Morgunblaðið - 04.04.2022, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 04.04.2022, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2022 Frændurnir Brynjar Ölversson og Steinn Friðriksson landa einu og hálfu tonni af þorski á Fá- skrúðsfirði. Hafa þeir róið á Litla tindi á meðan útgerðarmaðurinn á bátnum hefur verið í veik- indaleyfi á sjúkrahúsi. Hafa þeir fiskað vel og lönduðu rúmum tuttugu tonnum í mars. Albert Kemp Gamall kaldhæðn- islegur sovéskur brandari hljómar lík- lega allt of sannur fyrir Úkraínumenn í dag. Frakki segir: „Ég tek strætó í vinn- una en þegar ég ferðast um Evrópu nota ég Peugeotinn minn.“ Rússi svarar: „Við erum líka með frábært almenningssamgöngu- kerfi, en þegar við förum til Evr- ópu notum við skriðdreka.“ Sá brandari var sagður árið 1956 þegar Nikíta Krústsjov atti skrið- drekum inn í Búdapest til að kremja ungversku byltinguna gegn Sovétríkjunum og heyrðist aftur árið 1968 þegar Leoníd Bres- név sendi skriðdreka til Tékkó- slóvakíu til að kreista „vorið“ úr Prag. En árið 1989, þegar Mikhaíl Gorbatsjev kaus að senda ekki skriðdreka eða hermenn til Þýska- lands til að varðveita Berlínarmúr- inn, virtist djókið ætla að verða hluti af fortíðinni. Ef Vladimír Pútín forseti hefur kennt okkur eitthvað, þá er það hins vegar að við megum ekki trúa nútíðinni og allt sem skiptir máli fyrir framtíð Rússlands er fortíð þess. Fyrir Pútín er fortíðin sem skiptir mestu máli sú sem and- ófshöfundurinn og Nóbels- verðlaunahafinn Aleksandr Solzhe- nitsyn setti á stall: tíminn þegar slavnesku þjóðirnar voru samein- aðar innan kristinnar rétttrún- aðarkirkju konungdæmis Rúss- lands þar sem Kænugarður var hjartað. Það gerir Úkraínu að kjarnanum í þver-slavneskri fram- tíðarsýn Pútíns. En fyrir Pútín snýst Úkraínustríðið um að varðveita Rúss- land, ekki bara að út- víkka það. Eins og Sergei Lavrov, utan- ríkisráðherra Rúss- lands, sagði nýlega umbúðalaust, þá telja leiðtogar Rússlands að landið þeirra sé læst inni í „baráttu til lífs eða dauða fyrir til- vist sinni á pólitísku landakorti heimsins“. Þessi heimsmynd endurspeglar langvarandi þráhyggju Pútíns gagnvart verkum annarra brott- fluttra rússneskra heimspekinga, svo sem Ívan Iljín og Nikolaj Berdíajev, sem lýstu baráttu evró- asísku (rússnesku) sálarinnar gegn Atlantshafssinnum (Vesturlöndum) sem myndu eyðileggja hana. Samt virðast Pútín og ný-Evró- asíusinnar í liði hans trúa því að lykillinn að sigri sé að mynda stjórn sem and-bolsévískir heim- spekingar hafa fyrirlitið mest: stjórn sem öryggissveitirnar ráða. Lögregluríki myndi uppfylla sýn annarrar af hetjum Pútíns: KGB- foringjans sem síðar varð fjórði að- alritari kommúnistaflokksins, Júrí Andropov. Bæði 1956 og 1968 var Andropov helsti talsmaður þess að beita skriðdrekunum. Hann taldi það lykilatriði að bæla niður mótþróa við vald Sovétríkjanna til að fyr- irbyggja upplausn sambandsrík- isins Sovét af völdum NATO og CIA. Það er mikið til sama rök- fræði sem er beitt í Úkraínu í dag – ef maður getur kallað það rök- fræði. Í dag virðist baráttan um að „bjarga Rússlandi“ vera lítið ann- að en hugarórar stórbrotins ímyndunarafls eins manns. Það er ærin ástæða til að ætla að jafnvel æðstu embættismenn Rússlands hafi ekki haft mikið að segja í Úkraínustríðinu. Lavrov hefur birt ósamkvæmar skýringar og markmið. Yfirmaður seðla- banka Rússlands, Elvíra Nabíúll- ína, reyndi að segja af sér skömmu eftir innrásina en Pútín neitaði að verða við þeirri ósk. Hvað arftaka KGB, Alríkisör- yggisþjónustu Rússlands (FSB), varðar virðist sem aðgerðaupplýs- ingadeild FSB hafi borið ábyrgð á því að mata Pútín á úkraínsku frá- sögninni sem hann vildi heyra: Slavneskir bræður Rússlands