Morgunblaðið - 07.12.2022, Side 15
UMRÆÐAN
15
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. DESEMBER 2022
Ljósaspeglar
BEYONDAIR
H. Jacobsen ehf. | Reykjavíkurvegi 66, 220 Hfj.
Kíktu á beyondair.is
Ný tækni í
loftgæðum
• Tækið líkir eftir loftinu utandyra
• Notar súrefni og raka úr loftinu
• Breytir þeim í öflug oxuð vatnsmólíkúl
• Hlutleysir örverur í loftinu og á yfirborði
• Eyðir vírusum, bakteríum, myglu og fl.
Í gegnum tíðina
hefur mannskepnunni
farið fram hægt og
sígandi og allar mögu-
legar uppgötvanir til
að létta henni lífið litið
dagsins ljós. Vissulega
hafa alls kyns hamfar-
ir og stríð sett strik í
reikninginn, en þegar
á allt er litið hefur lífið
farið batnandi fyrir
meirihluta fólks um
heim allan. Ekki ætla ég mér að
rifja upp alla mannkynssöguna, en
ég ætla að fjalla um þær stærstu
framfarir sem bætt hafa líf hins al-
menna borgara á minni tíð.
Útvarpið var reyndar komið í
gagnið rétt áður en ég fæddist. Ís-
landsmenn hlustuðu með ákefð á
fréttir, dánartilkynningar og alls
kyns annað ánægjulegt efni. Jón
bóndi á Hóli, sem var að eðlisfari
tortrygginn, var ekki alveg sáttur
við þessa nýju tækni og á hann að
hafa sagt: „Það er nú meira hvað
mikið deyr af mannfólkinu síðan út-
varpið kom.“ Heima hjá okkur var
útvarpstækið alltaf í gangi og pabbi
sagði að það yrði að nýta hverja út-
varpsstund því nógu hátt væri nú ið-
gjaldið. Útvarpið stytti fólki stund-
irnar í skammdeginu, fræddi það og
skemmti því.
Ég man vel þegar við fengum
símann. Það var mikill spenningur á
heimilinu og allir vildu fá að svara
þegar hann hringdi. Fyrstu dagana
stóðum við krakkarnir öll sjö í röð
og biðum eftir hringingu. Síminn
var mikil samgöngubót í okkar
strjálbýla landi. Fyrstu árin bar
mikið á því að sér í lagi eldra fólk
talaði mjög háum rómi, næstum
hrópaði, þegar það notaði símann.
Í því tilefni heyrði ég um spaugi-
legt atvik. Hjón nokkur í Kópavog-
inum voru dag einn fyrir framan
húsið sitt að setja niður kartöflur í
garðholuna. Gluggi í kjallaranum
var opinn, en þar leigði eldri maður.
Þessa stundina var hann að tala
mjög háum rómi, sem heyrðist alla
leið út á götu. Maðurinn sagði þá við
konuna: „Hvað er hann Gvendur að
hrópa?“ „Ætli hann sé ekki bara að
tala við bróður sinn hérna í götunni
fyrir ofan,“ svaraði konan. „Af
hverju í ósköpunum nota þeir ekki
símann?“ sagði maðurinn.
Ég tel að flestir geti verið sam-
mála um það að útvarpið og síminn
hafi verið samfélagsbyltingar sem
betrumbættu tilveru flestra jarð-
arbúa. Það voru engar „aukaverk-
anir“ af útvarpi eða síma sem ég
veit um. Sumir myndu þó segja að
kvenkyns samborgarar hefðu oft á
tíðum ofnotað símann, en það kom
ekki að alvarlegri sök. En næstu
stóruppfinningarnar, sjónvarpið og
tölvan, þótt stórkostlegar væru,
höfðu báðar sínar svörtu hliðar.
Landinn var mörgum árum á eftir
nágrannaþjóðunum að koma upp
sjónvarpi. Það var mikið og dýrt
verk að reisa endurvarpsstöðvar á
okkar stóra landi svo allir gætu not-
ið þessarar nýjungar. En þrátt fyrir
okkar sjónvarpsleysi var varnarliðið
í Keflavík komið með sjónvarp á ár-
unum fyrir 1960. Stjórnendur lands-
ins settu það skilyrði að kana-
sjónvarpið mætti ekki sjást í
Reykjavík og öðrum bæjum. Samt
voru margir klókir landar sem gátu
séð útsendingarnar þótt oft væri
snjór á skjánum.
Kunningi okkar bjó á efstu hæð í
blokk við Hringbraut. Hann hafði
komið sér upp loftneti svo hann
gæti krækt í kanasjónvarpið. Einn
dag bauð hann mér og konunni að
koma í sjónvarpskvöld. Ekki sást
myndin allt of vel og sendi kunn-
inginn konuna sína hvað eftir annað
út á svalirnar til að snúa loftnetinu.
Það var kraftaverk að hún skyldi
ekki fá lungnabólgu því úti var
hörkufrost. Og þrátt fyrir allt var
enn þá snjór á skján-
um.
Nokkrum árum
seinna kom svo ís-
lenska sjónvarpið.
