Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.06.2021, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.06.2021, Blaðsíða 10
HUGARFAR 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.6. 2021 það að markmiði að bæta andlega heilsu íþróttamanna. Eru þær nokkurs konar mót- vægi við það sjálfsniðurrif sem einkennir oft og tíðum íþróttir og margir halda að sé nauð- synlegt til að ná árangri. Grét eftir hvern ósigur Sigrar, töp og aðrar útkomur leiksins eiga, eins og gefur að skilja, stærstan sess í huga þeirra sem koma að íþróttum þegar árangur er metinn. Það kemur þó oft og tíðum niður á andlegri heilsu íþróttamannanna sem falla margir í þá gryfju að tengja virði sitt við út- komuna. Halsted var engin undantekning sem ungur íþróttamaður. „Ég man hversu illa mér leið þegar ég tap- aði. Sem barn grét ég í hvert skipti sem ég tap- aði. Það hugarfar fylgdi mér fram á fullorðins- aldur er ég keppti fyrir landsliðið. Það tók daga eða vikur að jafna sig á tapi, mér leið svo illa eftir á. Útkomurnar skiptu of miklu máli.“ Halsted segir að þegar hann áttaði sig á því, með sálfræðingi sínum, að hann þyrfti ekki að þjást eftir hvert tap, að hann gæti verið ánægður með sig eða stoltur af sér þrátt fyrir tap, hafi það skipt sköpum. Hann hafði líklega heyrt eitthvað þvíumlíkt áður en þarna small það fyrir honum. Þetta var um það leyti er hann glímdi við meiðslin fyrir leikana í Lond- on. „Kvíðinn og hræðslan við að tapa hvarf því ef ég tapaði þá leið mér ekki nærri því jafn illa og áður. Á þessum leikum og leikunum í Ríó var upplifunin af keppni allt önnur en hún hafði verið.“ Halsted fylgdi á sínum tíma þeirri meg- instraumsskoðun að ef manni líði ekki illa eftir tap þá skipti íþróttin mann ekki nógu miklu máli. Það myndi svo leiða til þess að maður legði ekki nægilega mikið á sig til að ná árangri. „En það var ekki satt því eftir að ég losaði mig við kvíðann langaði mig alveg jafn mikið að standa mig vel næst. Ég tók bara ekki kvíð- ann með mér inn í næstu keppni,“ segir Hals- ted. Munurinn var sá að drifkrafturinn kom ekki lengur frá neikvæðum hugsunum heldur vilja til að gera betur. Vilja sem bæði endist lengur og hefur ekki neikvæð áhrif á aðra þætti lífsins. Íþróttamenn eiga að láta í sér heyra Fyrir Ólympíuleikana í Ríó skrifaði Halsted pistil sem birtist í Guardian. Þar talaði hann um mikilvægi þess að ólympíufarar létu í sér heyra þegar kæmi að neikvæðum áhrifum leik- anna á samfélögin þar sem þeir eru haldnir. „Það kom til vegna konunnar minnar. Hún hefur engan áhuga á íþróttum og hún sá Ól- ympíuleikana sem eitthvað slæmt frekar en gott. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu því ég hafði ekki hugleitt að það væru slæmar hliðar á Ólympíuleikunum og hvað þá að það ætti ekki að halda þá því þessar slæmu hliðar vægju svo mikið. Hún opnaði augu mín fyrir málefninu og eftir það var ómögulegt að loka þeim aftur,“ segir Halsted. „Það er ekki svo að það eigi ekki að halda Ól- ympíuleikana en það getur ekki verið þannig að við dönsum á línunni á milli þeirra slæmu áhrifa sem leikarnir hafa á samfélagið og góðu áhrifa sem þeir hafa á íþróttamennina og þá sem líta upp til þeirra,“ segir Halsted. Hann segir þetta vandamál sjást vel í um- ræðunni um Ólympíuleikana sem eru á dag- skrá í Tókýó í sumar. Það sé á mjög gráu svæði hvort halda eigi leikana enda margir sem vilji að þeir verði ekki haldnir. Halsted er á þeirri skoðun að íþróttamenn eigi almennt að láta í sér heyra um málefni af þessu tagi og nýta sér áhrif sín til að ýta undir samfélagslegar breytingar. „Íþróttamenn eins og LeBron James og Colin Kaepernick hafa breytt samfélaginu. Í tilfelli Kaepernicks er ótrúlegt hvernig ákvörðun eins manns um að krjúpa hefur breytt heilu sviði stjórnmála í Bandaríkjunum,“ segir Halsted en Kaepernick var fyrsti leikmaður