Austurglugginn


Austurglugginn - 11.11.2021, Síða 4

Austurglugginn - 11.11.2021, Síða 4
4 Fimmtudagur 11. nóvember AUSTUR · GLUGGINN Út er komin barnabókin Tóti og töfratúkallinn: Af hverju skín sólin ekki á mig? Eftir Héraðsbúann Ásgeir Hvítaskáld en bókin er önnur í röð þríleiks Ásgeirs um Tóta og töfratúkallinn. Bókin fjallar um Tóta litla sem óskar sér þess einn rigningardaginn að sólin skíni á hann og garðinn hans. Tóta verður að ósk sinni og sólin skín aðeins á norðurhvel jarðar. Það hefur þó afdrifarík áhrif bæði á Ísland og löndin á suðurhveli. Bókin er 50 blaðsíður og myndskreytt af Nínu Ivanovu. Vill vekja foreldra og börn til umhugsunar Fyrri bókin sem út er komin í þríleiknum, Tóti og töfratúkallinn: Þegar afi hætti við að deyja, fjallaði um það þegar Tóti óskaði þess að afi hans myndi aldrei deyja. Það hafði í för með sér að enginn í heiminum dó og hann yfirfylltist af fólki. Barnabækur Ásgeirs Hvítaskálds fjalla því um nokkuð heimspekileg mál. „Fyrirmyndin af þessum bókum má sennilega rekja til þess þegar ég var lítill strákur og las bókina; Palli var einn í heiminum. Sú bók hefur setið í huga mínum alla ævi. Það er athyglisverð spurning að velta fyrir sér hvernig lífið væri ef við værum aðeins ein í heiminum, það yrði sennilega ekki mjög gaman. Ég vildi skrifa bók sem myndi vekja foreldra og börn til umhugsunar og spjalls. Heimurinn er nefnilega ekki alveg sjálfgefinn eins og sakir standa,“ segir Ásgeir Hvítaskáld um nýútkomna bók sína. Ásgeir segir að það eigi ekki að vanmeta börn og þau geti vel glímt við stórar spurningar. „Börn eru klárari en við höldum en ég held að það hjálpi að foreldrar ræði við börn sín um innihalda bókanna og reyni að svara spurningunum sem varpað er fram. Það væri gaman ef það situr eftir einhver hugsun eða spurning og að það sé einhvers virði að lesa bókina. Það að börnin stækki ögn og skilji heiminn aðeins betur. Síðan eru alveg æðislega flottar teikningar í bókinni eftir Nínu Ivanovu og ég held að fólk hefði gott að því að staldra við þær og íhuga þær aðeins.“ Ásgeir segir að sögurnar um Tóta og töfratúkallinn hafi leitað á hann fyrir nokkrum árum. „Ég bjó í Danmörku og byrjaði að skrifa þessa sögu á dönsku en eftir að ég fluttist til Íslands fannst mér réttast að bækurnar gerðust á Íslandi. Ég hef haft mjög gaman af því að skrifa þessar bækur, það er ekki spurning.“ segir Ásgeir. Gæsin Siggi sokkur næsta á dagskrá Ásgeir Hvítaskáld er fjölhæfur listamaður og gjarnan með mörg járn í eldinum. Á því er engin breyting nú og auk þess að ætla að ljúka við skrif á síðustu bókinni í þríleiknum um Tóta og töfratúkallinn vinnur hann nú að leikinni heimildamynd sem og skáldsögu. „Ég er á kafi að skrifa stóra skáldsögu sem gerist hér á Austurlandi „Morðið í Napshornsklettum.“ Það er svakaleg örlagasaga þriggja stráka þar sem er blóð, harmur, ástir og lygar. Þetta er stór og þung saga og ég þarf að skrifa hana í áföngum og leggja hana frá mér öðru hvoru til að hvíla mig á henni,“ segir Ásgeir um það sem er á verkefnalista hans. Þá er Ásgeir með á klippiborðinu leikna heimildamynd um gæs. „Þetta er leikin heimildamynd um gæsarungann Sigga sokk. Ég ól upp gæsarunga og kenndi honum að fljúga og heimildamyndin er um það. Ég sit við að klippa hana sem stendur,“ segir Ásgeir að endingu. bþb Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750 • Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Albert Örn Eyþórsson, blaðamaður : frett@austurglugginn.is • Auglýsingar: Anna Dóra Helgadóttir: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Anna Dóra Helgadóttir: askrift@austurglugginn.is • Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent Leiðari Vísindaskáldsaga raungerist Rafeldsneyti verður til þegar eldsneyti er framleitt með rafmagni. Það kallast grænt ef endurnýjanleg orka er notuð til að framleiða rafmagnið. Ein leiðin til að gera þetta er með vetni, þar sem vatn er klofið í frumefni sín, vetni og súrefni. Vetnið er hægt að nota hreint til brennslu eða binda það öðrum efnum. Hugmyndir eru uppi um að byggja upp slíka verksmiðju á Reyðarfirði. Að henni standa öflugir aðilar, danskur fjárfestingasjóður og Landsvirkjun auk Fjarðabyggðar og fyrirtækja. Til þessa hefur lítið haldbært fengist um það sem raunverulega er í burðarliðnum, það er í mælanlegum stærðum. Það gerir verkefnið ótrúverðugt. En það má skynja að þungi og alvara er í vinnunni, þetta er ekki enn ein hugmynd ævintýramanns um vatnsútflutning, að baki standa öflugir aðilar. En jafnvel þótt tölurnar sem unnið er með væru nefndar þættu þær trúlega of stórar til að verða trúverðugar. „Þetta er sýn en ekki sannleikur,“ sagði Hafsteinn Helgason, verkfræðingur þegar hann kynnti hugmyndir um vetnisframleiðslu í Finnafirði þegar skrifað var undir samninga um áframhaldandi þróun þar vorið 2019. Sýnin virðist vera að raungerast hraðar en við héldum. Um allan heim er talað um nýja orkugjafa. Gömlu orkugjafarnir verða dýrari en hinir nýju hagkvæmari. Þess vegna bætast nýir aðilar í spilið. Verðugt er að hafa í huga að baki Finnafjarðarverkefninu stendur hafnarsamlagið í Bremen, eitt það stærsta í Evrópu. Fjarðabyggð er komin í samstarf við annað risasamlag, Rotterdam. Á loftslagsráðstefnunni í Glasgow keyrði vetnisknúinn strætisvagn um göturnar. Vetnisvagnar hafa ekið um Reykjavík. En vagninn í Glasgow tengist Austurlandi, hann var gerður út af Ineos, félagi Jim Ratcliffe sem safnað hefur jörðum í Vopnafirði. Nokkrum dögum fyrir ráðstefnuna tilkynnti Ineos um að það ætlaði sér að taka forystu í þróun vetnis, sem það teldi eiga eftir að leika lykilhlutverk í eldsneytisframleiðslu framtíðar. Fjárfestingar fylgja í kjölfarið. Það hefur stundum hent Íslendinga að á land þeirra skolar stórum breytingum sem ríkið er vart tilbúið að takast á við. Mörg teikn eru á lofti um að mikill skriður sé að komast á vetnisvinnslu og rafefnaeldsneyti, eitthvað sem fáir Austfirðingar hefðu leitt hugann að fyrir tveimur mánuðum síðan. En það er full ástæða til þess núna. Stundum er það svo að vísindaskáldskapurinn raungerist. GG Ásgeir ánægður með bókina. Mynd: Úr einkasafni Börn eru klárari en við höldum

x

Austurglugginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.