Austurglugginn


Austurglugginn - 07.01.2021, Blaðsíða 12

Austurglugginn - 07.01.2021, Blaðsíða 12
„Flugsaga Austurlands er samofin F lugsögu Íslands. Þannig lenti fyrsta flugvélin sem flaug hingað erlendis frá á Höfn og tveir Austfirðingar voru í stjórn fyrsta flugfélagsins sem stofnað var hérlendis,“ segir Benedikt Vilhjálmsson Warén sem nú er að skrifa bók um flugsögu Austurlands. Sjálfur er Benedikt vel kunnugur fluginu en hann vann lengi í flugturninum á Egilsstaðaflugvelli og titlar sig flugradíómann í símaskránni. Aðspurður um skrif sín segir Benedikt að hann hafi unnið að ritun bókarinnar undanfarin fjögur ár. „Ég ætlaði upphaflega að gefa bókina út árið 2019 en verkið reyndist umfangsmeira en ég gerði mér grein fyrir í upphafi,“ segir Benedikt. „Eftir því sem maður kafar dýpra í þessa sögu koma sífellt upp nýir vinklar. Sem dæmi má nefna að árið 1933 kom flugkappinn Charles Lindbergh á flugvél til Austurlands.“ Benedikt segir að nú reikni hann með að ljúka verkinu og koma því í prentun í haust. Fyrsta flugfélagið stofnað 1919 Fyrsta flugfélagið var stofnað árið 1919 undir nafninu Flugfélag Íslands. Það átti raunar ekki flugvél í upphafi en eignaðist þá fyrstu um haustið þetta ár. „Það voru tveir Austfirðingar í stjórn þessa félags, annar þeirra fæddur í Jökuldalsheiðinni og hinn á Eskifirði,“ segir Benedikt. Fyrsta flugfélagið á Austurlandi, Austurflug, er var stofnað 1970. Það félag fékk fyrstu flugvél sína frá Birni Pálssyni, TF-BPA. Austurflug sá einkum um póstflug um Austurland, stöku leiguflug og sjúkraflug enda voru vegir þá ekki eins góðir og ófærð hamlaði oft umferð um þá, að sögn Benedikts. Austurflug varð skammlíft vegna þess að öðrum flugrekanda tókst að hrifsa til sín verkefni þess. „Þá má nefna að Björn Pálsson sjúkraflugmaður var með flugrekstur hér á frá 1960 til 1968. Hann var reyndar fæddur á Héraði og stundaði hér mest síldarleit úr lofti.Fyrsta alhliða flugfélagið á svæðinu er svo stofnað árið 1972 undir nafninu Flugfélag Austurlands. Fyrsta flugvéli þess var TF-BPA,“ segir Benedikt. Fyrsta millilandaflugið til Íslands Benedikt segir að einn merkasti viðburðurinn í íslenskri flugsögu hafi verið þegar Svíinn Eric Nelson lenti flugvél sinni á Höfn í Hornafirði þann 2. ágúst 1924. Nelson var að fljúga á vegum bandaríska hersins í fyrsta heimsfluginu, það er að fljúga í kringum hnöttinn. „Upphaflega voru fjórar flugvélar í þessu flugi,“ segir Benedikt. „Þrjár þeirra náðu til Orkneyja en á leiðinni þaðan snéru tvær þeirra við og Nelson kom því einn,“ segir Benedikt. Við þetta má bæta að Nelson og annar flugmaður úr hópnum náðu um mánuði seinna til New York og luku þar með þessu fyrsta heimsflugi. FRI 1041 0966 UMHVERFISVOTTUÐ PRENTSMIÐJA www.heradsprent.is Benedikt Vilhjálmsson Warén. Mynd: Úr einkasafni. Flugsaga Austurlands samofin flugsögu Íslands Arnbjörg Sveinsdóttir Lokaorð Desemberskriður 2020 Þegar Seyðfirðingar líta til baka um þrjár vikur er það ekki ofsögum sagt að tilfinningarnar eru vægast sagt blendnar. Ennþá stendur þó upp úr þakklæti og auðmýkt vegna þess að enginn slasaðist eða fórst í hinum ægilegu skriðum sem skullu á bænum okkar. Það er óskandi að einhver taki sér það fyrir