Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.10.2021, Page 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.10.2021, Page 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31.10. 2021 hann lenti í. Að sjá þessi skjöl og lesa var algjörlega magnað,“ segir Ásdís Halla og segist svo hafa tekið bréfin og greinar sem hún fann eftir hann og notað til að færa söguna í orð. Rosalegar fyrirsagnir blaðanna Læknirinn Moritz flæktist inn í morðmál á barnaheimili í Kaup- mannahöfn og var settur í fangelsi. „Það verður þarna blaðaumfjöllun og fyrirsagnirnar voru svakalegar, eins og „Umfangsmikil barnamorð í Kaupmanna- höfn, íslenskur læknir handtekinn, fangelsaður og grunaður um aðild“. Enn þann daginn í dag eru þetta talin mestu eða næst- mestu fjöldamorð Danmerkur,“ segir hún, en árið var 1890 þegar málið komst í hámæli. „Moritz hafði farið þangað árið 1874 til að læra til læknis, en hann var dálítið óstýrilátur og fær ekki embætti á Íslandi því hann gagnrýnir embættismannakerfið harðlega. Hann var talinn of róttækur í skoðunum og í stað þess að snúa aftur heim fór hann að vinna í Kaupmannahöfn þar sem hann vann mikið með fátækum á Nörrebro. Hann leiðist svo inn í þetta snúna mál og fjölmiðlar skiptast í tvennt; annars vegar þeir sem telja hann sek- an og tengjast þessum barnamorðum og hins vegar þeir sem segja að ekki séu öll kurl komin til grafar,“ segir Ásdís Halla og segir blöðin hér á landi hafa birt mjög fáar fréttir um málið af til- litssemi við fjölskyldu Moritz. Hann var af fínum ættum og málið að mestu þaggað niður. „Það var þegjandi samkomulag hér að fjalla ekki ítarlega um málið og alls ekki í þeim æsifréttastíl sem gert var í Danmörku og í Vesturheimi. Það er svo réttað í málinu í Danmörku og dóms- niðurstaðan var mjög afdráttarlaus, en nú vil ég ekki skemma of mikið fyrir lesendum,“ segir hún og brosir. „Mér fannst svo ótrúlegt að saga hans hefur aldrei verið sögð. Hún á umtalsvert erindi enn í dag því þó að tíðarandinn sé annar þá er breyskleiki mannanna sá hinn sami og þar að auki eru sið- ferðileg álitamál alltaf klassísk.“ Aldrei aftur til Íslands Í fangelsinu sat Moritz um hríð og fann Ásdís Halla gögn um vistina hans þar, en hún heimsótti einmitt fangelsið. „Það vildi svo heppilega til að faðir Moritz, Halldór Kr. Frið- riksson yfirkennari, átti greiða inni hjá Kristjáni níunda Dana- konungi og þegar sonurinn er lokaður í fangelsi biður Halldór konung um að náða son sinn. Þetta er árið 1892 og konungur fær fangelsiseftirlitið til gera einhvers konar persónuleikagreiningu á Moritz til að meta hvort óhætt sé að sleppa fanganum lausum. Í þessari greiningu eru styrkleikar hans og veikleikar skráðir nið- ur og ýmislegt tekið saman sem varpar ótrúlega mögnuðu ljósi á það hvernig yfirvöld litu á fangann. Ég hafði engar væntingar til þess að svona gögn gætu verið til en þetta er bara eitt af þeim dæmum um það hve miklar heimildir geta verið til ef maður leitar nógu vel. Allar þessar heimildir hjálpuðu mér við að setja mig í hans spor.“ Ásdís Halla komst, þrátt fyrir heimsfaraldur, til Bandaríkj- anna og vann þar um hríð við heimildaöflun og skriftir, en fór þó ekki til North-Dakota þar sem Moritz hafði búið. „Ég mun fara þangað um leið og ég kemst!