Austurglugginn


Austurglugginn - 29.07.2021, Blaðsíða 7

Austurglugginn - 29.07.2021, Blaðsíða 7
 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 29. júlí 7 Veröld Freysteins var bundin við Norðfjarðarflóa, reglulega þurfti að sækja verslun eða þjónustu til Norðfjarðar og þá var stutt í Hellisfjörð úr Viðfirði. Freysteinn minnist þess að hafa í fyrsta sinn farið til Eskifjarðar þegar hann var ellefu ára gamall og var það þá lengsta ferðalag sem hann hafði farið í. Krökkunum í Viðfirði leið þó vel og segir Freysteinn leikfélagana hafa verið skemmtilega. „Við alsystkinin voru lengst af fjögur og stutt á milli okkar. Rétt yngri en ég voru svo synir Sigríðar og Karls Hjelm þeir Karl og Friðþór. Svo var frænka okkar, Hulda, dóttir Guðrúnar og Sigurðar. Hún var stærstan hluta vetrar í Reykjavík og kunni því og vissi allt betur en við, og stjórnaði náttúrlega öllu,“ segir Freysteinn léttur í bragði. Hulda varð á þessum árum hluti af bókmenntasögu landsins en í Reykjavík ræddi rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson við ungu stúlkuna um lífið í Viðfirði og skrifaði eftir það bókina Viðfjarðarundrin sem kom út árið 1943. Hulda var því hin víðfræga Viðfjarðarskotta Þórbergs Þórðarsonar. „Það var mikil óánægja með þessa bók Þórbergs í Viðfirði. Hann gefur hana vissulega út sem skáldsögu svo hann mátti færa í stílinn en draugagangur í Viðfirði var ekki mikið ræddur í mínum uppvexti. Fólki fannst það ekki við hæfi að bendla sjóslysið árið 1936 við einhvers konar draugagang. Viðfirðingar voru misviðkvæmir fyrir því að ræða þennan meinta draugagang, móðir mín vildi t.d. ekki heyra á hann minnst og alls ekki í tengslum við slysið,“ segir Freysteinn. Róið með árum í skólann Árið 1942 gerðist Guðni Þorleifsson, frá Naustahvammi á Norðfirði, ráðsmaður á býli Guðríðar á Viðfjarðarbænum. Það myndaðist kærleikur milli húsfreyjunnar og ráðsmannsins og úr varð ástarsamband þeirra á milli. „Guðni kom sem ráðsmaður en endaði sem fóstri minn. Saman eignuðust mamma og Guðni yngsta bróðir minn árið 1949 og þau giftu sig árið 1952,“ segir Freysteinn en yngsti bróðir hans var skírður í höfuðið á fyrrum eiginmanni Guðríðar, Þórarinn Viðfjörð. Börnin í Viðfirði sóttu farskóla lengst af og segir Freysteinn það hafa verið misjafnt hvenær börnin hófu nám. „Ég byrjaði í skóla níu ára en systir mín var sjö ára þegar hún byrjaði. Heimilisfólkið hafði hjálpað manni að draga til stafs og slíkt áður en ég hóf formlegt nám. Ég var í skóla í Gerði (Barðsnesgerði) en farskólinn virkaði þannig að það var kennt annan hvern mánuð á Suðurbæjunum á móti mánuði í sveitinni á Norðfirði þar sem kennt var á Kirkjumel. Svo ég fékk kennslu í u.þ.b. þrjá mánuði á vetri,“ segir Freysteinn um upphaf skólagöngu sinnar. Þegar Freysteinn var um fermingaraldur varð Kirkjumelur að heimavistarskóla og voru þá börnin frá Viðfirði send þangað í heimavist og farskólinn lagðist af. „Fyrsta ferð mín í heimavistarskólann var eftirminnileg. Við áttum trillu í Viðfirði sem var aðallega notuð í að komast til Norðfjarðar. Guðni fór með mig og Ólöfu systur mína yfir. Það var ekki hægt að koma vélinni í gang þennan daginn en við þurftum að komast í skólann. Það var því lítið annað að gera en að róa á trillunni til Norðfjarðar, Guðni með aðra árina og við Ólöf saman með hina. Blessunarlega var blíðskaparveður þennan dag,“ rifjar Freysteinn upp. „Samgöngur voru ekki alltaf auðveldar