Morgunblaðið - 16.09.2022, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 16.09.2022, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. SEPTEMBER 2022 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Stjórnarskrár, einkum þær sem menn vilja taka af þeirri alvöru sem þær eiga skilið, eru sjaldnast lang- hundar. Í þær hefur verið lögð mikil vinna þeirra sem best þekkja til. Þær fjalla um þýðing- armikil grundvallaratriði sem brýnt þótti að ekki yrði breytt á hlaupum. Meirihluti sem skolast inn á þjóðþing á ekki að nýta skammvinna meirihlutastöðu til að hrófla við mikilvægustu megin- atriðum eins og gera má með ein- faldri lagasetningu. Stjórnarskrá er stuttur texti, knappur og skýr og undirstrikar sú umgjörð að þar er rammi í fáum orðum, sem allur annar lagatexti þarf að standast. Þrútnir lagabálkar þurfa að lúta skilyrðum stjórnarskrár. Slíkum lögum fjölgar ört og allt of sjaldan er gerð hreinsun á því sem orðið er óþarft og gerir tilveru almennra borgara þunglamalega. Augljóst er að stjórarskrá gerir mest gagn þar sem skilyrði eru til að knýja á um að henni sé fast fylgt. Þjóð- félagsumgjörð sem byggist á lýð- ræði gerir borgarana um margt eigin herra, þar sem dómstólar eru frjálsir og virðing þeirra fyrir stjórnarskrárbundinni leiðsögn er í fyrirrúmi. Íbúar Sovétríkjanna, svo dæmi séu tekin um hið gagnstæða, þurftu ekki að kvarta yfir að þeirra viðamikla stjórnarskrá væri ekki um margt fagurlega litaður óska- listi. Vandinn var, að allt vald var þar á einni hendi, og þar með af- staðan til stjórnarskrárinnar. Túlkun hennar var á sömu hendi; hvergi á byggðu bóli væri stjórn- arskrá hagfelldari „þegnunum“ en undir hatti alræðis öreiganna. En með hana var minna en ekkert gert. Borið hefur á tilburðum til að breyta stjórnarskrá í óskalista, í anda stefnuskráa fyrir kosningar. Alþekkt er hver endalok þeirrar aðferðar verða. Í stað þess að horfa til að fletja stjórnarskrá út væri líklegra til árangurs að ein- henda sér í að sýna ákvæðum stjórnarskrár, sem viljandi hefur verið horft framhjá, þá virðingu sem ber. Formaður þingflokks Sjálfstæð- isflokksins dró í ágætri grein hér í blaðinu athygli að 74. grein stjórn- arskrárinnar. Þar er öllum tryggt félagafrelsi. Óli Björn Kárason segir: „Allir eiga rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum til- gangi, þar með talin stjórnmála- félög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess.“ Skýrt er tekið fram að engan megi „skylda til aðildar að félagi“ en þó megi með lögum „kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða rétt- inda annarra“. Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði stjórnarskrárinnar er félagafrelsið í raun ekki virkt á íslenskum vinnumarkaði. Þegar mannréttindakafli stjórn- arskrárinnar var lögfestur árið 1995 voru mikilvæg nýmæli sam- þykkt í 2. málsgrein 74. greinar. Þar var beinlínis kveðið á um rétt manna til að standa utan félaga. Litlar eða engar breytingar hafa hins vegar verið gerðar á vinnumarkaðs- löggjöfinni síðan til að tryggja að ákvæð- ið næði fram að ganga. Úrskurðir dómstóla virðast ekki hafa tekið mið af þeim breyt- ingum sem gerðar voru á stjórnar- skrá. Vinnumarkaðslöggjöf er barn síns tíma og í mörgu úrelt. Hún þrengir að félagafrelsinu og illa er hægt að halda því fram að launa- fólk hafi raunverulegt frelsi til að ákveða hvort það standi utan stétt- arfélags eða ekki. