Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.10.2021, Page 22
Ísold Norðfjörð er 25 ára lækna-
nemi við Háskóla Íslands með
brennandi áhuga á þríþraut. Það
er nóg að gera hjá henni, en hún er á
fjórða ári í læknisfræði og er nú í
verknámi inni á spítala sem hún seg-
ir mjög áhugavert. Einnig þjálfar
hún þríþraut hjá Ægi3 og hjólatíma
hjá World Class. Hún hefur alla tíð
haft áhuga á íþróttum og heil-
brigðum lífsstíl.
„Þegar ég var yngri æfði ég hand-
bolta og dans. Ég er alin upp af for-
eldrum sem eru mikið í hreyfingu og
útivist þannig að ég fékk snemma
áhuga á mörgu því tengdu. Ég hef
oft hlaupið með foreldrum mínum og
bræðrum í Reykjavíkurmaraþoni og
fleiri hlaupum, í raun síðan ég hef
haft aldur til. Foreldrar mínir hafa
alltaf hvatt okkur systkinin áfram í
öllu sem við tökum okkur fyrir hend-
ur og hafa endalausa trú á okkur.“
Út fyrir þægindarammann
„Þegar ég var búin með tvö ár í
menntaskóla fór ég í skiptinám á
vegum AFS til Bandaríkjanna og
þar prófaði ég alls konar íþróttir,
meðal annars badminton, körfubolta
og frjálsar íþróttir og þá helst lang-
hlaup,“ segir Ísold.
„Fósturmóðir mín í Bandaríkjunum
stakk upp á að ég myndi skrá mig í
hálft maraþon, sem ég hafði aldrei áð-
ur hugsað að ég gæti. Þá fór ég að
hlaupa meira og eftir að ég kom heim
úr skiptináminu sumarið 2015 fór ég
hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþon-
inu. Um haustið fór ég mikið í hjóla-
tíma hjá World Class með mömmu og
var í kjölfarið beðin um að þjálfa þar,“
segir Ísold sem var fyrst efins um að
hún ætti að kenna hjólatíma.
„Það var eitt af því sem ég lærði
sem skiptinemi, að fara út fyrir þæg-
indarammann. Í dag gríp ég hvert
tækifæri sem gefst, en þarna var ég
enn að læra það. Fyrstu viðbrögð eru
svo oft að maður geti ekki eitthvað.
Ég ákvað þó að slá til og prófa og fór
að kenna haustið 2016 og hef verið
með hjólatíma, tabata og tíma í heit-
um sal hjá World Class síðan þá. Upp
úr því keypti ég mitt fyrsta hjól,
ódýrt „cyclocross“-hjól, sem er
blanda af götuhjóli og fjallahjóli,“
segir hún.
„Eitt leiddi svo af öðru. Ég var
mikið að hlaupa og hjóla og fór mitt
fyrsta maraþon á tvítugsafmæli
mínu árið 2016. Í byrjun árs 2019
skráðu mamma og pabbi sig í hálfan
Ironman í Austurríki og ég og
Sveinn kærastinn minn ákváðum að
skrá okkur líka. Ég skráði mig þá í
Ægi3, Þríþrautarfélag Reykjavíkur,
og byrjaði að æfa þríþraut. Ég fór á
byrjendanámskeið í sundi sem ég
mæli hiklaust með fyrir alla. Ég
hafði aldrei synt neitt, nema í skóla-
sundi í grunnskóla. Þetta var ótrú-
lega langt út fyrir þægindaramm-
ann, en sundið er mín slakasta grein
í þríþrautinni. Mér hefur alltaf þótt
gaman og átt auðvelt með að hjóla
og hlaupa en ég hjóla á CUBE-hjóli
frá TRI verslun og hleyp í Brooks-
skóm frá Fætur Toga og er ég virki-
lega þakklát fyrir stuðninginn frá
þeim. Þarna í janúar árið 2019 náði
ég ekki að synda eina ferð yfir í 25
metra laug án þess að stoppa.“
Markmiðasetning mikilvæg
„Það er svo mikilvægt að setja sér
markmið, þá verður sigurinn svo
sætur,“ segir Ísold og leggur
áherslu á að maður eigi jafnvel að
setja sér stórt markmið sem maður
telji sig ekki geta náð og taka það í
litlum skrefum.
„Það gerði ég fyrir þennan hálfa
Ironman í Austurríki; þetta var risa-
markmið! Ég byrjaði bara hægt og
rólega að æfa, en þetta var allt nýtt
fyrir mér. Ég keppti í alls konar
styttri þríþrautarkeppnum um sum-
arið, en það er fullt af skemmti-
legum keppnum sem hægt er að fara
í á Íslandi. Það eru þó líka margir
sem æfa þríþraut sem ekki vilja
keppa. Það er mikilvægt að vita að
þetta er fyrir alla; það er um að gera
að koma og vera með hvort sem
maður vill fara hratt eða hægt,
keppa eða ekki. Í þríþrautinni er líka
fólk á öllum aldri,“ segir hún.