á þessum árum. Það tíðkaðist t.d. að ganga til altaris um tveimur vikum eftir fermingu. Þegar kom að því að ég ætti að ganga til altaris þá gekk yfir stormur. Ég gekk því ekki til altaris fyrr en löngu síðar með mínum börnum,“ segir Freysteinn og brosir. „Það kom líka fyrir að það þurfti að ganga landleiðin frá Viðfirði til Norðfjarðar. Það gerðum við t.d. alltaf þegar við fórum með féð til slátrunar, það tók stóran hluta úr degi. Eitt sinn var svo mikið í Norðfjarðaránni að við þurftum að reka féð yfir Hnjúka til þess að losna við að fara með féð yfir ána. Sömuleiðis kom fyrir að maður þurfti að fara í erindisferðir til Norðfjarðar fótgangandi.“ Allir á sömu skíðunum Freysteinn fór ekki í frekara nám að skólaskyldu lokinni fyrr en nokkru síðar þegar hann fór á vélstjóranámskeið á Seyðisfirði. Áfram héldu bústörfin í Viðfirði og öll fjölskyldan lagðist á eitt en stundum var lífsbaráttan erfið í firðinum. Freysteinn segir að óhætt sé að segja að fátækt hafi verið á Viðfjarðarheimilinu en móðir hans náði alltaf að halda fjölskyldunni saman og á eldri árum sagði hún það hafa verið það sem hún var stoltust af. „Það var alltaf til matur í Viðfirði og föt til að ganga í, við liðum ekki slíkan skort. Allur munaður var þó af skornum skammti og það var ekki hægt að veita okkur allt. Okkur langaði í hluti eins og skíði og sleða en það var ekki í boði. Sveinn elsti bróðir minn fékk svo loks skíði, það bjargaði náttúrlega skíðamálunum, það notuðu allir þessi skíði sem hann fékk. Það var svo til stór sleði sem sennilega var ætlaður fyrir hesta að draga, það kom fyrir að við tókum þennan sleða og fórum upp í brekkur og renndum okkur niður,“ segir Freysteinn. Árin 1949 til 1952 voru einkar erfið fyrir Viðfjarðarbúið. „Árið 1949 misstum við stóran hluta af lömbunum í lambablóðsótt, ég held við höfum átt fimmtíu lömb eftir frá 200 ám. Ástandið lagaðist þó næstu árin þegar það komu meðöl við þessu, bæði til að sprauta lömbin sem og ærnar. Þetta var alveg skelfileg veiki, lömbin fengu venjulega krampa og oft þurfti maður einfaldlega að aflífa þau,“ segir Freysteinn þungur á brún. Erfitt reyndist að heyja jörðin við Viðfjörð og lítið var um slægjur. „Við heyjuðum oft í fjalli og þá þurftum við að nota hrossin okkar til að flytja heyið niður að bænum. Túnin í kringum bæinn voru lítil og rétt dugðu fyrir kýrnar. Það voru flatlendi þarna sem voru mýrar en það voru ekki til neinar græjur þá í firðinum til að grafa og útbúa tún á því svæði. Það hefði ekki verið neitt vandamál í dag, það var meira að segja byrjað á því áður en við fluttum í burtu. Tæki í Viðfirði voru af afar skornum skammti og ég var orðinn stálpaður þegar ég man eftir því að bæirnir í Viðfirði og Suðurbæirnir keyptu í sameiningu traktor,“ segir Freysteinn. Gisting fyrir rúmlega 100 manns Það var gestkvæmt í Viðfirði á þeim árum sem Freysteinn bjó þar. Áætlunarsiglingar voru á milli Norðfjarðar og Viðfjarðar en samgöngur Norðfirðinga á landi fóru að mestu í gegnum Viðfjörð. „Það voru áætlunarferðir í gegnum Viðfjörð til Akureyrar. Kaupfélag Héraðsbúa rak bílaútgerð, fólksbíla, vörubíla og rútur, á Reyðarfirði og voru með áætlunarferðir frá Norðfirði Freysteinn Þórarinsson á yngri árum í Viðfirði. Farnar voru áætlunarferðir á rútum á milli Viðfjarðar og Akureyrar. Hér stendur ein rútan við Viðfjarðarbæinn um miðja síðustu öld.

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.