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt að standa utan stéttarfélags hefur lagaum- gjörðin verið með þeim hætti að valfrelsið er aðeins að nafninu til. Í lögum um kjarasamninga opin- berra starfsmanna er kveðið á um skyldu ófélagsbundinna starfs- manna til greiðslu iðgjalds til þess stéttarfélags sem hann „ætti“ að tilheyra. Á almennum vinnumark- aði eru lögin hins vegar fremur óskýr um hvort slík greiðsluskylda sé fyrir hendi. Af orðalagi 2. mgr. 6. gr. starfskjaralaga má ráða að slík skylda sé einungis fyrir hendi þegar sérstaklega er kveðið á um hana í kjarasamningum. Það er því augljóst að brýnt er að breyta lög- unum þannig að launafólk utan stéttarfélags sé ekki þvingað til að greiða iðgjald til félags sem það á enga aðild að.“ Óli Björn bendir á „að í raun séu réttindi þeirra sem standa utan stéttarfélaga enn takmarkaðri en ef það væri hreinlega kveðið á um aðildarskyldu í lögum, enda væri þeim þá í það minnsta tryggð sú þjónusta og réttindi sem felast í fé- lagsaðildinni“. Vinnumarkaðs- löggjöfin gangi „þannig verulega á félaga- og atvinnufrelsi fólks. Hér á landi eru svokölluð for- gangsréttarákvæði í kjarasamn- ingum, þrátt fyrir að slík ákvæði gangi gegn félagafrelsi launafólks. Um er að ræða svo mikla þvingun að leggja má að jöfnu við skyldu- aðild að stéttarfélagi, þar sem fólk er í raun útilokað frá tilteknum störfum, gangi það ekki í stéttar- félagið sem hefur forgang sam- kvæmt kjarasamningi.“ Greinar- höfundur bendir einnig á, að forgangsréttarákvæði hafi í för með sér að einstök stéttarfélög geti komið í veg fyrir að stofnuð verði stéttarfélög í sömu starfs- grein á sama félagssvæði, vegna forgangs í öll störf á svæðinu. „Hið sama á við þegar kemur að upp- sögnum. Í framkvæmd er enginn munur á forgangsréttarákvæðum og hreinum aðildarskyldu- ákvæðum, þar sem niðurstaðan er alltaf sú sama. Valfrelsi er for- senda félagafrelsis og með for- gangsréttarákvæðum er launafólk svipt raunverulegu vali um stéttarfélagsaðild. Nánast öll vestræn lönd hafa bannað ákvæði af þessu tagi með vísan til félagafrelsis launafólks.“ Sannarlega stendur rík ástæða til að gera þarna á breytingu og virða með því stjórnarskrána. Samtök atvinnulífs virðast of meðvirk við að skáka ákvæð- um stjórnarskrár til hliðar} Ákvæði stjórnarskrár eru ekki valkvæð H áskólar gegna margþættu og þýðingarmiklu hlutverki. Þar verður til ný og mikilvæg þekk- ing á grundvelli margvíslegra rannsókna auk þess sem reynsla kynslóðanna er þar varðveitt og henni viðhaldið. Eitt helsta hlutverk háskólanna felst í miðlun þekkingarinnar til nýrra kyn- slóða og samfélagsins í heild með öflugu og fjölbreyttu kennslustarfi. Á síðari tímum hafa háskólar í auknum mæli lagt áherslu á það hlutverk að þjálfa hámenntaða starfsmenn í nýjum atvinnugreinum með virku vísinda- og rannsóknarstarfi sem er grundvöllur nýsköp- unar og frekari framfara, hvort tveggja í at- vinnulífinu og samfélaginu. Þetta hlutverk og samvinna við atvinnulífið dregur ekki úr mikilvægi hefðbundinna verk- efna. Þeim verkefnum verður að sinna áfram. Ný verkefni krefjast þess á hinn bóginn að háskólarnir efli samstarf sitt og að skapaður verði grundvöllur til að ramma inn samstarf við atvinnulífið. Þarna getur orðið til frjór jarðvegur nýjunga og hugverka þar sem ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar spretta úr grasi. Það er ljóst að alþjóðleg samkeppni háskóla mun aukast á næstu árum með aukinni stafrænni miðlun námsefnis. Fjarlægðirnar verða styttri í þessu tilliti og valmöguleikarnir um nám um leið óþrjótandi. Það er því mikilvægt að íslenskir háskólar standist þá alþjóðlegu samkeppni um nemendur og hugvit. Til að stuðla að auknu samstarfi háskólanna og efla þá þannig enn frekar hef ég sett á laggirnar nýjan Sam- starfssjóð háskólanna. Samstarfssjóðurinn er ein forsenda þess að við bjóðum upp á sam- keppnishæft háskólanám á heimsmæli- kvarða. Þar með ýtum við úr vör ýmsum já- kvæðum hvötum, meðal annars þeim að skólarnir stígi frekari skref í átt að auknu fjarnámi. Ég skynja það sterkt í samtölum mínum við ungt fólk á landsbyggðinni hve mikilvægt fjarnám er fyrir samfélögin þar og valfrelsi ungs fólks um hvar það kýs að búa og starfa. Þá má einnig nefna hvata um ís- lenskukennslu og að aukin fjarkennsla mun fjölga valmöguleikum þeirra sem t.d. vilja hefja íslenskunám óháð búsetu. Hér er um mikilvægt mál að ræða því þannig aukum við lífsgæði út um allt land, sem mun nýtast bæði atvinnulífinu og samfélögunum þar. Spurningin um aukið samstarf tengist öðr- um áleitnum spurningum um framtíð háskól- anna. Höfum við metnað til að koma þeim í hærri gæða- flokk? Erum við reiðubúin til að verja auknum fjármunum í rannsóknir og vísindastarf? Getum við að öðrum kosti virkjað hugvitið þannig að til verði nýjar út- flutningsgreinar og vel launuð störf? Svörin við þessum spurningum leiða okkur til sömu niðurstöðu. Við förum þá leið sem önnur ríki hafa farið og náð hafa mestum árangri í þróun nýrrar þekkingar og tækni, styðjum við rannsóknir, nýsköpun og fjölbreytni í námi um leið og við fjölgum valkostum til að styrkja samkeppnishæfni okkar við önnur lönd. Áslaug Arna Sigurbjörns- dóttir Pistill Sterkari háskólar fyrir betri framtíð Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen BAKSVIÐ Andrés Magnússon andres@mbl.is Þ að hefur verið við nóg að vera í Lundúnum síðustu daga, ríkisstjórnarskipti hurfu nánast í skuggann af andláti Elísabetar drottningar, svo lesendum fyrirgefst því þó það hafi farið fram hjá þeim, að fyrsta verk fjármálaráðherrans Kwasi Kwarteng á fyrsta degi í embætti var að reka ráðuneytisstjórann Sir Tom Scholar. Margir embættismenn brugðust ókvæða við brottrekstrinum, en hið sama verður ekki sagt um Agnew lá- varð, fyrrverandi aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneytinu, sem starfaði náið með Sir Tom. Agnew lávarður nýtur mikillar virðingar fyrir að hafa sagt af sér í janúar síðastliðnum, en þá kom hann í þingið til að svara fyrirspurn um fjársvik tengd kórónuveirulánum. Þar sagði Agnew að hann gæti ekki varið slælega frammistöðu ráðuneyt- ins og harmaði hvernig „hroki, tóm- læti og vanþekking [hefðu] lamað gangverk stjórnarráðsins“. Hann sagði svo af sér þar og þá, þó sökin lægi ekki hjá honum, en slík ráð- vendni er fágæt. Nú skrifaði hann grein í The Times, þar sem dró hvergi af sér í gagnrýni á ráðuneytisstjórann fyrr- verandi og sagði brottför hans mikið fagnaðarefni. Hann blés á gagnrýni frá öðrum „mandarínum“ (eins og valdamestu embættismenn þar eru kallaðir með vísan til kínversku keis- arahirðarinnar) og segir þá slá skjaldborg um sig og sína. Lávarðurinn taldi svo upp dæmi þess að