Fréttir - Eyjafréttir - 15.04.2021, Síða 11
15. apríl 2021 | | 11
Skyndibitastaðurinn ÉTA
opnaði aftur um síðustu
mánaðarmót, nú inni á
ölstofu The Brothers Brewery.
Aðspurður segist Gísli
Matthías Auðunsson, mat-
reiðslumeistari og eigandi
ÉTA, vera hæstánægður með
velheppnaða opnun.Opnunin
hafi staðist væntingar, og
vel það, þrátt fyrir faraldur
og sóttvarnarráðstafanir.
„Fyrra húsnæði og fleira gerði
það að verkum að þetta var
ekki að fúnkera eins vel og
við vildum, þannig að þegar
hugmyndin kom að færa okkur
yfir á Brothers þá mátum við
það kjörið tækifæri. Maturinn
okkar hentar mjög vel með
bjórnum og öfugt. Þetta er
búið að vera frábært ferli.“
Maturinn er aukaatriði
Fleiri sæti fyrir gesti ásamt
stemningunni sem ölstofan hefur
náð að byggja upp er eitt af því
sem Gísli segist kunna að meta
umfram fyrri staðsetningu ÉTA.
„Þeir töluðu lengi vel um að það
vantaði alltaf eitt inn á Brothers
sem var matur. Við erum að
reyna að hanna þetta svo það sé
ekki eins og verið sé að koma á
veitingastað heldur frekar eins og
maturinn sé aukaatriði, en hann
er þó virkilega vel gerður og
unninn frá grunni eins og á fínum
veitingastað.“
Vonar að veiran verði til friðs
„Ég er bjartsýnn, mjög bjartsýnn“
segir Gísli er spurður út í komandi
sumar og bætir við að flestir í
ferðaþjónustunni í Eyjum séu að
búa sig undir starfsamt og gjöfult
tímabil. „Maður bara vonar að
þetta ástand verði til friðs.“ Hann
vill hvetja Eyjamenn að koma
á ölstofuna og minnir bæði á
pöntunarkerfi ÉTA á netinu sem
og kerfið sem þau hafa innleitt
innan ölstofunnar sem gerir
viðskiptavinum kleift að panta
og greiða fyrir matinn snertilaust
með aðstoð tækninnar.
Matarmiklir þorskvængir á
matseðlinum
Blaðamanni þótti merkilegt að sjá
þorskvængi á matseðlinum. Þeir
eru gerðir úr klumbu þorsksins,
en Gísli og teymið hans vilja
meina að sá vöðvi sé verulega
vannýttur og að almennt megi
nýta fiskafurðir betur. „Klumban
er eins og tveir uggar aftan við
hausinn“ segir Gísli og bætir
við að það sé hellingur af kjöti í
henni. „Til þess að hún sé ekki
full af beinum þá þarf að verka
hana á vissan máta og reyna að
útfæra eins og kjúklingavængi.“
Hráefnin eru hágæða og koma frá
Ísfélaginu.
Fiskurinn er saltaður til þess
að hann grafist, síðan fer hann
í súrmjólkurdeig og er loks
djúpsteiktur. Honum er velt
upp úr sterkri sósu og borinn
fram með límónu og kóríander.
Kóríanderspretturnar eru ræktaðar
hér í Eyjum af Einari og fyrirtæki
hans, Aldingróðri, en Gísli segist
reyna að versla eins mikið og
hægt er frá honum. Áður hefur
verið boðið upp á svipaðan rétt á
Slippnum. „Viðskiptavinir hafa
tekið afskaplega vel í vængina
enda henta þeir frábærlega með
bjór og eru skemmtileg tilbreyting
frá þessum klassíska bjórmat.“
Nemendur 10. bekkjar við Grunn-
skóla Vestmannaeyja héldu af
stað í skólaferðalag á meginlandið
sl. 24. mars. Áformað hafði
verið að taka upp skíðin og gista
tvær nætur í Bláfjöllum. Stuttu
fyrir ferðina var þó ljóst að ekki
myndi vera farið á skíði vegna
snjóleysis. Tekin var rúta frá
Landeyjum í höfuðborgina þar
sem byrjað var að fara í FlyOver
Iceland þar sem krakkarnir fengu
einstaka flugupplifun með hjálp
tækninnar. Þegar komið var í
trampólíngarðinn Rush í Kópa-
vogi bárust þeim þær fréttir að
halda þyrfti heim samdægurs
vegna nýrra sóttvarnarreglna.
Þetta var mikið högg fyrir
bekkjarfélagana sem voru gráti
nær að sögn Hrafnhildar Óskar,
umsjónarkennara, enda höfðu þeir
hlakkað mikið til þess að gista
saman upp í skála við Bláfjöll
og halda kvöldvöku. Þó hafi
verið aðdáunarvert hversu fljótt
krakkarnir voru að gíra sig upp og
einblína sig að því að njóta sem
eftir var af ferðinni. Árgangurinn
spreytti sig því næst í minigolfi og
á skautum. Haldið var heim með
síðustu ferð Herjólfs.
Éta í ölstofu bræðranna
Verkar kjötmikla klumbu Vinnur allt frá grunni
Óvenju stutt vorferð 10. bekkjar
Gísli Matthías Auðunsson og Einar Sigurður Einarsson stóðu vaktina á
laugardaginn þegar blaðamaður leit við.
Stelpurnar voru ánægðar með daginn þrátt fyrir allt.
Klumban er matarmikill hluti þorsksins sem hingað til hefur verið vannýttur.