væru reiðubúnir til að öðlast frelsi undan samverkamönnum nasista og vestrænu strengjabrúðunum sem leiddu ríkisstjórn þeirra. Það hvarflaði líklega aldrei að þeim að Pútín myndi fyrirskipa innrás í Úkraínu – sem greinilega fer gegn hagsmunum Rússa – byggða á þessum upplýsingum. En það gerði hann og um 1.000 starfsmenn hafa að sögn misst vinnuna vegna mis- taka í aðgerðinni. Þessir brottrekstrar ná út fyrir raðir FSB til hersins, sem virðist einnig hafa verið haldið að mestu leyti í óvissu um hvort, hvenær og hvers vegna innrás myndi eiga sér stað. Varnarmálaráðherrann Ser- gei Sjoígú, sá sem lengst hefur setið í ríkisstjórninni, er að mestu horfinn úr augsýn almennings og það vekur upp vangaveltur um hvort Pútín kunni að hafa skipu- lagt stríðið með fyrrverandi sam- starfsmönnum sínum í hópi yf- irmanna KGB, frekar en með yfirmönnum hersins. En hvernig sem stríðinu var komið af stað mun því líklega ljúka á einn veg af fjórum mögu- legum. Rússar gætu náð yfirráð- um yfir hluta eða allri Úkraínu, en aðeins í skamman tíma. Erf- iðleikar rússneska hersins við að ná yfirráðum yfir úkraínskum borgum og að halda stjórn á þeirri einu stórborg sem hann hefur náð, benda eindregið til þess að hann geti ekki haldið uppi hernámi til lengri tíma. Hið hörmulega stríð Sovétmanna í Afganistan, sem flýtti fyrir hruni Sovétríkjanna, kemur upp í hugann. Önnur útkoma í atburðarásinni væri viðurkenning Úkraínu á Krímskaga, Donetsk og Luhansk sem rússneskum yfirráðasvæðum, sem myndi gera áróðursvélinni í Kreml kleift að dæla út sögum af „frelsuðum“ Úkraínumönnum. En, jafnvel þótt Pútínstjórnin lýsti yfir sigri, yrðu Rússar áfram alþjóðleg úrhrök og efnahagur þeirra var- anlega bæklaður vegna al- þjóðlegra refsiaðgerða og þvingana. Yfirgefnir af hundr- uðum alþjóðlegra fyrirtækja, og sífellt ágerist skortur þeirra á ungu fólki. Í þriðju atburðarásinni myndi æ svekktari og óþreyjufyllri Pútín beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu. Eins og Dmitrí Medvedev, fyrr- verandi forseti, sem er varafor- maður öryggisráðs Rússlands, varaði nýlega við, eru Rússar reiðubúnir að gera árás á óvin sem hefur aðeins notað hefðbundin vopn. Áróður frá Kreml myndi vafalaust matreiða slíkt sem sigur, líklega með vísan til sprengjuárás- ar Bandaríkjanna á Hiroshima og Nagasaki árið 1945 sem fordæmi fyrir notkun kjarnorkuvopna til að binda enda á stríð – og sönnun þess að öll vestræn gagnrýni bæri með sér stækan óþef af hræsni. Í fjórðu atburðarásinni fengi Joe Biden Bandaríkjaforseti ósk sína uppfyllta: Pútín yrði vikið frá völd- um. Í ljósi þess að Rússar hafa enga hefð fyrir valdaráni hersins væri þetta mjög ólíkleg niðurstaða. Jafnvel þótt það gerðist, myndi valdakerfi sem Pútín byggði upp áfram vera til staðar, viðhaldið af hópi fyrrverandi KGB-samstarfs- manna og annarra öryggisþjón- ustuþursa („siloviki“) sem hann hefur verið að rækta í tvo áratugi. Það gæti dregið úr erlendri æv- intýramennsku en Rússar yrðu áfram einangraðir og kúgaðir. Þegar öllu er á botninn hvolft hef- ur FSB kannski ekki trúað því að stríðið væri í vændum, en hefur samt ákaft nýtt tækifærið í „sér- stakri hernaðaraðgerð“ Pútíns til að innleiða höft og festa sér fulla stjórn á samfélaginu. Með því að ráðast á annað Evr- ópuland fór Pútín yfir strik sem dregið var eftir síðari heimsstyrj- öldina – og breytti heiminum. En hann breytti líka Rússlandi, úr starfhæfu ríki sjálfræðis í stalínskt einræði, land sem einkennist af of- beldisfullri kúgun, óræðu, handa- hófskenndu valdboði og gríð- arlegum vitsmunaflótta. Þótt örlög Úkraínu, Evrópu og umheimsins eftir að byssurnar þagna eigi eftir að koma í ljós, þá eru örlög Rúss- lands allt of augljós: framtíðin