Austurglugginn - 27.05.2011, Blaðsíða 6
6 AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 27. maí
Vetrarveður á Austurlandi
Undanfarna viku hefur vetrarveður geisað á Austurlandi. Veðrið hefur þó lagast eftir því sem liðið hefur á vikuna en óveður, ófærð
og illfærð olli talsverðum vandræðum víða. Margir sátu fastir í bílum sínum á Fagradal sem og víðar sökum veðurs og færðar
en óveðrið kom mörgum ferðamönnum í opna skjöldu enda óvanalegt að ófært sé til Seyðisfjarðar í meira en sólarhring í lok
maímánaðar. Samkvæmt heimildum Austurgluggans lentu margir bændur í vandræðum við að koma búfé inn vegna fannfergis.
Sauðburði var að mestu lokið og lentu því ýmsir bændur í vandræðum vegna plássleysis. Talið er að tekist hafi að bjarga öllu fé en
bændur höfðu í nógu að snúast við að bjarga nýfæddum lömbum og kindum undan óveðrinu.
Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson
Halldór Walter Stefánsson, starfsmaður Náttúrustofu Austurlands, sagði hætt við að varp flestra smærri fugla hafi farið illa en meiri líkur séu á að stærri fuglar eins og gæsir og álftir
hafi setið þetta af sér á hreiðrum á allra lægsta láglendi. „Staðan versnar um hverja 100 metra sem ofar er farið í landið“ sagði Halldór. Náttúrustofa Austurlands hvetur fólk til að
vera ekki að hnýsast í hreiðrin eins og staðan er, þar sem egg og ungar í hreiðrum gætu misfarist fyrir vikið enda staðan mjög viðkvæm.
Það var orðið tómlegt í Samkaupum á Seyðisf irði þegar Austurgluggann bar
að garði. Öll mjólk hafði klárast og lítið var eftir af brauði. Stuttu eftir að
vegurinn opnaði yfir Fjarðaheiði komu matarbirgðir þó í búðina.
Norræna beið fyrir utan Seyðisfjörð á meðan verið var að moka veginn
yfir Fjarðaheiði. Ekki var talið ráðlegt að hleypa fólki í land fyrr en
heiðin væri orðin auð sökum þess hve margir voru á ökutækjum sem talið
var fullvíst að hefðu lent í vandræðum.
Talsvert þurfti að hafa fyrir því að gera veginn yfir Fjarðarheiði
færa fyrir þá 600 ferðamenn sem komu með Norrænu, margir hverjir
voru á farartækjum ekki búnum undir þessa óvæntu vetrarfærð.
Sumir virtust kunna að meta tíðarfarið meira en aðrir.
Fjölmargir lentu í vandræðum á Fagradal enda blindbylur þar á köflum. Fjöldi bíla sat þar fastur eða höfðu lent utanvegar.