“ segir hún og held- ur áfram með söguna hans. „Konungurinn hleypir honum úr fangelsinu með því skilyrði að hann stígi aldrei aftur fæti á land sem heyrir undir danska heims- veldið. Og Ísland var þar á meðal. Það var honum gríðarlegt áfall,“ segir hún og segir Moritz hafa farið á Íslendingaslóðir í Kanada, en þegar þangað var komið var ljóst að fréttir af málinu voru á allra vitorði. „Af ótta við umtalið fór hann því í lítinn bæ í Norður-Dakóta þar sem enginn Íslendingur bjó,“ segir hún en þangað flutti hann ásamt eiginkonu og börnum. Þar hóf hann læknastörf að nýju. „Hann vinnur sér þar inn virðingu fólks á ný, líkt og það var orðað á sínum tíma.“ Sagan skrifuð af eldri mönnum Ljóst er af öllum skrifum Ásdísar Höllu að fortíðin og leyndarmál hennar heilla hana mikið. Hvað er það við hið liðna og sögulega sem heillar þig svona, viltu ekki vera í nútímanum? „Fortíðin skýrir svo margt í nútímanum. Ég held að það sé auðveldara að átta sig á nútímanum og framtíðinni með því að skoða fortíðina. Sömu hlutirnir eru alltaf að gerast aftur og aftur. Á þessum tíma er barátta á milli embættismanna og stjórnmála- manna sem er enn í dag. Og þegar Moritz býr í Norður-Dakóta fer hann í framboð fyrir Popúlista, sem var sérstakt framboð sem varð til fyrir alþýðuna; bændur og verkamenn, vegna þess að þá sögðu menn að bæði repúblikar og demókratar væru svo fastir í Washington að þeir sæju ekki út fyrir borgina. Þetta er sama orðræðan og nú er. Það að fara aftur til fortíðar hjálpar manni að lyfta sér upp í nútímanum og átta sig á því að hlutirnir eru ekki endilega jafn persónulegir og fólk heldur, heldur eru oft ákveðin lögmál að verki sem endurtaka sig í sífellu,“ segir Ásdís Halla. „Sagan eins og við þekkjum hana er meira og minna skrifuð af eldri karlmönnum. Mér finnst mjög áhugavert að vera kona að skrifa söguna. Ég er viss um að ef karlmaður hefði tekið saman ævisögu Moritz, væri hún allt öðruvísi skrifuð,“ segir Ásdís Halla og nefnir sérstaklega að í mörgum sögulegum bókum séu langar upptalningar á nöfnum karla og ártölum. „Þó að ég fari aftur til fortíðar finnst mér meira spennandi að skrifa söguna með aðeins öðrum gleraugum en oftast er gert. Ég vil heldur skrifa persónusögu. Sögu um manneskjur og tilfinn- ingar. Um ást og örlög. Harmleiki og gleði. Mistök og hvort fólki tekst að vinna úr þeim eða ekki,“ segir Ásdís Halla og segist vona að bókin nái til unga fólksins ekki síður en til þeirra sem eldri eru. Að kafa ofan í líf fólks Fannst þér erfitt sem kona að setja þig í spor Moritz? „Nei, af því að hann hafði svo mikla tjáningarþörf. Hann skrif- aði ótal greinar. Um næringu, um hvernig maður ætti að klæða sig, um hvernig ætti að byggja hús, hugsa um ungbörn, forðast flensur og hann skrifaði greinar um jafnréttisbaráttu. Um alda- mótin 1900 skrifaði hann grein um að konur ættu að standa sam- an og ættu ekki að láta slúður slá sig út af laginu. Það var ekki erfitt að fara í skóna hans; eftir alla heimildavinnuna þá þekkti ég röddina hans. Ég var farin að þekkja persónuleikann svo vel.“ Þetta gæti alveg verið skáldsaga, skýtur blaðamaður inn í. „Ég reyndi að skrifa bókina þannig að fólki gæti liðið eins og það væri að lesa skáldsögu. Mér fannst mikilvægt að lesandinn gæti gleymt sér í flæðinu og orðið spenntur fyrir söguþræðinum frekar en að upplifunin væri sú að þetta væri þurr heimilda- upptalning. Ég skálda sögusviðið en mikilvægustu at- burðir bókarinnar eru þeir sem raunverulega gerðust í lífi Mortiz. Aftast í bókinni er svo um fimmtíu blað- síðna eftirmáli því mér fannst mikilvægt að áhuga- samir gætu kynnt sér vel heimildirnar sem sagan byggist á og séð nokkuð auðveldlega hvað er raunverulegt og hvað er skáldskapur.