Miklar vonir voru
bundnar við sjónvarps-
tæknina. Talið var í
byrjun að sjónvarpið
gæti orðið mikilvægt
kennslutæki fyrir þjóð-
ir heimsins. En þær
vonir hafa brugðist að
mörgu leyti, jafnvel
þótt alls kyns sjónvarpskennsla fari
þar fram. Íþróttir, fréttir og alls
konar afþreyingarefni einkennir
sjónvarpið. Vissulega er þar að
finna margt gott efni en því miður
er meirihluti þess í lélegri kantin-
um. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að
gamlingjar sem horfa of mikið á
sjónvarp eigi á hættu að fá heila-
sjúkdóma eins og alzheimer.
Og þá er komið að fjórðu bylting-
unni, tölvuundrinu. Hverju myndi
táningur á Íslandi í dag svara ef
hann væri spurður hvernig hann
héldi að lífið væri án tölvutækninn-
ar? Ég er nokkuð viss um að hann
ætti bágt með að ímynda sér líf án
tölvu. Þessi bylting hefur meira og
minna farið fram hjá mér og er
skiljanlega háum aldri um að kenna.
Samt hef ég notið hennar að ýmsu
leyti þótt ég sé rétt í kantinum. Er
ég meðal annars það forframaður,
að ég og systir mín í Reykjavík get-
um vikulega séð hvort annað og
spjallað í sjóntali.
Tölvutæknin hefir hertekið heim-
inn. Hundruð milljóna manna eru
tölvufíklar. Og lygin grasserar í
tölvuheimi. Þar er boðið upp á tvær
útgáfur af svokölluðum sannleika,
og þú verður að ákveða hvorum þú
vilt trúa. Tölvan torveldar mörgum
börnum og ungu fólki að lifa og
þroskast á eðlilegan hátt. Hún hefir
gerbreytt heiminum bæði til góðs
og ills. Þetta eru þá þessar fjórar
samfélagsbyltingar sem ég hef upp-
lifað. Ég er ekki viss um að sú
fimmta komi. Við ráðum bara ekki
við meira í bili.
Fjórar sam-
félagsbyltingar
Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
» Tölvutæknin hefur
hertekið heiminn.
Hundruð milljóna
manna eru tölvufíklar.
Og lygin grasserar í
tölvuheimi.
Höfundur er fyrrverandi fisksali og
ræðismaður í Ameríku.
Daglega tröllríður
dægurþras um efna-
hagsmál fjölmiðlum.
Það er eins og þorri
fólks sjái engin gildi né
verðmæti í öðru en pen-
ingum og fasteignum.
Stöðugt er þráttað um
kaup og kjör og daglega
berast fréttir af banka-
málum, vöxtum og verð-
bréfum.
Ef lífið snýst eingöngu um það að
eiga meira fé í dag en í gær, sem alls
ekki á við alla þjóðfélagshópa, er eng-
in furða þótt fólk hreinlega gefist upp
á tilverunni. Það er ósköp innihalds-
laust líf og óeðlilegt mannverum að
lifa eingöngu til að afla fjár til að eiga
fyrir greiðslu reikninga um hver mán-
aðamót.
Engan þarf því að undra þótt
sjálfsvígum fari fjölgandi og ásókn í
fjölbreytileg deyfilyf. Fólk er einfald-
lega þreytt á ónáttúru
siðmenningarinnar, þar
sem raunveruleg lífsgildi
eru fyrir borð borin. Sið-
menning okkar er því
miður stílfærð upp á
peningalegt auðmagn og
óstjórnlega græðgisvæð-
ingu.
Menntun ungmenna
hefur því miður ekki ver-
ið beint inn á braut
mannkærleika, sam-
hjálpar og miskunnar,
heldur miskunnarlausrar samkeppni
um veraldlegar eigur og auðæfi.
Lífið er stutt og enginn fer með ver-
aldlegan gróða, vel eða illa fenginn,
yfir landamæri lífs og dauða. Enda
gerir veraldarauðurinn okkur lítið
gagn í komandi heimi. Við fæðumst
nakin inn í þessa jarðvist og nakin
yfirgefum við hana.
Mikið yrði samfélag okkar mann-
anna bærilegra ef við fengjum mennt-
un í því hver sönn auðæfi eru hér í
heimi.
Þá yrði það gleði auðkýfinga að
deila ofgnótt sinni með þeim sem
minna eiga og í staðinn öðlast virð-
ingu þeirra, fyrirbænir og hjarta-
hlýju.
Í allflestum aðstæðum lífsins vegur
mannlegi þátturinn svokallaði á end-
anum meira en hinn ómanneskjulegi,
gráðugi og sjálfselski.
Sú menntun fæst ekki úr háskólum
siðmenningar græðgisvæðingarinnar,
heldur úr hjörtum þeirra manna og
kvenna, feðra og mæðra, sem kynnst
hafa hinum raunverulegu auðæfum
mannlífsins í þessari jarðvist.
Auður raunveruleikans
Einar Ingvi
Magnússon
» Siðmenning okkar er
því miður stílfærð
upp á peningalegt auð-
magn og óstjórnlega
græðgisvæðingu.
Einar Ingvi Magnússon
Höfundur er áhugamaður
um samfélagsmál.