Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.07.2021, Page 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.7. 2021
DUXIANA Reykjavik | Ármuli 10 | Reykjavik | +354 5 68 99 50 | www.duxiana.is
GÆÐI OG ÞÆGINDI
SÍÐAN 1926
DUX 8008 – UNDRAVERÐUR SVEIGJANLEIKI
Háþróuð tækni, alvöru handverk, strangar prófanir og vandlega valin efni tryggja góðan nætursvefn
og passa upp á að líkaminn fái góða hvíld þegar þú þarf mest á því að halda.
Sumarið helltist yfir megnið af land-
inu, nema höfuðborgarsvæðið. Ekki
þurfti þó að fara lengra en í Flóann
til þess að njóta veðurblíðunnar,
það var fínt fyrir norðan og austur á
Héraði sól í heiði og hitabylgja, svo
innfæddir spókuðu sig þar hálfnaktir
með svaladrykki.
Á meðan sveiflaðist gosvirknin fram
og til baka á Reykjanesskaga, en
jarðvísindamenn struku vangann og
veltu vöngum yfir því hvort líða færi
að goslokum. Sögðu svo að um slíkt
væri erfitt að spá.
Kórónuveirusmit greindust í aukn-
um mæli í vikunni en í langflestum
tilvikum voru einkennin væg eða
engin. Ekki hlutust heldur alvarleg
veikindi af, en tveir voru þó lagðir
inn, annar veikur af öðrum orsökum.
Aukins óróa gætti í Miðbæ Reykja-
víkur um helgina og allt gistirými
lögreglunnar uppurið. Talsvert var
um pústra og jafnvel áflog þar sem
menn drógu upp hnífa. Velflestir
skemmtistaðir voru smekkfullir, sem
átti eftir að hafa sín áhrif á smittölur
daganna á eftir.
Ársreikningar sveitarfélaga leiða í
ljós að rekstur þeirra margra er æði
bágborinn, en útsvarstekjur duga
ekki fyrir heildarlaunakostnaði. Þá
kom á daginn – að því er virtist öllum
að óvörum – að stytting vinnuviku
reyndist ekki útlátalaus.
. . .
Aukin smit urðu sóttvarnalækni
áhyggjuefni, sem hann impraði á við
heilbrigðisráðherra, sem aftur kynnti
þau í ríkisstjórn, þar sem samþykkt
var tillaga um hertar sóttvarnir við
ferðir til landsins.
Sjálfstæðismenn létu hins vegar í ljós
efasemdir um að þær aðgerðir hefðu
tilætluð áhrif, en vitað væri að þær
yrðu ferðaþjónustu þungbærar. Heil-
brigðisráðherrann Svandís Svavars-
dóttir svaraði snúðugt að sjálfstæð-
ismenn hefðu verið á móti alls kyns
sóttvörnum frá upphafi. Þau orð juku
ekki friðinn við ríkisstjórnarborðið, en
Bjarni Benediktsson sagði kosninga-
lykt af þeim.
Ferðamönnum hefur fjölgað svo í
landinu undanfarnar vikur, að hörgull
er á bílaleigubílum fyrir þá. Bílaleig-
ur grynnkuðu mjög á lagernum meðan
faraldurinn gekk yfir.
Til stendur að reisa víkingagarð á
Hjörleifshöfða til afþreyingar ferða-
mönnum. Hvenær mun hér rísa útrás-
arvíkingagarður?
Gosmóða vofði áfram yfir höfuðborg-
arsvæðinu svo fólki var ráðið frá því að
stunda líkamsrækt utandyra, láta
ungabörn sofa úti í vagni eða ámóta.
Sérstaklega fór móðan illa í fólk með
viðkvæm öndunarfæri.
Forráðamenn baðlónsins Sky Lagoon
í Kópavogi brugðust við gagnrýni á að
hafa vísað berbrjósta konu upp úr lón-
inu með breyttum reglum, þar sem
ekki er gerður greinarmunur á kynj-
unum hvað klæðaburð í lóninu varðar.
Ekki var þó af þeirri tilkynningu ljóst
hvort konur mættu framvegis bera
brjóstin eða karlar að koma í sundbol.
Mikill munur er á afstöðu kynja til
sumra stjórnmálaflokka, en að því
leyti slá Vinstri græn öllum við sam-
kvæmt könnun MMR. Um 19%
kvenna styðja listann en aðeins 5%
karla. Það þýðir að af stuðningsfólki
listans er aðeins fimmti hver karl.
Til stendur að opna mathöll í gamla
Bryggjuhúsinu við Vesturgötu 2,
sem margir kannast við sem Kaffi
Reykjavík.
. . .
Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi
undanfarna mánuði, ekki síst á
Suðurnesjum, hefur fyrirtækjum á
Keflavíkurflugvelli reynst erfitt að
finna starfsmenn nú þegar
ferðamannastraumurinn er hafinn að
nýju.
Fram kom að leikmaður fótbolta-
liðsins Everton hefði verið handtek-
inn vegna áskana um brot gagnvart
ólögráða barni, þó ekki kæmi neitt
fram um aldur þess. Maðurinn
reyndist vera íslenski landsliðsmað-
urinn Gylfi Þór Sigurðsson.