“ Bókin þín Ein er skáldsaga. Hvort finnst þér skemmtilegra að skrifa skáldsögu eða sögur byggðar á raunverulegum atburðum og lífi fólks? „Ég hef mest gaman af því að kafa ofan í líf fólks og ef ég skrifa fleiri bækur held ég að þær verði á þeim nótum að þær byggist á einhverju sem hefur raunverulega gerst. Ég hef svo gaman af því að reyna að skilja hvað keyrir fólk áfram. Skilja mann eins og Mo- ritz. Að skilja hvað verði til þess hrifnæmir hugsjónamenn mis- stíga sig svo hrapallega. Mér finnst það mjög áhugavert,“ segir hún og segir að oft geti ein afdrifarík ákvörðun mótað líf fólks. „Hann var efnilegur læknir í Kaupmannahöfn þar sem lífið lék við hann og framtíðin blasti björt við. Svo gerist eitthvað eitt, bara eitt, og þá fer af stað önnur atburðarás sem enginn gat séð fyrir. Hlutir gerast og atburðarás tekur öll völd og skyndilega er ekkert eins og það var. Það eru þessar krossgötur í lífinu sem eru svo áhugaverðar. Eitt lítið atvik sem getur breytt öllu.“ Áhugavert fólk í öllum fjölskyldum Ásdís Halla hefur komið víða við í atvinnulífinu og var meðal ann- ars stofnandi Sinnum heimaþjónustu og Klíníkurinnar í Ármúla. Fyrri bækur hefur hún skrifað samhliða öðrum störfum en síð- ustu mánuði hefur hún eingöngu sinnt ritstörfum. „Í nokkra mánuði hef ég „bara“ verið að skrifa og hef aldrei áð- ur látið það eftir mér. Það á mjög vel við mig, en á sama tíma átti hitt líka vel við mig. Mér finnst frábært að vinna með góðu fólki, mér finnst gaman að setja á laggirnar fyrirtæki eða fara með fyrirtæki eða stofnanir í gegnum umbreytingarferli. Mér finnst gaman að takast á við snúin verkefni, þannig að ég get ekki sagt að annað sé skemmtilegra en hitt. Það er ágætt að leyfa lífinu að koma í tímabilum eða skeiðum. Hvað verður næst veit ég ekki, það verður að fá að koma í ljós.“ Nú spratt hugmyndin að þessari nýju bók upp úr því að þú fannst nýja föðurfjölskyldu. Ertu búin að finna fleira spennandi fólk í þessum nýja ættlegg? Ásdís Halla hlær. „Ég ákvað að leyfa sjálfri mér að klára þessa bók og fylgja henni úr hlaði. Ég er alveg með hugmyndir en ekkert sem ég er farin að vinna með að neinu ráði,“ segir hún og segir fleira áhuga- vert fólk í þessari nýfundnu fjölskyldu. „Það er áhugavert fólk í öllum fjölskyldum en þegar maður kynnist nýrri fjölskyldu á fullorðinsárum er forvitnin kannski meiri en annars væri. Ég hafði áður rýnt í móðurættina, talið mig vera að austan og vestan en svo kemur í ljós að föðurættin er eins reykvísk og hugsast getur. Saga hennar gerist að miklu leyti í miðbæ Reykjavíkur í næsta nágrenni við heimili okkar Að- alsteins. Það hefur líka vakið áhuga minn og ýtir undir það að mig langar að skoða eitt og annað betur.“ Þér finnst þá ekkert einmanalegt að sitja ein og skrifa? „Nei, ekki ennþá.“ Hvað er á teikniborðinu, eða öllu heldur á skrifborðinu? „Ekkert sérstakt! Sem er sérstök tilfinning en ég held að ég sé komin með þroska til að njóta þess. Mig langar að skrifa áfram og mun gera það hvort sem það verður samhliða öðru eða ekki.“ „Ég reyndi að skrifa bókina þannig að fólki gæti liðið eins og það væri að lesa skáldsögu. Mér fannst mikilvægt að lesandinn gæti gleymt sér í flæðinu og orðið spenntur fyrir söguþræðinum frekar en að upplifunin væri sú að þetta væri þurr heimildaupptalning. Ég skálda sögusviðið en mikilvægustu atburðir bókarinnar eru þeir sem raunverulega gerð- ust í lífi Mortiz,“ segir Ásdís Halla um nýju bókina sína, Lækninn í Englaverksmiðjunni. Morgunblaðið/Ásdís ’ Hlutir gerast og atburðarás tekur öll völd og skyndilega er ekkert eins og það var. Það eru þessar krossgötur í lífinu sem eru svo áhugaverðar. Eitt lítið atvik sem getur breytt öllu.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.