Morgunblaðið - 12.09.2022, Blaðsíða 12
VIÐTAL
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Mörgum þykja blikur á lofti á mörkuðum og
ganga svartsýnustu greinendur svo langt að
vara við því að meiriháttar skakkaföll séu á
næstu grösum. Segja þeir svartsýnu að sú
mikla peningaprentun sem átti sér stað í
Bandaríkjunum í kórónuveirufaraldrinum
hljóti að draga dilk á eftir sér, að botninn kunni
að fara úr fasteigna- og
verðbréfamörkuðum, að
stoðir kínverska hagkerfis-
ins séu við það að bresta, að
orkukreppa muni stórskaða
hagkerfi Evrópu og að fjöldi
þjóða riði á barmi greiðslu-
falls.
Magnús Sigurðsson er
framkvæmdastjóri banda-
ríska fjárfestingasjóðsins
og tæknifyrirtækisins Sys-
tematic Ventures og fylgist vel með þróun
mála. Hann segir að spám um yfirvofandi
ragnarök verði að taka með fyrirvara:
„Ég er frekar bjartsýnn að eðlisfari en varð
nokkuð svartsýnn undir lok síðasta árs þegar
seðlabanki Bandaríkjanna tók að hægja á vexti
peningamagns í umferð, og í enda janúar seldi
ég mig að stórum hluta út úr verðbréfamark-
aðinum. Hins vegar hef ég orðið jákvæðari
undanfarna mánuði og er tekinn að kaupa
hlutabréf að nýju,“ segir Magnús og má heyra
á honum að hann telji líklegast að leiðréttingin
á bandarískum hlutabréfamarkaði sé afstaðin.
„Það sem við sáum gerast var að um þriðj-
ungur til helmingur af þeirri hækkun sem varð
á hlutabréfaverði í kórónuveirufaraldrinum
gekk til baka. Nú þurfa fjárfestar að spyrja sig
hvort botninum sé náð, og einnig hvort hluta-
bréfaverð muni hækka hratt eða hægt. Ef við
skoðum söguna þá sést að markaðir hafa
hækkað hraðar þegar stýrivextir bandaríska
seðlabankans eru á niðurleið en hægar þegar
vextir eru á uppleið. Hlutabréfamörkuðum
hefur síðan gengið verst þegar bandaríski
seðlabankinn hækkar stýrivexti mjög hratt
sem er það sem við höfum séð gerast undan-
farna sex mánuði. Er erfitt að spá um hvort
seðlabankinn mun halda áfram á sömu braut,
en þegar ákveðið verður að hægja á hækkun
stýrivaxta er nokkuð víst að botninum á verð-
bréfamarkaði sé náð.“
Ætti að draga úr verðbólgu
Telur Magnús líklegra en ekki að bandaríski
seðlabankinn gæti hófs við hækkun vaxta, og
þá einkum vegna þess að það sér fyrir endann
á verðbólguskoti í bandaríska hagkerfinu. „Ef
við skoðum helstu liði í neysluverðsvísitölu
Bandaríkjanna þá er t.d. verð á flugfargjöldum
að lækka, verð á notuðum bílum er að lagast
eftir að hafa rokið upp á tímabili, og verð á
mörgum hrávörum ýmist á niðurleið eða í jafn-
vægi, og hækkun orkuverðs að ganga til baka.
Sú hækkun sem varð á sumum matvælum í
upphafi Úkraínustríðsins er líka að stórum
hluta gengin til baka. Þegar allir þessir þættir
virka saman gæti það gerst að dragi úr verð-
bólgu mun hraðar en búist hafði verið við og er
nú svo komið að 42% af þeim liðum sem mynda
neysluverðsvísitölu Bandaríkjanna eru á nið-
urleið.“
Máli sínu til stuðnings bendir Magnús á að
ávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa end-
urspegli litlar væntingar um langvarandi verð-
bólgu. „Væntingarnar má sjá með því að skoða
muninn á ávöxtunarkröfu verðtryggðra og
óverðtryggðra skuldabréfa. Munurinn er
nokkuð mikill næstu mánuðina, og kannski
næstu eitt eða tvö árin, en minnkar verulega
eftir það.“
Þarf bandaríski seðlabankinn að fara var-
lega svo að ekki skapist misræmi á milli stýri-
vaxta og raunverulegrar verðbólgu. „Eðli
málsins samkvæmt eru verðbólgutölur í
Bandaríkjunum ekki gefnar út í rauntíma og
þess vegna gæti það gerst að seðlabankinn
héldi áfram að hækka vexti af krafti lengur en
raunveruleg þróun verðlags gæfi tilefni til, og
gætu of háir vextir í of langan tíma valdið
bandaríska hagkerfinu miklum skakkaföllum.“
Laus störf tvítalin
Spurður hvort bandarískur vinnumarkaður
kunni að að ofhitna segir Magnús að tölur sem
benda til að mikið sé um laus störf vestanhafs
kunni að gefa ranga mynd. „Sú breyting varð í
faraldrinum að mörg fyrirtæki tóku fjarvinnu
opnum örmum og eru kannski að auglýsa sömu
lausu stöðurnar víðs vegar í Bandaríkjunum,
sem kemur fram sem oftalning í gögnum hins
opinbera.“
Þá hefur Magnús ekki miklar áhyggjur af
fréttum um að verslanir vestanhafs sitji á
