Feykir


Feykir - 01.07.2020, Síða 6

Feykir - 01.07.2020, Síða 6
 Heilir og sælir lesendur góðir. Langar að halda áfram þar sem frá var horfið í síðasta þætti og birta nokkrar vísur í viðbót eftir verkamanninn Jón Arason. Ekki var von að Jóni líkaði vel að vera í návist þeirra sem auðguðust miklu meira en aðrir á oft óskiljanlegan máta. Um þær hugleiðingar verða þessar til: Fávitans um heimsku hof heldur ágirnd vörðinn. Margan þvingar mjög um of Mammons náragjörðin. Varla grillir grænt í strá gæfu hallar línum. Nú er myglað moðið á Mammons stalli þínum. Þegar Jón fer að kaupa fiskmeti fyrir heimilið, á verðlagi sem gilti í kringum 1952, verða þessar vísur til: Dýrtíðin er geysigrimm. Gengur fram úr lagi, þegar krónur knappar fimm kostar einn rauðmagi. Ágirndin er óskoruð, alþýðunni klórar, gömul bæði og grindhoruð grásleppan á fjórar. Ekki hefur Jón haft mikla ást á sóknarpresti sínum eftir næstu vísu hans að dæma. Rennir færi röng á mið, rær oft andans tómu fleyi. Tónar eins og tarfur við tóman stall á vetrardegi. Það er hinn magnaði prestur, eitt sinn í Hveragerði, Helgi Sveins, sem ég held að sé höfundur að þessari: Til að öðlast þjóðar þögn þeir sem aðra véla, gefa sumir agnar ögn af því sem þeir stela. Sá góði Skagfirðingur og hagyrðingur, Hallgrímur Jónasson, mun einhverju sinni hafa hlustað á fréttir frá Alþingi þar sem þingmenn hældu sér af því að hafa lækkað tolla á innfluttu feiti til matargerðar. Urðu þá þessar vísur til: Þeir eru að leysa þjóðarvanda, þegna firra sulti og hrolli. Ótal feiti ótal landa öðlingarnir lækka í tolli. Mín er ósk - að mestu leyti - metin eftir frónskum sið, að þeir hunda og fótafeiti fengjust til að bæta við. Einn af mörgum góðum hagyrðingum er Einar Hjálmar Guðjónsson. Hann mun ekki yfir sig hrifinn af veldi peninganna eftir þessari vísu hans að dæma: Gamli Mammon glottir kalt gegnum tímans mistur. Þykist vera okkur allt engu síðri en Kristur. Þegar Einar fer í verslunarferð og sér hvað kostar, verður þessi vísa til: Dýrtíðin er draugur sá er dregur langan slóðann. Honum situr ókind á sem allan hirðir gróðann. Ein vísa kemur hér í viðbót eftir Einar, er hún vel ort en að sama skapi hryllileg vegna lýsingar á afleiðingum síðari heimsstyrjaldar. Hljóta snauðir gas að gjöf gjósa úr hauðri blossar. Fram af dauðans dökkri nöf dynja rauðir fossar. Á langri ævi áttar Jón sig á því að ekki megi trúa öllu sem sagt er. Þá verður þessi til: Lítt er sannleiks gatan greið grjóti og þyrnum falin, er því tíðum önnur leið til annarra staða valin. Kannski hefur það verið í kringum sumarsólstöðurnar sem Hjálmar Freysteinsson orti svo: Flugurnar suða í sælutón í sólskini baða sig álftahjón við hafflötinn slétta, já himneskt er þetta veður - í boði Og Vodafone. Önnur limra kemur hér eftir Hjálmar: Menn þrasa út af þessu og hinu í þinginu og sjónvarpinu en hitt finnst mér verst ef heimurinn ferst út af fjölmiðlafrumvarpinu. Séra Örn Bárður Jónsson, prestur í Neskirkju, flutti eitt sinn sem oftar eldmessu yfir söfnuði sínum. Árni Reynisson orti af því tilefni svo magnaða vísu: Örn Bárður er harður í gráasta gríninu grimmur hans texti í lífsmagasíninu. Hverju skornu skaðræðissvíninu skolar hann niður með brauðinu og víninu. Það er Ragna Guðvarðardóttir sem er höfundur að næstu vísu. Drottni þótti dauft á jörð hann dreymdi um eitthvað meira, svo skapaði hann Skagafjörð þá skorti hann ekkert fleira. Ekki mátti þessi ágæti boðskapur Rögnu fá frið fyrir athugasemdum. Gunnar J. Straumland þakkar fyrir þessar upplýsingar og segir: Margt er það sem miður fer meðal Íslendinga en hæst af öllu í heimi ber hógværð Skagfirðinga. