Fjarðarfréttir - 22.12.2016, Blaðsíða 23
www.fjardarfrettir.is 23FJARÐARFRÉTTIR | FIMMTUDAGUR 22. DESEMBER 2016
Pabbi og mamma sögðu okkur að
setjast niður. Við þurftum að tala
saman. Eins og við vissum öll átti
mamma von á fjórða barninu sínu. Þau
höfðu verið uppi á spítala að láta athuga
hvort það væri ekki allt í lagi með
barnið. Mamma hafði farið í mörg próf
af öllum gerðum að ráði læknanna. Að
lokum höfðu læknarnir tilkynnt að það
væru miklar líkur á að barnið þeirra
yrði fatlað á einhvern hátt. Downs
heilkenni líklegast.
Þeir buðu mömmu að fara í fóstur
eyðingu en hvorki hún né pabbi tóku
það í mál. Þetta var ennþá barnið þeirra
þrátt fyrir allt og þau mundu elska það
alveg sama hvað. Ekki nokkur lifandi
manneskja ætti að eyða fóstri bara því
það var ekki fullkomið. Einn læknirinn
reyndi að réttlæta gjörðir þess fólks
sem það hafði gert. Ekki væru allir
tilbúnir til að eiga fatlað barn og sumir
vildu bara koma í veg fyrir að barnið
þeirra þjáðist.
En mömmu fannst að þeir sem voru
ekki tilbúnir að elska annað en
fullkomið barn, hefðu engan rétt á því
að verða foreldrar. Og ef barninu var
sýnd ást og umhyggja þurfti það ekki
að þjást meir en annað fólk. Allir í
þessum heimi þjást og það er engin leið
að koma í veg fyrir það. Það eina sem
er hægt að gera er að hjálpa fólki í
gegnum það sem það þjáist fyrir. En að
taka saklaust líf var aldrei rétt og engin
leið að réttlæta það.
Læknarnir létu mömmu og pabba
vita að hún þyrfti að mæta reglulega í
skoðun til þeirra eftir þetta.
STANDA SAMAN OG
ELSKA ÞAÐ ALVEG SAMA
HVAÐ
Við þurftum að vera tilbúin að taka á
móti fötluðu barni í fjölskylduna okkar.
Standa saman og hjálpa því og elska
það alveg sama hvað.
Ég sat hljóður og starði fram fyrir
mig, óviss um hvað mér átti að finnast.
Fyrir nokkru síðan hafði ég heyrt
foreldra mína ræða saman um strák
sem þau þekktu.
„Vissirðu að drengurinn hennar
Dagnýjar er hommi? Hann kom víst út
úr skápnum í mars,“ heyrði ég mömmu
segja.
„Þetta er tóm vitleysa í drengnum.
Hann hefur aldrei verið neitt homma-
legur, rosalega góður fótboltamaður og
allt. Þetta er bara í tísku hjá unga
fólkinu í dag. Hann sækist bara eftir
athygli, heldur að hann fái hana á
þennan hátt. Við getum þakkað fyrir að
eiga ekki börn eins og hann.“
Mikið hafði hann elskulegi faðir
minn haft rangt fyrir sér. Reiðin sauð í
mér, en ég sagði ekki neitt. Hvað átti ég
að segja? Pabbi mundi ekki hlusta á
mig hvort eð er. Hann nefnilega hafði
alltaf rétt fyrir sér alveg sama hvað,
hann pabbi minn. En hvernig honum
datt í hug að þetta „væri í tísku hjá unga
fólkinu í dag“ fannst mér fárán legt.
Ástæðan fyrir því að fólk kom út úr
skápnum í auknum mæli var sú að
loksins var önnur kynhneiging en
gagnkynhneigð opinberlega samþykkt
af íslenska samfélaginu. Þetta var ekki
ákvörðun sem fólk tók til að fá athygli.
Enginn vildi hætta á að verða óvelkomin
í fjölskylduna sína eða vinahóp því þau
voru „öðruvísi“.
En ég hélt að kannski væri kominn
tími til að gera þetta opinbert fyrir
þeim. Núna meðan þau töluðu um að
þau mundu elska barnið sitt alveg sama
hvað. Ég fékk kjark til að gera eitthvað
sem ég hafði aldrei getað hugsað mér
áður.
ÞAÐ MÁ EKKI VERA
Ég var samt í nokkrar vikur að
byggja upp hugrekkið til þess. En þegar
ég loksins sagði þeim það neituðu þau
að trúa mér. „Það má ekki vera“, sögðu
þau. „Við ólum þig ekki upp á þennan
hátt Kristinn, af hverju gerirðu okkur
þetta?“
Ég reyndi að sannfæra þau um að ég
hefði ekki tekið þessa ákvörðun sjálfur.
