Morgunblaðið - 29.11.2021, Page 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. NÓVEMBER 2021
Friðrik Rafnsson þýðir bókina og
hér er birtur hluti eftirmála bók-
arinnar þar sem hann rekur upp-
runa hennar og áhrif í bókmennta-
sögunni.
Það er og verður sjálfsagt alla
tíð ráðgáta hvers vegna og hvern-
ig listaverk ná þeim sessi að telj-
ast sígild.
Okkur kann
að finnast það
undarlegt nú
á tímum, en
verk manna
eins og
Williams
Shakespeare
og Johans
Sebastians
Bach féllu í
gleymsku um
skeið, voru enduruppgötvuð og
þykja nú sjálfsagður hluti af
heimsmenningunni.
Svipuðu máli gegnir um bréfa-
skáldsöguna Hættuleg sambönd
eftir Choderlos de Laclos. Þegar
sagan kom fyrst út í París haustið
1782 heillaði hún ýmist lesendur
eða hneykslaði, eflaust á stundum
hvort tveggja í senn og um fátt
annað var talað í betri boðum í
landinu. Þá eins og nú voru ákafar
umræður um nýútkoma bók vís-
asta leiðin til vinsælda. Og þótt nú
sé orðið fremur þvælt að tala um
að bók slái í gegn var það sann-
arlega þannig með Hættuleg sam-
bönd, þrátt fyrir hrakspár rit-
stjóra í innganginum að verkinu:
„Ég get byrjað á því að segja að
enda þótt ég hafi verið þeirrar
skoðunar, og sé það enn, að birta
ætti sendibréf þessi er það fjarri
mér að ætla að þau muni njóta
vinsælda. Og ekki skilja þessa ein-
lægni mína sem uppgerð ritstjór-
ans, enda lýsi ég því yfir af viðlíka
einlægni að ef mér hefði ekki þótt
þetta safn þess vert að koma fyrir
augu almennings hefði ég ekki
komið nærri því.“ Fyrsta útgáfa
bókarinnar, þúsund eintök, seldist
upp á fyrsta mánuðinum en það
var einstakt á þeim tíma. Sú
næsta rauk sömuleiðis út og bókin
var endurprentuð tuttugu sinnum
fyrsta árið, nokkuð sem var áður
óheyrt.
Höfundurinn setti einungis upp-
hafsstafi sína við verkið og lét eins
og fram kemur í inngangi „rit-
stjóra“ líta út fyrir að þetta væri
raunverulegt bréfasafn. Brátt
spurðist þó út hver höfundurinn
var og hann varð sjálfur, rétt eins
og aðalpersónurnar tvær, afar um-
talaður í borginni og jafnvel út-
hrópaður meðal heldra fólks fyrir
að vera „spillt ófreskja“. Nokkrum
árum síðar, árið 1824, bönnuðu
yfirvöld í Frakklandi bókina og
fyrirskipuðu að óseldum birgðum
skyldi eytt.
Þá hafði margt breyst í Frakk-
landi frá því bókin kom út.
Franska byltingin var að baki,
gildismat hafði breyst í samfélag-
inu og listunum. Tímabilið 1815 til
1830 er eitt hið afturhaldssamasta
í sögu 19. aldar í Frakklandi, því
þá komst Bourbon-ættin aftur til
valda með dyggum stuðningi
kirkjunnar. Saman reyndu kirkja
og konungsvald að hverfa aftur til
fyrri tíðar og vinda ofan af því
sem þeim þótti vera siðspilling
byltingaráranna. Bannið á bókinni
árið 1824 er fremur verk gagn-
byltingarinnar en byltingarinnar.