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)
varðist allra fregna vegna málsins og
kvaðst bíða formlegrar staðfestingar
á því að þar ræddi um Gylfa. Klara
Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ,
vildi ekki einu sinni segja hvort leitað
hefði verið eftir henni.
Bjarni Benediktsson fjármálaráð-
herra sagðist fagna netverslun með
áfengi, en hafði skilning á því að for-
ráðamenn ÁTVR vildu kanna lög-
mæti hennar. Hins vegar furðaði
hann sig á ásökunum þeirra um
skattsvik keppinautanna.
Farsóttarhúsið fylltist og þörf á að
opna annað. Flestir þar eru erlendir
strandaglópar, sem ekki hafa komist
úr landi vegna smits.
Því ótengt veitti byggingarfulltrúinn
í Reykjavík leyfi fyrir því að Her-
kastalanum við enda Aðalstrætis
verði breytt úr gistiheimili í hótel-
íbúðir.
Barnalæknar í Domus Medica, sem
lokað verður um áramót, hyggjast
flytja sig um set í Urðarhvarf í Kópa-
vogi.
. . .
Hefðbundnar útihátíðir sumarsins
eru í hættu vegna yfirvofandi sótt-
varnaaðgerða. Þórólfur Guðnason
sóttvarnalæknir sagði að þær væru
sérdeilis hættumiklar hvað smit
varðaði. Öllum slíkum hátíðahöldum
var aflýst í fyrra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækn-
ir varaði landsmenn við að halda að
allt væri um garð gengið þó búið væri
að bólusetja þjóðina og alvarleg veik-
indi létu ekki á sér kræla. Sagði hann
að kórónuveirufaraldrinum lyki ekki
fyrr en honum væri lokið um heim
allan. Rétt er að minna á að svarti
dauði er enn meðal oss í Kína,
Bandaríkjunum og Mexíkó.
Kúbumenn á Íslandi, vinir þeirra og
fleiri frelsisunnendur efndu til sam-
stöðu á Austurvelli vegna víðtækra
mótmæla í Kúbu gegn einræðis-
stjórn kommúnista þar. Í sama mund
hófust fangelsanir andófsmanna á
Kúbu.
Arnar Sigurðsson vínkaupmaður
kærði Ívar J. Arndal, forstjóra
ÁTVR, fyrir rangar sakargiftir. Sá
hafði sent kærubréf til skattyfirvalda
á einstaklega hæpnum forsendum.
Forstjórinn lét ekki ná í sig, en að-
stoðarforstjórinn sagði að hann
myndi ekki láta ná í sig.
Þurrkur á Norðurlandi er orðinn svo
langvarandi að hægt hefur á sprettu,
en fyrri slætti í Eyjafirði er lokið.
. . .
Útreikningar á úthlutun þingsæta
samkvæmt könnun MMR á fylgi
framboða til Alþingis sýndu að tveir
ráðherrar framsóknarmanna, þau
Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur
Einar Daðason, féllu af þingi, færu
kosningar á sama veg og birtist í
könnuninni.
Icelandair birti uppgjör þar sem
fram kom gríðarlegt tap á árinu, 10,8
milljarðar það sem af er, þar af 6,9
milljarðar króna á öðrum ársfjórð-
ungi.
Íbúar við Hörgshlíð kvarta undan
vinnubrögðum Reykjavíkurborgar,
en verið er að gera nýjan göngu- og
hjólreiðastíg við húsin og grafa und-
irgöng undir Bústaðaveg. Ekkert
samráð hafi verið við þá haft.
Yfirmaður hjá N1 segir að fyrir komi
að viðskiptavinir atyrði starfsmenn
fyrir að vera ekki nægilega sleipir í
íslensku. Drífa Snædal, forseti ASÍ,
hvetur fólk til þess að sýna hvert öðru
og ekki síst vinnandi fólki virðingu.
Landspítali var færður af óvissustigi
yfir á hættustig, að sögn vegna
óvissu.
Sumarblíðan á Norður- og Austur-
landi mallaði áfram í vikunni, svo
margir lögðu leið sína þangað til þess
að sleikja sólina og eiga náðuga daga.
Þar á meðal ríkisstjórnin, sem ákvað
að halda ríkisstjórnarfund á Egils-
stöðum með stuttum fyrirvara.
Það var þó ekki svo að ríkisstjórnin
væri aðeins að nota síðasta séns til
þess að frílysta sig fyrir austan, því á
dagskrá fundarins voru tillögur sótt-
varnalæknis um enn hertar aðgerðir
vegna smitaukninga. Af fundinum
kom svo Katrín Jakobsdóttir for-
sætisráðherra með yfirlýsingu um að
aðgerðir yrðu hertar um helgina,
settar yrðu á 200 manna sam-
komutakmarkanir, eins metra fjar-
lægðaregla og afgreiðslutími bara og
veitingastaða styttur.
Í sól og sumaryl
og plágu
Ráðherrar og fulltrúar valdstjórnarinnar sleiktu sólina fyrir austan á föstudag og ákaflega traustvekjandi að sjá Sigurð
Inga Jóhannsson sultuslakan á fössara, þó hans bíði erfið úrlausnarefni á dögum smita og sóttvarnaraðgerða.
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
18.7.-23.7.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is