Austurglugginn - 11.11.2021, Qupperneq 8
8 Fimmtudagur 11. nóvember AUSTUR · GLUGGINN
140 ára gamalt hús fær nýtt hlutverk
Lúðvíkshús er elsta hús
Neskaupstaðar en í ár hefur það
staðið á Norðfirði í 140 ár. Húsið
er sögufrægt og hefur sinnt ýmsum
hlutverkum í gegnum tíðina, frá
því að vera verslun í það að verða
verbúð. Á næsta ári er stefnt að
því að húsið fái nýtt hlutverk
í bæjarfélaginu. Lúðvíkshús
á að hýsa Héraðsskjalasafn
Neskaupstaðar auk þess að
skjalageymslur Fjarðabyggðar
verða í húsinu. Framkvæmdir við
viðbyggingu eiga að hefjast á næsta
ári og áætlað er að Fjarðabyggð
leggi 25 milljónir króna í þær.
Verður það lokaáfangi þess að húsið
verði glætt nýju lífi en áhugahópur
um endurbyggingu hússins var
stofnaður árið 2009.
Síld og verslun
Sögu hússins má rekja aftur til að
síldveiða Norðmanna á Norðfirði á
níunda áratugi 19. aldar. „Vorið 1881
var stofnað félag í Flekkefjord sem
bar nafnið Islandskompaniet. Sendi
það þá fjórar skútur og síldveiðifélag
til Íslands [...] Komu skipin til
Norðfjarðar í júlí og í lok mánaðarins
keyptu skipstjórarnir Adolf Paulus
Andreassen og Ole J. Hansen
Sunde [...] síldarborgarabréf. Tóku
þeir landsspildu á Nesi og reistu
húsin sem þeir höfðu flutt með
sér viðinn. Íbúðar- og söltunarhús
það sem félagið reisti var kennt við
Hansen og nefnt Hansenshús,“
segir í Norðfjörður: saga útgerðar
og fiskvinnslu eftir Smára Geirsson
en Hansenshús er það sem nú er
þekkt sem Lúðvíkshús.
Árið 1885 keypti Sveinn Sigfússon
hús Hansens á Nesströndinni
og flutti það út á Nes og var
það endurbyggt sem íbúðar- og
verslunarhús. Í húsinu rak Sveinn
fyrstu krambúð Norðfjarðar og
fékk húsið nafnið Sveinshús. Fyrst
um sinn var verslunin fremur smá
í sniðum en stækkaði hægt og
rólega. Sveinn var sagður góður
frönskumaður og samskipti og
tengsl hans við frönsku skútunnar,
sem gjarnan lágu við Norðfjörð á
þessum tíma, hafi haft góð áhrif á
verslun hans.
Pósthús og skósmíði
Séra Jón Guðmundsson, prestur á
Skorrastað, festi kaup á helmingi
Sveinshúss og átti það á móti Sveini
árið 1894. Tveimur árum áður varð Jón
fyrsti póstafgreiðslumaður fjarðarins
þegar bréfhirðing og póstafgreiðsla
fór fram á prestsetrinu á Skorrastað.
Jón flutti póstafgreiðsluna með sér
í Sveinshús og löngu síðar minntist
Sigríður Sveinsdóttir, dóttir Sveins
kaupmanns, þeirra starfa í húsinu
í viðtali við Austurland. „Þarna í
húsinu var líka fyrsta póstafgreiðslan
á Norðfirði, presturinn hafði hana
með höndum. En þegar síminn kom
var símstöðin í Sigfúsarhúsinu,“
sagði Sigríður í viðtalinu.
Lúðvík S. Sigurðsson var fyrsti
skósmiðurinn sem settist að og
starfaði á Norðfirði. Það gerði hann
rétt fyrir aldamótin 1900 en hann
hafði lært iðn sína á Vestdalseyri
við Seyðisfjörð. Lúðvík festi kaup
á Sveinshúsi og varð húsið þá að
Lúðvíkshúsi. Lúðvík hafði hug á
því að sinna skósmíði í firðinum
yfir vetrartímann en vinna önnur
störf um vor og sumar. Illa gekk
hjá Lúðvík að innheimta laun fyrir
skósmíðina og lagði hann hana að
mestu á hilluna. Hann sneri sér að
útgerð og fiskverkun en auk þess rak
hann verslun í Lúðvíkshúsi sem var
þó minniháttar og ekki í líkingu við
þá verslun sem Sveinn hafði rekið í
húsi nokkru áður.
Um miðjan annan áratug síðustu
aldar byggði Lúðvík sér nýtt hús
sem hann flutti í og var það einnig
kallað Lúðvíkshús. Eldra húsið
var þá kallað Gamla-Lúðvíkshús
til aðgreiningar því nýja. Bróðir
Lúðvíks, Tómas Sigurðsson, flutti í
eldra húsið og bjó þar til dánardags
árið 1952.