Á fyrri hluta nítjándu aldar-
innar töldu menn að upp væri
runnin öld menntunar og fram-
fara. Rómantísk ljóðlist blómstrar,
síðar koma til bókmenntasögunnar
raunsæislegar, línulaga skáldsögur
nítjándu aldarinnar í anda Bal-
zacs, Flauberts, Stendhals og
Dostojevskíjs sem mótuðu mjög
sýn fólks á list skáldsögunnar og
gera enn, ekki síst hérlendis. Ger-
breytt samfélag, nýir tímar, annað
og strangara siðferði, einkum fyrir
konur, annað gildismat eins og
gengur í mannkyns- og listasög-
unni. Pendúll Evrópusögunnar
sveiflaðist frá frjálsræði og leik
yfir í fremur stífa siðvendni. En
allt gengur fram og til baka eða
endurtekur sig út í það eilífa eins
og heimspekingurinn Nietszche
skrifaði síðar. Smám saman sóttu
Hættuleg sambönd aftur í sig
veðrið og skáldsagan komst aftur
á kortið hjá bókmenntaunnendum,
ekki síst ungu fólki sem leit á
verkið sem kjörna leið til að fræð-
ast um völundarhús mannlegra til-
finninga, einkum þó ástina. Síðar
tóku höfundar eins og Hermann
Broch, Robert Musil og Milan
Kundera upp merki leiks og marg-
röddunar í skáldsögunni og
þróuðu hana á sinn hátt. Til að
gera langa sögu stutta hefur verk-
ið um áratuga skeið verið skyldu-
lesning franskra menntaskóla-
nema. Það þykir hafa markað spor
í listasögunni og því er þess getið
í öllum bókmenntasögum og útgáf-
urnar nema hundruðum. Ég sló
mér til gamans inn titil bókar-
innar á þremur tungumálum í
þekktri netbókaverslun og fékk
287 svör á frönsku, 247 á ensku og
97 á þýsku og ég sá ekki betur en
að útgáfurnar spönnuðu allan
skalann, allt frá strangfræðilegum
útgáfum til léttlestrarbóka handa
unglingum sem eru að uppgötva
ástina.
Vitaskuld er gildi skáldverks
það sem mestu máli skiptir, fagur-
fræði þess, persónugallerí og stíl-
fegurð. Annar mælikvarði er
hversu mörgum öðrum listamönn-
um verkið hefur veitt innblástur.
Sá sem hér slær á lyklaborð (en
skrifar því miður ekki með fjaður-
staf, eins og persónur bókarinnar)
gerði lauslega og afar óvísindalega
könnun á því vorið 2021 hvaða
verk hefðu verið byggð á henni.
Niðurstaðan er að frá árinu 1834
til ársins 2018 hafa hvorki meira
né minna en tíu kvikmyndir, sjö
sjónvarpsseríur, fjórtán leikgerðir,
fimm tónverk (óperur, sönglög,
tónverk o. fl.), auk einnar jap-
anskrar manga-teiknimyndaseríu
sótt innblástur í Hættuleg
sambönd. Meðal þekktustu verka
sem byggð eru á bókinni má nefna
kvikmynd Rogers Vadims frá 1959
með Jeanne Moreau, Gérard
Philipe og Annette Vadim í aðal-
hlutverkum, kvikmynd Stephen
Frears frá 1988 Dangerous
Liaisons með Glenn Close, John
Malkovich, Michelle Pfeiffer og
Uma Thurman, kvikmynd Milos
Forman Valmont frá 1989 þar sem
Annette Bening, Colin Firth og
Meg Tilly léku aðalhlutverkin og
leikgerð eftir Christopher
Hampton (1985) sem var frum-
sýnd í West End London árið
1987.
Þessar geysivinsælu kvikmyndir
og leikgerðir hafa sannarlega átt
sinn þátt í að viðhalda, endurnýja
og efla vinsældir Hættulegra sam-
banda. Hvert nýtt verk sem byggt
er á frumverkinu er þó á vissan
hátt takmarmarkandi útlegging á
því (persónurnar fá útlit tiltekins
leikara eða leikkonu, o.s.frv.) og
matreiðsla fyrir ákveðinn tíðar-
anda. Verkið sjálft er vitaskuld
það sem mestu máli skiptir og
virðist ekkert lát á vinsældum
þess því það hefur stöðugt verið
endurútgefið og þýtt á langflest
heimsins tungumál, en ekki á
íslensku fyrr en nú.