er eins dimm og myrkasta fortíð þess. Eftir Ninu L. Khrushcheva » Örlög Rússlands allt of augljós: framtíðin er eins dimm og myrk- asta fortíð þess. Nina L. Khrushcheva Nina L. Khrushcheva, prófessor í al- þjóðamálum við The New School, er höfundur ásamt Jeffrey Tayler, höf- undi bókarinnar In Putin’s Footsteps: Searching for the Soul of an Empire Across Russia’s Eleven Time Zones (St. Martin’s Press, 2019). Stríð Pútíns mun eyðileggja Rússland Í farvatninu er aðför að kjörum líf- eyrisþega lífeyrissjóðanna. Atlagan að kjörum lífeyrisþega er hluti fyrirhug- aðra breytinga á ýmsum lögum vegna lögfestingar hækkunar lágmarks- iðgjalds til lífeyrissjóða. Skerðingin á kjörum lífeyrisþeganna er með öllu óskyld og óviðkomandi lögfestingu lág- marksiðgjaldsins. Skerða á lífskjör líf- eyrisþeganna með því að í stað þess að greiðslur lífeyris frá lífeyrissjóðunum taki mánaðarlegum breytingum vísitölu neysluverðs er ætlunin að verðbæta líf- eyrinn einu sinni á ári. Þannig hækki lífeyrir í útgreiðslu árlega í janúar ár hvert um hækkun neysluverðvísitölu næstliðins árs. Kaupmáttur lífeyris lífeyrisþeganna mun því lækka sem nemur verðbótum sem annars bætast við lífeyrisgreiðslu hvers mánaðar innan ársins. Neikvæðar afleiðingar fyr- irhugaðrar breytingar má glögglega sjá með því að horfa til áhrifanna á þessu yfirstand- andi ári hefði lagabreytingin tekið gildi í árs- byrjun en þá stefndi kaupmáttarskerðingin í að verða u.þ.b. 3% en nýjustu mælingar sýna 6,7% verðbólgu síðastliðna 12 mánuði. Fyrirhuguð kaupmáttarskerðing lífeyr- isgreiðslanna er rökstudd með eftirfarandi hætti í greinargerð með frumvarpinu: „Er þetta gert til þess að draga úr misræmi milli tekjuáætlunar lífeyrisþega og raunverulegra tekna hans sem leiða gjarnan til þess að líf- eyrisþegi þarf að endurgreiða þegar fengnar greiðslur frá almannatryggingum. Tillagan er til hagsbóta fyrir lífeyrisþega og Trygg- ingastofnun.“ Í stað þess að ráðast í veru- lega kaupmáttarskerðingu lífeyris til að draga úr fyrrgreindu misræmi getur Trygg- ingastofnun auðveldlega uppfært tekju- áætlun lífeyrisþeganna þannig að áætlað sé fyrir verðlagsbreytingum lífeyrisgreiðslna mánaðanna sem eftir lifa á hverju ári. Leik- ur einn fyrir forritara Tryggingastofnunar. Illskiljanleg vangavelta í greinargerð frum- varpsins um hugsanlegar verðleiðréttingar lífeyris miðað við meðaltöl breytir í engu því sem í frumvarpinu stendur verði það óbreytt að lögum. Í umsögn Seðlabanka Íslands um frum- varpsdrögin kemur fram að bankinn telur að með breytingunni verði lífeyrisþegar af verð- bótum sem annars bættust við innan hvers almanaksárs. Jafnframt að hann telji eðlilegt að framkvæmdin sé með sama hætti og gild- ir um verðtryggðar fjárfestingar, sem eru verðbættar minnst mánaðarlega. Horft til nokkurra ára safnast kaupmátt- arskerðingin upp. Ólíklegt er að lífeyr- isþegar telji fyrirhugaða breytingu á verð- tryggingu lífeyris sér til hagsbóta þegar hún uppsöfnuð yfir 5 ára tímabil samsvarar sam- anlagt allt frá einni til tveggja mánaða líf- eyrisgreiðslna yfir tímabilið sem þá vantar til að standa straum af brýnustu nauðsynj- um. Ekki eins og lífeyrisþegar landsins hafi verið ofaldir af stjórnvöldum. En það er efni í aðra og mun sorglegri grein. Eftir Þorgeir Eyjólfsson og Hrafn Magnússon » Í umsögn Seðlabankans kemur fram að bankinn telur að með breytingunni verði lífeyrisþegar af verðbót- um sem annars bættust við innan hvers almanaksárs. Þorgeir Eyjólfsson Logsviðnir lífeyrisþegar Hrafn Magnússon Þorgeir er ellilífeyrisþegi og fv. forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hrafn er ellilífeyrisþegi og fv. framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.