NFL-deildarinnar til að krjúpa á hné sér til að mótmæla lögreglu- ofbeldi í garð svartra árið 2016. Sú skoðun að íþróttir eigi að vera lausar við pólitík að öllu leyti er úrelt að mati Halsted. Þær séu pólitískar hvort sem fólki líkar betur eða verr. „Það er auk þess það sem samfélagið þarf. Við þurfum að nýta okkur þá sem geta haft áhrif á stóran hóp fólks, sérstaklega ungt fólk,“ segir hann. Vöntun á mennsku innan íþrótta Talið berst að Naomi Osaka, næststigahæstu tenniskonu heims, sem dró sig úr keppni á opna franska meistaramótinu fyrir skömmu. Fyrir mót ákvað hún að mæta ekki á blaða- mannafundi eftir leiki á mótinu og eftir að hafa verið sektuð af mótstjórnendum ákvað hún að hætta keppni vegna þess fjaðrafoks sem því fylgdi. Hún tjáði sig í kjölfarið um glímu sína við þunglyndi og félagskvíða sem veldur því að hún á erfitt með að ræða við fjölmiðla. „Henni finnst ekki að hún sé of góð til að tala við fjölmiðla,“ segir Halsted. „Hún er að passa upp á sjálfa sig og er gott dæmi um fyr- irmynd þegar hún talar opinskátt um andleg veikindi sín. Það mun hjálpa öðrum að vera að- eins opnari líka. Það er auðvitað skylda íþróttamannanna að tala við fjölmiðla og ég skil það. En að mótstjórnendur skuli refsa henni fyrir að mæta ekki þeim skyldum þegar þetta er ástæðan er ótrúlegt. Það sýnir vönt- unina á mennsku innan íþrótta að sjá ekki ein- lægnina á bak við gjörðir hennar og vilja styðja hana. Þetta var frábært tækifæri fyrir tennis til að sýna íþróttamönnum sem glíma við andleg vandamál stuðning.“ Halsted bendir á að þetta viðhorf sjáist víða í íþróttaheiminum. Íþróttamenn eru ekki studdir til að hugsa um sína andlegu heilsu þó þeir komi fram af heiðarleika og heilindum. Halsted er þeirrar skoðunar að framkoma og gjörðir íþróttamanna utan vallar sé það sem leiði til samfélagslegra breytinga, ekki frammistaða á vellinum. „Það er fólk eins og Naomi, LeBron og Kaepernick sem blæs fólki í brjóst. Þau sýna hvernig það er að sýna öðr- um og sjálfum sér samkennd. Ríki styrkja íþróttir því þær ýta undir samfélagslega þátt- töku, góða heilsu fólks og samstöðu. En íþrótt- ir gera það ekki einar og sér, en geta það ef við ölum upp íþróttamenn eins og þessa. Íþrótta- menn sem láta gott af sér leiða.“ Halsted bendir á að ekki sé nauðsynlegt að vera heimsfrægur íþróttamaður til að láta gott af sér leiða. Innan síns samfélags eða íþrótta- félags geti íþróttamenn sem ekki hafa náð eins langt lagt sitt af mörkum. Það geti þeir gert í gegnum ýmis verkefni eins og að hitta yngri iðkendur, mæta í skóla eða hafa áhrif á innan- bæjarstjórnmál. Er þetta allt og sumt? Halsted sendir frá sér bók í ágúst, Becoming a True Athlete, þar sem hann leggur fram heim- speki sýna fyrir íþróttamanninn. Íþróttir eigi ekki eingöngu að snúast um að verða sem best- ur í íþrótt sinni heldur einnig að rækta aðra eiginleika sem stuðla að því að viðkomandi geti lifað innihaldsríku lífi meðan á ferlinum stend- ur og eftir að honum lýkur. Bókin byggir á ákveðnum dyggðum þessarar heimspeki og hvaða aðferðum sé hægt að beita til að rækta þær dyggðir. Ólíkt aldagömlum bardagaíþróttum fannst Halsted engin heimspeki vera til staðar fyrir nútímaíþróttir. Þá er hætt við að áherslan á út- komur leiksins taki yfir. Íþróttamenn halda að ef markmiðinu er náð, hvort sem það er ólymp- íugull eða eitthvað annað, muni það veita þeim hamingju. En eftir að því er náð spyrja margir sig: „Er þetta allt og sumt?“ Niðurstaðan er að margir íþróttamenn glíma við andleg veikindi eftir að ferlinum lýkur; þunglyndi, kvíða og jafnvel sjálfsvígshugsanir. „Það er ekki þess virði að komast á toppinn ef þú situr eftir með ekkert sjálfsálit. Ef íþróttir byggja þig ekki upp sem manneskju, til hvers þá að vera að þessu?