Rétt eins og öll góð bókmennta-
verk er Hættuleg sambönd tvíræð
ef ekki margræð skáldsaga. Tónn-
inn er sleginn strax í athugasemd
útgefanda og inngangi ritstjóra
þar sem þeir (höfundurinn?) slá
ýmsa varnagla, meðal annars til
að verjast hugsanlegum afskiptum
kóngs og kirkju af útgáfu verks-
ins. Þeir tína til kosti og galla
„bréfasafns“ og réttlæta loks
útgáfu þess með því að halda því
fram að framferði og örlög aðal-
persóna bókarinnar verði vonandi
öðrum víti til varnaðar. Ritstjór-
inn hefur meðal annars eftir móð-
ur sem hafði lesið þessi bréfaskrif:
„Ég tel að ég geri dóttur minni
sannan greiða með því að gefa
henni bók þessa á brúðkaupsdag-
inn.“ Og klykkir svo út með þess-
um orðum: „Ef allar mæður eru
sama sinnis fagna ég því um
ókomna tíð að hafa tekið þátt í að
gefið hana út.“
Það liggur við að maður heyri
hlátrasköllin í höfundinum handan
rúms og tíma því vitaskuld er
verkið annað og meira en þetta.
Lesandanum er boðið að taka þátt
í leik sem smám saman reynist
vera blekkingaleikur, ganga í
gegnum skínandi speglasal sem
reynist vera með ótal rökkvuðum
rangölum. Þannig dýpka og
stækka persónurnar og atburða-
rásin með hverju bréfi og í lokin
stendur lesandi eftir hálf hvumsa
en sannarlega reynslunni ríkari og
margs vísari um mannlegt eðli
fyrr og nú.
Eða hvað? Var lesandinn ekki í
raun og veru að fylgjast með út-
hugsuðu manntafli? Annars vegar
með gerendum, fólki sem hélt að
það hefði allt í hendi sér, vissi allt
og gæti allt og beitti valdi sínu
yfir öðrum sér í hag, en varð síðan
fórnarlamb eigin yfirlætis
(Valmont, Merteuil) og hins vegar
með þolendum, nytsömum sak-
leysingjum (Cécile Volanges,
Danceny) sem voru peð í mann-
tafli hinna sterku? Og að heiðar-
leiki og einlæg ást gætu orðið
jafnvel dyggðaljósi eins og frú
Tourvel að falli og aldurtila?
Ekkert er einhlítt eða afdráttar-
laust í verkinu. Samspil bréfanna
frá hinum ólíku persónum gerir
það að verkum að tónninn í því
einkennist sífellt af tvíræðni og
kankvísi. Höfundurinn lýsir hvorki
útliti persónanna, klæðaburði né
umhverfi nema mjög sparlega og
því verða þær nokkuð tímalausar.
Það sem er skemmtilega óþægi-
legt við þessa skáldsögu er að
Laclos hefur tekist svo vel að
eima persónurnar í sögunni niður í
grunnþætti að það er hægur leik-
ur að heimfæra einkenni þeirra
upp á lifandi samtímafólk. Svip-
aðar manngerðir þeim sem við
fylgjumst með í bókinni eru allt í
kringum okkur enn þann dag í
dag, hvort sem okkur líkar það
betur eða verr. Fólk á borð við
Merteuil markgreifaynju og
Valmont vísigreifa eru enn til og
munu eflaust alltaf verða það.
Ástarþrá, drottnunargirni, ham-
ingjuleit, valdafíkn, hefndarþorsti,
sjálfhverfa, þetta eru meðal þeirra
grundvallarþátta í fari mannsins
sem lítið sem ekkert hafa breyst í
gegnum tíðina. Útlit, klæðnaður
og titlar breytast, en grunnþættir
persónanna í verkinu eru þeir
sömu og þess fólks sem við mæt-
um á förnum vegi, vinnum með
eða umgöngumst á annan hátt nú
um stundir. Þetta fangar Laclos
meistaralega í Hættulegum sam-
böndum og í því er sígildi þess
meðal annars fólgið.
Speglasalur
með ótal
rökkvuðum
rangölum
Bókarkafli Franska skáldsagan Hættuleg sam-
bönd, eftir Pierre Choderlos de Laclos, er fræg-
asta bréfaskáldsaga allra tíma. Hún kom fyrst út
1782 og hefur stöðugt verið endurútgefin og þýdd
á langflest heimsins tungumál, en ekki á íslensku
fyrr en nú.
Morgunblaðið/Kristinn
Far „Ástarþrá, drottnunargirni, hamingjuleit, valdafíkn, hefndarþorsti, sjálfhverfa, þetta eru meðal þeirra grund-
vallarþátta í fari mannsins sem lítið sem ekkert hafa breyst í gegnum tíðina,“ skrifar Friðrik Rafnsson í eftirmála.
Pierre Choderlos de Laclos
Nú finnur þú
það sem þú
leitar að á
FINNA.is