Austurglugginn


Austurglugginn - 07.01.2021, Side 8

Austurglugginn - 07.01.2021, Side 8
8 Fimmtudagur 7. janúar AUSTUR · GLUGGINN Minnst tvær byggingar í eigu Tækniminjasafns Austurlands eru alveg ónýtar og fleiri skemmdar eftir stóru aurskriðuna sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember. Safnstjórinn segið mikið verk framundan við að bjarga því sem hægt er að bjarga og síðan finna út hvernig safnið verði opnað á ný. „Það er ekkert að afsaka, líf mitt er búið að vera á íslenskum tíma síðustu daga,“ segir Zuhaitz Akizu, safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands. Hann var farinn frá Seyðisfirði í jólafrí til tengdafjölskyldu sinnar í Montreal í Kanada þegar skriðan féll. Þegar við tölum saman er klukkan hjá honum fjögur að nóttu en tíu að morgni að íslenskum tíma. Þegar stóra skriðan féll rétt fyrir klukkan þrjú að staðartíma var klukkan níu að morgni hjá Zuhaitz. „Ég var að vakna þegar Elfa Hlín (Pétursdóttir) hringdi í mig frá Seyðisfirði og sagði: „Þetta er hryllilegt, þetta er hryllilegt. Ég held að safnið sé horfið.“ Hún var hinum megin í firðinum og sá fjallið hrynja yfir safnið. Ég var enn hálfsofandi svo það tók mig smá tíma að átta mig á hlutunum, ég vissi af fyrri skriðunum sem höfðu fallið en gerði mér fljótt grein fyrir að þessi skriða væri af öðrum toga. Ég fór að hringja til að komast að því hver staðan væri, ekki út af safninu heldur fólkinu á svæðinu. Við vorum með smið í vinnu í Skipasmíðastöðinni. Þegar hann svaraði byrjaði ég á að segja að ég hefði heyrt af það hefði fallið skriða einhvers staðar á safnið og spurði hvernig hann hefði það. Hann sagðist vera í lagi en hefði stokkið út úr skipasmíðastöðinni í þann mund sem skriðan lenti á henni og hún heyrði nú sögunni til. Síðan tók við bið eftir frekari tíðindum um hvort allir væru heilir á húfi. Það ríkti hálfgerð ringulreið fyrstu stundirnar og þetta var mjög stressandi. Það var því mikill léttir að heyra að allir hefðu sloppið. Það voru góðar fréttir en á móti vorum við með þykkt lag af drullu þar sem áður voru hús.“ Ótrúlegt að peningaskápurinn hafi fundist Fyrstu dagana á eftir var engum heimilt að fara inn á svæði Tækniminjasafnsins. Aðstandendur þess fengu því aðeins loftmyndir sem þeir rýndu í til að átta sig á skaðanum og hverju væri hægt að bjarga. Hugsanir þeirra snérust meðal annars um mikinn peningaskáp sem innihélt verðmætustu skjöl safnsins, þar með talið nær allt ljósmyndasafnið. Hann kom í leitirnar á Þorláksmessu. „Ég trúði ekki þegar hringt var í mig og sagt að skápurinn væri fundinn. Fyrrverandi slökkviliðsstjóri vissi hvar hann hafði staðið og benti á staðinn. Skápurinn var síðan fluttur af svæðinu með báti. Ég get varla séð það fyrir mér, því það hefur verið tölvuert átak að koma honum um borð.“ Zuhaitz segir að það hafi verið viss gæfa að vera ekki á staðnum þegar skriðan féll og fjarri hringiðunni í kjölfarið því það hafi haldið honum rólegum og hjálpað til að við að ná yfirsýn. Hann hafi hringt í lykilstofnanir eins og Minjavernd og Þjóðminjasafnið og fengið þaðan fyrirheit um fullan stuðning. Þá er búið að virkja Bláa skjöldinn, sem lýst er sem Rauða krossinum fyrir menningarminjar. Þetta er samt bara byrjunin á miklu verki og fara þarf með gát til að bjarga munum. „Við erum að tala um allt frá fimm tonna prentvélum yfir í reikninga úr bókhaldi sem geta verið undir tveggja metra lagi af aur. Mest liggur líka á að opna veginn. Við höfum rætt um hvernig hægt sé að gera það en bjarga samt munum. Tíu dögum eftir skriðuna var fyrst hægt að fara inn á svæðið af alvöru. Við fengum nokkra muni þá. Ég segi ekki að þeir séu í góðu ásigkomulagi en þeir eru að einhverju leyti í lagi. Þetta er margslungin aðgerð, eiginlega krufning og skurðaðgerð í einu því um leið og hlutirnir eru grafnir upp skýrist hvað gerðist. Við vitum til dæmis að höggbylgja skall á safninu áður en skriðan sjálf helltist yfir það.“ Tvö hús ónýt Af byggingum safnsins heyra Renniverkstæðið, innsti hluti Hafnargötu 38 og Skipasmíðastöðin sögunni til. Ytri hlutinn að Hafnargötu 38, Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar, og Angró, sem stendur handan götunnar, hafa orðið fyrir talsverðum skemmdum. „Angró varð fyrir lítilli tsunami- bylgju. Þegar skriðan fór í gegnum Skipasmíðastöðina og lenti í sjónum þeytti hún sjó og braki á Angró. Bylgjan virðist hafa gengið í gegnum húsið, innri útveggurinn er ónýtur og sá sem liggur samsíða honum að utanverðu hefur gengið til. Saltvatn virðist hafa farið í safngripi sem er vont. Við sáum strax á fyrstu myndunum að Renniverkstæðið og Skipasmíðastöðin væru alveg farin en vonuðum að Vjelasmiðjan hefði sloppið. Við sjáum nú að innstu 5-8 metrarnir, þangað sem dráttarvélin stóð, eru mikið skemmdir. Veggirnir eru brotnir og þakið farið. Skemma sem stendur við hliðina á Angró lítur ekki út fyrir að vera skemmd en við sjáum það betur á næstu dögum. Það góða er að ég þurfti að vinna héðan svo ég var með öll gögn sem til voru á tölvutæku formi með mér. Annars voru allar okkar tölvur, skjalasafnið og bókasafnið á Renniverkstæðinu.“ Á Tækniminjasafninu síðasta sumar. Húsið að dráttarvélinni virðist nú við fyrstu sýn ónýtt. Mynd: GG Zuhaitz Akizu tók við starfi forstöðumanns Tækniminjasafns Austurlands í september 2019. Mynd: GG Tækniminjasafn Austurlands „Við fengum á okkur brotsjó en erum ekki sokkin“

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.