“ segir Halsted. „Það eru margir sem segja að líf atvinnu- íþróttamanns sé ekki heilbrigt. Og það er rétt að vissu leyti og erfitt að finna jafnvægi ef þú hefur æft íþróttir allt þitt líf. En það er svo margt sem við getum gert til að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu. Hjálpa íþróttamönnum að skilja hvað er mikilvægt og hvað ekki. Það er svo margt annað en verðlaunin sem veita íþróttamönnum ánægju.“ Hvað er þá mikilvægt? „Þegar vinir mínir úr skylmingum, hvort sem það eru heimsmeistarar eða bara góðir skylmingamenn, horfa til baka yfir ferilinn eru það ekki sigrarnir eða medalíurnar sem þeir tala um. Það eru samböndin sem þeir mynd- uðu, reynslan sem þeir öðluðust og hvert þeir ferðuðust. Það er það sem þeir muna.“ Halsted segir sorglegt hve margir átti sig ekki á þessu fyrr en of seint og einblíni allan sinn feril á það sem gefi þeim á endanum ekk- ert en hunsi það sem gefi þeim ánægju og til- gang. Ekki málmurinn sem skiptir máli Halsted segir að hægt sé að gefa allt sitt í íþróttina þó svo maður átti sig á því að sig- urinn sem maður eltir skiptir ekki öllu máli. Það sé leiðin að markmiðinu sem veitir manni ánægju og lífsgleði, ekki málmurinn sem verður eða verður ekki hengdur um háls manns. „Það er ekkert mál að komast á toppinn án þess að sýna samkennd, ábyrgð og vera með- vitaður um hvað skiptir máli. En það er það sem við þurfum að bæta við og það þarf ekki að gera frammistöðuna verri,“ segir Halsted. En myndu þeir íþróttamenn sem hunsa allt nema markmiðið um að verða meistarar ná jafnlangt ef þeir áttuðu sig á því hvað skipti þá raunverulega máli? Myndu þeir leggja jafn mikið á sig til að verða bestir? „Kannski myndu þeir missa eitthvað við það en er það þess virði að verða svona góður ef þú hefur ekkert annað?“ segir Halsted og nefnir Roger Federer sem dæmi um íþróttamann sem hefur náð lengst allra tenniskarla á meðan hann hefur ræktað aðra eiginleika sína. Þarna kemur uppeldi íþróttamanna inn. Ef við ölum upp íþróttamenn með það í huga að þeir leggi hart að sér til að ná árangri en á sama tíma átti sig á því að aðrir þættir lífsins skipti meira máli getum við fengið það besta úr báðum heimum. „Það er einmitt spurningin. Gætu þessir íþróttamenn verið jafnvel betri ef þeir hefðu verið aldir upp með því viðhorfi sem ég tala fyrir? Gæti Tiger Woods hafa orðið enn betri ef hann hefði fengið annað uppeldi?“ Svo er auðvitað spurning hvort við myndum sjá fleiri góða íþróttamenn sem ungir heltast úr lestinni vegna þess viðhorfs til árangurs sem er ætlast til af þeim. „Ég hef heyrt frá mörgum innan afreksíþrótta sem tala um að margir einfaldlega hætti vegna þeirrar hörku sem oft er beitt við þjálfun. Það er ekki í boði að sýna veikleika og ef fólk nær ekki fram sínu besta við þær aðstæður hættir það.“ Halsted segir mikilvægt að íþróttamenn séu fyrirmyndir utan vallar sem innan. „Það er stefnan sem við viljum að íþróttir taki. Að við ölum upp íþróttamenn sem eru fyrirmyndir en ekki bara frábærir íþróttamenn. Það sem frá- bær frammistaða blæs fólki í brjóst er hverfult samanborið við að sjá einhvern eins og Roger Federer spila frábærlega og vera svo auð- mjúkur og sýna andstæðingum sínum vænt- umþykju,“ segir hann. „Það er mun auðveldara að tengja við ein- hvern sem sýnir eitthvað sem við getum sett okkur markmið um að ná. Við verðum aldrei jafngóð í tennis og Federer en við getum sett okkur það að markmiði að koma fram við aðra eins og hann,“ segir Halsted að lok- um. „Það sýnir vöntunina á mennsku innan íþrótta að sjá ekki einlægnina á bak við gjörðir hennar og vilja styðja hana,“ segir Halsted um mál Naomi Osaka sem dró sig úr keppni á Opna franska meistaramótinu í tennis fyrr í sumar. AFP ’ Það er ekki þess virði að komast á toppinn ef þú situr eftir með ekkert sjálfs- álit. Ef íþróttir byggja þig ekki upp sem manneskju, til hvers þá að vera að þessu?

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.