fjármálaráðuneytið hefði að undirlagi Sir Tom Scholar unnið gegn fyrirmælum ráðherra og þings, sumt ef embættismannaklíkan var á öðru máli, annað ef það taldi völdum sínum og áhrifum ógnað. „Þegar ég starfaði í ráðuneyti [Sir Tom] í nær tvö ár kynntist ég frá fyrstu hendi meinsemdinni sem staf- aði af launhelgum fjármálaráðuneyt- isins. Hvort sem það dró lappirnar eða veitti andspyrnu með aðgerða- leysi við stofnun ráðuneytisskrifstofu á Norður-Englandi … eða klastrið við endurreisnarlán til fyrirtækja í faraldrinum, allt mátti rekja það til hans.“ Lítið virðist breytt frá því Sir Humphrey Appleby réð ríkjum í stjórnarráðshverfinu Whitehall í gamanþáttunum Já, ráðherra. Þær lýsingar voru mikið úr raunveruleik- anum, en voru ekki síst hlægilegar vegna forréttinda, drambs og fánýtis í fílabeinsturnum valdsins. En auðvitað er það grafalvarlegt mál þegar auðsýnt er skipulegt hirðu- leysi með fjármuni almennings og embættismannakerfið notað til þess að ganga gegn pólitískri stefnumót- un, fyrirmælum þings og ráðherra. Það er ekkert annað en tilræði við lýðræðið sjálft. Lýðræðishallinn eykst Það er ekki aðeins umhugsunar- vert í Lundúnum, því hvarvetna á Vesturlöndum hefur þróunin verið sú að reglubinda, staðla og stækka stjórnsýsluna, sem færir sífellt meiri völd í hendur embættismannastétt- inni. En hún er ekki ábyrg gagnvart kjósendum og skaðlaus vegna af- glapa, svo réttmikil að nær ógerning- ur er að hrófla við henni og brynvarin fyrir ytri afskiptum. Það er mest áberandi á vettvangi Evrópusam- bandsins, þar sem hugtakið lýðræðis- halli var smíðað, en hefur grafið um sig í einstökum ríkjum líka. Hér á Íslandi er velþekkt að embættismannakerfið getur verið óbifanlegt, ógagnsætt og valdamikið. 45 ár eru síðan Vilmundur Gylfason kom orðinu „möppudýr“ í málið og um svipað leyti bar ráðuneytisstjóri lof á ráðherra sinn fyrir að „fara vel í vasa“! Enn er það svo að ráðuneytis- stjórar geta orðið þaulsætnir og heimaríkir og afar valdamiklir, langt umfram það sem til er ætlast. Innan úr utanríkisráðuneyti hafa áratugum saman heyrst kvein- stafir undan því að ráðuneytisstjór- arnir hafi framgang starfsmanna í hendi sér. Heilbrigðisráðuneytið hef- ur löngum haft orð á sér fyrir að vera á valdi embættismanna, eins og vel sást á dögum heimsfaraldurs, þegar ráðuneytið var farið að senda frá sér yfirlýsingar eins og það væri embætti og eitthvað annað en skrifstofa ráð- herra. Og hvað má þá segja um Guð- mund Árnason, hinn valdamikla ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneyt- isins, sem árið 2016 hótaði alþingis- mönnum í fjárlaganefnd æru- og eignamissi án þess að fá svo mikið sem áminningu? Stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, gangast við því að ofríki embættismanna geti verið vandamál og hugsanlega kunni ráðið að vera að þeir fái tímabundna skip- un, séu reglulega færðir milli ráðu- neyta, séu skorður settar um önnur samhliða störf eða ámóta. Aðrir segja tímabært að endurskipuleggja stjórnarráðið með það fyrir augum að draga það úr 19. öld inn í hina 21. En það er örugglega engin hætta á að nokkur verði rekinn hér. Möppudýr kerfisins og lýðræðishallinn Whitehall Sir Tom Scholar situr fyrir svörum í þinginu, en hann átti frama sinn m.a. að þakka Gordon Brown og reyndist enginn Íslandsvinur í hruninu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.