir Hörður. „Pabbi hennar fékk að vita sannleikann um svipað leyti,“ segir Hörður og segir að hjóna- bandið hafi haldið, þrátt fyrir þessi svik. „Margot giftist svo vini mínum Jóni Þor- lákssyni rafvirkjameistara. Löngu síðar sagði hún við Hörð son minn: „Við erum Fossberg.“ Og ég tel fullvíst að uppeldismóðir hennar hafi sagt henni það en beðið hana fyrir það. Þetta kemur heim og saman við það sem hún sagði við Dögg dóttur mína í trúnaði að við Margot værum alsystkini. Hún sagði þetta aldrei við mig,“ segir hann og segir að einstakt samband hafi verið á milli þeirra systkina alla tíð. Að hafa ættfræðina rétta Hittir þú einhvern tímann Gunnlaug? „Nei. Hann dó árið 1949. En það munaði litlu í sjálfu sér. Árið 1947 var ég að vinna í verslun í Barmahlíð 8 og hinum megin við göt- una í Barmahlíð 9 bjó Fossberg-fjölskyldan,“ segir Hörður sem segir Gunnlaug aldrei hafa reynt að hafa samband við sig, enda var tíðar- andinn þá annar og ekki inni í myndinni að giftur maður gengist við barni annarrar konu. „Stelpurnar hafa sagt mér að hann hafi ver- ið afskaplega mildur maður.“ Ertu eitthvað líkur honum? „Bíddu nú bara við,“ segir Hörður og nær í tvær myndir; aðra af sér sem ungum manni og hina af Gunnlaugi, einnig ungum. Sterkan svip má sjá með þeim feðgum. „Systkinin mín eru nú öll látin og það var ekki farið út í þessa rannsókn fyrr en systir mín, sem lifði lengst, var látin. Því hún mátti ekki heyra á það minnst að ég færi í DNA- rannsókn. Hún vildi ekki fá það á staðfest á blað, þótt hún vissi sannleikann eins og þau hin,“ segir Hörður og segir að börn hans hafi ýtt á hann eftir lát hennar. „Þau vildu fá þetta rétt; að ættfræðin yrði rétt.“ Hörður segir það merkilegt að staðfesta loks faðernið, og það kominn á tíræðisaldur. „Þetta er hálfgerð endurfæðing. Má maður halda skírnarveislu?“ Gunnlaugur Jónsson Fossberg. Hörður Jón Fossberg Pétursson. ’ Ég sagði þeim að það væri engin spurning að Gunn- laugur Fossberg væri faðir minn. Þannig að við Ragna Fossberg fórum í Íslenska erfðagreiningu í nóvember 2019. Þá kom í ljós að líkurnar væru yfirgnæfandi á að mamma hennar og ég værum hálfsystkini sem deila föður. Mér fannst ágætt að fá að vita það. Bjarki sonur Harðar segir þau systkini hafa heyrt því fleygt upp úr unglings- árum að Pétur væri ekki afi þeirra en gáfu því lítinn gaum. En þegar Margot systir Harðar deyr árið 2013, gerast ein- kennilegir hlutir. „Kvöldið eftir að hún deyr, þá sitjum við þrír inni í stofunni hennar, ég, pabbi og Hörður bróðir. Þá upplifi ég að það kemur mjög sterk reykingalykt inn í stofuna, en Margot reykti mikið. Ég spyr þá feðga hvort þeir finni lyktina, sem þeir gera ekki. Ég sé svo Margot og segi: „Pabbi, hún systir þín er komin hérna.“ Hann spyr: „Nú, og hvert er erindið?“ Ég spurði að þessu í huganum, og hún segir strax: „Fossberg.“ Þá sagði pabbi: „Já, þessi orðrómur heyrðist á síðustu öld.“ Þá fannst mér Margot bæta við setningunni: „Þú ert rangfeðraður.“ Kvöldið eftir finn ég aftur þessa megnu reykingalykt,“ segir Bjarki og segir er- indið hafa verið það sama og deginum á undan, nema nú bætti Margot við: „Ég er alsystir þín.“ Að vonum vaknar forvitni þeirra systkina, en síðan líða sex ár. „Svo í janúar 2019 átti ég erindi í Verslunina Fossberg og hitti þar vin minn sem þar vinnur. Ég spyr hann hvort til sé mynd af stofnandanum. Hann sýnir mér hana og spyr hvað mér gangi til. Ég sagði honum þá þessa sögu. Þá teygði hann sig eftir bók sem lá við hliðina á honum í hillu og rétti mér bókina Auðnu, eftir Önnu Rögnu Fossberg,“ segir Bjarki sem las bókina og fann ýms- ar vísbendingar um það að Gunnlaugur Fossberg væri afi sinn. Hörður bróðir hans las hana líka og var sammála og hringdi Bjarki í kjölfarið í höfundinn, Önnu Rögnu Fossberg. Símtalið sem ekki gleymist „Ég man að ég byrjaði símtalið á því að segja henni að einu sinni á lífsleiðinni fengi maður símtal sem maður myndi örugglega aldrei gleyma. Hún væri að fá það símtal núna. Hún hafði aldrei heyrt neitt um þetta mál, en við áttum skemmtilegt samtal sem kom örugglega flatt upp á hana,“ segir Bjarki. „Stuttu síðar kemur Ragna Fossberg með bíl í viðgerð til mín. Þegar hún situr á móti mér segi ég henni að ég hafi lesið bókina Auðnu og hringt svo í höfundinn. Hún var greinilega með á nótunum, því hún sagði strax: „Varst það þú sem hringdir?“ Á meðan bíllinn var í viðgerð hjá mér þennan daginn, þá hringdi ég í pabba og spurði hann hvort hann vildi fara í DNA. Svarið var skýrt og ótvírætt, já. Ég spurði svo Rögnu að hinu sama og hún sagði líka já. Við hittumst svo í októ- ber hjá Íslenskri erfðagreiningu og sýnin voru tekin. Niðurstaðan kom í ábyrgð- arpósti 17. desember. Svarið er ótvírætt en þar segir: Gögnin samrýmast því að móðir Rögnu Fossberg og Hörður Pét- ursson séu hálfsystkin sem deila föður.“ Það skiptir máli fyrir erfðarannsóknir og framtíðina að vera rétt ættfærður.“ Skilaboð að handan

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.