„Í hálfum Ironman er sundið 1.900
metrar í sjó eða stöðuvatni, 90 kíló-
metrar á hjóli og hlaupið 21,1 kíló-
metri eða hálft maraþon. Ég fór
þetta í Zell am See í Austurríki og
það var rosalega gaman. Það er svo
mikilvægt að hafa gaman, það er
númer eitt, tvö og þrjú. Þetta var
virkilega sætur sigur; tilfinningin að
klára keppni er ólýsanleg. Ég hugs-
aði strax; „hvenær er næsta
keppni?““ segir Ísold.
„Næst ákvað fjölskyldan að skrá
sig aftur í hálfan Ironman í Cervia á
Ítalíu og sú keppni átti að fara fram
haustið 2020 en auðvitað var henni
frestað um ár vegna Covid. Þá ákvað
ég ásamt pabba og Sveini að breyta
skráningunni í heilan Ironman því
ég sá fyrir mér að ég hefði góðan
tíma til að æfa, bæði um veturinn og
yfir sumarið,“ segir Ísold og segist
hafa æft að minnsta kosti einn til tvo
tíma á dag og inn á milli tók hún
lengri æfingar, allt upp í átta
klukkustundir.
Yngst íslenskra kvenna
Um miðjan september 2021 hélt fjöl-
skyldan út til Ítalíu en keppnisdag-
urinn var 18. september. Ísold kláraði
heilan Ironman með glans en það eru
3.800 metra sund í sjó, 180 km hjól og
42,2 km hlaup eða heilt maraþon.
„Þetta var erfitt en þó auðveldara
en ég hélt,“ segir hún en kærastinn
og faðir hennar fóru einnig heilan
Ironman og móðir hennar tók svo-
kallaða ólympíska þríþraut.
„Sundið er fyrsta greinin og þegar
ég var búin að synda 2.500 metra af
3.800 þá varð ég sjóveik. Það var
undiralda í sjónum og öðruvísi en ég
er vön. Þetta gerðist mjög snöggt og
ég byrjaði að kasta upp sem ég gerði
sex sinnum. Það var virkilega slæmt
þar sem ég hafði íhugað vandlega
næringuna fyrir keppnina, sér í lagi
morgunmatinn sem var allur farinn í
sjóinn klukkutíma eftir að keppni
hófst og ég átti enn eftir að synda
rúman kílómetra og átti allt hjólið og
hlaupið eftir. Það kom þó ekkert
annað til greina en að klára sundið;
ég vissi af fólkinu mínu heima á Ís-
landi sem fylgdist með mér og hvatti
mig áfram og ég komst á endanum í
gegnum sundið,“ segir hún og segir
hjólið hafa gengið vel þótt hún hafi
átt í erfiðleikum með að koma niður
næringu á leiðinni sökum ógleði.
„Í hlaupinu leið mér fyrst vel en
lenti svo í orkuskorti eftir 26 kíló-
metra. Ég náði samt að klára en koll-
urinn var bara þar; ég ætlaði að klára
hvort sem ég myndi labba, hlaupa eða
skríða,“ segir hún og segir það magn-
aða tilfinningu að koma í mark.
„Þarna voru pabbi og Sveinn
komnir í mark og mamma og bræð-
ur mínir að taka á móti mér. Allir
með tárin í augunum. Það er eigin-
lega ekki hægt að lýsa þessari til-
finningu,“ segir Ísold sem varð með
þessu yngst íslenskra kvenna til að
klára heilan Ironman.
„Þetta hvetur mann svo áfram og
ég tek keppnisskapið og þrautseigj-
una með mér í alls konar annað í líf-
inu, í þjálfun, nám, vinnu og fleira. Ég,
ásamt fleirum í fjölskyldunni, er búin
að skrá mig í annan heilan Ironman
að ári. Þetta er sannarlega fjölskyldu-
sport og við fjölskyldan njótum þess
að æfa saman. Þegar ég er að hlaupa
eða hjóla upplifi ég mínar helstu
gæðastundir, oft í dásamlegri ís-
lenskri náttúru með vinum, fjölskyldu
eða frábærum æfingafélögum í Ægi3
og mæli ég með þríþraut fyrir alla.“
Yngst til að
klára Ironman
Ísold Norðfjörð er yngsta íslenska konan til að
klára heilan Ironman. Hún tekur þrautseigjuna
og keppnisskapið mér sér út í lífið.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Ísold Norðfjörð var að vonum
ánægð þegar hún kom í mark
eftir að klára heilan Ironman.
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.10. 2021
HREYFING