Feykir


Feykir - 19.02.2020, Blaðsíða 7

Feykir - 19.02.2020, Blaðsíða 7
og textar eru settar inn á heimasíðu kórsins en auk þess syngur Helga Rós allar raddirnar inn svo konurnar geta hlustað heima og lært. „Þetta gengur í rauninni ekki öðruvísi en að fólk vinni heima, þetta er það stuttur tími, oftast eru lögin í þremur röddum, stundum fjórum, og þá fer náttúrulega mikill tími í að kenna hverja rödd fyrir sig. Þannig að eftir því sem undirbúningurinn er meiri, þeim mun hraðar gengur þetta og þeim mun meira gaman er það líka. Að hafa unnið, undirbúið sig, koma á æfinguna og finna að það er að skila sér, alveg eins og í öllu námi,“ segir Helga Rós og konurnar taka undir að það sé nauðsynlegt að læra heima. Sumar sökkva sér meira að segja svo mikið niður í heimanámið að þær gleyma stund og stað, rétt eins og Sigurlaug gerði þegar hún var á leið suður í strætó nýlega og var svo niðursokkin í að hlusta á og læra röddina sína að þegar strætóinn fauk til í vindhviðu veitti hún því enga eftirtekt fyrr en hann var að koma sér inn á veginn aftur. Eins og áður segir er æft í Miðgarði einu sinni í viku. Konurnar leggja áherslu á að þetta sé kvenvænn kór, eða eins og Íris segir, æfingar eru ekki fram eftir kvöldi og kórinn tekur sér gott jólafrí. Ekki er staðið í neinum fjáröflunum og starfsemin er rekin á árgjöldum og innkomu af tónleikum. Þá má ekki gleyma því að Uppbyggingarsjóður SSNV og Menningarsjóður KS hafa stutt dyggilega við bakið á kórnum í gegnum tíðina, ásamt fleiri góðum stofnunum og fyrir- tækjum. Í nógu að snúast á næstunni Fastir liðir í starfi kórsins eru konudagstónleikar í Miðgarði, tónleikar á Sauðárkróki á Sæluviku og heimsókn á Heil- brigðisstofnunina á Sauðár- króki. Einnig hefur kórinn farið í ýmsar söngferðir, bæði í nágrannasveitir í Eyjafirði, Þingeyjarsveit og í Húna- vatnssýslum og einnig hefur verið farið suður yfir heiðar og meðal annars sungið í Hafnarfirði og í Reykjavík. Auk þess hefur kórinn farið í æfingaferð einu sinni á vetri, langan laugardag, og haldið árshátíð sína í tengslum við hann, en veður og færð settu strik í reikninginn að þessu sinni. Þessa dagana æfir kórinn stíft fyrir konudagstónleikana sem haldnir verða í Miðgarði nk. sunnudag kl. 15:00. Söngskráin í ár er fjölbreytt að vanda og auk einsöngvara kórsins, Írisar Olgu og Ólafar Ólafsdóttur, ætlar kórstjórinn, Helga Rós, að syngja einsöng að þessu sinni og er það sannarlega tilhlökkunarefni en eins og margir vita á Helga að baki glæstan feril sem óperusöngkona við óperuna í Stuttgart í Þýskalandi. Meðal efnis á dagskránni er nýtt lag eftir Eddu Björk Jónsdóttur sem ættuð er úr Fljótunum en foreldrar hennar búa á Reykjarhóli á Bökkum og reka þar gistiheimilið Gimbur. Lagið er hluti af útskriftarverkefni Eddu úr Listaháskólanum og er samið við ljóð Ólínu Andrés- dóttur, Til Kvenréttinda- félagsins. Að sjálfsögðu verður svo hið rómaða kaffihlaðborð kórsins, sem boðið er upp á að tónleikum loknum, á sínum stað. Fljótlega eftir konudagstón- leikana ætlar kórinn svo að leggja land undir fót og halda suður yfir heiðar. Þar verður sungið í Langholtskirkju laugar- daginn 7. mars klukkan 16:00 og í Vinaminni á Akranesi daginn eftir, sunnudaginn 8. mars klukkan 15:00. Þegar nær líður vori er ætlunin að syngja á Skagaströnd auk hinna hefð- bundnu tónleika á Sauðárkróki. Í útrás á afmælisári Á afmælisári er við hæfi að gera sér dagamun og það ætlar kórinn svo sannarlega að gera. Í byrjun júní er förinni heitið í átta daga ferð til Ítalíu þar sem dvalið verður við Gardavatnið og sungið á tveimur stöðum. Þaðan verður haldið til Þýskalands, til Stuttgart, þar sem Helga Rós er öllum hnútum kunnug og segist hún vera orðin afskaplega spennt að sýna kórnum óperuhúsið og margt fleira skemmtilegt. Þegar litið er yfir farinn veg þessi tíu ár sem kórnn hefur starfað hlýtur óneitanlega margt að koma upp í hugann. Sigurlaug nefnir að það hafi verið ótrúlega bratt hjá þeim að koma fram í fyrsta sinn eftir aðeins fjórar æfingar haustið 2010. Það var á hátíðarsamkomu þegar haldið var upp á 35 ára afmæli kvennafrídagsins en þá flutti kórinn nokkur lög og stóð sig með sóma. „Það sem mér finnst einkenna þetta starf er bæði að þetta er metnaðarfullt söngstarf og líka það að á æfingum, þar er mikið hlegið og mikið sungið og það er ágætis agi en það er líka gaman, þetta er góður félagsskapur,“ segir Íris. „Það hafa auðvitað margar konur kynnst og myndast alls konar vinabönd í kringum það, konur sem þú vissir ekkert um hverjar voru áður. En það mæðir náttúrulega mest á söngstjóranum að halda aga og reglu á liðinu,“ bætir Drífa glettnislega við. „Við reynum bara að hafa þetta skemmtilegt. En höfum sönginn náttúrulega í fyrirrúmi, að hann sé í lagi, og með Helgu Rós sem söngstjóra þá höfum við engar áhyggjur af því,“ segir Drífa að lokum. Fullveldishátíð í Miðgarði 1. des. 2018. MYND: FE Puntað upp á Helgu Rós fyrir tónleika. MYND: AÐSEND Á konudagstónleikum í Miðgarði 2019. MYND: FE Sungið á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Sólveig Sigríður stjórnar. MYND: AÐSEND Sóldísir skemmta sér. MYND: AÐSENDRögnvaldur undirleikari, Sigurlaug, Íris, Drífa og stjórnandinn Helga Rós. MYND: FE Hitað upp fyrir æfingu. MYND: AÐSEND 07/2020 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.