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Vísnaþáttur 763 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) frida@feykir.is Hver er konan: Sólrún Fjóla Káradóttir. Maki: Sigurður Guðmundsson. Hverra manna: Miðju barn Kára Steindórssonar og Gerðar Geirsdóttur. Hvar elur þú manninn: Borgarnesi og flutti þangað af því að bæjarstjórinn var Króksari og meira að segja upp alinn á Hólmagrundinni. Afkomendur: Alma Rut , Kári Jón, Ingunn og tvö barnabörn Halldór og Sóllilja. Áhugamál: Útivist , handavinna og matreiðsla. Heima er: Fjaran á Króknum. Skólaferðalag 9. bekkjar til Vestmannaeyja Lagt var af stað frá „gagganum“ snemma að morgni með Rúnari Gísla rútubílstjóra og ekið í Þorlákshöfn. Mikill spenningur var í hópnum og þá sérstaklega hjá mér, þar sem tvö eldri systkini mín höfðu dvalið í eyjunni um veturinn á vertíð við ýmis störf, í frystihúsinu eða á sjó, og grunaði mig ekkert annað en að þarna væru þau örþreytt og upptekin við vinnu og í mesta lagi myndu hitta mig í stutta stund þessa helgi, því jú þau voru á vertíð og okkur fölskyldunni skildist að það væri unnið allar helgar og ekki litið upp úr slor döllunum og sofið í sjógallanum. En það kom nú annað í ljós. Þegar Herjólfur sigldi inn innsiglinguna fór að heyrast dúndrandi músík, bara eins og væri búið að slá upp bryggjuballi, og þegar dallurinn nálgast bryggjuna sé ég glitta í u.þ.b. tveggja metra hávaxinn rauðhærðan mann og tvo örlítið lægri með honum. Já þarna var mætt þessi líka svakalega móttökunefnd og heldur betur búið að hafa fyrir því að taka á móti litlu systur og bekkjarfélögunum. Þeir voru með steríó græjur í stórum glerskáp á hjólum og gítar og einnig voru þeir með stóra grind úr bakaríi undir veigarnar. Ég veit ekki hvernig kennurunum okkar leist á þessa móttökunefnd en þeir allavega afþökkuðu að þeir kæmu með okkur í rútunni svo ég og ein vinkona mín fengum leyfi til að labba með þeim upp í bæ (sem væri nú örugglega ekki leyft í dag). Við leggjum af stað með steríógræjurnar og bakarísgrindina og ætluðu félagarnir að sýna okkur almennilegt partý í Eyjum og við alveg til í það. En þegar við erum að nálgast húsið sem partýið var í rennir upp að okkur lögreglubíll og vippa sér út tveir lögreglumenn sem heilsa bróður mínum eins og þeir hefðu gert það áður. Einhver urðu orðaskipti á milli þeirra og bróður og hann svo bara sest inn í löggubílinn og þeir bruna í burtu. Ég hafði tekið eftir því þegar við vorum að nálgast bryggjuna að það var búið að hengja upp íslenska fánann af móttökunefndinni og var bróðir með fánann bundinn á bakinu og fór það eitthvað ekki vel í lögreglumennina (skiljanlega). Þarna skildu svo leiðir við restina af móttökunefndinni og við vinkonan fórum að hitta bekkjarfélagana. Næsti dagur leið og við brölluðum ýmislegt en þegar leið að kvöldi þennan dag fórum við að spranga og með okkur voru krakkar úr Eyjum að kenna okkur. Allt í einu sjáum við ljósbjarma út í einni eyjunni fyrir utan Heimaey. Við förum að spyrja heima krakkana um þetta og segja þeir okkur að það hefðu nokkrir gaurar stolið kappróðrarbátum og róið út í Bjarnarey og væru þeir búnir að kveikja þar varðeld. Ekki hvarflaði að mér þarna að þetta tengdist mér eitt eða neitt, bjóst bara við því að þegar laganna verðir hefðu verið búnir að skamma bróður aðeins að hann hefði farið heim að sofa. En satt best að segja vissi ég alveg að þarna væri hann og nokkrir hressir gaurar með honum. Sögulok verða ekki sögð því við fórum svo heim daginn eftir og enginn fylgdi okkur í skip af móttökunefndinni, enda ekki viðlátnir þann daginn. Í lokin skora ég á Hofsósinginn og vinkonu mína, Guðrúnu Huldu Pálmadóttur að skrifa næsta pistil. ÁSKORANDAPENNINN | bladamaður@feykir.is Ein gömul og góð sönn saga Sólrún Fjóla Káradóttir frá Sauðárkróki Sólrún Fjóla Káradóttir ásamt dóttur sinni. MYND: AÐSEND 6 26/2020

x

Feykir

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.