Feykir


Feykir - 16.02.2022, Blaðsíða 4

Feykir - 16.02.2022, Blaðsíða 4
AÐSENT | Sameiningarnefnd Á laugardaginn kemur, 19. febrúar, verður kosið um sameiningu Akra- hrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar og Eyja- og Mikla- holtshrepps og Snæfellsbæjar. Hinn 26. mars kjósa svo íbúar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps um sameiningu sem og íbúar í Helgafellssveit og Stykkishólmsbæ. Aðdragandi þessara kosninga er allnokkur. Framþróun íslensks samfélags, breyttar þjóðfélagsaðstæður og ákall um aukna valddreifingu hefur orðið til þess að stórir og mikilvægir málaflokkar hafa á undanförnum árum færst úr umsjón ríkisins yfir til sveitarfélaganna og má þar nefna rekstur grunnskólanna og málefni fatlaðs fólks. Með breytingum á lögum og reglugerðum hafa kröfur um það hvernig sveitarfélögin inna af hendi þjónustu sína jafnframt aukist stórlega. Einnig hefur áhrif að samkvæmt lögum þurfa sveitarfélög sem eru undir 250 manna íbúamörkum við sveitarstjórnar- kosningar í vor, annað hvort að sameinast öðru eða skila áliti þar sem rökstutt er hvernig það getur staðið undir lögmæltum verkefnum. Lögmælt verkefni skiptast í annars vegar lögskyld verkefni og hins vegar lögheimil verkefni. Lögskyld verkefni sveitarfélaga, þ.e. verkefni sem sveitarfélögum er skylt að sinna lögum samkvæmt eru í dag 76 talsins en til viðbótar eru 18 verkefni það sem kallað er lögheimil. Með lögheimilum verkefnum er átt við að sveitarfélög hafi svigrúm til þess að ákveða hvort verkefninu sé sinnt, en ef sú ákvörðun er tekin gildir um verkefnið tiltekinn lagarammi. Flestir geta verið sammála um að við flutning verkefna frá ríki heim í hérað hefur þjónustan í kringum þau aukist og batnað. Sameining hefur fleiri kosti en galla Samstarfsnefnd, sem sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipuðu í þau sem hér rita undir til að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna, hefur skilað áliti sínu. Álit okkar er að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla og hvetjum við íbúa til að veita henni brautargengi. Sameiningunni fylgja þó vissulega einnig áskoranir sem við teljum að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku. Sameining einfaldar stjórnsýsluna í Skagafirði og jafnar þjónustu til íbúanna af hálfu sveitarfélagsins. Félagasamtök eins og kórar, kvenfélög, búnaðarfélög o.fl. munu starfa eftir sem áður og íbúar munu vafalítið oft kenna sig áfram við sínar heimabyggðir, eins og Fljótin, Blönduhlíðina, Hegranesið, Skagann, Langholtið, Krókinn, Hofsós o.s.frv. Við teljum að með sameinuðu sveitarfélagi allra Skagfirðinga séum við sem samfélag öflugri og betur í stakk búin til að takast á við framtíðaráskoranir í stjórnsýslu, þróun byggðar, eflingu þjónustu og til að veita komandi kynslóðum tækifæri til að vaxa og dafna í dreifbýli sem og þéttbýli. Nýtum atkvæðisréttinn og kjósum Á laugardaginn geta Skagfirðingar kosið um það hvort þeir vilji sameinast í einu sveitarfélagi. Hvaða skoðun sem við höfum hins vegar á sameiningu eða ekki sameiningu, þróun sveitarstjórnars- stigsins og stjórnsýslunni yfir höfuð þá hvetjum við íbúana til að sameinast um að ganga til kosninga og greiða atkvæði um tillöguna. Það er mikilvægt að nota þann lýðræðislega rétt að láta skoðun sína í ljós. Þann rétt skulum við ekki láta fram hjá okkur fara. Álfhildur Leifsdóttir Drífa Árnadóttir Eyþór Einarsson Gísli Sigurðsson Hrefna Jóhannesdóttir Ingibjörg Huld Þórðardóttir Jóhanna Ey Harðardóttir Ragnhildur Jónsdóttir Sigfús Ingi Sigfússon Sigríður Sigurðardóttir Horft til framtíðar Rísandi sól á stysta degi ársins, 22. desember 2021. MYND: PF. Korter í kosningu! ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Tek við áskorun frá Jóni Erni, félaga mínum í sveitarstjórn á Blönduósi, og skora svo á Ragnhildi Haraldsdóttir í sveitarstjórn Húnavatnshrepps. Kosið verður um sameiningu sveitar- félaganna Húnavatns- hrepps og Blönduósbæjar nú um komandi helgi, laugardaginn 19. febrúar. Þar sem ég er einn af nefndarmönnum Blönduósbæjar hef ég fyrir mitt leyti sterka skoðun á því hvort eigi að sameina eður ei. Í nefndarstörfum þessarar nefndar hefur verið góður samhljómur að ég tel og allir með sama markmið: Hvernig getum við styrkt samfélagið okkar og hvernig getum við unnið að uppbyggingu þess áfram? Við höfum lagst saman á árarnar um ýmsa hluti og þar sem við beitum kröftum okkar saman mun okkur verða meira ágengt en ella. Sem dæmi má nefna að jöfnunarsjóður hefur samþykkt að hækka framlag sitt til uppbyggingar Umhverfisakademíu á Húnavöllum úr 20 milljónum í 40 milljónir, komi til þess að sameining verði samþykkt, það er vel. Í samtölum okkar við ráðherra og þingmenn hefur okkur verið vel tekið og teljum að það sem við berjumst fyrir muni skila sér á komandi misserum. Efling sýslumannsembættis og innheimtumiðstöðvar, slitlag á flugvöllinn á Blönduósi, eru þættir sem skipta okkur verulegu máli svo eitthvað sé nefnt þar. Varðandi samgöngur erum við í mikilli samkeppni við önnur svæði um fjármagn til að bæta héraðs- og tengivegi sem eru víða í því ásigkomulagi að þeir teljast vart vegir en við höfum haldið okkar óskum á lofti og heldur bætt í það sem verður að vera í forgangi. Það er stefna stjórnvalda að endurnýja og byggja upp flutningskerfi raforku sem og virkjanir og til þess að það sé hægt þá þarf að hafa nothæfa vegi. Vegirnir í Blöndudal að austan og vestanverðu og Svartárdalsvegur skipta verulegu máli í þessari uppbyggingu. Það segir sig sjálft að ekki er hægt að bæta þeirri umferð sem uppbyggingin mun skapa á þá í núverandi ástandi. Það má ljóst vera að þetta eru framkvæmdir sem ekki er hægt að bíða með ef það á að hraða þessari uppbyggingu raforkukerfisins, það er alltaf best að byrja á grunninum. Að ég tali nú ekki um að byggja upp innviði sem eiga að nýtast á landsvísu á kostnað innviða heimamanna. Talandi um raforku þá er ekki úr vegi að minnast á það að með tilkomu gagnavers á iðnaðarsvæði á „lóðamörkum“ Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar þá er um að ræða fyrsta stórnotanda á raforku í Húnavatnssýslu síðan Blönduvirkjun var tekin í notkun 1991. Og þess ber að geta að það voru einmitt sveitarfélögin Húnavatnshreppur og Blönduós sem voru meðal stofnaðila í gegn um fasteignafélagið Ámundakinn, hvar bæði sveitarfélögin eru meðal stærstu eigenda á eftir Byggðastofnun. Ákvörðunin um að koma þessu verkefni af stað hefur svo sannarlega skilað sér í aukinni atvinnu verktaka og þjónustuaðila á svæðinu sem og gjöldum til sveitarfélagsins. Og þegar þetta er skrifað voru að detta inn auglýsingar um þrjú störf til viðbótar hjá gagnaverinu. Þetta verkefni byrjaði með tveimur húsum og skóflustunga var tekin í maí 2018 og stefnir í að í árslok 2022 verði búið að byggja um 12000 m2 af húsnæði fyrir gagnaverin. Í kjölfar þessa verkefnis hefur svo hafist önnur uppbygging sem ekki sér fyrir endann á. Já, það er svo heilmargt sem tengir íbúa Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar, vegir okkar liggja flest allir saman. Mín skoðun er sú að nú sé komið að því að klára samrunann í nýtt og öflugt sveitarfélag sem hefur burði til að sækja fram, áfram veginn – helst með bundnu slitlagi. - Ég hvet íbúa Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar til að mæta á kjörstað og greiða atkvæði um þessa sameiningartillögu á laugardaginn. Að lokum langar mig til að þakka félögum mínum í samstarfsnefnd fyrir gott samstarf. Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar Blönduósbæjar Guðmundur Haukur í æðislegri rjúpnaullarpeysu. MYND AÐSEND 4 07/2022

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.