Húsafriðunarnefnd leggst
gegn niðurrifi
Næstu áratugi var húsið notað sem
íbúðarhús og það hólfað niður svo
um var að ræða tvær íbúðir. Seint á
níunda áratugnum var húsið notað
sem verbúð og sinnti því hlutverki
til ársins 1991 en eftir það stóð það
autt. Fljótlega eftir að húsið lauk
hlutverki sínu sem verbúð stóð til að
rífa niður húsið. Magnús Skúlason,
hjá húsafriðunarnefnd ríkisins,
skoðaði húsið árið 1994 og aflaði
sér gagna um það vegna væntanlegs
niðurrifs. Ástand hússins var ekkert
sérstakt og sagði Magnús að: „Síðast
var það notað sem verbúð og það
hefur yfirleitt ekki góð áhrif á eldri
hús.“
Niðurstaða Magnúsar eftir að hafa
skoðað húsið og kynnt sér söguna var
sú að hann lagði áherslu á að það yrði
varðveitt og þá sérstaklega í ljósi þess
að um var að ræða elsta hús bæjarins.
„Það tengist náið útgerðar- og
verslunarsögu staðarins og yrði því
mikil bæjarprýði ef gert yrði við það
[...] Nauðsynlegt er að finna húsinu
hlutverk ef ákvörðun um varðveislu
yrði tekin. Ekki er tekin afstaða til
þess hér hvers konar starfsemi yrði í
því, en margt kæmi til greina,“ ritaði
Magnús Skúlason í Austurland árið
1995.
Húsið flutt í þriðja sinn
Lúðvíkshús var ekki rifið á tíunda
áratugnum en lítið gerðist í
varðveislu þess næstu árin. Nokkuð
var rifið af gömlum mannvirkjum í
Neskaupstað á nýrri öld og árið 2008
varð nokkur hreinsun á Eyrinni þar
sem mannvirki voru rifin niður til að
undirbúa svæði fyrir nýframkvæmdir.
„Þessi niðurrifsstefna er hræðileg
og búið að rífa margar fallegar
byggingar á Eyrinni,“ sagði Hákon
Guðröðarson við Morgunblaðið
sumarið 2009 en hann ásamt fleirum
vildi vernda bæði gömlu vélsmiðjuna
og Lúðvíkshús sem enn höfðu ekki
verið rifin en margir óttuðust að svo
yrði.
Haustið 2009 var haldinn fundur
áhugafólks um endurbyggingu
Lúðvíkshúss í Verkmenntaskóla
Austurlands. Félag var myndað um
málið og kosin stjórn en í henni
sátu Smári Geirsson, Ingibjörg
Sigurðardóttir, Kristinn V.
Jóhannsson og Hákon Guðröðarson.
Fór boltinn þá að rúlla varðandi
Lúðvíkshús en langt var enn í land.
Skriður komst á málið árið
2013 þegar forsætisráðuneytið
veitti styrk upp á 10 milljónir
fyrir endurbyggingu á húsinu.
„Hollvinir hússins hafa unnið að
því að undanförnu að rífa innan
úr húsinu það sem er ónýtt og
síðan lá fyrir að það þyrfti að lyfta
því til að endurgera grunninn. Í
ljósi þess var farið að ræða þann
möguleika að flytja húsið á annan
stað þar sem það færi betur,“ sagði
Jón Björn Hákonarson, þáverandi
formaður eigna,- skipulags,- og
umhverfisnefndar Fjarðabyggðar
við Austurfrétt árið 2015.
Ákveðið var að flytja húsið að
Þiljuvöllum 13 við hlið Þórsmarkar,
sem er annað sögufrægt hús á
Norðfirði, en þar hafði ekki verið
gert ráð fyrir lóð áður. Gerður var
grunnur undir húsið og það flutt
að Þiljuvöllum árið 2019 þar sem
endurbætur hófust á húsinu.
Nýtt líf
Fyrr á þessu ári var ákveðið að
Lúðvíkshús fengi nýtt hlutverk
innan bæjarfélagsins og yrði
Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar flutt
í húsnæðið. Á fjárfestingaráætlun
Fjarðabyggðar sem nú er til
umfjöllunar í bæjarstjórn er gert
ráð fyrir að 25 milljónir króna verði
lagðar í Lúðvíkshús til þess að byggja
viðbyggingu við húsið svo hægt sé
að hefja starfsemi. Alark arkitektar
hafa teiknað stækkunin á jarðhæð
Lúðvíkshúss þar sem fyrirhugað er
að skjalasafnið verði en viðbyggingin
á að verða 277 m3.
Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar
hefur verið frá stofnun árið 1979
í umsjón Guðmundar Sveinssonar,
héraðsskjalavarðar. Safnið hefur
verið á heimili hans en von er um
að breyting verði þar á árið 2022 ef
framkvæmdir við Lúðvíkshús tefjast
ekki. „Lúðvíkshúsi er ætlað að hýsa
skjalageymslur sveitarfélagsins ásamt
Skjala- og myndasafni Norðfjarðar
[innsk. Héraðsskjalasafni
Neskaupstaðar]. Skjalageymslurnar
verða á neðstu hæð og eins og
í viðbyggingunni. Skjalavörður
verður með skrifstofuaðstöðu á
efstu hæð og svo verða vinnurými
á miðhæð og móttaka skjala,“ segir
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri
Fjarðabyggðar. Stefnt er að því að
framkvæmdum muni ljúka í lok
næsta árs ef áætlun sveitarfélagsins
gengur eftir.
bþb
Lúðvíkshús fyrr á tímum. Ljósm. Björn Ingvarsson – Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.