óeðlilega miklum birgðum og sjái fram á tekju-
tap þegar nota þarf rausnarlega afslætti til að
tæma lagera. „Margar verslanir brenndu sig á
vöruskorti og röskunum í faraldrinum og settu
sig í stellingar með því að panta meira en þær
þurftu – haldandi að aðeins hluti pantana
myndi skila sér. En svo kom í ljós að aðfanga-
keðjur virkuðu ágætlega og lagerar fylltust, og
á sama tíma hægði á neyslu. Eflaust eru þessi
fyrirtæki ekki ánægð með að þurfa að lækka
hjá sér verðið en á móti kemur að ríflegur af-
sláttur mun hjálpa til við að slá á verðbólgu.“
Orðin alvön sveiflum
Allt getur gerst og segir Magnús að ef vind-
áttinn breytist hiki fjárfestar ekki við að kaupa
eða selja, en ekkert hafi jafn mikið forspárgildi
og það hvort og hve mikið bandaríski seðla-
bankinn hækkar vexti. Tekur Magnús undir að
bæði fagmenn og almennir þátttakendur á
mörkuðum kunni að vera hvekktir eftir áföll og
erfiðeika kórónuveirufaraldursins, sem gæti
breytt því hve hratt og hve mikið svartsýni og
bjartsýni sveiflast upp og niður, með tilheyr-
andi áhrifum á þróun markaða. „Það er áhuga-
vert að skoða hvernig meiri háttar áföll móta
heilu kynslóðirnar og er t.d. þekkt hvernig þeir
sem lifðu í gegnum kreppuna miklu voru
óheyrilega duglegir að spara. Kynslóðirnar
sem upplifðu mikla verðbólgu á 7. og 8. ára-
tugnum voru að sama skapi mótaðar af þeirri
reynslu.“
Gæti það kannski verið einkenni okkar kyn-
slóðar að hafa fengið að upplifa alvarleg en til-
tölulega skammvinn áföll: fjármálahrun árið
2000, aftur árið 2008, og loks kórónuveirufar-
aldurinn. Segir Magnús að þessi reynsla kunni
ýmist að gera fólk hvekkt svo það vill selja við
minnstu hættumerki, eða þvert á móti að áföll-
in auki seiglu og bjartsýni enda kenni reynslan
að markaðir rétti úr kútnum á endanum. „Það
einkennir líka okkar tíma að allt gerist miklu
hraðar og viðbragðstími kaupenda og seljenda
er orðinn allt annar. Viðskipti sem áður gátu
tekið heilu dagana má núna klára á sekúndum,
og upplýsingar berast á augabragði á milli
heimshluta. Þetta er mögulega að valda því að
hækkunar- og lækkunartímabil sem áður
hefðu tekið nokur ár smækka niður í nokkrar
vikur; markaðurinn dettur hraðar niður en
áður, en rís líka upp af meiri hraða.“
Allt veltur á þróun stýrivaxta
AFP / Mandel Ngan
Jafnvægi Jerome Powell seðlabankastjóri. Stýrivextir virðast ráða mestu um þróun markaða.
- Seðlabanki BNA þarf að gæta þess að hækka vexti ekki of skarpt - Verðbólga kann að vera í rénun
Magnús Sigurðsson
12 FRÉTTIR
Viðskipti | Atvinnulíf
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. SEPTEMBER 2022
12. september 2022
Gjaldmiðill Gengi
Dollari 140.21
Sterlingspund 162.22
Kanadadalur 107.8
Dönsk króna 18.947
Norsk króna 14.113
Sænsk króna 13.212
Svissn. franki 145.9
Japanskt jen 0.9833
SDR 182.42
Evra 140.9
Meðalgengi/Viðskiptavog þröng 176.1357
Samningar hafa náðst um notkun
gjafakortalausnar Yay ehf. í Kanada
en sami hugbúnaður var notaður til
að dreifa svokallaðri Ferðagjöf ís-
lenskra stjórnvalda árin 2020 og 2021
þegar landsmenn fengu inneign sem
mátti nýta hjá rösklega 1.100 ferða-
þjónustufyrirtækjum.
Samstarfsaðili Yay er kanadíska
kortaþjónustan og fjártæknifyrir-
tækið Everyday People Financial
(EP) sem hefur sérhæft sig í lána-
fjármögnun og fyrirframgreiddum
kortum. Í tilkynningu segir að í gegn-
um nýstofnað dótturfélag muni EP fá
einkarétt á dreifingu Yay-gjafakorta
í kerfi Yay í Kanada, en um 40 milljón
manna markaðssvæði er að ræða.
Ari Steinarsson framkvæmda-
stjóri Yay segir EP framsækið fyrir-
tæki með áratuga reynslu af fjár-
málaþjónustu og með sterk tengsl
innan sinnar greinar. Kemur fram í
tilkynningu að kanadíski gjafakorta-
markaðurinn velti á bilinu 7-8 millj-
örðum kanadadala árlega, jafnvirði
u.þ.b. 750 til 850 milljarða króna, og
að sífellt fleiri Kanadamenn kjósi að
kaupa gjafakort í gegnum snjall-
forrit.
Fram undan er frekari þróunar-
vinna og verður gjafakortalausninni
hleypt af stokkunum í Kanada síðar á
þessu ári. ai@mbl.is
Ljósmynd / Yay
Útrás Ari Steinarsson er
framkvæmdastjóri Yay.
Hugbúnaður Yay
fer til Kanada
- Sækja inn á
risavaxinn gjafa-
kortamarkað