Enginn ákvað þetta bara. Þetta var
partur af mér sem ég gat ekki bara
skorið út og hent frá mér. Þau hótuðu að
fara með mig í kirkju og láta prestinn
særa þetta út úr mér. Hvaða djöfulsins
andatrú var þetta maður? Hvað héldu
þau eiginlega að ég væri? Við rifumst,
það var öskrað, grátið, hurðum var
skellt. Ég endaði á því að troða sokkum
og nærbuxum og nokkrum bolum og
buxum í poka og ætlaði út úr húsi. En
Emilía og Þórir Óli stöðvuðu mig.
„Kristinn ekki fara frá okkur!“, sagði
Emilía með kökkinn í hálsinum.
„Af hverju ertu að fara?“, sagði
Þórir Óli þrumu lostinn.
„Ég get ekki verið hérna lengur.
Foreldrar okkar vilja ekki hafa ein-
hvern eins og mig í þessari fjölskyldu.“
Það sem mér fannst allra verst við þetta
allt var ekki tilfinningin að ég hefði
verið svikinn heldur tárin sem runnu
niður kinnarnar á litlu systur minni.
„En hvað meinarðu? Ertu eitthvað
öðruvísi?“, sagði Þórir Óli. „Þau vilja
ekki eiga samkynhneigðan son.“
FORDÓMAFULLIR
FÁVITAR!
Ég gat ekki horft framan í saklaust
andlitið sem auðvitað skildi ekki neitt.
Þórir Óli horfði spurnaraugum á systur
sína og hún útskýrði fyrir honum hvað
það var í gegnum tárin.
„En af hverju skiptir það máli hvort
Kristinn eigi kærasta eða kærustu? Af
hverju þarf hann að fara?“
Mamma og pabbi komu til okkar.
Mamma strauk Emilíu um hárið en hún
kippti sér í burtu.
„Því pabbi og mamma eru fordóma-
fullir fávitar!“, snökti hún.
„Emilía!“ kvað í mömmu en Emilía
hélt áfram að tala.
„Þið komið til okkar og talið við
okkur og segið okkur að þótt barnið
verði fatlað eigum við að elska það eins
og það er alveg sama hvað og að þeir
sem eru ekki tilbúnir að elska börnin
sín eins og þau eru eiga ekki skilið að
vera foreldrar. Og svo neitið þið að
samþykkja Kristinn eins og hann er,
bara því þið hafið einhverja fávísa
hugmyndafræði um að það sé rangt að
vera samkynhneigður. Þið hafið engan
rétt á að vera foreldrar okkar allra! Ef
þið ætlið að reka eina stóra bróður
minn héðan þá fer ég líka og Þórir Óli
líka!“
Það kom mér svolítið á óvart að stór
orð eins og „fávísi“ og „hugmynda
fræði“ gætu komið frá þrettán ára barni.
En Emilía var gáfaðasta manneskja
sem ég þekkti. Það var sama hversu vel
þú þekktir hana, hún gat alltaf komið
þér á óvart.
VIÐ MUNUM ELSKA ÞIG
ALVEG SAMA HVAÐ
Mamma og pabbi störðu þrumu
lostin á einu stelpuna þeirra. Ég efaðist
um að það gæti eitthvað orðið úr hót
unum hennar um að fara að heiman því
við höfðum engan stað að fara á, en
þetta hræddi móður okkar samt.
„Hvers konar móðir er ég eigin-
lega?“ hvíslaði hún og brast í þungan
grát. „Ég röfla og ríf kjaft við hvern
þann sem segir mér að fara í fóstur-
eyðingu því ég hef lofað sjálfri mér að
elska börnin mín sama hvað en ég var
næstum búin að henda þér héðan út.“
Hún kastaði sér utan um mig og grét
sáran. Þó átti hún erfitt með að komast
að fyrir bumbunni.
Hún togaði hin börnin sín til okkar og
pabbi kom og tók utan um okkur öll.
„Kristinn minn, við munum elska þig
alveg sama hvað. Við munum elska
ykkur öll alveg sama hvað.“
„Hvað v-væri þessi fjölsky-ylda án
Emilíu okkar?“ sagði mamma í
gegnum þungan hiksta.
„Þið hefðuð engan Kristinn hjá ykk-
ur lengur án mín“, sagði hún og brosti.
Ég man eftir þessum degi sem Dag
inn sem ég áttaði mig á því hversu
mikil hamingja getur komið frá verstu
upplifunum lífs þíns.
Verðlaunasmásaga eftir Alexöndru K. Hafsteinsdóttur sem var í 10. bekk í Víðistaðaskóla
Sama hvað
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhendir Alexöndru verðlaun fyrir
bestu smásöguna í tenglsum við Stóru upplestrarkeppnina.
Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla, Illugi Gunnarsson,
menntamálaráðherra, Þórdís Mósesdóttir íslenskukennari og Alexandra K.
Hafsteinsdóttir við lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnnar í Hafnarborg í vor.
Lj
ós
m
.:
G
uð
ni
G
ís
la
so
n
Lj
ós
m
.:
G
uð
ni
G
ís
la
so
n