Austurglugginn - 02.09.2011, Blaðsíða 12
Í fréttabréfi Fljótsdalsstöðvar 2010 var sagt frá því umfangsmikla
vega- og slóðakerfi sem varð til á hálendinu norðan Vatnajökuls við
byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Í þessari grein verður aðeins skoðað
hvaða möguleika þessir virkjanavegir geta haft fyrir ferðamennsku
á svæðinu.
Bundið slitlag inn á hálendið
Augljósustu áhrif virkjunarinnar á vegakerfið í nágrenni þess
eru þau, að nú er kominn vegur með bundnu slitlagi úr Fljótsdal
inn á hálendið sem fær er fyrir alla bíla. Þessi vegur er nefndur
Kárahnjúkavegur og er hann um 60 km langur með bundnu
slitlagi. Hann liggur upp úr Fljótsdal við Bessastaði, síðan inn
Fljótsdalsheiði að Laugarfelli þar sem hann sveigir til vesturs og
þverar Fljótsdalsheiði og Vesturöræfin að Jökulsá á Dal, en yfir
hana liggur vegurinn á Kárahnjúkastíflu. Þegar komið er skammt
vestur yfir Kárahnjúkastíflu endar slitlagið og jeppaslóðir taka við.
Af veginum er í björtu veðri einstakt útsýni til fjalla og jökla. Besta
útsýnið er þó þegar farið er yfir svonefndan Urg á Vesturöræfum,
en þar er vegurinn í um 700 metra hæð. Þá blasir við í suðvestri
Kverkfjöllin og síðan fjallaþyrpingin allt að Herðubreið í norðvestri.
Í forgrunni er Kárahnjúkurinn sem rís upp úr landinu við Hálslón.
Á slóðum Hrafnkels Freysgoða
Vesturöræfi og Fljótsdalsheiði eru söguslóðir Hrafnkelssögu
Freysgoða. Við veginn eru skilti sem greina frá sögustöðum úr
Hrafnkelssögu og gönguleiðum tengdum sögunni.
Þá hefur Landsvirkjun komið fyrir upplýsingaskiltum meðfram
veginum með upplýsingum um virkjunartilhögun, staðarvísum og
örnefnaskiltum fyrir ferðamenn.
Við Kárahnjúkastíflu hefur Landsvirkjun komið upp aðstöðu og
þjónustu við ferðamenn. Jónína Guðnadóttir listakona hefur gert
þar listaverk sem er hellulagður flötur í hlíðinni þar sem útsýni er
yfir Hálslón, Kárahnjúkastíflu og Hafrahvammagljúfur. Af göngu-
stígnum sem er á ölduvarnarvegg Kárahnjúkastíflu er útsýni yfir
Hálslón annarsvegar og hinsvegar niður í Hafrahvammagljúfur.
Þá má geta listaverks eftir Ingunni Þráinsdóttur „Vindhreindýr“
sem stendur skammt frá Kárahnjúkavegi við Laugarfell, sem vakið
hefur verðskuldaða athygli.
Gott aðgengi
Mörk Vatnajökulsþjóðgarðs liggja rétt sunnan Kárahnjúkavegar
þar sem hann liggur vestur Fljótsdalsheiði og Vesturöræfi, en
Kárahnjúkavegur er eina greiða leiðin að norðausturhluta þjóð-
garðsins. Vegir inn í þjóðgarðinn á þessu svæði eru allt jeppavegir.
Það er líklegt að Kárahnjúkavegur geti dregið að sér ferðamenn
og lengt dvöl þeirra á Austurlandi, ef kynning á honum væri efld.
Það má segja að öræfin norðan Vatnajökuls séu með þessum vegi
orðin almannaeign, þar sem þau eru nú aðgengileg fólki á venju-
legum fólksbílum.
Frábært útsýni með örnefnaskilti
Vegakerfið teygir sig einnig til austurs yfir Jökulsá í Fljótsdal,
sem nú hefur verið brúuð neðan Ufsarstíflu. Þetta svæði var áður
mjög fáfarið, enda ekki á allra færi að aka torfærubílum yfir vaðið
á Jökulsá í Fljótsdal ofan Eyjabakkafoss.
Vegurinn er með bundnu slitlagi suður fyrir Laugarfell að áningastað
sem þar er fyrir ferðamenn. Frá áningastaðnum liggur gönguleið
austur fyrir Laugarfell að útsýnisstað þaðan sem víðsýnt er til
fjallanna austan jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts. Á útsýnis-
staðnum hefur verið komið fyrir örnefnaskilti.
Fyrir neðan útsýnisstaðinn blasir við fjallaskáli sem Fljótsdalshreppur
hefur látið byggja, þar sem gestir og gangandi geta keypt sé veitingar.
Fjölbreyttir möguleikar út frá Sauðárvatni
Við áningastaðinn við Laugarfell tekur við malarvegur sem liggur
inn á Hraun og endar við Sauðárvatn á Hraunum sem er í um 800
metra hæð. Þessi malarvegur er vel fær jepplingum.
Frá Sauðárvatni er hægt að fara í margar áhugaverðar göngu-
ferðir. Þannig er hægt að ganga á einum degi frá Sauðárvatni um
Lónsöræfi að Illakambi. Ef farið er frá Egilsstöðum er rúmlega
eins og hálfstíma akstur upp að Sauðárvatni. Þar sem aðeins er
um eins dags ferð að ræða er bakpokinn léttur og ef gengið er
vestan við Víðidalsá er milli 5 og 6 tíma létt ganga í Egilssel. Frá
Egilsseli er 3 tíma ganga niður í Múlaskála við Illakamb. Síðan
er tæprar klukkustundar ganga frá Múlaskála upp á Illakamb þar
sem bíllinn sem flytur göngumenn niður í Lón bíður. Ef dagurinn
hefur verið tekinn snemma gefst nokkur tími til að skoða sig um á
leiðinni. Alls ekki má fara framhjá Tröllatungum án þess að skoða
þá tröllslegu náttúrusmíð og skemmtilegu gönguleið sem er um
Leiðartungur að Múlaskála, þótt hún sé nokkuð lengri en ef gengin
er stysta leiðin milli skálanna. Kosturinn við að fara á einum degi
þessa gönguleið er að þá er hægt að velja gott veður til ferðarinnar
og jafnframt meta hvort Lónsöræfin eru annarrar ferðar virði, sem
er mat flestra sem þangað koma.
Frá Sauðárvatni er einnig tilvalið að ganga á Þrándarjökul. Þá má
nefna gönguleiðir niður í Hamarsdal eða Geithellnadal.
Af mörgu fleira er að taka ef lýsa á öllum þeim möguleikum sem
vega- og slóðagerð á virkjunarsvæðinu hafa opnað fyrir ferðamenn,
en hér skal staðar numið.
Mikilvægt að kynna sér ástand vega
Að lokum skal á það bent að margir malarvegir að mannvirkjum
Fljótsdalsstöðvar eru lokaðir almennri umferð með bannskilti þar
sem á stendur „nema starfsmenn“. Þeim sem hafa hug á að aka
vegi sem þannig eru merktir skal bent á að hafa samband við upp-
lýsingaþjónustu Landsvirkjunar í Végarði. Starfsmenn hennar geta
gefið upplýsingar um ástand viðkomandi vegar og veita góðfúslega
leyfi til aksturs eftir veginum ef ástand vegarins og vinnuumferð
um hann leyfa umferð ferðamanna.
Pétur Ingólfsson
Ferðamennska og vega-
kerfi Fljótsdalsstöðvar