Austurglugginn - 29.07.2021, Blaðsíða 6
6 Fimmtudagur 29. júlí AUSTUR · GLUGGINN
Inn úr Norðfjarðarflóa ganga þrír
firðir, nyrstur er Norðfjörður, þá
kemur Hellisfjörður og syðstur er
Viðfjörður. Í Viðfirði var búið þar
til árið 1955 þegar íbúar á síðustu
þremur bæjum fjarðarins ákváðu
að flytja og lagðist fjörðurinn þar
með í eyði. Lauk þar með um 200
ára búsetu Viðfjarðarættarinnar
í firðinum en ættin bjó ætíð á bæ
samnefndum Viðfirði.
Lífsbaráttan var hörð í Viðfirði eins
og víða á Íslandi á þeim árum sem
búið var í firðinum. Meðal síðustu
ábúenda Viðfjarðar voru hjónin
Guðríður Þorleifsdóttir og Guðni
Þorleifsson ásamt börnum Guðríðar
úr fyrra hjónabandi; Sveini, Þorgeiri
Víði, Ólöfu Erlu og Freysteini en
saman áttu þau Guðríður og Guðni
soninn Þórarinn Viðfjörð sem
skírður var eftir fyrri eiginmanni
Guðríðar. Austurglugginn settist
niður með Freysteini Þórarinssyni,
sem flutti frá Viðfirði tvítugur ásamt
fjölskyldu sinni, og ræddi við hann
um lífið í Viðfirði.
Sjóslysið árið 1936
Freysteinn Þórarinsson getur rakið
ættir sínar til Viðfjarðar aftur til
langalangalangalangafa síns Sveins
Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði um
miðja 18. öld. Jörðin erfðist mann
fram af manni og á aðfangadag
árið 1927 lést afi Freysteins, Sveinn
Bjarnason, og tóku þá þrír synir
hans við jörðinni ásamt móður sinni
Ólöfu en það voru þeir; Sófus Lynge,
Frímann og Þórarinn Viðfjörð, faðir
Freysteins.
Guðríður Þorleifsdóttir, móðir
Freysteins, var frá Hofi á Norðfirði
en kynntist Þórarni þegar hún var
vinnukona á Barðsnesi og flutti
til Viðfjarðar árið 1929. Saman
eignuðust þau Þórarinn og Guðríður
sitt fyrsta barn, Svein, ári síðar. Það
sama ár var lokið byggingu á nýjum
Viðfjarðarbæ, sem teiknaður var af
Guðjóni Samúelssyni, húsameistara
ríkisins, og stendur sá bær enn
í Viðfirði. Á næstu fimm árum
fjölgaði ört í barnahópnum og voru
systkinin orðin fjögur árið 1935
þegar Freysteinn fæddist.
Lífið í Viðfirði var nokkuð
hefðbundið þar sem bústörfum
var sinnt og karlmennirnir reru til
sjós. Í byrjun október árið 1936
áttu sér stað voveiflegir atburðir
fyrir fjölskylduna í Viðfirði. „Fjórir
fullorðnir karlmenn, þar af þrír
bræður, fórust á trillubát fyrir
Austurlandi í fyrradag, í góðu veðri
og sjólausu, en í niðadimmri þoku.
Mennirnir voru: Þórarinn Sveinsson
(34 ára), Frímann Sveinsson (26 ára),
Sófus Sveinsson (30 ára) alt bræður
frá Viðfirði (skamt frá Neskaupstað),
og Halldór Eiríksson (56 ára),
aldraður einsetumaður á nýbýli
hjá Viðfirði. Með þeim bræðrum
Sveinssonum, er farin einasta
fyrirvinna heimilisins að Viðfirði.
Unnu þeir fyrir aldraðri móður
sinni og konu Þórarins og fjórum
börnum hans. Hinir bræðurnir tveir
eru ókvæmtir. Hefir þessi atburður
komið eins og reiðarslag á heimilið.
Frjettaritari vor á Norðfirði símar,
að menn sjeu sem furðu lostnir útaf
þessum hörmulega atburði,“ sagði í
Morgunblaðinu daginn eftir slysið.
Viðfjarðarskotta og
Þórbergur Þórðarson
Í uppvexti Freysteins var
Viðfjarðarbærinn í raun tvö býli þar
sem móðir hans rak annað og Sigríður
mágkona hennar rak hitt ásamt
sænskum manni sínum Karl Hjelm.
„Það var aðallega lifað af fjárbúskap,
ég hugsa að kindurnar hafi verið um
200 síðasta veturinn okkar, og svo
voru tvær til þrjár kýr fyrir heimilið.
Það var lítið sóttur sjórinn eftir að
þeir bræður fórust árið 1936 því
það var enginn mannskapur til þess.
Eftir slysið kom til okkar maður úr
Hellisfirði sem hét Jón Símonarson
og hann var hjá okkur í tvö ár. Þá
fluttu til okkar Guðrún, föðursystir
mín, og maðurinn hennar Sigurður
Guðmundsson og voru í nokkur
ár á bænum. Það munaði um fleiri
hendur og við krakkarnir á bænum
fórum svo að taka til hendinni um
leið og við gátum. Hið daglega líf
okkar krakkana var að mestu bundið
við bústörfin,“ segir Freysteinn.
Þórarinn Viðfjörð Sveinsson, faðir Freysteins.
Ljósmyndin er tekin árið 1936, nokkrum mánuðum fyrir sjóslysið, af heimilisfólkinu á Viðfirði. Þau standa fyrir aftan frá vinstri: Hermann
Jónsson, Guðríður Þorleifsdóttir Þórarinn Sveinsson, Ólöf Þórarinsdóttir og Jón Símonarson. Þau sem eru fyrir framan frá vinstri: Þorgeir
Víðir Þórarinsson, Ólöf Sveinsdóttir sem heldur á Freysteini, Sigríður Sveinsdóttir sem heldur á Ólöfu Erlu Þórarinsdóttur, Sveinn Þórarinsson
og Guðrún Sveinsdóttir sem heldur á Huldu Sigurðardóttur.
„Það voru áætlunarferðir í gegnum
Viðfjörð til Akureyrar“
Viðfjörður