hendur að skrá allar sögurnar hér á Seyðisfirði þar sem ótrúleg heppni og tilviljanir réðu því að íbúar voru ekki í húsum eða á ferð um göturnar þar sem skriðan fór yfir. Í sumum tilfellum skiptu sekúndur máli. Eðlilega eru margir ennþá órólegir eða í áfalli. Fyrri stórslysaatburðir hér á landi kenna okkur að nauðsynlegt er fyrir alla að fá áfallahjálp. Vonandi ber okkur sem samfélagi gæfa til þess að sinna sálrænni hjálp af jafn mikilli alúð og uppbyggingu bæjarins. Það var hughreysting að finna samtakamátt Seyðfirðinga og samhjálp nágranna okkar á Héraði sem og annarra landsmanna þegar rýma þurfti bæinn. „Það er magnað að finna hvað fólkið hérna er almennilegt við okkur,“ sagði tíu ára dóttursonur minn þegar hann var búin að njóta ómældrar gestrisni hvar sem hann kom á Héraði í nokkra daga. Sumir þurftu að dvelja enn lengur fjarri heimilum, sumir gátu ekki haldið jólin heima, sumir eru ekki enn komnir heim og sumir eiga ekki heimili lengur. Gífurleg eyðilegging blasir við okkur. Sárast er að horfa upp á að heimili fólks hafa horfið í skriðuna. Menningarverðmæti hafa tapast þar sem eru lögvernduð hús og safnmunir. Það er ekki eingöngu missir okkar Seyðfirðinga heldur höfum við geymt þennan menningararf fyrir þjóðina. Þetta gerðist allt vegna fordæmalausrar úrkomu á þessu fordæmalausa ári 2020. Úrkomuákefðin, eins og veður- fræðingar nefna fyrirbærið, hefur ekki verið eins mikil síðan mælingar hófust og stóra skriðan sem féll er af forsögulegum skala segja jarðfræðingar. Margir munu spyrja sig hvort þeir treysti sér til að búa áfram í húsum sem eru næst skriðusvæðinu. Á næstu misserum er það vöktun suðurhlíðarinnar sem er hvað mikilvægust. Það var mjög áhugavert að heyra á íbúafundinum þann 30. desember hversu margskonar ný vöktunartækni er komin til sögunnar. Rauntímavöktun verður meðal annars sett upp og öflugur mælibúnaður af ýmsu tagi til að meta hvort grípa þarf til rýminga. Það er mikilvægt að niðurstaða rannsókna á nýliðnum atburðum og mati á áhættu verði lokið á næstu vikum eins og kom fram hjá Tómasi Jóhannessyni á íbúafundinum. Vísindamenn eru sífellt að bæta við sig þekkingu á aðstæðum og jarðfræði svæðisins. Það er mikilvægt að varnarvirki verði gerð samkvæmt nýjustu og bestu þekkingu sem fæst innanlands og erlendis frá. Frumathugun verður væntanlega tilbúin í vor. Öll sú þekking sem safnast hér á Seyðisfirði, hvort sem er rannsóknir á jarðfræði, vöktun eða gerð varnarvirkja, mun nýtast öðrum sveitarfélögum sem búa við svipaðar aðstæður. Þegar rýndar eru hinar ýmsu skýrslur um ofanflóðavá á Íslandi má sjá að margir þurfa að huga að sínum vörnum. Það minnir okkur á að nánast hvar sem við búum steðjar að okkur ýmiss konar vá sem við þurfum að bregðast við, hvort sem það er af völdum náttúru eða manna. Framundan er mikil áskorun fyrir Seyðfirðinga og sveitarfélagið Múlaþing. Verklegar framkvæmdir verða umfangsmiklar vegna húsbygginga og varnarvirkja. Skipuleggja þarf ný byggingar- svæði fyrir þá sem vilja byggja ný hús eða jafnvel flytja til hús eins og ég hef heyrt á sumum. Ég hef fulla trú á að okkur takist þetta eins og áður með samtakamætti. Fræðirit

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.