Verktækni - 2018, Qupperneq 28
28 VERKTÆKNI 2018/24
RITRÝNDAR VÍSINDAGREINAR
„óvirkar“ og aðrar sem „virkar“. Þær verða allar að teljast virkar í
þeim skilningi að þær eru hluti af hreyfikerfi sem er sannanlega og
mælanlega á hreyfingu.
Stundum örlar á þeirri hugmynd að sprunga sem ekki hefur
hreyfst í langan tíma (þúsund – 10 þúsund ár) sé „óvirk“ eða ólík-
leg til að hreyfast frekar. Þetta getur verið réttlætanleg röksemda-
færsla þar sem færslur eiga sér stað á einföldum sprungukerfum.
Þetta á ekki við á Íslandi. Vegna þess hve hreyfingin deilist á
margar sprungur þá getur tími milli atburða á hverri þeirra verið
mjög langur. Sprunga sem ekki hefur haggast í 10 þúsund ár getur
einmitt verið sprungan sem hreyfist næst.
Í umræðunni hefur stundum komið fram sú skoðun að sprungu-
svæði séu ónothæf til bygginga, jafnvel til hvers konar nota. Þetta
er að okkar mati fjarri lagi. Sprungusvæðin á höfuðborgarsvæðinu
og í nágrenni þess eru flest hlutar af sprungusveimum eldstöðv-
arkerfanna á Reykjanesskaga. Þessi sprungukerfi eru virk fyrst
og fremst í tengslum við kvikuvirkni kerfanna. Miklar færslur á
sprungum eru líklegastar þegar gangainnskot verða innan sveims-
ins. Þeim fylgja skjálftar en þeir verða sjaldan stórir. Hættan sem
stafar af sprungunum er því fyrst og fremst vegna sprunguhreyf-
inga, ekki vegna titrings frá skjálftum. Byggingar og mannvirki
innan sprungusveimanna ættu því ekki að verða fyrir meira tjóni
en gengur og gerist nema þau standi á sprungunum og séu tengd
berggrunninum báðum megin. Við teljum skynsamlegt ákvæðið
í reglugerð að „óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum,
misgengi eða nálægt hverum“. Sprungurnar og næsta nágrenni
þeirra má hins vegar nýta til annarra hluta, sem útivistarsvæði,
fyrir lagnastokka, gangstíga, bílastæði, akbrautir o.s.frv.
Sú hugmynd stingur stundum upp kollinum að hægt sé að
byggja yfir sprungur ef húsið er hannað fyrir jarðskjálftaálag. Við
leggjum áherslu á að helsta hætta sem stafar af sprungunni er
mismunafærslan sem þar getur orðið, ekki titringur frá jarðskjálft-
um. Siggengi sprungusveimanna eru ekki líkleg til að valda stórum
jarðskjálftum. Stærsta skjálftaálag á byggingar á svæðinu er því frá
skjálftum með upptök í meiri fjarlægð. Gegn þeim þarf vissulega
að hanna byggingarnar og umtalsverð þekking er til staðar til
að gera það. En færslur á misgengjum eru erfiðari viðfangs. Það
er erfitt að taka tillit til þeirra við hönnun, hins vegar auðvelt að
sneiða hjá því að byggja mannvirki yfir þær.
Við mælum með því að eftirfarandi verklag sé viðhaft við
byggingar á sprungusvæðum. Sum atriðin eru þegar í reglum og
hluti núverandi verklags:
A) Sprungukort byggt á yfirborðsrannsóknum liggi fyrir við gerð
skipulags nýrra hverfa á sprungusvæðum. Engar byggingar
séu skipulagðar yfir sprungur.
B) Komi í ljós sprunga í byggingareit við nánari skoðun, s.s.
þegar jarðvegi er flett af, skal byggingareiturinn færður til
innan lóðarinnar svo byggingin liggi ekki yfir sprunguna.
C) Ef ekki er hægt að færa bygginguna til innan lóðarinnar skal
húsbyggjandanum úthlutað nýrri lóð, enda hætt við að hús
byggt yfir sprungu verði lítils virði, hvort sem sprungan
hreyfist eða ekki.
Rétt er að taka fram að ekki er hægt að tryggja að undirlag
mannvirkis sé ósprungið þótt þetta verklag sé viðhaft. Sprungur
geta verið ógreinilegar og erfitt að koma auga á þær við aðstæð-
ur á byggingarstað. Við teljum þó að með þessu lagi megi draga
verulega úr hugsanlegu tjóni á mannvirkjum í kvikuatburðum sem
vafalítið eiga eftir að ganga yfir höfuðborgarsvæðið í framtíðinni.
Mynd 3. Sprungukort af svæðinu sunnan og austan Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. Sunnan Hvaleyrarvatns eru sprungurnar kaffærðar
af nýjust hraununum frá gosstöðvum við Undirhlíðar og Helgafell. Hraun frá Búrfelli hylur einnig sprungurnar í dölum sunnan og austan við
Urriðakotsvatn.